01.04.1981
Efri deild: 70. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3244 í B-deild Alþingistíðinda. (3373)

258. mál, ný orkuver

(Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Það hafa nú orðið allmiklar umr. um frv. það sem hér er á dagskrá, og er það ekki að ófyrirsynju og að sjálfsögðu ekki nema gott um það að segja. Það eru nokkur tíðindi, sem eru varðandi þessi virkjunarmál, að sex þm. Alþfl. í Nd. hafa borið fram frv. til laga um breytingar á lögum um Landsvirkjun, sem hv. 2. þm. Reykn. vék að í máli sínu nú. Ég tel að þetta frv. feli í sér stuðning við meginstefnu þess frv. sem við sjálfstæðismenn höfum lagt fram og stöndum að og er hér til umr., en ég ætla mér ekki hér að ræða það frv. sem liggur fyrir Nd. Ég vil aðeins að gefnu tilefni vekja athygli á því, sem hv. 2. þm. Reykn. kom líka að, að í frv. okkar sjálfstæðismanna er gert ráð fyrir að virkjunaraðili sé Landsvirkjun eða landshlutafyrirtæki. En þeir Alþfl.-menn reikna með að það sé einungis Landsvirkjun sem komi til greina eða sé falið að annast þessar virkjunarframkvæmdir og rekstur þessara virkjana.

Við sjálfstæðismenn höfum viljað gera ráð fyrir að það væri möguleiki á því að stofna landshlutafyrirtæki í hinum einstöku landshlutum, eins og ég gerði grein fyrir í framsögu minni fyrir þessu máli. Við höldum því þannig opnu samkv. okkar till. að það geti verið landshlutafyrirtæki á Suðurlandi. Ég vil leyfa mér að vekja athygli á því, að iðnn. þessarar hv. deildar hefur borist umsögn frá samtökum sunnlenskra sveitarfélaga um frv. til orkulaga sem liggur fyrir nefndinni og er flutt af okkur sjálfstæðismönnum í þessari hv. deild. Í þessu frv. er gert ráð fyrir landshlutafyrirtækjum ef vilji er fyrir því í viðkomandi landshlutum. En þessi umsögn frá Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga er á þá leið, að það ákvæði frv. sé til bóta, að möguleikar séu fyrir stofnun landshlutaveitu. Ég vek athygli á því, að jafnvel samtök sveitarfélaga á Suðurlandi, þar sem Landsvirkjun er nú með sínar virkjanir, hefur sent hv. iðnn. þessa umsögn. Hv. 2. þm. Reykn. á sæti í þessari nefnd og ég geri ráð fyrir að honum sé þetta kunnugt.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara að ræða sérstaklega um ræðu hv. 2. þm. Reykn., vegna þess að það kom glögglega fram að víðtæk samstaða er milli okkar, og ég vil þá meina milli stjórnarandstöðuflokkanna, í þessu máli. En ég vík þá að öðrum ræðum sem fluttar hafa verið í þessum umr., og er þar þá fyrst til að taka ræðu hæstv. iðnrh.

Hæstv. iðnrh. flutti ítarlega ræðu um þetta mál, þar sem hann kom viða við og ræddi málin málefnalega. En ég tel ástæðu til að gera aths. við vissa þætti í ræðu hans. Hæstv. ráðh. kom ítrekað að því í ræðu sinni, að við sjálfstæðismenn vildum gefa hæstv. ríkisstj. víðtækar heimildir. Hann lét orð falla á þá leið, að það mætti túlka sem traust okkar á ríkisstj. (Gripið fram í.) Ég held að hv. 4. þm. Norðurl. e. og hv. 11 þm. Reykv. séu nokkuð fljótir á sér, fljótir að draga ályktanir í þessu efni, eins og raunar kom fram í ræðum þeirra fyrr í þessum umr. Auðvitað gerum við ráð fyrir að það sé ríkisstj. í landinu og það, sem ríkisstj. er falið samkv. þessu frv., sé þá falið núv. ríkisstj., ef hún situr þá þegar þetta frv. er orðið að lögum.

En hér er ekki um frv. að ræða í heimildarformi eins og venjulega er þegar um virkjanir er að ræða. Ég ræddi þetta alveg sérstaklega í minni framsöguræðu. Hér er ekki talað um að heimila ríkisstj. Hér eru fyrirmæli til ríkisstj. um að hún skuli fela Landsvirkjun eða landshlutafyrirtækjum þær framkvæmdir sem hér um ræðir. Það er ekki tilviljun, að þetta form er haft eins og ég sagði í minni framsöguræðu. Það er vegna þess að við teljum að hæstv. ríkisstj. veiti ekki af fyrirmælum í þessu efni. Náskylt þessum fyrirmælum er það ákvæði frv., að sett eru bein, ákveðin skilyrði fyrir því, að hefja megi framkvæmdir við ákveðnar virkjanir, þ. e. Fljótsdalsvirkjun og Blönduvirkjun. Það leiðir af því, að það stoðar ekki að ætla að gefa ríkisstj. — hver sem hún er — bein fyrirmæli um framkvæmdir ef ekki er fullnægt vissum skilyrðum. Þess vegna eru skilyrðin fram tekin í frv. á þann veg sem gert er. Ég vona að þetta atriði verði ekki raunar neitt ágreiningsatriði milli mín og hæstv. ráðh. og það liggi ljóst fyrir hvað vakir fyrir flm. í þessu efni.

