31.03.1981
Sameinað þing: 68. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3226 í B-deild Alþingistíðinda. (3361)

267. mál, menntun fangavarða

Flm. (Helgi Seljan):

Herra forseti. Á þskj. 535 höfum við hv. þm. Salome Þorkelsdóttir, Jón Helgason, Jóhanna Sigurðardóttir og Friðrik Sophusson leyft okkur að flytja svohljóðandi till. til þál.:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að skipa fimm manna nefnd, er taki til gagngerðrar endurskoðunar menntun fangavarða, leiti leiða til úrbóta og geri tillögur þar að lútandi.

Nefndin skal skipuð fulltrúum eftirtalinna aðila: einum fulltrúa dómsmrn., einum frá menntmrn., tveimur fulltrúum fangavarða eða stéttarfélags þeirra, annar þeirra skal vera starfandi fangavörður.

Formaður nefndarinnar skal vera skipaður af dómsmrh. án tilnefningar.

Nefndin skal skila áliti sínu og tillögum eigi síðar en í árslok 1981“

Þegar menn líta yfir grg. og upphaf hennar sést að þar stendur: „Fyrir nokkru var haldin hin merkasta ráðstefna á vegum Geðhjálpar og Verndar um vandamál geðsjúkra afbrotamanna.“ Þá spyrja menn: Hvers vegna er þessi þáttur einn þessara yfirgripsmiklu mála og viðkvæmu, þ. e. fangelsismála almennt, tekinn út úr? Við flm. erum allir sammála um að þessi mál eigi löggjafinn vissulega að skoða, og við leggjum að sjálfsögðu á það ríka áherslu, að þeir ógæfusömu menn, sem á einhvern hátt hafa lent í sjálfræðissviptingu og fangelsisvist af einhverju tagi, skuli njóta þess fyllsta réttar sem þeir þó eiga að njóta þrátt fyrir frelsisskerðinguna, að allur aðbúnaður þeirra, aðstoð við þá, félagsleg og heilsufarsleg þjónusta sé sem allra best og um leið að þeir, sem við þá hafa nánust samskipti, fangaverðirnir, verði sem best hæfir til að sinna skyldum sínum og samskiptum við fangana. Að því lýtur þessi till. alveg sérstaklega.

En af hverju þá svona einangrað svið? spyrja menn. Það er orðið áliði þings og hvorki við flm. né Alþingi í heild getum undirbyggt nú til vorsins svo viðkvæmt og viðamikið mál sem hér er á ferðinni ef við ættum að fara að taka upp, eins og ég hef heyrt núna á nokkrum þm., heildarendurskoðun og heildarúrbætur í öllum okkar fangelsismálum. Það hlýtur um leið að snerta fjölmörg réttarfarsleg atriði, hagsmuni og rétt þeirra sem dæmdir eru fyrir dómi. Hér er hins vegar á einföldum þætti tekið og sjálfsögðum um leið, — þætti sem ekki getur verið neitt ágreiningsmál, en varðar ekki síður, þegar grannt er að gáð, fanga en fangaverði. Því til sönnunar vil ég — með leyfi forseta — lesa einn lið úr úrbótatillögum sem fangar á Litla-Hrauni hafa t. d. sent dómsmrh. Með leyfi forseta segir þar orðrétt:

„Fangavörðum verði sett lágmarksmenntunarskilyrði og aðrar starfsmenntunarkröfur sambærileg við starfsfólk í félagsráðgjöf.“

Ekki síður vil ég lesa úr stefnuskrá Verndar sem sérstaklega ber málefni fanga fyrir brjósti. Í bréfi frá Hilmari Helgasyni, formanni Verndar, segir, með leyfi forseta:

„Það er mér ljúft að staðfesta, að málefnið menntun fangavarða er eitt af forgangsverkefnum félagasamtakanna Verndar, enda segir í g-lið stefnuskrár samtakanna: „Samtökin skulu styrkja til sérmenntunar starfsfólk til ofangreindrar starfsemi svo og til annarra starfa málefninu viðkomandi.“ Framkvæmdastjórn Verndar hefur enn ekki fjallað um hvernig að þessu verkefni skuli staðið í smáatriðum, enda slíkt ekki gert nema í fullu samráði við stjórnvöld og stjórn Fangavarðafélagsins, en vonir standa til að endanleg ákvörðun liggi fyrir n. k. haust.“

Undir þetta bréf skrifar formaður Verndar, Hilmar Helgason.

