01.04.1981
Efri deild: 70. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3257 í B-deild Alþingistíðinda. (3376)

258. mál, ný orkuver

Sigurlaug Bjarnadóttir:

Herra forseti. Það er að vonum að umr. um orkumál séu nokkuð tímafrekar á Alþingi, svo mikið stórmál sem hér er annars vegar. Svo virðist sem þessi stóri og viðurhlutamikli málaflokkur sé í einhvers konar úlfakreppu um þessar mundir, og ég verð að segja það, að sem almennur borgari miklu fremur en stjórnmálamaður hefur manni fundist á þessum liðna og stríðlynda vetri — maður hefur fundið til óþægindatilfinningar þegar dunið hafa yfir fregnir af orkuskorti og orkuskömmtun vegna þeirrar óvissu sem ríkir um framvindu í þessum mjög svo viðurhlutamiklu málum. Ég hlýt að taka undir heils hugar með þeim þm. Sjálfstfl., allir munu þeir raunar vera, sem standa að því máli sem hér er raunverulega til umr., frv. til l. um byggingu þriggja orkuvera. Þar er, eins og á hefur verið bent, ekki tekin afstaða til hvert þessara þriggja orkuvera skuli hafa forgang. Þar skal byrja á öllu í einu, eins og hv. flm. 4. þm. Vestf., hefur minnst á, og hann hefur skýrt hvað hann á við með því. Þar er ekki átt við eiginlegar framkvæmdir heldur undirbúning að öllum þessum þremur framkvæmdum. Mér sýnist almenn skynsemi mæla með því, að það verði byrjað að framkvæma það sem fyrst er hægt að framkvæma, hvað sem líður ákveðnum og mjög skiljanlegum óskum manna úr þeim þremur kjördæmum sem þarna eiga hlut að máli.

Það er ekki óeðlilegt, að inn í þessar umr. um orkumál blandist umr. um stóriðju. Þetta er eitt af þeim stórmálum varðandi okkar atvinnuuppbyggingu, sem ekki verður gengið fram hjá, og ég hlýt að segja að margir Íslendingar, sem hugsa í alvöru um þessi mál, hljóta að vera haldnir nokkrum ugg út af þeirri dæmalausu afturhaldssemi, og þröngsýni sem ræður innan þess flokks sem nú fer með orkumálin í hæstv. ríkisstj. Ég er sannfærð um að hæstv. iðnrh. er allur af vilja gerður til þess að taka ákvarðanir sem að haldi mega koma í þeim stóra vanda sem við stöndum frammi fyrir í orkumálum, en það hlýtur að vekja nokkra undrun, að eiginlega var niðurstaða af hans ræðu hér um daginn um þetta mál — hann dró að vísu nokkuð í land nú í dag — þá fannst mér að niðurstaðan væri þessi: að við förum okkur nógu hægt. Þetta kalla ég hættulegt rólyndi með tilliti til aðstæðna eins og þær eru nú.

Stóriðja er grýla í augum Alþb.-manna frá upphafi. Sjálf hef ég verið þannig stemmd gagnvart þessu máli, að ég held að ef okkur er alvara að skapa atvinnuöryggi í okkar landi og umfram allt að stuðla að fjölbreytni í okkar atvinnulífi, þá komumst við einfaldlega ekki hjá því að nýta okkar orkulindir stórt, þannig að orkufrek iðja hljóti að koma til. Ég er hins vegar alveg sammála þeim sem vilja fara af fullri gát og forsjálni í samningum við útlenda aðila um uppbyggingu orkufrekra fyrirtækja. Það segir sig sjálft að þar ráða beinhörð viðskiptasjónarmið sem taka ekkert tillit til óska smámenna eins og okkar norður á hjara heims, og ég hef ekki getað sannfærst um að við höfum ekki samið af okkur með Búrfellssamningnum. Þar á ég einfaldlega við orkuverðið, sem er lægra og náttúrlega núna orðið úr öllu hófi lágt. En því er svarað til og það eru vissulega nokkur rök, að enginn gat séð fyrir þá byltingu í orkuneyslumálum heimsins sem nú er komin á daginn. Það, sem auðvitað vantaði inn í samninginn við Alusuisse, var endurskoðunarákvæði um orkuverðið að breyttum aðstæðum. Þetta höfum við lært af reynslunni. Og ég vil leggja áherslu á að þó að við viljum fara varlega og gæta okkar aðstæðna sem smáþjóðar gagnvart margfalt stærri aðilum, þá megum við auðvitað varast að láta minnimáttarkennd, einangrunarstefnu og einhvern hérahátt gagnvart útlendingum ráða ferðinni í þessum málum. Við hljótum að vera menn til þess að semja okkur í hag, og ég er sannfærð um að við höfum lært af reynslunni þegar við sömdum um þetta lága orkuverð við virkjun Búrfells og stofnun álverksmiðjunnar. Hitt gleymist auðvitað, sem er meginmál, hjá þeim Alþb.-mönnum, þegar þeir hamra á hvílíkur baggi álverksmiðjan sé á okkur, og það kom raunar fram hjá hv. 1. flm., að þarna er að miklum hluta til um umframorku að ræða, sem ekki mundi nýtast okkur ef þarna væri ekki fyrirtæki sem nýtti orku á nóttu jafnt sem degi.