Ég skil það náttúrlega ósköp vel, að það væri fagnaðarefni fyrir hæstv. ráðh. ef hann fyndi að það vottaði hjá stjórnarandstöðunni fyrir einhverju trausti á ríkisstj.

Þá er það annað atriði sem hæstv. ráðh. vék nokkuð að, þó ekki mikið. Hann vakti athygli á því, sem rétt var, að framkvæmdum væri ekki raðað. Hann hélt ekki uppi mikilli gagnrýni á frv. fyrir það, naumast var þar að finna nokkra gagnrýni. Ef svo hefði verið, þá geri ég ráð fyrir að hæstv. ráðh. hefði sagt okkur hvaða röðun hann vildi hafa á verkefnunum. En það gerði hæstv. ráðh. ekki, þannig að eins og stendur virðist mér nú að líkt sé ástatt með okkur sjálfstæðismenn og hæstv. ráðh. í þessu efni.

Ég vék sérstaklega að því í minni framsöguræðu, hvers vegna þessi háttur væri á hafður, og skýrði það rækilega. Ég benti m. a. á að það gæti tafið framkvæmdir ef við í löggjöf ætluðum að binda algerlega framkvæmdaröðina. Það væri alvarlegt mál vegna þess að tillaga okkar sjálfstæðismanna er um að ljúka öllum verkefnum, sem frv. fjallar um, á tilteknum tíma, innan 10 ára. Þess vegna mætti ekki missa neinn tíma til athafna í þessu máli, hvort sem það er til undirbúnings að framkvæmdum eða framkvæmdirnar sjálfar. Það yrði að taka hvert verkefni fyrir eins og það lægi fyrir.

Hæstv. ráðh. ræddi um stóriðju. Það var eðlilegt, því að eins og ég lagði ríka áherslu á í minni framsögu er forsendan fyrir öllum þessum framkvæmdum, svona miklum og örum framkvæmdum í virkjunarmálum, fólgin í því, að markaður fáist að verulegu leyti í formi stóriðju eða orkufreks iðnaðar. Ég skildi hæstv. iðnrh. þannig, að við værum sammála um að það yrði að koma til orkufrekur iðnaður, við værum sammála um að við yrðum að gera átak í stóriðjumálum. Þetta er ákaflega þýðingarmikið, að stjórnarandstaðan og ég ætla ríkisstj. séu sammála um þetta. Og það breytir náttúrlega engu um þetta, það sem hv. 11. þm. Reykv. og 4. þm. Norðurl. e. voru að segja um þessi efni fyrr í umr.

En við hæstv. iðnrh. virðumst ekki vera sammála um allt varðandi stóriðjuna og var kannske ekki þess að vænta. Ég skildi hæstv. iðnrh. þannig, að hann teldi að það væri ekki rétt stefna eða óþarfi að leggja áherslu á það, eins og við flm. þessa frv. gerum, að tryggja markaðinn fyrir fram, að taka fyrir fram eða jafnhliða ákvörðun um stórvirkjun. Ég skildi hæstv. ráðh. þannig, að ef það væri gert, þá værum við leitandi út um allan heim að kaupendum að orkunni og það gæti valdið því, að við hefðum lakari samningsstöðu þegar við værum að semja um orkuverðið. Hann orðaði þetta þannig, minnir mig, í ræðu sinni, að ef við færum svona að köstuðum við okkur til sunds í þessu máli. En ég held að við þurfum að líta nánar á þetta, og ég verð að segja að mér finnst þetta furðuleg röksemdafærsla hjá hæstv. iðnrh. Frá mínu sjónarmiði er þetta alger rökvilla. Ég held að með því að tryggja fyrir fram markaðinn eða jafnframt og við förum í virkjanir, þá höfum við miklu betri aðstöðu til samninga heldur en ef við erum búnir að virkja og ætlum svo að fara að leita markaðarins, því að þá erum við búnir að leggja í kostnaðinn við virkjanirnar og erum í vanda staddir. Ég sé ekki annað en það væri hin bágbornasta samningsaðstaða fyrir okkur varðandi orkuverðið undir þeim kringumstæðum. Ef við yrðum ekki búnir að virkja, þá höfum við alltaf möguleika á því að virkja ekki ef við höfum ekki markað fyrir orkuna. Ég vænti þess, að hæstv. ráðh. athugi þetta nánar. Þetta er að sjálfsögðu ákaflega þýðingarmikið atriði.

