31.03.1981
Sameinað þing: 67. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3208 í B-deild Alþingistíðinda. (3337)

378. mál, gjaldskrárhækkanir B-hluta fyrirtækja

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Sem fyrrv. forsrh. mun hv. þm. Geir Hallgrímssyni vera fullkunnugt um að kauplagsnefnd tekur ákvarðanir um og reiknar út vísitölu fyrir 1. maí þegar nokkrir dagar eru liðnir af mánuðinum. Venjulegast er það nærri því að vera í kringum 10. maí sem útreikningur kauplagsnefndar fer fram, og þá tekur hún tillit til þeirra hækkana og þeirra breytinga sem opinberir aðilar hafa tekið ákvörðun um eftir 1. maí, jafnvel á fyrstu 5–6 dögunum. Þannig hefur þetta verið um margra ára skeið og þess vegna hefur það verið svo, að þó að það sé í meginatriðum aðalregla að reikna með að gjaldskrárhækkanir eigi sér stað á 10 seinustu dögum fyrir 1. maí eða fyrir 1. ágúst, þá er það oft að þessar ákvarðanir dragast nokkrum dögum lengur og eru raunverulega teknar á fyrstu dögum mælingarmánaðarins. Þess vegna tók ég svona til orða, að ákvarðanir um þessi efni yrðu teknar í byrjun maí-mánaðar. Ég hefði kannske formlega séð átt að orða það á hinn veginn, að þær yrðu teknar í lok apríl, því að það er formlega það rétta. Í reynd hefur það verið á hinn veginn, að það hefur fullt eins oft verið tekin ákvörðun rétt um mánaðamótin, jafnvel aðeins eftir mánaðamótin. Vona ég að þessi útskýring nægi á mínum orðum áðan, sem kannske voru ekki mælt af fyllstu nákvæmni.

En það eru ekki uppi nein sérstök áform, eins og hv. þm. var að reyna að gera skóna, um að falsa vísitöluna 1. júní n. k. með þeim hætti sem hann var að lýsa. Ég hef ekki orðið var við að þessi hugmynd hafi fyrr komið fram, en hún virðist greinilega liggja ofarlega í höfði hv. þm. úr því að hann lætur sér detta þetta í hug.

Í sambandi við áfengi og tóbak, sem við ræddum áðan vil ég minna hv. þm. á staðreyndir málsins, vegna þess að hann er að reyna að gefa í skyn að ég viti ekki hvað ég hafi verið að segja um það efni. Áfengi og tóbak var þannig í vísitölu sem ákveðin var með Ólafslögum frá 1979, að hækkanir á áfengi og tóbaki komu ekki inn í kaupgreiðsluvísitölu og verkuðu ekki til hækkunar á launum, en þessir liðir voru eftir sem áður inni í útreikningsgrundvellinum, og vegna þess að þeir voru inni í útreikningsgrundvellinum, inni í deilitölunni sjálfri, verkuðu þeir með tíð og tíma til lækkunar. Breytingin, sem nú hefur orðið, er sú, að í fyrsta lagi er þetta ekki tekið með við útreikning á launum, en það er einnig tekið út úr í deilitölunni sjálfri, í útreikningsgrundvellinum, og þannig hefur það engin áhrif, hvorki til hækkunar né lækkunar, frekar en margt annað í okkar þjóðfélagi sem er ekki inni í vísitölu. Við skulum t. d. taka verðlag á flugferðum til annarra landa. Þær eru ekki og hafa aldrei verið inni í vísitölu þannig að þegar sá liður hækkar mjög verulega og kannske langt umfram verðlag breytir það engu um laun eða öfugt. Þannig er það um fjöldamarga liði í okkar samfélagi og þannig er búið að ákveða að hafa þetta með áfengi og tóbak, en það verkar á hvorugan veginn. Það er stóra breytingin. Það tel ég til mikilla bóta.