01.04.1981
Efri deild: 70. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3260 í B-deild Alþingistíðinda. (3377)

258. mál, ný orkuver

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Mér þykir ánægjulegt að vera vitni að málefnalegri umr. eins og ég vil telja þetta innlegg síðasta hv. ræðumanns, þó nokkuð sé liðið á dag 1. aprílmánaðar, og ekki síður að heyra hljómmikla íslensku úr þessum ræðustóli, sem er að vísu yfirleitt mælt úr á góðu máli. En mér þykir vestfirskan, sem hér heyrist á stundum, hljóma vel í mörgum tilvikum og ekki síst hjá hv. síðasta ræðumanni. Og það var fleira sem mér þótti athyglisvert í hennar máli. Það voru þau viðhorf sem þar komu fram varðandi reynslu af orkusölusamningum við útlendinga, — einmitt viðhorf sem ég lét í ljós í ræðu minni fyrr í dag að ég vænti að væru að styrkjast hér innan sala hv. Alþingis, þó að ekki bendi allt, sem hér er sagt, í þá átt, því miður. En ég lét það koma fram fyrr í dag, að ég gerði ráð fyrir að viðhorf innan raða Sjálfstfl. væru nokkuð misjöfn í þessum efnum og það væri ekki mælt fyrir munn allra þegar talað væri um að það væri fyrst þegar Íslendingum yxi fiskur um hrygg að þeir gætu staðið sem eigendur að stórum atvinnufyrirtækjum hér í landinu. Ég held að það sé alveg réttmætt, sem hér kom fram, og fyllilega það, að við þurfum nauðsynlega, Íslendingar, að geta tekið saman þegar við er að eiga stóra og öfluga aðila í samningum um nýtingu á okkar auðlindum, og helst eigum við að geta staðið þannig að málum að við þurfum ekki við þá að semja um atvinnurekstur í landinu, þó að ég útiloki ekki að slík samvinna geti verið okkur hagkvæm í vissum mæli, í vissum tilvikum. Slík viðhorf hef ég látið koma fram hér áður og auk þess er gert ráð fyrir því af okkur Alþb.-mönnum að til slíks geti komið í vissum tilvikum í sambandi við atvinnurekstur og ekki síst þá vegna markaðsmála og slíkra þátta.

Það gætti hins vegar nokkurs misskilnings hjá hv. þm. fannst mér, þegar hann reyndi áðan að réttlæta þann samning, sem gerður var varðandi álverið í Straumsvík, og kom fram með það sjónarmið, að þarna væri um að ræða umframorku sem við ella gætum ekki nýtt, þar sem er orkusalan til álversins. Hefði þessi samningur ekki verið gerður og ef við vorum ekki af honum bundnir og afhentum orku til þessa fyrirtækis, þá hefðum við vafalaust ekki ráðist í einhverjar af þeim virkjunum sem síðar hafa verið reistar og framleiða forgangsorku inn á okkar orkukerfi. Við hefðum trúlega farið okkur hægar, nema við hefðum fetað okkur með öðrum hætti inn á orkunýtingarbraut og fundið aðra möguleika og þá kannske arðbærari möguleika heldur en þessi mjög svo óhagstæði samningur hefur reynst. Ég vil ekki trúa því, þó að ekki hefði komið til samningsins um álverið í Straumsvík, að við værum ekki búnir að reisa myndarlega virkjun á borð við Búrfellsvirkjun þrátt fyrir það að til þess hefði ekki komið. Við höfðum fyrr á árum staðið að tiltölulega myndarlegum virkjunum hér suðvestanlands án þess að slíkir samningar hefðu verið gerðir, — tiltölulega myndarlegum virkjunum í Soginu miðað við efnahagsgetu okkar á þeim tíma.

Það er svo margt sem segja mætti í þessu samhengi, og þetta hefur komið til umr. hér á Alþingi og á væntanlega eftir að verða rætt hér alloft í framtíðinni, þessi mál og þessi samningur við álverið í Straumsvík og nauðsynin á að breyta honum, og við skulum vona að hv. alþm. leggist þar á eina sveif því að það er undir slíkri samstöðu komið að okkur takist að ná þar fram þeim breytingum sem öll sanngirnisrök mæla með að við eigum rétt á.

