01.04.1981
Neðri deild: 69. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3276 í B-deild Alþingistíðinda. (3396)

269. mál, heilbrigðis- og vistunarþjónustu fyrir aldraða

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Að undanförnu hafa orðið miklar umræður um málefni aldraðra bæði hér á Alþingi og úti í þjóðfélaginu almennt. Hafa þær endurspeglað það ástand er ríkir í málefnum aldraðra hér á landi og þó sérstaklega að því er snertir heilbrigðis- og vistunarþjónustu þeirra hér á þéttbýlissvæðinu.

Því verður ekki neitað, að eitt mesta vandamál, sem við eigum við að glíma í heilbrmrn. um þessar mundir, snertir einmitt heilbrigðis- og vistunarþjónustu fyrir aldraða. Reynt hefur verið að leysa þessi mál eftir föngum og hefur það tekist bærilega víða utan þéttbýlissvæðisins. Lausn þessara mála hefur oft verið fólgin í því að nota sjúkrahús úti á landsbyggðinni sem langlegustofnanir fyrir aldraða. Á Reykjavíkursvæðinu hefur hins vegar skapast ástand sem margir kalla neyðarástand. Skýringarnar eru í sjálfu sér margar, en helstar tel ég þær, að fjöldi aldraðra hefur aukist hröðum skrefum á þessu svæði og mun meira en annars staðar á landinu. Er hér bæði um að ræða einstaklinga, sem búið hafa meiri hluta ævi sinnar á Reykjavíkursvæðinu, og aðflutta, sem eðlilega leita þess öryggis sem Reykjavík og nágrannabyggðirnar bjóða, ekki síst á sviði sérhæfðrar heilbrigðis- og félagsþjónustu.

Sveitarfélögin á stór-Reykjavíkursvæðinu hafa ekki reynst þess megnug að leysa þetta vandamál með viðhlítandi hætti þrátt fyrir góðan vilja. Sætir slíkt engri furðu, ekki síst með hliðsjón af því, að litla hjálp hefur verið að fá hjá ríkisvaldinu í þessum efnum.

Ég er þeirrar skoðunar, að þessi mál verði ekki lagfærð án atbeina ríkisvaldsins. Enn fremur tel ég að lausn þessara mála verði að vera nokkuð óháð landshlutum og sveitarfélögum og að engin rök mæli með því, að ákveðnum sveitarfélögum sé öðrum fremur íþyngt vegna þess að þau sérstöðu sinnar vegna verða að taka við öldruðu fólki umfram önnur sveitarfélög.

Sveitarfélög hafa ekki haft fjárhagslegt bolmagn til að leysa úr þessum málum sem skyldi. Hefur því lausnin í reynd lent á ríkisvaldinu á þann hátt, að sjúkrahús hafa verið notuð sem langlegustofnanir fyrir aldraða, en sjúkratryggingadeild Tryggingastofnunar ríkisins greiðir rekstur slíkra stofnana í samræmi við lög um almannatryggingar. Er rekstur þessara sjúkrastofnana fjármagnaður af svokölluðu daggjaldakerfi og þegar um er að ræða langlegupláss fyrir aldrað fólk lendir rekstrarkostnaðurinn algjörlega á ríkinu. Á þennan hátt hafa sveitarfélög verið misjafnlega í sveit sett eftir því, hvort sjúkrahús eru á staðnum eða ekki.

Frv. það, sem ég mæli hér fyrir, er samið í heilbr.- og trmrn. að höfðu samráði við alþm. Guðrúnu Helgadóttur og Guðmund G. Þórarinsson og enn fremur Odd Ólafsson lækni, fyrrv. alþm., og Þór Halldórsson, yfirlækni öldrunardeildar Landsspítalans. Verði frv. að lögum er því ætlað að þjóna þeim tilgangi að koma á heildarsamræmingu í heilbrigðis- og vistunarþjónustu aldraðra, hvort heldur er í heimahúsum eða í stofnunum. Því er ekki að neita, að æskilegt hefði verið að okkar mati að bæta hér inn félagslega þættinum, en horfið var frá því þar sem leggja verður mikla vinnu í þann þátt sérstaklega, auk þess sem ýmis stjórnunarvandamál koma upp, m. a. vegna þess að félagslegi þátturinn er í gagngerðri endurskoðun vegna endurskoðunar á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Hefði verið ætlunin að taka þessa þætti alla þrjá í sama frv. hefði það að mínu mati tafið fyrir úrlausn heilbrigðis- og vistunarþáttarins, sem mönnum ber saman um að þurfi hvað brýnast að bæta úr.