Ég sagði áðan að við hæstv. iðnrh. værum sammála um að það þyrfti að koma til stóriðja. Ég skil málflutning hans hér og ræðu hans þannig. Hann talar líka um það í ræðunni, að það þyrfti atvinnuuppbyggingu í landinu, eins og hann orðaði það, og hann sagðist vera með henni nokkuð afdráttarlaust, eins og hann orðaði það. Það liggur kannske í þessum orðum að það eigi að fara með gát í atvinnuuppbyggingunni. Hann talaði um það í þessu sama sambandi, að atvinnuuppbyggingin mætti ekki verða fótakefli efnahagslega. Svo var hann allt í einu farinn að tala um sjálfstæði þjóðarinnar í þessu sambandi. Þetta kemur dálítið annarlega fyrir sjónir þegar við erum að ræða um það stórkostlega verkefni sem bíður okkar, að hagnýta sem best þau auðæfi, sem við eigum í orkulindunum, til atvinnuuppbyggingar, atvinnuöryggis og hagsældar fyrir landsmenn. Maður verður að ætla að þarna séu enn þá einhverjar leifar af þeirri gömlu stóriðjuhræðslu sem hefur komið fram hjá vissum aðilum á undanförnum árum og áratugum. Ég segi: leifar, ég leyfi mér að segja það, vegna þess að hæstv. ráðh, kvað nú ekki sterkt að orði í þessu efni. Það var náttúrlega ekkert sambærilegt og ætti ekki að nefna í sömu andránni og þann tón sem kom fram í máli hv. 4. þm. Norðurl. e. og hv. 11. þm. Reykv. En ég geng út frá því, að hæstv. iðnrh. geri sér alveg grein fyrir því, að þessi svokölluðu höfuðrök, sem menn hafa verið að hampa á móti stóriðju, séu nú að verða ætíð léttvægari. Hver trúir því, að það sé hætta á því að eigendur stóriðjufyrirtækja gangi í eitthvert bandalag við atvinnurekendavaldið í landinu til þess að berja á verkalýðnum? Þetta var ein af höfuðröksemdum gegn stóriðju þegar umræður um hana byrjuðu á sjöunda áratugnum. (ÓRG: Vill hv. þm. líka rifja upp eitthvað af þeim röksemdum sem voru með?) Hver trúir því í dag, að það sé hætta á pólitískum áhrifum hér í þessu landi frá erlendum eigendum stóriðjufyrirtækja? Þetta voru rök sem var mjög hampað á sínum tíma. Enn voru svokölluð rök í þessu efni hin fjárhagslega áhætta, sem menn töldu að landsmenn tækju á sig með því að fara út á þessa braut. (StJ: Hvar er hagnaður af járnblendinu, hv. þm., hvar er hagnaðurinn af járnblendiverksmiðjunni?) Ég skal koma síðar að því, hv. þm., og mundu það, hv. 4. þm. Norðurl. e., að ég mun veit þér þá þjónustu sem ég vil og vert er í þessum umr. og ljúka því áður en ég fer úr ræðustólnum.

Ég vil víkja fáeinum orðum frekar að hæstv. iðnrh., ekki í ádeiluformi. Ég vil bara leggja áherslu á það, hvað hæstv. iðnrh. gegnir veigamiklu hlutverki í þessum málum. Ég tek svo til orða vegna þess, að það, sem við erum að tala um í þessum umr., og það, sem þetta frv. fjallar um, er stórvirki í íslenskum efnahagsmálum, og það verður ekki gert átakalaust, áreynslulaust. Það þarf mikla baráttu og menn þurfa að vera staðráðnir í því að koma því fram sem hér er um að ræða. Ég vona sannarlega að okkur takist að framkvæma þetta, hver svo sem ríkisstj. er og hver svo sem iðnrh. er. Hér er um að ræða mál sem er hafið langt yfir hversdagslegt dægurþras, og hér er um að ræða mál sem við ættum að geta verið sammála um.

Ég skal þá víkja að ræðu hv. 4. þm. Norðurl. e., Stefáns Jónssonar. Ég hef áður látið þess getið, að það hefur kveðið við allt annan tón hjá honum í þessum umr. heldur en hjá hæstv. iðnrh. Þessi hv. þm. kom allvíða við. En allt hans mál var mengað, ef svo mætti segja, af andúð og skilningsleysi á því viðhorfi sem hér er um að ræða og varðar stóriðju og orkufrekan iðnað í landinu.

Hv. 4. þm. Norðurl. e. vað nú svo brátt, að hann varð að kalla fram í áðan og spyrja hver hefði verið ágóði af járnblendiverksmiðjunni. (StJ: Hagur, sem hv. þm. fullyrti að hefði verið.) Meinar þú reikningslegur hagur? (StJ: Nei, fjárhagslegur.) Fjárhagslegur, já, af verksmiðjunni sjálfri? (StJ: Já.) Ég hef nú ekki undir höndum hér reikninga verksmiðjunnar. Þeir eru enn ekki ýkjamargir, en ég get þó gefið þær upplýsingar, að á árinu 1980 var rekstrarhalli 22 millj. nýkr. Sú upphæð er nokkurn veginn jöfn afskriftarupphæð hjá fyrirtækinu á þessu ári. Hv. 4. þm. Norðurl. e. — (Gripið fram í.) Ég kem síðar að hv. 11 þm. Reykv., það er ekkert að óttast. (ÓRG: Nei, þm. virðist vera eitthvað feiminn.) Jæja, það verður ekki borið upp á hv. 11. þm. Reykv. að hann sé feiminn að tala, hvort sem hann á að tala eða ekki.

Hv. 4. þm. Norðurl. e. fullyrti að kostnaður við að skapa hvert atvinnutækifæri að Grundartanga væri 10 millj. kr. Hann sagði til áherslu 1000 millj., milljarður, þá átti hann við gkr. Hvernig svo sem hv. þm. reiknar þetta út er þetta alger fjarstæða — við fáum kannske að heyra síðar hvernig hann reiknar þetta út — því að ég vil gefa þær upplýsingar hér, að þótt allur kostnaður við byggingu og gangsetningu verksmiðjunnar og byggingarkostnaður hafnarinnar að Grundartanga sé reiknaður til núverðs verður þessi fjárfesting ekki hærri en rúmar 3 millj. kr. — svo að við tölum á máli hv. 4. þm. Norðurl. e. og notum gkr. — ekki hærri en 300 millj. gkr. Þótt bætt sé við hluta hins fasta afls í Hrauneyjafossvirkjun af heildarkostnaði hennar, eins og hún er ráðgerð, hækkar sú fjárfesting þennan kostnað á starf ekki nema um 1 millj. kr. eða 100 millj. gkr.

