31.03.1981
Sameinað þing: 67. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3215 í B-deild Alþingistíðinda. (3349)

216. mál, saltverksmiðja á Reykjanesi

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Það er ánægjulegt að heyra þær ágætu upplýsingar sem komu fram hjá hæstv. ráðh. Ég held að í þessu máli eins og mörgum óðrum sé nauðsynlegt að saman fari raunsæi og bjartsýni, trú á það sem menn eru að gera, en ekki glannaskapur. Mér sýnist að málin séu í þeim farvegi þó að ekki sé laust við að annað veifið verði maður eilítið óþolinmóður með það hvað hægt miðar.

Það liggur fyrir í svari ráðh. að skýrsla hafi verið gefin um þetta árið 1980 og síðan hafi verið skipuð önnur nefnd, svokölluð saltvinnslunefnd, til að vinna frekar úr þeim upplýsingum, sem þá lágu fyrir, og afla frekari gagna. Ég held að það sé nauðsynlegt í þessum efnum að sjá til þess að finna þessu samfelldan þróunarfarveg þannig að sífellt og ævinlega sé unnið að því að gera tilraunir með þær nýju hugmyndir sem upp koma á hverjum tíma, þannig að við öflum okkur sem staðbestrar vitneskju um hvaða möguleika við eigum í sambandi við sjóefnavinnslu á þessum stað.

Ég vil líka koma því sjónarmiði á framfæri, að ég held að nauðsynlegt sé að við lítum á þetta svæði á Reykjanesi út frá þeim mikla orkugjafa sem þar er og að þær framkvæmdir, sem í verði lagt, verði ekki síst miðaðar við að þarna verði um alhliða orkuver að ræða þar sem saltvinnslan sé ein greinin. Við þekkjum það úr ýmsum öðrum greinum nýtingar á heitri jarðorku að líkast til næst besti árangurinn þegar saman fer fjölþætt nýting, en ekki nýting af einu tagi. Á þessu vil ég vekja athygli.

Ég hlýt að vona að þetta mál hafi skjótan og farsælan framgang. En ég vil að lokum líka benda á nauðsyn þess að gera sveitarfélögin á þessu svæði virka þátttakendur í því sem verið er að rannsaka, þannig að þau séu í lifandi tengslum við það verkefni sem verið er að vinna, og í annan stað að tiltækar séu fyrir almenning frekari upplýsingar um þetta efni en hafa verið að undanförnu, þannig að þeir, sem áhuga hafa á, geti yfirleitt sett sig sem allra best inn í hvað hér sé um að ræða og hverjir möguleikar séu fyrir hendi. En að lokum vil ég eingöngu, herra forseti, þakka þau svör sem hér hafa verið veitt.