Þetta segir sitt um þetta mál. En önnur spurning hlýtur að vakna við upphaf grg. Það er kveikjan að tillögunni, að það hafi verið ráðstefna um málefni geðsjúkra afbrotamanna sem hafi verið um fjölmargt mjög áhugaverð. Því þá ekki að taka fyrir alveg sérstaklega þeirra málefni, sem vissulega þarfnast sérstakrar athugunar? Á því er einföld skýring og við hana kannast eflaust flestir alþm. eða allir. Fyrr á þessu þingi höfum við flutt þáltill. um geðheilbrigðismál og eru málefni geðsjúkra afbrotamanna einn veigamesti þátturinn í þeim málum til endurskoðunar og úrbóta. Við höfum því sannarlega að þessum þætti hugað og trúum því eindregið, að Alþingi samþykki nú í vor till. okkar um geðheilbrigðismálin. Ég hef einmitt um það upplýsingar, að hv. allshn. hafi afgreitt till. um geðheilbrigðismál frá sér í dag jákvætt, mælt einróma með samþykkt hennar almennt, þ. e. um heildarendurskoðun og nefndarskipun varðandi þau mál.

En af hverju þetta mál frá slíkri ráðstefnu? Jú, við fjórir eða fimm þm. sátum þarna frá þingflokkum okkar og heyrðum þá þær furðufréttir, sem voru staðfestar af viðkomandi fulltrúa þess rn. sem með þetta mál fer, að öll menntun fangavarða lægi í einu vikunámskeiði og engra sérstakra starfsréttinda væri þar krafist. Ég veit að þegar Björk Bjarkadóttir formaður Fangavarðafélagsins varpaði fram þessari spurningu á þessari ráðstefnu áttum við von á allt öðru svari. Við trúðum þessu tæplega. En ég veit jafnframt að á sömu stund vorum við staðráðin í því, að hér yrði úr að bæta hið bráðasta, við værum blátt áfram sem löggjafi skyldug til þess. Við nánari eftirgrennslan urðum við enn sannfærðari um það. Við efumst ekki um að við séum ekki síður með fanga í huga þegar við flytjum till. af þessu tagi. Og við erum eins viss um að þarna sé rétt farið sem byrjun athafna í þessum málum í heild, einfaldlega af því að hér er um sjálfsagt mál að ræða, hér er um einfalt mál að ræða í allri framkvæmd. Skal þá vikið beint að grg.

grg. er byggð á upplýsingum frá Fangavarðafélagi Íslands og hugmyndirnar í tillögunni um val nm. eru einnig settar fram í samráði við stjórn þess félags. Ég vil hins vegar taka það fram, eftir sérstakri ábendingu frá manni sem hefur mikið kynnt sér þessi mál og situr hér í salnum, hv. 7. þm. Reykv. Guðmundi J. Guðmundssyni, að ég tel sjálfsagt að sú n., sem fær þetta mál til athugunar, kanni það, að inn í þessa nefndarskipun verði tekinn fulltrúi frá samtökunum Vernd sem sérstaklega eru með þessi mál á stefnuskrá sinni eins og ég hef þegar vikið að í þessari framsögu.

Í grg. frá Fangavarðafélagi Íslands segir orðrétt: „Ljóst er að menntunarmál fangavarða á Íslandi eru í algjöru lágmarki. Í rauninni liggur öll menntun hjá fangavörðum í Reykjavík í vikunámskeiði, sem haldið var árið 1975.“

Ég varð nú undrandi þegar ég heyrði um að þetta gæti verið rétt, en það var staðfest að svo væri. Enn meira undrandi varð ég þó þegar ég fékk að sjá ákveðið skírteini þar sem ákveðinn fangavörður hefði tekið þátt í og lokið framhaldsnámskeiði fyrir fangaverði árið 1975 í fimm daga. Eftirfarandi námsgreinar voru kenndar — og taki nú þeir fáu eftir sem hér eru inni: vélritun, skýrslugerð, íslenska, hegningarlög, fangelsisreglur, hjálp í viðlögum, leit á fólki og í farangri, fíkniefni, verkun lyfja, sálfræði, afbrotafræði, almannatryggingar, handtökur, eld- og reykköfun. (Gripið fram í: Hvað eru margar kennslustundir á dag?) Það veit ég því miður ekki, en eflaust hafa þessir dagar verið vel nýttir, ég efast ekki um það. Það hefur sjálfsagt verið frá morgni til kvölds, ekki efa ég það, því að dagarnir eru ekki það margir sem þarna voru til ráðstöfunar. En ég segi fyrir mig: Það er langum ofvaxið mínum skilningi hvernig þessar námsgreinar hafa átt að nokkru gagni að koma þessu fólki til góða á þessum stutta tíma þrátt fyrir allt. Verður þá að segja það, að þessi stétt manna er langt umfram alla þá háskólaborgara sem ég þekki til ef hún hefur náð lágmarksmenntun í þessum efnum á þessum stutta tíma, enda veit ég að engum dettur slíkt í hug. Upp á þetta er engu að síður skírteini um framhaldsnámskeið í þessum efnum — fimm daga námskeið sem fjallar um allar þessar greinar. (GJG: Fyrirgefðu, hvenær er þá minna prófið?) Ja, ég er líka á gati varðandi það, enda kemur þarna fram að minna prófið mun ekki vera neitt vegna þess að þetta á að heita framhaldsnámskeið eftir að fangavörðurinn hefur verið eitthvað í starfi.