Það er talin nothæf svokölluð þumalfingursregla, að hvert starf í framleiðsluiðnaði af því tagi, sem um er að ræða í Grundartangaverksmiðjunni, leiði með ýmsum hætti af sér fjögur störf, auk þeirra verkefna sem sjálfur rekstur slíkrar verksmiðju skapar. Þegar í hlut á verksmiðja sem .þarfnast svo mikilla flutninga á sjó sem Grundartangaverksmiðjan má vænta þess, að þessi margfeldisáhrif séu enn þá meiri. Raunar liggur fyrir að samningar Járnblendifélagsins við íslenskt skipafélag um hráefnisflutninga eingöngu hafa frá og með maímánuði n. k. lagt grundvöll að störfum 65 sjómanna á farskipum við flutninga, ýmist hérlendis eða fyrir erlenda farmflytjendur. Þetta er raunveruleikinn. Ég innti hv. 4. þm. Norðurl. e. eftir því, hvernig hann rökstyddi þá fullyrðingu sína sem hann kom með í máli sínu áður, að hvert starf kostaði 1 milljarð gkr. Mér finnst ekki nema sanngjarnt, þegar þessi hv. þm. er að óska eftir þess konar þjónustu af minni hálfu, að hann verði nú við þessu og skýri þetta nánar.

Þá var það annað sem hv. þm. ræddi sérstaklega um, og það var verðið fyrir orkuna til ÍSALs, þetta gamalkunna umræðuefni. Ég sagði áðan að mál þessa hv. þm. hefði einkennst af misskilningi á því máli sem við erum hér að fjalla um. Allt hans tal um orkuverðið ber vott um þennan misskilning. Það er ýmislegt sem við skulum hafa í huga þegar við ræðum um verðið á orkunni til álverksmiðjunnar. Við getum t. d. haft það í huga, að þegar þessir samningar voru gerðir var ekki mikið talað um hækkandi orkuverð eða þverrandi orkulindir í heiminum, sú umræða kom til síðar. Orkuverðið til álversins hefur verið ágreiningsmál. En það ætti ekki að vera mjög erfitt að átta sig á þessu máli, ef menn vilja það. Það verður að hafa viss atriði í huga varðandi þetta mál. Það verður að hafa í huga að orkusala til álversins var forsenda þess, að hægt var að virkja jafnstórt og jafnódýrt við Búrfell eins og gert var. Þröngsýnni stjórnmálamenn vildu hins vegar miða stærð virkjunarinnar við 70 mw. í stað 210 mw. eins og varð ofan á. Það verður líka að hafa í huga, að ÍSAL kaupir raforku í heildsölu fram hjá dreifikerfi hins almenna notanda, en dreifikerfið, sem er mjög kostnaðarsamt, er einn helsti verðþáttur smásölunnar. Það er fleira sem við þurfum að hafa í huga. Við þurfum að hafa í huga að ÍSAL nýtir orku allan sólarhringinn allt árið og er skuldbundið til að greiða fyrir hana án tillits til þess, hvort unnt er að nota hana eða ekki. Þetta skyldu menn hafa í huga.

Á þeim tíma, sem liðinn er frá því að Búrfellsvirkjun hóf rekstur, nema tekjur frá ÍSAL um 56% af öllum rekstrarkostnaði ásamt lánagreiðslum vegna Búrfellsvirkjunar. Búrfell er talið geta skilað 250 mw. í afli að staðaldri, en ÍSAL hefur á umræddum tíma notað u. þ. b. 140 mw. af því afli eða um 65%, notað 65%, en greitt af rekstrarkostnaði og lánagreiðslum 56.6 fram til ársins 1980. En á tímabilinu frá 1969 til 1994, þ. e. frá því að Búrfellsvirkjun tekur til starfa og þar til rafmagnsverð til ÍSALs verður endurskoðað samkv. samningi, –á þessum tíma gera tekjur frá ÍSAL meir en að greiða upp allan kostnað við Búrfellsvirkjun. ÍSAL greiðir eitt um 104 millj. dollara umfram allan fjármagnskostnað og rekstrarkostnað Búrfellsvirkjunar. Það er athyglisvert, að tekjur frá ÍSAL samkv. þessum útreikningi eru um 70% af samanlögðum tekjum á tímabilinu 1969–1994, og sé miðað við aflúttekt 160 mw. hjá ÍSAL er það mjög nálægt því að vera sama hlutfall af aflgetu Búrfellsvirkjunar, um 70% í báðum tilfellum. En þetta — ég bið menn að athuga — er einungis á 25 árum, raunveruleg ending mannvirkjanna er mun lengri. T. d. má reikna með að Búrfellsstöð og miðlunarmannvirki í Þórisvatni endist í a. m. k. 80 ár, og önnum þau mannvirki, sem talin eru til Búrfellsvirkjunar, geta enst í a. m. k. 40 ár. (StJ: Sérstaklega þegar jarðskjálftinn kemur.) Athygli vekur að fjárfestingin í Búrfellsvirkjun er meira en að fullu greidd á aðeins 25 árum með tekjum frá ÍSAL eingöngu, en að auki gefur fjárfestingin af sér verulegar fjárhæðir til viðbótar frá almenningsveitum. Ég vil biðja menn að taka eftir að í þessum áætlunum er miðað við að tekjur frá ÍSAL og almenningi aukist um 8% ár ári í dollurum talið. Verið getur að þetta muni reynast mun lægra, en jafnvel þó svo yrði er greinilegt að reikna má með því, að tekjur frá ÍSAL á þessum fyrstu 25 árum rekstrar þess fyrirtækis — með óbreyttum rafmagnssamningi — nægir Landsvirkjun til þess að greiða allan stofnkostnað Búrfellsvirkjunar og allan reksturskostnað þeirra mannvirkja að auki þetta tímabil. Þar sem orkuverð í heiminum er alltaf að hækka fer orkuverðið til ÍSALs að öllum líkindum lækkandi í samanburði við það sem almennt gerist annars staðar. Telja verður því líklegt að ná megi samningum við ÍSAL um hærra orkuverð en núverandi samningar segja fyrir um. Náist það fram, eins og við öll vonum, batnar afkoma Landsvirkjunar enn frá því sem nú er áætlað og ég hef gert grein fyrir.

