31.03.1981
Sameinað þing: 67. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3208 í B-deild Alþingistíðinda. (3336)

378. mál, gjaldskrárhækkanir B-hluta fyrirtækja

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Þurfi ég að kynna mér betur hvernig vísitöluútreikningi er háttað á laun, þá held ég að við séum á sama báti, hæstv. fjmrh. og ég. Raunar hefði ég haldið að hann þyrfti að lesa sér langtum betur til í þessum efnum. Sannleikurinn er sá, að það, sem brbl. breyta, auk afnáms viðskiptakjara til áhrifa og verðbóta á laun undir 725 þús. gkr., er að laun bóndans í verði búvara koma ekki til frádráttar verðbótum á laun. Hitt er afskaplega mikill útúrsnúningur, að telja hér með áhrif verðhækkana á áfengi og tóbaki á útreikning verðbótavísitölunnar. Eins og við sjáum hækka áfengi og tóbak um 6% eftir daginn í dag samkv. tilkynningu hæstv. fjmrh. eða stofnunar hans, Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins, og þessi hækkun mælist ekki í verðbótum á laun. Fyrirkomulagsatriði eins og það, hvort áfengis- og tóbaksútgjöld vísitölufjölskyldunnar eru í útreikningsgrunni eða ekki, er svo mál út af fyrir sig.

Það vildi ég þó sérstaklega undirstrika, að hæstv. fjmrh. sagði annars vegar að hann teldi ekki frágangssök að viðskiptakjör hefðu áhrif á verðbætur launa, sem þó áttu þátt í 16.6% skerðingu verðbóta á laun á 18 mánaða tímabili Ólafslaga frá 13. apríl 1979 og fram undir áramót 1980, og telur að það megi vel leiða í lög aftur. Vill nú ekki hæstv. fjmrh. taka til hendinni og bera fram brtt. við þau lög sem samþ. voru frá Alþingi í gær, ef hann er þessarar skoðunar, vegna þess að það getur vel komið til greina hvað af hverju, ef viðskiptakjaravísitala væri tekin upp, að það mundi verka til hækkunar á verðbótum launa? Það getur meira að segja átt sér stað að laun, sem eru yfir 725 þús. kr. á mánuði, fái hækkun vegna batnandi viðskiptakjara, en laun, sem eru undir 725 þús. kr., hækki ekki neitt.

En það var raunar erindi mitt í ræðustól — (Forseti hringir.) Ég bið hæstv. forseta forláts og um umburðarlyndi — að koma eftirfarandi fsp. til hæstv. fjmrh.: Hann komst svo að orði, að hækkunarbeiðnir opinberra stofnana yrðu ekki teknar til afgreiðslu fyrr en í byrjun maí. Er það ætlun ríkisstj. að hækkuð þjónustugjöld fari ekki inn í vísitöluna sem miðast við útreikningsdag 1. maí n. k., þ. e. að láta launþega bera hækkun þessara afnotagjalda heilt vísitölutímabil án þess að fá neina hækkun á verðbætur launa? Það er samkomulag í gildi milli Alþýðusambands Íslands, Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og ríkisstj. um að hækkun á opinberum þjónustugjöldum eigi ekki að fara fram nema á 10 daga tímabili næst útreikningsdegi vísitölunnar, þ. e. milli 20. og 30. apríl n. k. Ég spyr því enn á ný hæstv. ráðh.: Ætlar ríkisstj. að standa við þetta samkomulag eða brjóta það aftur eins og hún gerði með 10% hækkun opinberra þjónustugjalda 1. jan. s. l.?