31.03.1981
Sameinað þing: 68. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3217 í B-deild Alþingistíðinda. (3356)

15. mál, landhelgisgæsla

Frsm. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. utanrmn. um till. til þál. um fullnægjandi landhelgisgæslu.

Nefndin hefur fjallað um till. og fengið á sinn fund Pétur Sigurðsson forstjóra Landhelgisgæslunnar, sem gaf ítarlegt yfirlit yfir starfsemi Landhelgisgæslunnar og möguleika hennar til að sinna eftirlitsstörfum á hinu víðlenda hafsvæði sem er innan 200 mílna fiskveiðilögsögu okkar.

Það kom fram í viðræðum við forstjóra Landhelgisgæslunnar að tækjakostur Landhelgisgæslunnar er ekki fullnægjandi til þess að fara svo oft um þetta hafsvæði sem nefndarmenn voru sammála forstjóranum um að æskilegt væri.

Þá lýsti flugmálastjóri Agnar Kofoed-Hansen á nefndarfundi áliti sínu varðandi landhelgisgæslu úr flugvélum.

Þessar viðræður við flugmálastjóra og forstjóra Landhelgisgæslunnar svo og umræður í nefndinni sjálfri urðu til þess, að nm. voru allir sammála um nauðsyn þess að efla landhelgisgæsluna. Þeir fjölluðu þess vegna um að gera breytingar á till. til þál. um fullnægjandi landhelgisgæslu á þá lund að láta sér ekki nægja að nefnd sú, sem gerð er tillaga um að skipuð verði, kanni hversu mikla og hvers konar gæslu 200 mílna efnahags- og mengunarlögsaga krefst, heldur að orða það svo, að kannað verði á hvern hátt nauðsynlegt sé að efla landhelgisgæsluna svo hún geti haft sem best eftirlit með 200 mílna lögsögusvæðinu og gegnt öðrum hlutverkum sínum á fullnægjandi hátt.

Það er samdóma álit nm., að það skipti Íslendinga mjög miklu máli að sífelld og stöðug gæsla sé á hafsvæðunum innan 200 mílna fiskveiðilögsögunnar og Landhelgisgæslan sé fær um að sýna fána landsins á þessum svæðum. Það er vitað mál, að við höfum ekki náð samkomulagi við aðrar þjóðir um endanlega afmörkun 200 mílna fiskveiðilögsögu, og sömuleiðis er ekki til lykta leidd afmörkun landgrunnsins gagnvart úthafinu og landgrunni annarra þjóða. Meðan svo stendur liggur í augum uppi gildi þess að íslensk skip og íslenskar flugvélar fari um þetta svæði og sýni og sanni að okkur sé annt um gæslu þessa svæðis og við látum okkur umhugað um hvernig þetta svæði er nytjað.

Það er líka upplýst af skýrslum Landhelgisgæslunnar, að við 200 mílna fiskveiðilögsögu okkar er gjarnan stór floti erlendra skipa að veiðum, eins og t. d. floti sovéskra skipa að kolmunnaveiðum, og okkur ber auðvitað skylda til að sjá um að þessi skip fari að settum lögum og reglum er við höfum sett varðandi 200 mílna fiskveiðilögsögu okkar. Svo og er nauðsynlegt íslenskra hagsmuna vegna að hafa í huga og fylgjast með hvernig fiskveiðum er háttað í næsta nágrenni við 200 mílna fiskveiðilögsögulínuna, bæði milli Íslands og Grænlands, og þá ekki síður hvernig fiskveiðilögsaga Jan Mayen er nytjuð þar sem við höfum áskilið okkur sérstök réttindi og hófum ákveðin samningsbundin réttindi.

Það gerist ekki þörf, að mínu mati, að orðlengja mjög um þetta mál. Nm. voru sammála um það sem ég hef nú rakið í stuttu máli og vildu leggja áherslu á að nefndin yrði skipuð sem fyrst og innti starf sitt svo skjótt af hendi að unnt væri að leggja álit hennar fyrir stjórnvöld fyrir þingbyrjun að hausti.

Ég tel ekki tímabært að fjalla um einstök tæki Landhelgisgæslunnar eða tækjaþörf, svo sem flugvélakost eða skipakost Landhelgisgæslunnar, en um þau efni voru nokkrar umræður í nefndinni, eins og ég hef þegar sagt frá. Ég tel að það sé fyrst og fremst verkefni þeirrar nefndar, sem skipuð verði, að ganga úr skugga um æskilegasta fyrirkomulag þeirra mála. En niðurstaðan í utanrmn. varðandi afgreiðslu þessarar þáltill. varð samhljóða á þá lund, að till. verði samþykkt með svofelldum breytingum:

„1) Tillögugreinin orðist svo:

Alþingi ályktar að kjósa sjö manna milliþinganefnd til að kanna á hvern hátt nauðsynlegt sé að efla landhelgisgæsluna svo hún geti haft sem best eftirlit með 200 mílna lögsögusvæðinu og gegnt öðrum hlutverkum sínum á fullnægjandi hátt. Nefndin skal ljúka störfum áður en þing kemur saman að hausti.

2) Fyrirsögn till. orðist svo:

Till. til þál. um milliþinganefnd um landhelgisgæsluna.“

Herra forseti. Með þessum orðum og breytingum legg ég til að þáltill. verði samþykkt.