Ég sé ekki ástæðu til þess að svara tali hv. 4. þm. Norðurl. e. um orkuverðið til ÍSALs frekar en ég hef gert með þeim upplýsingum sem hér hafa komið fram. Hv. 4. þm. Norðurl, e. klykkti út í ræðu sinni með því, að hann mundi greiða atkvæði gegn framkvæmdum í virkjunarmálum ef það þýddi orku til stóriðju. Þessi hv. þm. lýsir því yfir, að hann vilji ekki hagnýta auðlindir þær, sem við eigum í orkulindum, með því að flytja orkuna út í formi iðnaðarvöru. Já, ekki er það gott. Ég held að það þurfi ekki að ræða frekar um þetta. En lengi getur illt versnað, og þá er ég kominn að hv. 11. þm. Reykv., Ólafi Ragnari Grímssyni.

Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson þusaði í ræðu sinni mikið um það, að þetta frv. sem hér er til umr., væri — eins og hann orðaði það — botnlaust. Hann margtók fram að það væri botnlaust. (ÓRG: Það er rétt.) Og enn heldur hann sér við sama heygarðshornið. En ég hef skýringu á því, hvers vegna hv. þm. segir þetta. Hann botnar nefnilega ekki sjálfur í málinu. Það getur ekki verið nein önnur skýring. (Gripið fram í: Hvar er botninn í því?) Hv. þm. sagði það margoft í ræðu sinni, að ekki væri minnst í frv. og ekki heldur í grg. eða framsögu minni fyrir málinu á nýtingu orkunnar. Ég vil ekki gera hlut þessa hv. þm. minni en vert er. Ég held að hv. þm. hafi ekki verið viðstaddur þegar ég flutti mína ræðu og þess vegna geri hann sér ekki fyllilega grein fyrir þessu. Slíkt getur alltaf komið fyrir. En ég lagði mikla áherslu á þetta og þetta var stór þáttur í minni ræðu varðandi nýtinguna. Það hlaut svo að verða, vegna þess að það er tómt mál að vera að gera tillögur um allar þessar virkjunarframkvæmdir ef menn gera sér ekki grein fyrir hvernig á að nýta orkuna. Ég ræddi ítarlega um orkuáætlunina sem orkunefnd Orkustofnunar hefur gert og liggur fyrir. Ég skýrði þá áætlun, kom með nokkra, að ég ætla, rökstudda gagnrýni á þá áætlun í þá átt að hún væri of lág. En ég lagði áherslu á það, að hvað sem þessu liði væri það höfuðatriði og forsenda fyrir svo miklum framkvæmdum í orkumálum sem hér er gert ráð fyrir að hafa markað fyrir orkuna.

Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson skellti sér í þessu sambandi út í járnblendiverksmiðjuna á Grundartanga. Hann sagði í ræðu sinni í háðungarskyni að stóriðja væri „lausnarorðið“ hjá okkur, sem stæðum að þessu frv., og við sæjum hvað það þýddi með því að líta á málefni járnblendiverksmiðjunnar. Hv. þm. fór mörgum orðum um hve hörmulega það fyrirtæki stæði. Það er rétt, eins og ég hef áður getið hér um, að það varð rekstrartap á s. l. ári og það verður rekstrartap í ár. En greiðslulega stóð reksturinn hins vegar í járnum s. l. ár og það eru allgóðar vonir um að svo verði einnig í ár. Bygging verksmiðjunnar hefur gengið afar vel og tækjabúnaður reynst með ágætum. Gangsetning tókst með eindæmum vel og framleiðslugeta verksmiðjunnar hefur reynst meiri en vænst var. (StJ: Sérstaklega nú í vetur.) Allt þetta mun hafa jákvæð áhrif á afkomu verksmiðjunnar. Hins vegar hefur að undanförnu verið þröng á stálmarkaðinum. Framleiðslan hefur dregist saman í þeim efnahagssamdrætti sem gert hefur vart við sig víða um lönd. Þess er ekki að vænta við þessar aðstæður, að nýbyggð járnblendiverksmiðja, sem þar að auki hefur vegna orkuskorts enn ekki getað framleitt með fullum afköstum, geti verið fær um að skila hagnaði á sama tíma. En verksmiðjan hefur til þessa getað forðast umtalsverðan greiðsluhalla af rekstri þrátt fyrir ýmsan mótbyr og það út af fyrir sig er talsverður árangur.

