31.03.1981
Sameinað þing: 67. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3202 í B-deild Alþingistíðinda. (3332)

378. mál, gjaldskrárhækkanir B-hluta fyrirtækja

Fyrirspyrjandi (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér á þskj. 413 að bera fram fsp. til hæstv. fjmrh., svohljóðandi:

„1. Hvaða áætlaðar hækkanir á gjaldskrá eftirtalinna B-hluta fyrirtækja lágu til grundvallar fjárhagsáætlun þeirra í fjárlögum þessa árs:

a) Póstur og sími.

b) Ríkisútvarpið.

c) Rafmagnsveitur ríkisins.

d) Skipaútgerð ríkisins?

2. Hvaða breytingar þarf að gera á hækkunaráætlunum miðað við breyttar forsendur til að fjárhagsáætlanir fyrirtækjanna standist?

Þessi fsp. var prentuð og henni dreift hér á Alþingi 10. febr., en dálítill dráttur hefur orðið á að henni hafi verið svarað. Má vera að það sé vegna þess að hér sé um takmarkatilvik að ræða á milli fjmrn. og viðskrn. sem fer með gjaldskrármálin.

Í raun og veru hefði ekki þurft að spyrja um fyrri liðinn því að auðvitað liggur svar fyrir í ræðu formanns fjvn., en þá var ekki búið að prenta þá ræðu svo að mér fannst ástæða til þess að hafa fyrri hlutann með í fsp.

Um síðari hlutann var jafnframt hægt að fá upplýsingar hjá viðkomandi fyrirtækjum, en ég tel ástæðu til að vekja athygli á fjárhagsvanda þessara fyrirtækja nú í svokallaðri verðstöðvun.

Varðandi Póst og síma er það að segja, að fjárlaga- og hagsýslustofnunin mat hækkunarþörf Pósts og síma þannig að 1. febr. ætti hækkunin að vera 12%, 1. maí 10%, 1. ágúst 7.5%, 1. nóv. 7.5%. Með þessum hætti ættu að fást nægar tekjur fyrir stofnunina á yfirstandandi fjárlagaári. Það skal tekið fram, að fulltrúar Pósts og síma og starfsmenn fjárlaga- og hagsýslustofnunar voru ekki sammála um forsendur. Hefur nú komið í ljós að starfsmenn Pósts og síma höfðu rétt fyrir sér og hefur það breytt talsverðu um hækkunarþörf stofnunarinnar.

Forráðamenn Pósts og síma telja að tvær leiðir komi til greina til þess að hægt sé að standa við fjárhagsáætlun stofnunarinnar. Önnur er sú, að afnotagjöldin hækki um 33% 1. maí. Þannig fengjust þær 50 millj. nýkr. sem á vantar að endar náist saman í rekstri stofnunarinnar. Hin leiðin er sú, að hækkunin 1. maí verði 24%, en 1. ágúst verði hækkunin 10% og 1. nóv. 10%. Þetta þýðir, ef þessi leið verður valin, að hækkun á afnotagjöldum Pósts og síma á þessu ári yrði 65% í staðinn fyrir 42.5%, sem voru fjárlagaforsendurnar.

Varðandi Ríkisútvarpið er það að segja, að það er alkunna að rekstrarhallinn á árinu 1979 var 445 millj. kr. gamalla og 1980 var hallinn um það bil 1200 millj. gkr., eða samtals um 16.5 millj. nýkr. og er þá ekki tekið tillit til verðbreytinga. Ríkisstj. lánaði Ríkisútvarpinu og það lán telst óendurkræft og ekki er tekið tillit til þess í því sem á eftir kemur. Það er jafnframt ljóst, að þessi halli hjá Ríkisútvarpinu stafar fyrst og fremst af skerðingu tolltekna sem voru teknar af Ríkisútvarpinu á mjög viðkvæmu breytingarskeiði fyrirtækisins. Í fjárhagsáætlun Ríkisútvarpsins er gert ráð fyrir að auglýsingatekjur hækki á þessu ári um 70% að meðaltali í sjónvarpi og 60% í útvarpi. 1. febr. var fyrsta skrefið í þessa átt tekið með 25–28% hækkun auglýsingaverðs. Samkv. fjárhagsáætlun Ríkisútvarpsins átti afnotagjaldið að hækka um 22.5% fyrri part ársins, þ. e. 1. mars, og það gekk fram eins og ráð var fyrir gert. Samkv. fjárhagsáætluninni var síðan gert ráð fyrir 6% hækkun 1. sept., en nú er talið að hækkunin þurfi að verða 30% 1. sept. til þess að Ríkisútvarpið nái hallalausum rekstri í ár. 10% þurfa að koma til viðbótar upp í halla síðustu tveggja ára og er þá miðað við að halli þeirra tveggja ára verði greiddur með hærri afnotagjöldum 5 næstu árin. Þess skal getið, að Ríkisútvarpið fékk ekki 10% hækkun um áramót eins og mörg önnur ríkisfyrirtæki.

Um Rafmagnsveitur ríkisins er það að segja, að þær ráðgerðu að hækka gjaldskrá um 11% 1. febr., 11% 1. maí, 1. ágúst og 1. nóv. Þeir fengu hins vegar 10% hækkun 1. jan. og var hún talin jafngilda 11% hækkun 1. febr. Með því að hækka samkv. áætluninni telja RARIKmenn sig geta náð inn tekjum eins og fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir. Nú er hins vegar ljóst að talsverð fjárvöntun er hjá RARIK vegna rekstrarerfiðleika, þannig að þær þurfa á talsverðri hækkun að halda af þeim ástæðum.

Skipaútgerð ríkisins þarf líklega að hækka farmgjöld um 30% 1. maí í stað 10%, að sögn forráðamanna stofnunarinnar, og er samt gert ráð fyrir að halli Skipaútgerðar ríkisins verði 1.7 milljarðar gkr. á yfirstandandi ári. Auk þess er gert ráð fyrir að 2.4 milljarðar gkr. renni til undirbúnings að smíði nýs skips og skemmubyggingar.

Ég hef aðeins drepið hér á nokkur fyrirtæki sem ég spurði um til að taka dæmi um hvernig verðstöðvun í þessu landi er í raun. Verðhækkunum er safnað saman og mynduð er ákveðin fyrirstaða um tímabundið skeið. Síðan brestur allt nema gripið sé til annarra ráðstafana, eins og þeirra að skera verulega niður. Það væri þess vegna ástæða til þess að fá upplýsingar um það jafnframt hjá hæstv. fjmrh., hvort hann hafi einhverjar hugmyndir um niðurskurð, einhverjar linur í þeim efnum, eða þá að öðrum kosti hvað gerist 1. maí þegar verðstöðvunartímabilinu lýkur.