Á s. l. ári fengu fangaverðir á Litla-Hrauni námskeið í samtals 28 klst., fangaverðir í Reykjavík samtals í 8 klst., fangaverðir á Kvíabryggju ekkert. Lögregluþjónar, svo dæmi séu nefnd, sækja í byrjun starfs — og ég held að hér höfum við góða viðmiðun varðandi þetta mál — 4–6 vikna námskeið, og eftir eins árs starf í Lögregluskóla ríkisins í 14–18 vikur samkvæmt ákveðinni reglugerð þar að lútandi frá 1965. Ég tel að lágmarkið væri væri að fangaverðirnir hefðu þó alla vega sömu menntun og þessi stétt. Þar er sem sagt um að ræða 4-6 vikna námskeið í byrjun og síðan eftir eins árs starf 14–18 vikur.

Á Norðurlöndunum eru menntunarmál fangavarða töluvert umfangsmeiri. Sem dæmi má nefna Noreg. Þar er tveggja ára skóli þar sem m. a. er lögð áhersla á sálarfræði og réttarfarsfræði. Um umsækjendur til fangelsisskólans er fjallað í umsækjendanefnd, en í henni eru þrír menn: skólastjórinn, fangelsisstjóri og fulltrúi og fulltrúi starfsmanna. Fangelsisskólinn hefur tekið á móti 45–50 nemendum á ári, en það er um fjórðungur umsækjenda. Auk grunnmenntunar má bæta við að 1979 hefur fangelsisskólinn í Noregi skipulagt eftirfarandi sérnámskeið: Tvö eiturlyfjanámskeið, námskeið í sjálfsvörn og meðferð fanga í átökum, námskeið um menningarstarfsemi, námskeið fyrir stjórnendur og gjaldkera fangelsa, námskeið fyrir stjórnendur minni stofnana, námskeið um afbrotamál, um kennslu og nám í fangelsum, um heilsugæslu í fangelsum, fyrir stjórnendur og verkstjóra í fangelsum, menningarráðstefnu og meiraprófsbifreiðastjóranámskeið.

Auk þess taka Norðmenn þátt í sameiginlegri norrænni ráðstefnu fyrir yfirmenn í fangelsum og í gagnkvæmum starfsmannaskiptum milli Norðurlanda. Árlega taka tveir starfsmenn frá hverju landi þátt í þessum skiptum og dvelja þeir í 30 daga. Námskeiðin og ráðstefnurnar eru 2–7 daga löng.

Laun og menntun fyrir byrjendur í lögreglu og fangavörslu í Noregi eru hin sömu, en lögregluþjónn fær hærri uppbót eftir 9 ára starf.

Fangaverðir segja að lokum, og ég held það sé rétt: „Ekki þarf að fara mörgum orðum um þjóðhagslega nauðsyn þess, að fangaverðir séu vel menntaðir. Aukin menntun fangavarða ætti að draga úr fjölda síbrotafanga og þannig ætti sá kostnaður, sem aukin menntun fangavarða hefði í för með sér, að skila sér aftur.“

Þetta segir í grg. Ég hef ekki miklu við að bæta. Af því að hæstv. dómsmrh. er hér og af því ég veit hvern mann hann hefur að geyma varðandi umbótamál öll, þá treysti ég engum manni betur í embætti því sem hann situr nú í en honum að ganga rösklega til verks í þessu máli og koma á þeim úrbótum sem nauðsynlegar eru. Það er engin leið að ásaka hann þann stutta tíma sem hann hefur verið í ráðherradómi þessara mála um ástand þessara mála. Þetta hefur þróast svona um fjölda ára og mönnum hefur þótt þetta eflaust eðlilegt, kannske ekki einu sinni vitað af því. Ég er ekki í nokkrum vafa um það, og þekki það til vinnubragða hæstv. ráðh., að taki hann á þessu máli tekur hann á því rösklega og drengilega.

Ég vil svo að lokinn þessari umr. leggja til að þessari till. verði vísað til hv. allshn.