Eigum við að leggja árar í bát með þennan rekstur vegna þess að það hefur verið verðfall á framleiðsluvörum undanfarna mánuði? Ef menn telja það, á þá yfirleitt að fylgja þeirri reglu þegar það verður verðfall? Hefðum við 1930, þegar mikla verðfallið varð á saltfiskinum, átt að hætta að draga þorsk úr sjó og verka saltfisk? Hefðum við átt að hætta að framleiða fiskmjöl eða lýsi af því að það koma ár þar sem er markaðsfall og stundum verðfall, stundum stórkostlegt) Nei. (StJ: Við áttum ekki að byggja verksmiðjuna þarna.) Með sama rétti getur hv. þm. sagt: Við hefðum aldrei átt að draga þorsk úr sjó og salta hann af því að það hefur verið verðfall. Nei, þetta mál er ekki eins einfalt eins og hv. 11. þm. Reykv. og hv. 4. þm. Norðurl. e. halda (StJ: Við hefðum sjálfir annast söluna og átt sölusamtökin í fiskafurðunum.) Já, við höfum átt það sjálfir. Við eigum sjálfir 55% í Grundartangaverksmiðjunni. (StJ: Hvað eigum við í markaðsaðilanum?) Ég hef ekki handbærar tölur um það, en við erum að byrja á þessari braut. Við eflumst með hverju ári í reynslu á þessu sviði. Það er það sem ég og hæstv. iðnrh. byggjum á þegar við erum sammála um að hér eigi að koma meiri stóriðja.

Hv. 11. þm. Reykv. fór mörgum orðum um það, að ég hefði ekkert talað um hvers konar stóriðja ætti að fylgja þessum virkjunum. Hann fór mörgum orðum um það. Þetta kann að vera eðlilegt af því að hann hlustaði ekki á framsöguræðu mína, en það má heita að helmingurinn af framsöguræðu minni hafi verið einmitt varðandi forsendur frv., stóriðju o. fl. Og auðvitað ræddi ég ýmsa möguleika. Ég talaði um hagnýtingu orkulindanna til gjaldeyrisöflunar í formi útfluttrar vöru, eins og ég lagði áherslu á fyrr í máli mínu núna. Ég talaði um ál, kísiljárn, aðrar tegundir af járnblendi, magnesíum. Ég talaði um að við þyrftum að vera viðbúnir að hagnýta orkulindir landsins til framleiðslu innlends eldsneytis, o. fl. Þetta veit ég að við hæstv. iðnrh. erum alveg sammála um. Hann gerði enga aths. við þetta í máli sínu og ég átti ekki heldur von á því. (ÓRG: Spurningin var hvaða framleiðsla hv. þm. teldi að væri arðbær.) Ég tók fram að ég væri ekki með tillögur núna um ákveðin fyrirtæki eða ákveðna framleiðslu, — ég væri ekki með það núna. Og hvers vegna er ég ekki með það núna? Er hv. 11. þm. Reykv. búinn að gleyma því, að þetta er frv. um byggingu orkuvera? Þetta er ekki frv. um stóriðju. Stóriðja hefur aldrei verið ákveðin og lögbundin í sömu lögum og virkjanir. Heimildin fyrir Búrfellsvirkjun var gefin 1965 í lögum um Landsvirkjun, en lögin um álbræðsluna voru ekki sett og samningar um hana ekki gerðir fyrr en 1966. Lögin um heimild til Sigölduvirkjunar voru samþykkt 1971. Það var ekkert um Grundartangaverksmiðju í þeim lögum það kom mörgum árum síðar. Dettur hv. 11. þm. Reykv. í hug að það sé bæði af formástæðum og efnisástæðum nokkurt vit í því að gera tillögur í þessu frv. um ákveðnar framkvæmdir í stóriðjumálum? Hefur hv. þm. ekkert fylgst með því, að hæstv. iðnrh. segir að það hafi farið fram umfangsmikil athugun á því, hvað eigi að gera í þessum efnum? Á ég að minna hv. 11. þm. Reykv. á það, að við sjálfstæðismenn höfum borið fram á þessu þingi þáltill. um stefnumótun í stóriðjumálum þar sem gert er ráð fyrir að skipuð sé sérstök nefnd eða kosin af Alþingi til þess að vinna stöðugt að þessu verkefni? Þetta er ekki dægurmál. Það er furðulegt hvernig skýtur upp í málflutningi þessa hv. þm. misskilningi varðandi stóriðjumál.

Ég sagði að hv. þm. hefði ekki hlýtt á mína ræðu. En ég man ekki betur en hann hlýddi á ræðu hv. 4. landsk. þm., Salome Þorkelsdóttur, og hún lagði einmitt áherslu á sumt og flest af því mikilvægasta varðandi þessi mál.

En þá kem ég að því sem hv. 11. þm. Reykv. ræddi um og gerði það svo ítarlega og svo ítrekað að það má segja sem svo að það hafi verið þungamiðjan í ræðu hv. þm. Þar á ég við það er hann talaði, eins og hann orðaði það, um pólitíska snilli mína, sem hann kom ítrekað að. (ÓRG: Það getur vel verið að það sitji ofarlega í huga hv. þm., en ég nefndi þetta bara einu sinni.) Það er ekki rétt. (ÓRG: Ég nefndi það einu sinni í aukasetningu. En ég skil vel að það skuli vera stórt í huga hv. þm.) Já, ég segi, það er ekki rétt, og ég gæti hér lesið það upp og þá kæmi fram að það er rétt sem ég er að segja. En þetta er ekki aðalatriðið.