Það, sem var eiginlega aðaltilefni þess að ég kem hér upp, er eitt atriði í samningnum við ÍSAL um álverið og það var þetta, að ég man ekki betur — nú hef ég ekki flett þessu upp nýverið — en þar hafi verið gert ráð fyrir því beinlínis, að stofnað yrði í sambandi við álverið í framtíðinni til smærri iðnaðar sem nýtti hráefnið, — álið sem verksmiðjan framleiðir. Mér hefur alla tíð fundist þetta mjög svo álitlegt ákvæði, og nú spyr ég hæstv. iðnrh.: Hefur þetta ákvæði ekki verið haft í huga og hefur ekki verið athugað hvort nokkrar leiðir væru til þess að þrýsta á álverið og Alusuisse um að standa við bakið á okkur við að koma upp smærri vinnsluiðnaði úr álinu sem verksmiðjan framleiðir? Það fer ekki hjá því að maður hugsi um þetta, ekki síst með tilliti til þess, að nú má segja að annað hvert hús á Íslandi sé klætt áll. Þarna er kominn stór markaður hér á landi fyrir ál og það er, að ég hygg, að mestu leyti flutt frá Noregi. Það virðist í fljótu bragði eðlilegt að við athuguðum hvort ekki væri grundvöllur til þess að við hyggðum á stofnun verksmiðju sem framleiddi þetta húsaál til klæðningar. Ég held að við verðum endilega að líta á jákvæðu hliðarnar á þessu máli og ekki sífellt sífra um hvað Alusuisse sé vont við okkur og vilja pretta okkur og svindla á okkur. Eins og ég sagði, stórfyrirtæki eru til alls vís, hvort sem Alusuisse eða aðrir eiga í hlut, og við verðum að vera vel á verði. Ég beini þessari spurningu beint til ráðh., hvort ekki sé hugsanlegt að þarna getum við krækt okkur í feitan bita til þess að auka á þann hagnað sem við óneitanlega höfum af álverksmiðjunni. Það eru rök sem ég hygg að verði ekki hrakin, að við værum sennilega ekki búin að byggja Búrfellsvirkjun í dag ef álverið hefði ekki komið til til þess að borga niður stofnkostnað af virkjuninni.

En það er með þennan íslenska smáiðnað, sem Alþb. menn og raunar framsóknarmenn tala mikið um, að mér finnst hann hljóma ákaflega vel í eyrum. Við viljum auðvitað helst vera sjálfum okkur nóg og þurfa ekki að leita nema sem minnst til erlendra aðila til að byggja upp okkar atvinnulíf. Hins vegar ítreka ég það, að hræðsla við erlent fjármagn er auðvitað stórháskaleg og getur staðið okkur fyrir þrifum í okkar atvinnuuppbyggingu. Það er nú svo, að þegar ég hef spurst fyrir um þetta ákvæði áður í álsamningnum, hvort við gætum ekki nýtt álið til frekari vinnsluiðnaðar, þá er jafnan svarað: Jú, við gætum sjálfsagt farið út í að smíða potta og pönnur úr áli og sitthvað fleira, en markaður okkar er allt of lítill til að standa undir slíkum iðnaði, við þyrftum að flytja út, og hvar erum við þá komin með okkar óðaverðbólgu í 60%, sem er kannske fimmföld á við það sem gerist mest í nágrannalöndum okkar?

