31.03.1981
Sameinað þing: 67. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3204 í B-deild Alþingistíðinda. (3333)

378. mál, gjaldskrárhækkanir B-hluta fyrirtækja

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Hv. þm. Friðrik Sophusson spyr um gjaldskrárhækkanir B-hluta fyrirtækja. Ég hef beðið fjárlaga- og hagsýslustofnun að undirbúa svar við þessari spurningu. Þetta er tæknileg spurning og tæknileg svör með mörgum tölum og ég skal reyna að fara hratt yfir sögu.

Fyrsta spurningin er: „Hvaða áætlaðar hækkanir á gjaldskrá eftirtalinna B-hluta fyrirtækja lágu til grundvallar fjárhagsáætlun þeirra í fjárlögum þessa árs?“

1. Póstur og sími: Við fjárlagagerð var gert ráð fyrir að seldar vörur og þjónusta yrðu 386 millj. 770 þús. kr., en þá var miðað við að vegin meðaltalshækkun gjaldskrár yrði 24%. Hækkuninni var skipt niður á tímabil á eftirfarandi hátt: 12% 1. febr., 10% 1. maí, 7.7% 1. ágúst, 7.5% 1. nóv.

2.). Ríkisútvarp, sjónvarp: Við fjárlagagerð var gert ráð fyrir að seldar vörur og þjónusta stofnunarinnar yrðu 56 620 600 kr. Þessi liður myndast af afnotagjöldum 39 600 600 kr. og auglýsingatekjum 17 020 000 kr. Var þá áætlað að hækkun afnotagjalda yrði 40% milli ára og vegin hækkun auglýsinga um 28.8%. Skipt var niður á eftirfarandi tímabil: 15% 1. febr., 15% 1. júní og 15% 1. okt. Ég þarf tæpast að geta þess, að hér er um nýjar krónur að ræða.

3. Ríkisútvarp, hljóðvarp: Við fjárlagagerð var gert ráð fyrir að seldar vörur og þjónusta stofnunarinnar yrðu 37 280 720 kr. Þessi liður myndast af afnotagjöldum 18 millj. 18 049 420 kr. og auglýsingatekjum 19 239 000 kr. Var þá áætlað að hækkun afnotagjalda yrði 70% milli ára og vegin hækkun auglýsingatekna yrði 27.1% sem skipt var niður á eftirfarandi tímabil: 15% 1. febr., 15% 1. júní og 10% 1. okt.

4. Rafmagnsveitur ríkisins: Við fjárlagagerð var gert ráð fyrir að seldar vörur og þjónusta stofnunarinnar yrðu 197 millj. 197 150 000 kr. Var þá miðað við að vegin hækkun gjaldskrár yrði 18%. Henni var skipt á eftirfarandi hátt á tímabil: 8.5% 1. febr., 8% 1. maí, 7.5% 1. ágúst og 7.5% 1. nóv.

5. Skipaútgerð ríkisins: Við fjárlagagerð var gert ráð fyrir að seldar vörur og þjónusta yrðu 21 280 000 kr. Var þá miðað við að vegin meðaltalshækkun gjaldskrár yrði 30.9%. Henni var skipt á eftirfarandi hátt á tímabil: 18% 1. febr., 10% 1. maí, 10% 1. ágúst og 5% 1. nóv.

Síðari fsp. hljóðar svo: „Hvaða breytingar þarf að gera á hækkunaráætlunum miðað við breyttar forsendur til að fjárhagsáætlanir fyrirtækjanna standist?

Svar: Frá því að fjárlagagerð lauk hafa átt sér stað kjarasamningar BSRB og BHM-manna, auk þess sem verðlagsforsendur launa hafa breyst lítillega. Þessar breyttu forsendur leiða til þess, að gjaldahlið viðkomandi stofnana hækkar nokkuð. Gjaldaaukningu þessari þarf að mæta með hækkun gjaldskrár til þess að fjárhagsáætlanir fyrirtækjanna standist. Hér á eftir verður fjallað um hverja stofnun fyrir sig, en þess skal þó getið að ríkisstj. hefur engar ákvarðanir tekið enn um þessar hækkanir og verður það ekki gert fyrr en í maíbyrjun. Hér er einungis fjallað um hvaða breytingar hafa orðið á fjárhagshorfum þessara stofnana út frá breyttum forsendum.

Þá er það í fyrsta lagi Póstur og sími: Breyttar forsendur valda því, að gjaldahlið stofnunarinnar hækkar um ca. 1.17% í heild. Hjá Pósti og síma eru tekjur þess eðlis, að einungis hluti þeirra, 310 160 000 kr., tekur gjaldskrárbreytingu, en í þessu tilviki þyrfti hún að vera ca. 1.5% til viðbótar því sem ráð var fyrir gert í fjárlögum 1981.

Ríkisútvarp, sjónvarp: Í heild hækka útgjöld stofnunarinnar um ca. 0.91%. Til að mæta þessari gjaldaaukningu þyrftu seldar vörur og þjónusta stofnunarinnar að hækka um ca. 0.97% umfram það sem gert var ráð fyrir við afgreiðslu fjárl. fyrir áramót.

Ríkisútvarp, hljóðvarp er hér í þriðja lagi: Í heild hækka útgjöld stofnunarinnar um ca. 1.18%. Það leiðir til þess, að seldar vörur og þjónusta stofnunarinnar þyrftu að hækka um ca. 1.22% umfram það sem ráð var fyrir gert í fjárlögum 1981.

4. Rafmagnsveitur ríkisins: Í heild hækka útgjöld stofnunarinnar um ca. 0.3%, sem þýðir að seldar vörur og þjónusta þurfa að hækka um ca. 0.4% umfram það sem ráð var fyrir gert í fjárlögum.

5. Skipaútgerð ríkisins: Vegna breyttra forsendna er reiknað með ca. 0.7% hækkun heildargjalda stofnunarinnar. Tekjum stofnunarinnar er þannig háttað, að einungis hluti þeirra, 20 millj. kr., tekur gjaldskrárbreytingum. Þær þyrftu því að vera ca. 1.35% umfram það sem ráð var fyrir gert í fjárlögum fyrir 1981.