Ég tel að ég hafi engan sóma af því sem hv. þm. var að ætla mér, því að hann er að tala um pólitíska snilli mína í að plata mína flokksmenn í þessu máli. (ÓRG: Það var greinilegt af ræðu Egils Jónssonar, að hann hafði verið plataður.) Jahá, nú bætir hv. þm. allgráu ofan á svart þegar hann segir þetta. En maður sér nú bara inn í hugarfylgsni þessara mann í Alþb. og sér, hvers konar ástand ríkir í þeim herbúðum, þegar talað er um að það sé snilli að plata félaga sinn í flokknum eða félaga sína. (ÓRG: Þá áttu ekki að gera það.) Nei, það er — (ÓRG: Það á bara við um Sjálfstfl. eins og alkunnugt er.) Þetta er náttúrlega algerlega úr lausu lofti gripið. Hv. þm. var að nefna hv. þm. Egil Jónsson. Ræða hans fól í sér greinargott yfirlit um þessi mál, sem varða þetta plat sem hv. þm. er að bera upp á mig.

Hv. 11. landsk. þm., Egill Jónsson, minnti á það, að allt frá 1973 hefði það verið stefna sjálfstæðismanna að það færi saman virkjun á Austfjörðum og stóriðja. Og svo hefur þessi hv. þm., 11. þm. Reykv., kokhreysti til þess að halda því fram, að ég hafi núna á síðustu dögum eða vikum komið þessari stefnu til leiðar í því frv. sem við nú ræðum. Hver getur tekið slíkt alvarlega? Og þó talaði hv. þm. svo eftir að hv. þm. Egill Jónsson var búinn að lýsa því hver samstaða væri í sveitarfélögum á Austfjörðum um þetta mál, að saman færu virkjanir og stóriðja. Plataði ég sveitarstjórnir á Austfjörðum í þessu máli? Hv. þm. Egill Jónsson gat þess, að meira að segja þm. Alþb. á Austfjörðum hefðu á Vopnafjarðarfundinum, sem fjallaði um þetta mál, ekki verið á móti því, að það færi saman stóriðja og virkjanir á Austurlandi, og annar hefði meira að segja greitt atkv. með því, hinn setið hjá. Plataði ég þessa hv. þm. til þess að gera þetta? Nei, hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson. Það stoðar ekki að vera með slíkar fullyrðingar sem þessar. Þetta mál, sem hér er á dagskrá, er þess eðlis, að svona fleipur er ekki samboðið umræðum um það. (ÓRG: Hefur það ekki verið krafa Egils Jónssonar, að Fljótsdalsvirkjun yrði næsta virkjun? Vill þm. svara því, hefur það ekki verið krafa Egils Jónssonar?) Ég er margbúinn að lýsa því, að það er krafa okkar flm. allra að hafist verði handa við öll verkefnin strax, hvort sem það er í formi undirbúnings að virkjunum eða framkvæmda: (Gripið fram í: Allt í gangi?) Já, allt í gangi. (ÓRG: Það er bara stórt skilyrði fyrir Fljótsdalsvirkjun.) Og það er skilyrði fyrir því, að hægt sé að ljúka þessum verkefnum á þeim tíma sem við gerum ráð fyrir — (Gripið fram í.) — Forseti: Má ég biðja hv. þm. að hafa ekki samtöl.) — að markaðurinn sé tryggður áður. Ég hef lýst því í framsögu fyrir þessu máli, að þegar ég væri að tala um að það ætti að hefjast handa hvar sem hægt væri um undirbúning og framkvæmd, þá þyrfti að leggja áherslu á að finna markaðinn, ákveða markaðinn. (Gripið fram í.) Já, finna markaðinn, ákveða markaðinn. Er þetta ekki skýrt? (StJ: Jú, jú, við erum að byrja að fylgjast með.) Það segir í frv., að ekki sé hægt að byrja framkvæmdir fyrr en markaður hefur verið tryggður. Ef menn skilja mælt mál og ef menn geta lesið, þá þyrftu þeir ekki að vera að spyrja um þetta. En ég hef lagt áherslu á að það ætti að flýta svo öllum undirbúningi undir Fljótsdalsvirkjun að það ætti að fara þá leið, sem farin var við Búrfellsvirkjun, að ljúka verkhönnun og útboði á verkinu jafnvel þó að ekki væri búið að ganga endanlega frá markaðnum. Ég ætla ekki að fara að endurtaka framsöguræðu mína hér, þó að ég virðist þurfa að gera það vegna þessara tveggja hv. þm., hv. 11. þm. Reykv. og hv. 4. þm. Norðurl. e., en ég ætla ekki að gera það.

Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson sagði í ræðu sinni að hæstv. iðnrh. viðhefði vönduð vinnubrögð til undirbúnings virkjunarmálum, — vönduð vinnubrögð. En öll ræða hv. þm. gekk út á það að sýna fram á hve frv. það, sem hér er til umr., væri óvandað og málflutningur okkar flm. í þessu máli. En ég held að það séu ekki margir sammála hv. 11. þm. Reykv. í þessu efni. Ég held að hann rói nokkuð einn á báti í þessu. Meira að segja hv. 4. þm. Norðurl. e. sagði þetta aldrei. Ég skal nú taka vitni um þetta og það er Þjóðviljinn. Ég held að menn geti verið sammála um það, að vitnisburður Þjóðviljans ætti ekki að vera mér hagstæður í þessu efni ef ekki væru efnisástæður fyrir því. Ég leyfi mér að lesa hér úr leiðara Þjóðviljans 19. mars s. l., með leyfi hæstv. forseta. Það er leiðari um þetta frv. og þar stendur m. a.:

„Það er rætt um að hraða undirbúningi og framkvæmdum eins og kostur er, að framkvæmdir megi ekki hefjast nema fyrir liggi nákvæmar áætlanir um orkuverin og að ýmsum skilyrðum hafi verið fullnægt. Ekki verður annað séð en hér sé verið að lýsa stuðningi við þá stefnu Hjörleifs Guttormssonar iðnrh. að undirbúa af kostgæfni áætlanir um virkjanir og nýtingarkosti.“

Ég held að þetta tal allt um óvandaðan undirbúning þessa máls hjá hv. 11. þm. Reykv. falli um sjálft sig og sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um það.

Herra forseti. Ég skal nú fara að stytta mál mitt. Ég hef nú hér, þar sem ég hef vikið að ræðum manna í þessum umr., leitast við að taka það sem mér hefur fundist helst bitastætt og mér hefur virst vera aðalatriðin. Það væri hægt að svara mörgu öðru, sem hér hefur verið kastað fram, en ég ætla ekki að gera það. Ég verð að segja það, að afstaða hv. 4. þm. Norðurl. e. og 11. þm. Reykv. er, eins og ég orðaði það, menguð skoðunum þeirra og áliti á stóriðju. Þessar skoðanir eru þannig að manni koma til hugar hindurvitni og hjátrú. Við munum það, að í þjóðsögunum er stundum talað um fyrirbæri sem nátttröll heita. Þau þoldu ekki dagsbirtu né að sólin skini á þau, þá urðu þau að steini. Mér hefur fundist í þessum umr. að þessu væri nokkuð svipað farið með þessa tvo hv. þm., að þeir þyldu ekki að skýrt væri fyrir þeim og þeir væru upplýstir um stóriðju og orkufrekan iðnað því að þeir yrðu þá að steingervingi og rökheldir í þessu máli. (ÓRG: Við óskuðum eftir upplýsingum frá þm. sem ekki hafa komið fram í svari hans.)

En ég vil að lokum leggja áherslu á þá samstöðu sem er um þetta mál og hefur komið fram í þessum umr. Ég minni á það, að Sjálfstfl. allur stendur að þessu frv., jafnt þeir sem eru í stjórnarandstöðu og þeir sem styðja ríkisstj. (StJ: Það eru fréttir.) Og ég veit ekki betur en hæstv. forsrh. og samráðherrar hans úr Sjálfstfl. séu sammála þeirri meginstefnu sem kemur fram í þessu frv. (Gripið fram í: Hvar er plagg um það?).Hv. þm. getur spurst fyrir um stuðning við þetta mál í sínum herbúðum, en ég er að segja þetta núna og heyrir ekki hv. þm. það?

Það kom fram í umr. áðan, að Alþfl. er sammála meginstefnu þessa frv. Það kom fram í umr. um þetta mál s. l. mánudag, að hæstv. viðskrh. er sammála meginstefnu þessa frv. Hann talaði svo fagurlega fyrir frv. að ég hefði ekki geta bætt þar um. Og ég hef ekki ástæðu til að ætla annað en að sú afstaða, sem hæstv. viðskrh. lýsti hér, sé sú afstaða sem Framsfl. hefur til þessa máls. (StJ: Þá verður það samþykkt.) Kemur hv. þm. það nokkuð á óvart, það er furðulegt. Ég held að ef við lítum gaumgæfilega á það sem hæstv. iðnrh. hefur sagt í þessum umr., þá skyldi enginn ganga út frá því, að þessi stefna yrði ekki samþykkt.

Hæstv. iðnrh. var á sinn hátt jákvæður til þessa máls. Hæstv. iðnrh. hefur oft verið jákvæður til tillagna sem ég og fleiri sjálfstæðismenn höfum verið með í orkumálum, þó að það hafi stundum verið meira í orði en á borði, af hverju sem það er nú. Mér finnst að við hæstv. iðnrh. tölum ekki neitt framandi mál hvor við annan í þessum efnum. Og hæstv. iðnrh. lauk sinni ræðu með því að segja að það yrði lítið á þetta frv. jafnhliða, eins og hann orðaði það, og till. ríkisstj. í málinu. Ég vil nú leyfa mér að skora á hæstv. iðnrh. að beita sér rösklega í þessu máli og láta dragsúginn í deildinni, sem hér hefur komið fram í dag og er úr hans herbúðum, ekki hafa nein áhrif á sig. Ég skora á hæstv. ráðh. að halda með djörfung á þessu máli og láta það m. a. ekki henda, að nú verði vikið frá þeirri stefnu sem Sverrir Hermannsson markaði þegar 1973 og sveitarfélögin á Austfjörðum hafa markað og samtök þeirra, um að saman fari á Austfjörðum stóriðja og stórvirkjun. Allt annað væru svik við Austfirðinga og ég vil ekki ætla hæstv. ráðh. slíkt.