Það hefur líka verið kvartað yfir því í sambandi við þetta frv. og málflutning sjálfstæðismanna í því sambandi, að það væri ekki bent á nein ákveðin fyrirtæki sem ætlunin væri að nýta skyldu orku þessara þriggja stóru orkuvera. Mér finnst þetta eðlileg aths. En þá má í staðinn benda þeim á, sem nú ráða ferðinni í iðnaði og orkumálum, að það er varla von að við séum vel á vegi stödd með það m. a. fyrir augum, að það varð eitt fyrsta verk þeirra manna, sem nú ráða ferðinni á þessu sviði, að leggja niður svokallaða stóriðjunefnd, sem var til þess ætluð að hafa vakandi auga á möguleikum á þessu sviði, um samninga við erlenda aðila til þess að standa að uppbyggingu orkufreks iðnaðar.

Við erum fjarskalega verkasmá með okkar 220 þús. hræður hér í okkar landi og fjármagnsþörfin æpir á okkur úr öllum áttum. Og hver er reyndin af þessum fyrirtækjum sem við höfum verið að baslast við að koma upp? Sykurverksmiðja í Hveragerði er búin að vera á döfinni núna í meira en hálfan áratug. Stálbræðsla er búin að vera á döfinni í 10–20 ár, en er nú loksins góðu heilli að komast af stað. Steinullarverksmiðjur tvær eru í deiglunni og það er deilt um þær og togast á fram og til baka. Hvað tekur það okkur langan tíma að koma upp svona fyrirtækjum? Það gengur fjarskalega hægt. Og það er greinilegt, að þess konar verksmiðjur, sem hér eru annars vegar, gegna alls ekki því hlutverki að nýta orku frá stórvirkjun. Þær eru ekki nógu orkufrekar, nema þær væru þá margfalt fleiri en þær eru nú og uppbygging þeirra gengi margfalt hraðar.

Það má svo sem nefna kattarsandinn í Búðardal, en þar er verksmiðja í gangi sem hefur og mun vonandi draga úr innflutningi á rándýrum kattarsandi sem er nokkurs konar toiletvara fyrir ketti. Ég vil lýsa ánægju minni með kattasandinn í Búðardal. En ég á ekki von á því, að þar sé um að ræða mjög orkufrekt fyrirtæki.

Ég skal ekki orðlengja þetta frekar. Hér eru orðnar miklar umr. og ítarlegar, málefnalegar sem betur fer. Ég tók eftir því, að það kvað við allt annan tón í ræðu hæstv. viðskrh. Tómasar Árnasonar hér um daginn heldur en í máli hæstv. iðnrh. Ég hafði á tilfinningunni að hæstv. viðskrh. ætti dálítið bágt, að hann fengi ekki sínum skoðunum á þessu máli framgengt, — skoðunum sem falla mjög saman við skoðanir sjálfstæðismanna — og nú kratanna sem eru sjálfstæðismönnum sammála um flest á þessu sviði. En kannske boðar hún gott, fréttin sem Þjóðviljinn birtir í dag um sólar- og vindorkuvinnslu í Hallgrímskirkju. Það er jafnvel leitað álits sjálfs hæstv. orkumálaráðherra og hann telur að þetta sé góður valkostur. Og hann fer lengra. Hugmyndirnar eru mjög frjóar. Hann talar um að það megi byggja miklar vonir á virkjun Austfjarðaþokunnar og á vindinum í Norðlendingum. Mér varð á að hugsa þegar ég las þetta, að hann þyrfti ekki að fara út fyrir deildina til þess að fá vind til að virkja. Jafnvel í liði flokksmanna sinna hefur hann nóg af slíku. En ég hefði haldið að vatnið í fallvötnunum okkar yrði notadrýgra í reynd heldur en gefið er til kynna í þessari frétt Þjóðviljans sem segir satt alla daga ársins, skulum við ætla.