31.03.1981
Sameinað þing: 67. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3205 í B-deild Alþingistíðinda. (3334)

378. mál, gjaldskrárhækkanir B-hluta fyrirtækja

Fyrirspyrjandi (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir upplestur á tölum frá fjárlaga- og hagsýslustofnun varðandi hækkanir sem þarf að gera á gjaldskrám B-hluta fyrirtækja til þess að fjárhagsáætlanir þeirra standist.

Eins og ég minntist á áður nefndi ég aðeins dæmi og voru þessi 4 fyrirtæki tekin sem dæmi. Til viðbótar er vitað að Landsvirkjun hefur farið fram á 42.5% hækkun frá 1. maí, Hitaveita Reykjavíkur, sem reyndar er ekki B-hluta fyrirtæki heldur eign Reykjavíkur, sem reyndar er ekki B-hluta fyrirtæki heldur eign Reykvíkinga, 43% og vatnsveitan 20.8%. Fjöldi annarra mála liggur hjá Verðlagsráði.

Þær tölur, sem hæstv. fjmrh. byggði á, eru að sjálfsögðu sömu tölur og fjárlög byggja á, en það hefur komið í ljós, þegar búið er að gera upp síðasta ár og árið þar áður og hægt að styðjast við reikninga, að talsverður munur er á útreikningum sem koma frá fyrirtækjunum sjálfum annars vegar og frá fjárlaga- og hagsýslustofnun hins vegar. Sem dæmi um þetta má nefna að hjá Póst- og símamálastofnuninni kom fram ákveðinn munur.

Póst- og símamálastofnunin taldi útgjaldaliðinn „Önnur rekstrargjöld og viðhald“ verða á yfirstandandi fjárlagaári 8 milljarða 250 millj. gkr., en fjárlaga- og hagsýslustofnunin taldi þennan lið einungis verða 6.6 milljarða gkr. Ástæðan fyrir þessum ágreiningi var sú, að samkv. forsendum fjárlagastofnunar átti útkoman á þessum lið árið 1980 að vera 4.4 milljarðar gkr., en varð 5.5 milljarðar í raun. Á þetta bentu yfirmenn Pósts og síma strax við fjárlagaundirbúninginn, en fjárlagastofnunin lagði sínar tölur til grundvallar samt sem áður. Þess má geta til fróðleiks, að fjárlaga- og hagsýslustofnun leggur gamlar fjárlagatölur til grundvallar, en Póstur og sími miðar að sjálfsögðu við rauntölur. Þetta verður að hafa í huga þegar menn tala um hækkanir sem nauðsynlegt er að leyfa til þess að hægt sé að halda óbreyttri starfsáætlun miðað við það sem gert var ráð fyrir í fjárlögum.

Það er einfalt að segja, eins og ýmsir ráðherrar núv. hæstv. ríkisstj. hafa sagt, að opinberar stofnanir og fyrirtæki verði að lifa við það sem þeim er skammtað. Það er sérstaklega einfalt að segja þetta fyrir þá sem reka ríkissjóð. Hann fær tekjur sínar fyrst og fremst af tollum. Þær eru þess vegna nánast verðtryggðar að langsamlega mestu leyti. En slíkt svar er algerlega út í bláinn þegar tekið er tillit til þess, að verðbólgan í ár verður væntanlega 50%, en ekki 42.5% eins og gert var ráð fyrir í fjárlögum, hvað þá heldur 40%, eins og ríkisstj. ætlaði að gera með efnahagsaðgerðum sínum um síðustu áramót.

Langsamlega stærsti liðurinn í útgjöldum þessara fyrirtækja er launakostnaður. Þess vegna er gífurlega erfitt fyrir fyrirtækin að spara án þess að til beinna uppsagna komi. Af þeim sökum er ástæða til að spyrja hæstv. ráðh. í framhaldi af þessu: Ætlar hæstv. fjmrh. að beita sér fyrir því, að sagt verði upp opinberum starfsmönnum, t. d. hjá Ríkisútvarpinu, vegna þess að þeir hafi ekki lengur vinnu við að útbúa þá dagskrá sem skera þarf niður?

Þá vil ég jafnframt spyrja hæstv. fjmrh. um það, hvort hann geti tekið undir það sem kemur fram fyrir skömmu í leiðaraskrifum dagblaðsins Tímans. Þar kemur fram að það hafi verið ljóst öllum aðilum að meira þurfi til að koma en aðgerðirnar í brbl. Síðan segja þeir: „Hverjum dettur t. d. í hug að það sé vit í að almennt kaupgjald hækki í landinu fyrir það eitt að sólarlandaferðir verði dýrari?“ — Þarna lætur ritstjóri Tímans liggja að því, að Framsfl. vilji taka tillit aftur til viðskiptakjaranna eins og var í Ólafslögum. Hins vegar telur Alþb. sinn stærsta sigur í þessari ríkisstj. að hafa útrýmt því fyrirkomulagi.

Hæstv. ráðh. kemst ekki upp með það og hæstv. ríkisstj. að svara ekki einföldum spurningum eins og þeim, hvort hún ætlar að standa að því að þessar stofnanir og fyrirtæki geti haldið óbreyttri starfsáætlun samkv. fjárhagsáætlun. Senn verður svo langt liðið á þetta ár að mjög erfitt reynist að skera niður eða spara og það hlýtur aðeins að leiða til mikils hallarekstrar þessara fyrirtækja. Ég vil benda á þetta og hef allar þær upplýsingar, sem koma fram hjá mér um þessar stórkostlegu hækkunarþörf, beint frá starfsmönnum þessara opinberu fyrirtækja, og þær eru byggðar á rauntölum.