01.04.1981
Neðri deild: 69. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3273 í B-deild Alþingistíðinda. (3385)

221. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég hafði satt að segja vænst þess, að hæstv. sjútvrh. sýndi deildinni þau elskulegheit að gera grein fyrir því máli, sem hér liggur fyrir, og ræða eitthvað um afkomuhorfur, ekki aðeins einstakra greina sjávarútvegsins, heldur einnig útflutningsatvinnuveganna í heild. Ég gat ekki betur heyrt á máli hæstv. sjútvrh. en að honum fyndist rétt, eins og sakir standa, að reka hraðfrystiiðnaðinn með nokkrum halla og bæta það upp með því að taka kúfinn ofan af í skreiðarframleiðslunni. Af þeim sökum er hér gert ráð fyrir að færa þar á milli. Ég vil taka undir það sem hv. síðasti ræðumaður sagði, að með þessu er að sjálfsögðu verið að vinna á móti því að byggja upp varasjóði í Verðjöfnunarsjóðnum. Við þurfum raunar ekki að fara mörg ár aftur í tímann til að rifja það upp, að mjög verulegir erfiðleikar voru í skreiðarverkuninni, að sú grein fiskverkunarinnar átti við mesta örðugleika að stríða, á sama tíma og t. d. hraðfrystiiðnaðurinn skilaði ágætum hagnaði. Við vitum því að í þessum efnum geta skjótt skipast veður í lofti. Þó gladdi það mig, að hæstv. ráðh. skyldi viðurkenna að ekki væri gott að engu máli skipti í hvaða verði útflutningsafurðir okkar væru og að sennilega væri æskilegt að stuðla að því að menn reyndu að ná sæmilegu verði erlendis, því að það hvetur menn náttúrlega ekki til þess að reyna að afla sér góðra markaða á erlendum vettvangi ef svo á að fara um sjávarútveginn eins og verið hefur um landbúnaðinn, að þeir, sem útflutninginn annast, fái sömu þóknun fyrir útflutninginn á hvaða verði sem varan er flutt úr landi.

Ég held að þetta frv. sýni enn einu sinni að það er ekki til góðs ef stjórnmálamenn hafa of mikil afskipti af atvinnumálum, allra síst ef þeir eru mjög trúaðir á ríkisforsjána og telja að þeir séu menn til að standa fyrir öllu sjálfir, en taka ekki ráðleggingum og leiðbeiningum annarra. Ég vil bara ítreka þetta. Ég sakna þess, að hæstv. sjútvrh. skyldi ekki gera grein fyrir þessu frv. með sómasamlegum hætti, og ég verð einnig að segja að sumt í máli hans olli mér nokkurri undrun, þar sem fram kom í áramótaávarpi hæstv. forsrh. að allar greinar sjávarútvegsins væru nú reknar með ágóða, þannig að mér skildist að ekki þyrfti til þvílíkra ráðstafana að koma eins og hér um ræðir.