Hins vegar er gert ráð fyrir því í frv. þessu, að ef það verður að lögum verði lögin endurskoðuð innan fimm ára frá gildistöku og verði við þá endurskoðun reynt að tengja saman vistunar- og heilbrigðisþáttinn annars vegar og hinn félagslega þátt hins vegar.

Eins og frv. liggur hér fyrir er lögð áhersla á að nýta þá þjónustu sem fyrir er í samfélaginu, og er þunginn lagður á heilsugæslustöðvarnar, sem eru í hraðri uppbyggingu víðast hvar á landinu, jafnt í þéttbýll sem strjálbýll. Í frv. er sett fram ákveðið markmið til úrbóta í heilbrigðis- og vistunarmálum aldraðra á þann hátt, að stuðlað skuli að samræmingu þessara mála og jafnframt stuðlað að sérstöku átaki við framkvæmdir bygginga fyrir aldraða. Á þennan hátt er ætlunin að tryggja öldruðum ákveðið öryggi á þessu sviði og að það sé samfélagsins fyrst og fremst að sjá um að svo verði gert.

Eins og kunnugt er gildir gagnkvæm framfærsluskylda foreldra og barna hér á landi samkvæmt framfærslulögum, nr. 80/1947. Má segja að þetta fyrirkomulag sé nú orðið séríslenskt þar sem svipuð ákvæði laga nágrannalanda hafa verið afnumin. Framfærsluskylda barna gagnvart foreldrum er lögum samkvæmt þannig útfærð, að þeim beri að framfæra foreldra sína að svo miklu leyti sem lífeyrisgreiðslur frá almannatryggingum og aðrar tekjur hrökkva ekki til. Í frv. þessu er ekki gerð tilraun til að breyta þessu ákvæði, og tel ég ástæðu til að láta það koma fram sérstaklega.

Frv. gerir ráð fyrir ákveðinni heildarstjórn heilbrigðisog vistunarmála aldraðra og að hún verði í höndum sérstakrar deildar innan heilbr.- og trmrn. Lagt er til að landinu verði skipt í ákveðin þjónustusvæði og að þau verði í samræmi við heilsugæsluumdæmi laga nr. 57 frá 1978, um heilbrigðisþjónustu, þ. e. 28 svæði samtals. Tel ég þessa svæðisskipan sjálfsagða með hliðsjón af þeirri megináherslu sem lögð er á hlutverk heilsugæslustöðva og starfsliðs þeirra í þessu frv. Enn fremur er á þennan hátt reynt að koma á ákveðinni stjórn mála innan hvers héraðs þannig að minni þörf verði á heildarmiðstýringu ofan frá í þessum efnum.

Á hverju þjónustusvæði skal starfa ellimálanefnd sem í eigi sæti heilsugæslulæknir, heilsugæsluhjúkrunarfræðingur og starfsmaður félagslegrar þjónustu. Enn fremur er heimilt að skipa í nefndina lækni, sérmenntaðan í öldrunarlækningum, og félagsráðgjafa, ef þeir eru á annað borð starfandi á svæðinu.

Hlutverk ellimálanefndar yrði fyrst og fremst að annast framkvæmd og skipulagningu þjónustu innan svæðisins. Hlutverk nefndarinnar er annars tíundað í frv. og vísa ég sérstaklega til þess sem þar segir. Hvað snertir Reykjavík sérstaklega er gert ráð fyrir að þar starfi eingöngu ein ellimálanefnd undir forustu borgarlæknis. Er þetta gert af hagkvæmniástæðum því að ómögulegt er að hafa þann hátt á, að ein nefnd starfi við hverja heilsugæslustöð, en nú hafa þegar tekið til starfa þrjár heilsugæslustöðvar í Reykjavík.

