31.03.1981
Sameinað þing: 68. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3234 í B-deild Alþingistíðinda. (3364)

267. mál, menntun fangavarða

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Það var ekki ætlun mín að taka til máls um þessa þáltill, sem ég er meðflm. að, enda hefur hv. þm. Helgi Seljan gert rækilega grein fyrir skoðunum flm., en hann hefur tekið saman till. með aðstoð þeirra sem starfa við þessi mál í þjóðfélaginu.

Það er sjaldgæft að hér á hinu háa Alþingi verði umræður um fangelsismál. Þetta er sá málaflokkur sem kannske vill oftast gleymast vegna þess að menn vilja ekki vita af honum. Það var minnst áðan á ráðstefnu sem félagasamtökin Vernd og Geðhjálp efndu til fyrir skömmu hér í Reykjavík. Það æxlaðist þannig að ég tók þátt í undirbúningsvinnu fyrir þessa ráðstefnu og sat hana, sérstaklega vegna afskipta minna fyrr af fangelsismálum, þá sem félagsmaður í svokölluðu Sakfræðingafélagi sem hélt fyrir nokkrum árum fund um fangelsismál í miklu víðtækari samhengi til þess að ræða um refsinguna og um fangelsismál eins og þau koma fyrir hér á landi. Umræðuefnið á þessari ráðstefnu, sem hér var vitnað til, var um geðveika afbrotamenn, sem eru aðeins mjög lítill hluti þeirra afbrotamanna sem vistaðir eru í fangelsum hér á landi. En vegna þess að á þetta var minnst og vegna þess að hæstv. dómsmrh. hefur tekið þátt í þessum umr. er ekki úr vegi að víkja með einni eða tveimur setningum að þessu mjög svo viðkvæma máli.

Ég held að ég segi þar rétt frá eftir þessa ráðstefnu, og aðrir, sem hana sóttu, geta dæmt þar um, að eftir hana held ég að meiri bjartsýni ríki meðal þeirra, sem þessi mál fjalla, um að upp verði teknar alvöruumræður um það, hvar vista skuli geðveika afbrotamenn — menn sem eru ósakhæfir, fá öryggisgæsludóm sem svo er kallaður, og eiga að vistast á það sem lögin kalla „viðeigandi hæli“, stofnun sem aldrei hefur verið til á Íslandi. Þetta er bein þýðing úr dönskum lögum. Þar voru slíkar stofnanir til. Hér á landi hafa þær aldrei verið til. Þess í stað hafa ósakhæfir afbrotamenn, sem taldir voru ósakhæfir á afbrotatímanum, verið vistaðir fyrst og fremst á Litla-Hrauni, en þó eru dæmi þess, að þeir hafi verið sendir utan. Sýnir það vanmátt okkar Íslendinga eins og sakir standa til þess að taka á okkar eigin vandamálum.

Þetta vildi ég nefna af því að þessi mál voru hér á dagskrá. En það var einmitt á þessari ráðstefnu sem okkur var sagt frá því, hvernig staðið hefði verið að menntunarmálum fangavarða. Það varð kveikjan að þessari till., sem Helgi Seljan hefur haft allt frumkvæði að því að flytja, en við hin skrifað upp á og stutt og væntum þess að svo geri þingheimur allur.

En kannske ráku mig sérstaklega hér í ræðustólinn ummæli hv. þm. Alberts Guðmundssonar, þar sem hann fjallaði um refsinguna sjálfa sem fyrirbæri. Þar er komið að máli sem ég hygg að hafi ekki verið rætt mörg undanfarin ár í sölum Alþingis. Í fræðibókum um refsingu, í refsirétti og afbrotafræði, er reynt að greina tilganginn með refsingunni sundur í ýmsa þætti. Við þekkjum atriði eins og það, að refsing sé til komin sem varnaður bæði fyrir einstaklinginn sjálfan og eins fyrir aðra í þjóðfélaginu. Þetta eru vissir þættir refsingarinnar. En einn er sá þáttur sem eftir stendur, auk þess að hún er betrun, en auðvitað á refsingin að vera betrun, enda notum við orðið betrunarhús í því skyni. Eftir stendur hin kalda staðreynd, að jafnvel í nútímaþjóðfélagi gildir enn þá gamla reglan: „auga fyrir auga og tönn fyrir tönn“. Sú aðferð að loka menn inni, einangra menn, með öllum þeim afleiðingum sem það hefur, er byggð m. a. á þessari hugsun: auga fyrir auga, tönn fyrir tönn.

