31.03.1981
Sameinað þing: 67. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3212 í B-deild Alþingistíðinda. (3346)

216. mál, saltverksmiðja á Reykjanesi

Fyrirspyrjandi (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Með lögum nr. 47/1976 var samþykkt að stofna félag er hefði það markmið að endurskoða fyrri niðurstöður um byggingu saltverksmiðju, framkvæma viðbótarrannsóknir og láta reisa og reka tilraunasaltverksmiðju. 15. febr. 1977 var Undirbúningsfélag saltverksmiðju á Reykjanesi hf. stofnað af 500 hluthöfum. Hóf félagið þegar störf í samræmi við ákvæði laganna og í byrjun árs 1979 hófst tilraunarekstur saltverksmiðju á Reykjanesi. Samkvæmt upplýsingum, er ég hef aflað mér, hefur rekstur verksmiðjunnar gengið tæknilega áfallalaust, ef frá eru taldir byrjunarörðugleikar sem stöfuðu af kísilútfellingum, en það vandamál hefur verið leyst.

Félagið skilaði skýrslu veturinn 1980 til iðnrn. þar sem lagt er til að reist verði saltverksmiðja er afkasti 60 þús. tonnum af salti, 14 þús. tonnum af kalsíumklóríð og 6 þús. tonnum af kalí. Iðnrn, mun hafa skipað nefnd til úttektar á skýrslu félagsins.

Ljóst er að framvinda þessa máls hefur mikla þýðingu fyrir atvinnuuppbyggingu Suðurnesjamanna og áhugi mikill þar fyrir framgangi og þar beðið eftir ákvarðanatöku. Því hef ég leyft mér á þskj. 427 að flytja fsp. til hæstv. iðnrh.:

„Hvenær má gera ráð fyrir að ákvörðun liggi fyrir varðandi saltverksmiðju á Reykjanesi?“