Hvað snertir störf ellimálanefnda vil ég sérstaklega geta eins atriðis, en það er að ellimálanefndum ber að gera félagsmálayfirvöldum sveitarfélaga viðvart sé félagslegri þjónustu við aldraða ábótavant. Það, sem hér er fyrst og fremst átt við, er heimilishjálp í viðlögum sem rekin er af sveitarfélögum í samræmi við lög nr. 10/1952 og á kostnað þeirra. Vegna sérstöðu starfa sinna er ellimálanefnd í þeirri aðstöðu að geta fylgst með framkvæmd heimilishjálpar á viðkomandi svæði. Er því ekki óeðlilegt að leggja þessar skyldur á herðar nefndinni. En ég undirstrika að ellimálanefndum er þó ekki ætlað að gera þetta að sjálfstæðu verkefni.

Í 6. gr. frv. er gert ráð fyrir því, að settur verði á stofn sérstakur framkvæmdasjóður aldraðra. Er hlutverk hans að fjármagna byggingar samkvæmt lögunum, þær sem reistar eru á vegum ríkis og sveitarfélaga sem og annarra, t. d. einkaaðila. Tekjur sjóðsins skulu vera sérstakt álag á aðgangseyri vínveitingahúsa, 10 kr. á hvern miða, og skal upphæðin breytast í samræmi við verðlagsvísitölu. Aðrar tekjur sjóðsins yrðu beint framlag eftir ákvörðun á fjárlögum hverju sinni, inneign í Byggingarsjóði aldraðs fólks samkv. lögum nr. 49/1963 og enn fremur frjáls framlög og tekjur er til kunna að falla svo og vaxtatekjur. Lauslega má áætla að tekjur vegna álags á aðgangseyri vínveitingahúsa nemi um 12 millj. kr. á ári. Inneign í Byggingarsjóði aldraðs fólks er hins vegar mjög lítil og aðrar tekjur óvissar. Liggur því nokkuð ljóst fyrir að framlag ríkissjóðs á fjárlögum verður að nema því sem á vantar til þess að unnt sé þegar í stað að gera verulegt átak í þessum málum. Þyrfti framlag ríkissjóðs að nema á bilinu 8–18 millj. kr. og yrði þar í sjálfu sér ekki um að ræða verulega aukningu frá því sem þegar er, en á fjárlögum yfirstandandi árs er varið 8.4 millj. kr. til þessara mála, sem skiptast á B-álmu Borgarspítalans, Hrafnistu í Hafnarfirði og hjúkrunarheimili aldraðra í Kópavogi. Sé ætlunin að gera myndarlegt átak í þessum málum mundi verða um að ræða um 10 millj. kr. viðbótarframlag á fjárlögum, alla vega næstu fimm árin, og verð ég að segja að það þykir mér í raun ekki há fjárhæð miðað við þá skuld sem við eigum því fólki að gjalda sem nánast hefur reist þessa þjóð úr öskustónni.

Því er ekki að neita, að um þessar mundir er í tísku mikill áróður gegn mörkuðum tekjustofnum. Þörf fyrir fjármagn á því sviði sem hér um ræðir er hins vegar ákaflega brýn, svo nauðsynlegt er að leita sérstakra ráða. Var því gripið til þess ráðs sem hér hefur verið lýst. En á það skal bent, að hér er um bráðabirgðaúrræði að ræða með það fyrir augum að bæta sem skjótast úr þeim vanda sem að steðjar, þ. e. skorti á vistrými fyrir aldraða. Í frv. er lítillega tekið á heilsugæslu aldraðra í heimahúsum. Gert er ráð fyrir að hið opinbera veiti slíka heilsugæslu, sem yrði þá í formi lækninga, hjúkrunar og endurhæfingar, svo og mundi flutningur aldraðra að og frá heimili falla hér undir.