Ég ætla þá að víkja að fsp. hv. þm. Sigurlaugar Bjarnadóttur varðandi úrvinnsluiðnað úr áli sem allmjög var umtalaðar þegar samningurinn var gerður við álverið í Straumsvík. Það var látið að því liggja og það kom fram í grg. með álsamningnum, að athuga ætti um slíka möguleika. En það voru engin bindandi ákvæði tekin inn í samninginn sjálfan um þetta efni. Því miður, því að reynslan hefur orðið sú, að enginn úrvinnsluiðnaður hefur sprottið upp af þessu fyrirtæki í landinu og það ber vissulega að harma, því að væntanlega hefði þar getað orðið um íslensk fyrirtæki að ræða í úrvinnsluiðnaði. Með þessari ábendingu og fsp. hér hefur hv. þm. vakið athygli á mjög þýðingarmiklu máli í sambandi við uppbyggingu orkufreks iðnaðar hér í landinu sem við þurfum að hafa vel í huga þegar áætlanir eru gerðar þar að lútandi og ákvarðanir teknar, og það varðar einmitt þennan möguleika á að hagnýta sér fyrirtæki á þessu sviði og framleiðslu á þessu sviði til þess að þróa annan iðnað, sem er mannfrekari, ef svo má segja, kallar á meiri starfskrafta en orkufrek fyrirtæki gera, þar sem gífurlegur fjármagnskostnaður liggur að baki hverju starfi. Ég vil taka eindregið undir það viðhorf sem liggur að baki þessari fsp.

En þá komum við að því, hver skyldi vera ástæðan að svo lítið hefur miðað, þrátt fyrir frómar óskir þeirra sem stóðu að álsamningnum á sínum tíma, að ekki hefur meira upp af þessu sprottið í úrvinnsluiðnaði? Ég tel skýringuna vera þá fyrst og fremst, að sá erlendi aðill, sem á þetta fyrirtæki, hefur engra hagsmuna að gæta og hann hefur engan áhuga á því þar af leiðandi að hlúa að íslenskum úrvinnsluiðnaði í landinu. Og þar kemur fram eitt af mörgum rökum fyrir því, að ekki sé vænlegt að standa þannig að atvinnuuppbyggingu. Ef við Íslendingar höfum forræði yfir okkar fyrirtækjum, þar með talið stórfyrirtækjum, þá höfum við jafnframt möguleika á að sveigja þróun þeirra og hagnýta þau til stuðnings annarri atvinnustarfsemi út frá okkar þjóðhagslegu forsendum. Það hefur verið nú nýverið reynt að ýta á íslenska álverið svonefnda að aðstoða við úrvinnslu úr áli. Það er áhugi hjá ýmsum á að slík úrvinnsla geti orðið að veruleika. Ég skal engu spá um það, hvort sá þrýstingur, sem fram hefur komið, og óskir þar að lútandi leiða til betri niðurstöðu en verið hefur til þessa. Óskandi væri, að svo yrði, og iðnrn. hefur á því áhuga að stuðla að því, að slíkur iðnaður geti komist hér á fót, og mun að sjálfsögðu ekki hafna því, að það geti komið til stuðningur frá þessu fyrirtæki í því sambandi þótt erlent sé.

Í málflutningi hv. þm. gætti verulegrar mistúlkunar og misskilnings, að ég tel, á viðhorfum okkar Alþb.-manna til orkufreks iðnaðar og hagnýtingar auðlinda í landinu. Það er talað hér um afturhaldssjónarmið, íhaldssemi, grýlur og annað í því sambandi. Alþb. er ekki andvígt uppbyggingu orkufreks iðnaðar í landinu, það liggur skilmerkilega fyrir í flokkssamþykktum þess. En við höfum sett fram skýr og ákveðin sjónarmið um það, hvernig standa beri að uppbyggingu slíkra fyrirtækja í landinu. Og mér sýnist að í málflutningi hv. síðasta ræðumanns hér hafi einmitt komið fram stuðningur við þessi sjónarmið okkar. Þar voru slegnir mjög sterkir varnaglar í sambandi við þann vanda sem tengist fjármögnun slíkra fyrirtækja, að fara þar að með gát og gæta þess, að við semjum ekki af okkur að svo miklu leyti sem við teljum skynsamlegt að eiga einhver samskipti við erlenda aðila, og auðvitað þurfum við að koma vörum á markað þegar um útflutningsframleiðslu er að ræða, og þar getur samvinna við útlenda aðila verið nauðsynleg og skynsamleg, ekki síst á meðan við erum að öðlast reynslu á þessu sviði og koma hér upp fyrirtækjum sem eru þjóðhagslega arðbær. Það er lítið gagn að því að virkja og tengja virkjanir iðjuverum í eigu útlendinga ef við stöndum þannig að málum að þeir fái orkuna fyrir gjafvirði og þessi fyrirtæki skili ekki þjóðhagslegum hagnaði inn í okkar þjóðarbúskap. Þetta ber einmitt að varast.

