05.11.1980
Efri deild: 9. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 468 í B-deild Alþingistíðinda. (335)

54. mál, vitamál

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um vitamál, sem er á þskj. 58. Frv. um þetta er nú flutt óbreytt í þriðja sinn, en það var fyrst lagt fyrir Alþingi haustið 1978 og síðan aftur haustið 1979, en varð í hvorugt skiptið útrætt.

Aðdragandi þessa máls er sá, að samgrh. skipaði haustið 1974 þriggja manna nefnd til að endurskoða lög frá 1933 um stjórn vitamála og vitabyggingar og semja nýtt lagafrv. um þessi efni. Nefndin lauk störfum í árslok 1976 og lagði fram tillögur til nýrra vitalaga. Frv. var síðan vandlega yfirfarið af starfsmönnum samgrn. og nokkrar breytingar á því gerðar.

Með þessu frv. er gert ráð fyrir að ýmis eldri lög og reglugerðir falli úr gildi, sem flest eru orðin úrelt og ekki eru í samræmi við breytta tíma og ný viðhorf, en elstu lög um vitamál, sem nú eru í gildi, eru frá árinu 1899, þ.e. lög um afhendingu lóða til vitabygginga o.fl.

Í lögunum frá 1933, sem áður er getið og fjalla um stjórn vitamála og vitabyggingar, fjallar I. kaflinn um stjórn vitamála. Kaflinn er nú að verulegu leyti úreltur. Meginuppistaða laganna er upptalning á þeim vitum sem byggja skyldi, en á þeirri tæpu hálfu öld, sem síðan er liðin, hafa flestir þeir vitar verið byggðir, sem þar er getið, eða aðrir á nálægum stöðum sem koma í þeirra stað. Eins og kunnugt er hafa orðið róttækar breytingar á útgerðarháttum og tækni á þessu tímabili og hefur það einnig stuðlað að því að þessi meginkafli laganna er orðinn úreltur.

Í gildandi lögum og reglum eru mörg ákvæði óljós um hlutverkaskiptingu og ábyrgð við gerð og rekstur vita og sjómerkja. Í frv. er reynt að gera þeim málum slík skil að fullkomlega sé ljóst hver skuli annast og bera ábyrgð á hinum mismunandi legundum sjómerkja.

Um vitagjald hafa gilt sérstök lög, nú lög nr. 61 frá 29. maí 1972. Þegar gjaldið var sett á var það þýðingarmikill tekjustofn, enda var mikill hluti vitakerfisins byggður upp fyrir fjármuni sem urðu til af vitagjaldinu. Vitagjaldið hefur hins vegar ekki hækkað til jafns við verðbólgu og er raunar orðið gagnslaus tekjustofn. Þannig er gert ráð fyrir í fjárlagafrv. fyrir næsta ár að tekjur af vitagjaldi verði 18 millj. kr. Því er gert ráð fyrir því í frv., að vitagjaldinu verði að nokkru breytt, þannig að það komi jafnat niður á notendum vitakerfisins, og auk þess sé það ákveðið í reglugerð í stað laga til þess að auðveldara sé að halda gjaldinu eðlilegu. Gert er ráð fyrir því í frv., að vitagjaldinu sé einvörðungu varið til rekstrar og endurbóta á vitakerfinu og með tilliti til þess sé komið á fót nefnd vitamálastjórn og rn. til ráðleggingar um það, hvernig gjaldinu skuli varið. Aðilar að nefndinni eru jafnframt notendur vitanna og um leið greiðendur vitagjaldsins. Þeir fá þannig aðild að ákvarðanatöku varðandi notkun gjaldsins. Er með því stefnt að því, að fénu verði varið á sem hagkvæmastan hátt.

Með frv. í heild er stefnt að því að breyta gömlum og úreltum lögum o$ fá á þau nýtt form sem fellur að breyttum tímum. Ég vona að þessi orð mín hafi sannfært hv. þm. um að það er sannarlega kominn tími til að breyta vitalögunum, sem eru orðin eins gömul og ég hef rakið, a.m.k. í ákveðnum þáttum.

Ég vil taka það fram, að ég legg ekki á það neina úrslitaáherslu að frv. fari í gegn eins og það er nú orðið. En ég legg hins vegar á það áherslu, að frv. um vitamál verði afgreitt á þessu þingi, og ég leyfi mér að vona að sú n., sem fær málið til meðferðar, skoði það í því ljósi og geri þá breytingar ef henni sýnist nauðsynlegt.

Ég vil síðan, herra forseti, að lokinni þessari umr. leggja til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. samgn.