Sem áður er lögð áhersla á það, að starfslið heilsugæslustöðva annist þessa þjónustu og að allur kostnaður vegna hennar falli undir eðlilegan rekstrarkostnað stöðvanna, í samræmi við lög nr. 57/1978, um heilbrigðisþjónustu. Í sjálfu sér er erfitt að áætla þann kostnaðarauka sem af þessu hlýst, en hann yrði fyrst og fremst fólginn í því, að nauðsyn gæti orðið á fjölgun í starfsliði einstakra heilsugæslustöðva. Reynslan verður að leiða þetta í ljós. Á það skal bent, að rekstrarkostnaður heilsugæslustöðva skiptist á milli ríkis og sveitarfélaga þannig að ríkið stendur undir launakostnaði lækna, hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra, en sveitarfélög umdæmanna standa undir öðrum rekstrarkostnaði. Á það skal enn fremur bent, að kostnaðarauki lendir ekki á einu sveitarfélagi öðru fremur, þar sem öll sveitarfélög eru eða verða aðilar að heilsugæslustöðvum. Til þess að mæta hugsanlegum kostnaðarauka er ráðh. heimilt að setja gjaldskrá fyrir heilsugæslu aldraðra í heimahúsum. Hér er eingöngu um heimildarákvæði að ræða sem yrði að sjálfsögðu aðeins notað á svipaðan hátt og gert er í dag, t. d. varðandi ákvörðun göngudeildargjalda. Ættu þessi gjöld því ekki að íþyngja neinum og yrðu þau ekki lögð á efnalitla einstaklinga.

Fyrr í máli mínu gerði ég grein fyrir því, hvers vegna kosið var að fjalla ekki um félagslega þjónustu fyrir aldraða í frv. þessu. Ekki er þar með sagt að sneitt sé algjörlega hjá þessum þætti, þar sem gert er ráð fyrir því í 8. gr., að ellimálanefnd sé heimilt að skipuleggja heimilishjálp í viðlögum um skemmri eða lengri tíma samkv. sérstökum samningi við sveitarfélög umdæmisins. Hér er eingöngu um að ræða heimildarákvæði sett til öryggis, til þess að koma í veg fyrir að þessi þjónusta falli fyrir róða, en víða er pottur brotinn á þessu sviði eins og kunnugt er. Til slíkrar þjónustu kæmi hins vegar ekki þar sem sveitarfélög kjósa að annast hana sjálf eða þar sem sveitarfélögin kjósa að halda henni alls ekki uppi, en svo furðulegt sem það kann að virðast er slíkt til í nokkrum tilvikum. Allur kostnaður yrði sem áður greiddur af viðkomandi sveitarfélögum þannig að hér yrði ekki um að ræða kostnaðarauka fyrir heilsugæsluna eins og þetta er sett upp hér.

Í frv. er mörkuð ákveðin stefna varðandi þær stofnanir sem reknar skulu fyrir aldraða. Þær stofnanir, sem hér um ræðir, eru íbúðir sérhannaðar fyrir aldraða og þarfir þeirra, enda séu íbúðirnar byggðar á félagslegum grundvelli, t. d. á vegum sveitarfélaga. Þá eru dvalarheimili með íbúðarherbergjum og snyrtingu ásamt aðstöðu fyrir tómstunda- og félagsstarfsemi fyrir vistmenn, hjúkrunarheimili til langdvalar með aðstöðu fyrir dagvistun fyrir aldraða og sjúkradeildir með aðstöðu fyrir öldrunarlækningar og göngudeildir, hannaðar á hliðstæðan hátt og gerist um sjúkrahús.

Ég vil sérstaklega taka það fram hvað snertir íbúðirnar, að frv. er ekki ætlað að ná yfir þær íbúðir sem aldraðir byggja sjálfir án nokkurs sérstaks fjárframlags samkv. lögum, og skiptir ekki máli hvort þeir njóta til þess annarra lána eða styrkja, svo sem frá Húsnæðisstofnun ríkisins samkv. nýsettum lögum þar um, en þau lög heimila miklu rýmri lánamöguleika til íbúðakaupa að þessu leyti en fyrri lög gera. Hvað snertir dvalarheimilin skal lögð áhersla á einstaklingsherbergi og sérherbergi fyrir hjón ásamt aðstöðu fyrir tómstunda- og félagsstarfsemi. Hjúkrunarheimili skulu reist sem langdvalarheimill og þar skal vera aðstaða fyrir dagvistun.

Sjúkradeildir eiga að geyma aðstöðu fyrir öldrunarlækningar og göngudeildir, þannig að ekki er ætlast til þess að langdvalarstofnanir séu annars staðar en í hjúkrunarheimilum og öldrunar- og göngudeildir fyrir aldraða annars staðar en á sjúkradeildum.