Hv. þm. minnti á þá döpru reynslu sem við höfum orðið fyrir á þessum vetri varðandi orkuskort í okkar raforkukerfi. Það er full ástæða til þess fyrir okkur að læra af þeirri reynslu eins og öðru sem við mætum og við teljum okkur mótdrægt. Ég hef óskað eftir því við Orkustofnun, að hún fari ofan í saumana á ástæðunum fyrir þeim vanáætlunum sem segja má að hafi komið í ljós í sambandi við orkuvinnslugetu í okkar landskerfi,a. m. k. miðað við tíðarfar af því tagi sem gengið hefur yfir landið í vetur, og með það í huga að við séum undir það búin í sambandi við okkar raforkuframleiðslu að geta mætt slíku án þess að lenda í óhóflegum tilkostnaði. Hitt skulum við muna, að það getur verið nokkuð dýrt að eiga umframorku í okkar kerfi til þess að grípa til í árum þegar sérstaklega illa stendur á og það kostar mikið að vera með dýra fjárfestingu á undan sér, ef svo má segja, og það er ákveðið reikningsdæmi. Eitt af því, sem þarf m. a. að skýra í sambandi við tilkostnað við raforkuframleiðslu með olíu á yfirstandandi vetri, er það, hvernig þessi kostnaður kemur út og þá að framleiðslu stórrekstrarins meðtalinni eða þeirri skömmtun sem hefur verið til atvinnufyrirtækja í landinu, — hvernig þetta dæmi kemur út í samanburði við hitt, ef við hefðum verið með fyrsta áfanga næstu stórvirkjunar árinu fyrr á ferðinni en ella. Auðvitað hefði það haft útgjöld í för með sér. En við þurfum að gæta þess, að slíkir atburðir, slík staða verði ekki árviss viðburður.

Þess gætir mjög í umr. um frv. sem hér er á dagskrá, að það séu tafir af því að ekki hafi verið teknar ákvarðanir eða aflað heimilda um næstu stórvirkjanir í landinu, næstu virkjanir inn á okkar landskerfi. Ég vék að því um daginn í umr. um þetta mál, að það hafa engar tafir orðið sem leitt hafa af sér að hægar hafi verið farið í undirbúningi, — engar tafir sem rekja má til þess, að ekki liggi fyrir heimildir um virkjanir, nema menn vilji leiða að því líkur að við hefðum ráðstafað verulega meira fjármagni til raforkumálanna á yfirstandandi ári með því að hafa í gangi framkvæmdir við eina virkjun í viðbót. Ég hef satt að segja ekki séð tillögur þar að lútandi. Þær komu ekki fram á síðasta ári, ekki frá stjórnarandstöðunni þá, og ég hef ekki séð þær í sambandi við fjárfestingar- og lánsfjáráætlun á þessum vetri, jafnvel þó að sumir telji að það væri hægt að hefja framkvæmdir við tilteknar virkjanir í landinu ef slíkar heimildir og fjárveitingar væru til. Það hefur þvert á móti verið unnið markvisst að því að undirbúa virkjunarkosti í landinu á undanförnum árum, þannig að við höfum úr fleiri en einum kosti að velja, og það hefur eflaust ýtt undir það að hér koma nú inn tillögur í þinginu, ekki bara um heimildir fyrir eina virkjun, heldur fyrir fleiri virkjanir - og það virkjanir sem eru á svipuðu stigi hvað undirbúning snertir. Ég held að það eigi að vera hv. þm. ánægjuefni, að nú í fyrsta sinn um langt skeið eru að skapast þannig aðstæður vegna þess hvernig staðið hefur verið að málum á undanförnum misserum, að það er hægt að velja úr virkjunarkostum. Við höfum ekki verið í þeirri stöðu á undanförnum árum að slíkt væri gerlegt, og vegna þeirrar stöðu fyrst og fremst hefur þróun mála verið sú, að aðeins hið öfluga orkuvinnslufyrirtæki, sem ætlað hefur verið hlutverk hér suðvestanlands, Landsvirkjun, hefur haft virkjunarkosti undirbúna í tæka tíð þegar þörf hefur verið talin á að taka ákvarðanir. Alþingi hefur ekki tekist að snúa þeirri þróun við fyrr en þá væntanlega nú, að á því verði breyting. Þetta held ég að sé nauðsynlegt að menn hafi í huga, og get ég þó vissulega skilið það, að hv. stjórnarandstöðuþm. reyni að hafa uppi gagnrýni um að ónóg hafi verið að gert í þessum efnum. En ég tel að með skýrum rökum megi sýna fram á það, að að undanförnu hefur verið lögð á það mikil áhersla og varið til þess meira fjármagni en áður, einmitt að undirbúa fleiri en einn kost til þess að hafa úr að velja í sambandi við raforkuöflun fyrir næstu ár.