En hvernig er svo brugðist við í sjálfu fangelsinu? Þangað fara menn jafnvel mörgum mánuðum, stundum mörgum árum eftir að afbrotið er framið. Í fangelsinu eru þeir stundaðir af lækni, sem þrátt fyrir að hann sé að mörgu leyti ágætur maður hefur ekki sérþekkingu á þessu sviði, og hann hefur skyldum að gegna sem slíkur.

Skyldur hans eru þær að gera engan mun á föngum né öðrum Íslendingum. Þegar upp koma veikindi, sem jafnvel eru afleiðingar einangrunarinnar ber honum skylda til að grípa til þeirra ráða sem læknar hafa og fyrst og fremst eru fólgin í lyfjagjöf. Ég held að í þessu felist ákveðin hætta. Við erum í raun með annarri hendinni að reyna að upphefja það sem við gerum með hinni, sem stundum getur eflaust leitt til þess, að það fólk, sem lendir í fangelsum, verður veikt vegna afleiðinga einangrunarinnar, þarf síðan að leita lækningar við því og lendir í þeim vítahring sem slík lyf geta boðið upp á.

Ekki bætir úr skák að margir hverjir, sem dveljast á íslenskum fangelsum, eru fíkniefnaneytendur. Það er opinbert leyndarmál að a. m. k. til skamms tíma hefur verið mjög auðvelt að smygla til fanga á Litla-Hrauni fíkniefnum.

Sem betur fer hefur risið upp hér á landi hreyfing borgara sem hefur haft fullan skilning á þessu vandamáli og náð tökum á þessu vandamáli með frjálsum hætti og gert það að verkum að þeir menn, sem setið hafa í fangelsum, hafa öðlast manngildi sitt á ný. Á þetta minntist Albert Guðmundsson áðan og ég get heils hugar tekið undir með honum að það er ekki síður um vert að mennta fangana sjálfa. Sjálfur hef ég átt þátt í því að reyna að bæta úr menntun einstaks fanga, en því miður var ekki hægt að koma því við vegna þess að það má segja að það sé ágreiningur á milli dómsmrn., eins og hér kom fram, og menntmrn. um hver eigi að borga brúsann.

Það er sem betur fer þannig nú, að hægt er fyrir fanga að leita sér iðnmenntunar í vissum iðngreinum, en þeir, sem vilja fara bóklegu leiðina, eiga erfiðar uppdráttar. Á Litla-Hrauni telst núna a. m. k. einn menntaskólanemi og einn háskólanemi, svo dæmi séu tekin, og fyrir þetta fólk er ákaflega lítið hægt að gera. Það er að vísu skilningur ýmissa skólamanna. Ég vil nefna menn eins og skólastjórana í Hveragerði, í fjölbrautaskólanum þar, gagnfræðaskólanum þar, og eins Örnólf Thorlacius. Þeir hafa verið ákaflega hjálpsamir á þessu sviði.

Þetta nefni ég hér, en þetta styður umfram allt þá till. sem hér er komið fram með, hver nauðsyn er að þeir, sem umgangast fanga hér á landi, jafnsundurleitir og þeir eru: drykkjumenn, fíkniefnaneytendur og geðsjúkir, hafi til þess menntun. Það er auðvitað skylda okkar að veita þeim þessa menntun fanganna vegna og okkar sjálfra vegna.

Þessu vildi ég koma fram og það gleður mig sannarlega að þessar umr. skuli eiga sér stað. Ég get sagt eins og fleiri, að þetta kemur frá hjartanu af því að ég heimsótti fangelsi frá því að ég var smástrákur, því að í fangelsi dvaldist náinn ættingi minn sem mér þótti mjög vænt um og gerði það að verkum að ég hafði meiri áhuga á þessum málum en ella. En það eru ekki allir sem — eigum við kannske að segja: njóta þess í æsku að fá að þekkja þennan hluta þjóðfélagsins. Því miður hefur þetta verið feimnismál, en vonandi verður breyting þar á. Ég held að þessi till., þótt ekki sé hún víðtæk, sé a. m. k. liður í þeirri viðleitni.