Svo að endingu, herra forseti, ég vænti þess, að áður en þessu þingi lýkur geti tekist um það þokkaleg samstaða hér á Alþingi að afla heimilda fyrir virkjunum sem ráðist verði í hér á næstu árum. Og varðandi framkvæmdatímann held ég að engum detti í hug, jafnvel ekki þeim sem koma hér með tillögur þar sem allt er í einum bing, ef svo má segja, eins og í því frv. sem hér liggur fyrir, þá held ég að engum detti í hug að við höfum svigrúm til þess í okkar þjóðarbúskap eða skynsamlegt væri að vera með margar virkjanir í gangi, jafnvel þrjár, sem leiða mætti líkur að ef litið er til þess frv. sem hér er til umr., þrjár virkjanir í gangi samtímis, jafnhliða því sem menn væntanlega ætluðu þá að standa í fjárfestingum til þess að koma orkunni frá þeim a. m. k. á markað með aðflutningslínum. Ef menn stefna ekki einvörðungu í erlenda stóriðju, sem sumir hafa nú á óskalista sínum, þá yrðu menn væntanlega að hafa eitthvað aflögu til að byggja upp iðjuver til þess að nýta þessa orku. Við þurfum, jafnhliða því sem við virkjum svo sem nauðsynlegt er fyrir okkar almenna markað, að standa myndarlega að því sem íslensku verkefni að undirbúa atvinnufyrirtæki í landinu, arðbær atvinnufyrirtæki sem hagnýtt geti hér okkar orkulindir, raforku og jarðvarma, — ætla okkur þar ekki um of, en vera heldur ekki hikandi við að leggja út í það að kanna alla möguleika í þessu sambandi og standa fyrir þeirri uppbyggingu sem skynsamleg er út frá þjóðhagslegu sjónarmiði, sjónarmiði okkar sem þjóðar sem vill halda sjálfstæði sínu, efnahagslegu ekki síður en pólitísku. (GB: Hver vill hafa það öðruvísi?)

Og þá aðeins að endingu, vegna þess að minnst var hér á stóriðjunefnd svokallaða, viðræðunefnd um orkufrekan iðnað, sem ég átti hlut í að leggja niður. Sú ákvörðun var einmitt táknræn fyrir þá áherslubreytingu sem ég tel réttmæta og nauðsynlega í þessum efnum frá því sem áður var. Athuganir á hagnýtingu okkar orkulinda eiga að vera undir íslenskri forustu og vera íslenskt verkefni, þó að við hikum ekki við að taka við tækniþekkingu erlendis frá og hafa augun opin gagnvart umheiminum, heyja okkur þekkingu hvaðanæva úr heiminum. En það á að vera okkar verkefni, okkar sérfræðinga, okkar uppvaxandi og vel menntuðu kynslóða í landinu, og því eigum við ekki að standa þannig að málum, að við séum með nefnd að störfum sem hafi það hlutverk fyrst og fremst að ræða við erlenda aðila sem vilja koma hér færandi hendi með fjármagn til þess að reisa hér sín fyrirtæki. Við eigum að halda á þessum málum út frá þeim viðhorfum sem ég hef talað hér fyrir, og því hefur iðnrn. talið það skyldu sína, jafnframt því sem það skref var stigið að leggja niður þessa nefnd, að efla innlendar stofnanir og gera kleift að kanna þessi mál út frá íslenskum forsendum og út frá því markmiði að efla innlenda þekkingu í sambandi við orkunýtingu í landinu. Á því þurfum við að halda. Þar er stórt verkefni á ferðinni.

Ég get ekki stillt mig um að nefna það sem fram kom á fundi sem ég sat fyrir mjög stuttu úti í París, þar sem ráðherrar báru saman bækur sínar, ráðherrar úr svonefndum OECD-löndum, um þróun vísinda og tækni og möguleika til þess að hagnýta vísinda- og tækniþekkingu til eflingar atvinnulífs í aðildarlöndum OECD. Þar kom það fram frá fulltrúum landa, sem ekki eru vanþróuð, heldur teljast til iðnríkja, frá ráðherrum úr löndum eins og Kanada og m. a. s. Ástralíu, að það væri mikið hagsmunamál fyrir þessi ríki að gjalda varhug við fjölþjóðahringum og starfsaðferðum þeirra og það þyrfti að átta sig á þeirri reynslu, sem t. d. Kanadamenn telja sig hafa orðið fyrir, sem hafa tekið við miklu erlendu fjármagni í uppbyggingu síns iðnaðar, að fjölþjóðafyrirtækin hafa ekki komið færandi hendi með þá tækniþekkingu, sem þessi lönd þurfa á að halda, heldur hafa þau flutt inn sína þekkingu, en hagnýtt hana eingöngu í sínum fyrirtækjum, án þess að hún bærist út og af henni sprytti úrvinnsluiðnaður og önnur sú iðnþróun sem þarf að eiga sér stað út frá forsendum hvers lands. Ég tel að af þessu þurfum við Íslendingar sannarlega að læra þegar við erum að horfa til möguleika á að hagnýta okkar orku hér í framtíðinni til heilla fyrir alþjóð.