Gert er ráð fyrir því, að sömu ákvæði gildi um þessar stofnanir hvað snertir stjórn þeirra og sett eru í lögum nr. 28/1973, um dvalarheimili fyrir aldraða, og í lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 57/1978, sé um að ræða hjúkrunarheimili og sjúkradeildir. Frv. gerir ráð fyrir ákveðinni verkaskiptingu milli sveitarfélaga og ríkis varðandi byggingar fyrir aldraða. Þannig er gert ráð fyrir því, að dvalarheimili með íbúðarherbergjum skuli byggð af sveitarfélögum og á þeirra kostnað, en að þau geti notið framlaga úr Framkvæmdasjóði. Hvað snertir hins vegar hjúkrunarheimili eða sjúkradeildir skuli gilda ákvæði 34. gr. laga nr. 57/1978, um heilbrigðisþjónustu, en samkv. því ákvæði skal ríkið greiða sem nemur 85% af stofnkostnaði, en sveitarfélög 15%. Hlutur ríkisins yrði greiddur úr Framkvæmdasjóði aldraðra. Ekki má skilja orð mín svo, að verið sé með ákvæðum þessum að leggjast gegn því, að einstaklingar eða félagasamtök byggi dvalarstofnanir fyrir aldraða, enda ráð fyrir því gert, að þessir aðilar geti að sjálfsögðu notið framlaga úr Framkvæmdasjóði aldraðra.

Frv. gerir ráð fyrir að allar stofnanir, sem undir það falla, nema íbúðir sérhannaðar fyrir aldraða, verði reknar á daggjöldum í samræmi við lög nr. 67/1971, um almannatryggingar, og að daggjaldanefnd, sem starfar samkv. þeim lögum, taki ákvarðanir þar um. Þótt daggjaldakerfið hafi verið gagnrýnt — og það oft með réttu — verður ekki annað betra kerfi fundið að sinni, og óvarlegt er á þessari stundu að setja t. d. hjúkrunarheimili og sjúkradeildir að öllu leyti á föst fjárlög nema með nákvæmri athugun áður. Slíkt þarf miklu lengri aðdraganda og auk þess þyrfti þá að breyta almannatryggingalögunum. Gert er ráð fyrir að sjúkratryggingadeild Tryggingastofnunar ríkisins greiði daggjöld sé um að ræða hjúkrunarheimili og sjúkradeildir, og er það í samræmi við gildandi reglur hér um í dag.

Hvað snertir rekstur dvalarstofnana er ekki gert ráð fyrir breytingum á gildandi fyrirkomulagi, þ. e. ríkið stendur undir rekstrarkostnaði hjúkrunarheimila og sjúkradeilda, en vistmenn standa sjálfir undir kostnaði við íbúðir og dvalarheimili, sem í reynd þýðir að lífeyrisgreiðslur lífeyristryggingadeildar Tryggingastofnunar ríkisins, þ. e. ellilífeyrir vistmanna, rennur til rekstrarins ásamt hækkun lífeyris eða framlags frá vistmönnum sjálfum. Í staðinn fá vistmenn svokallaða „vasapeninga“ í samræmi við almannatryggingalög eftir nánari ákvörðun tryggingaráðs, þ. e. séu þeir tekjulausir eftir að hafa lagt fram sinn skerf af sértekjum sínum.

Því er ekki að neita, að nokkurs ranglætis gætir á þessu sviði í dag, sérstaklega varðandi þá vistmenn sem hafa sértekjur og þurfa að leggja af þeim peningum til rekstrar dvalarheimilanna, en þeir eru þá jafnsettir og þeir sem engar sértekjur hafa, þar sem þeim er ákvörðuð uppbót á lífeyri til þess að standa sérstaklega undir kostnaði við vistun þeirra á dvalarheimili. Hér er um flókið mál að ræða, sem ekki verður leyst óháð lausn lífeyrismála almennt að mínu mati. Ég teldi eðlilegast sem fyrsta skref að vasapeningar yrðu hækkaðir allverulega til að mæta þessu, en samkv. ákvörðun tryggingaráðs nema vasapeningar nú aðeins um 314 kr. á mánuði og er sérstök hækkun þeirra nú til athugunar í heilbr.- og trmrn., eins og kom fram við umr. á hv. Alþingi í gær.

Í reynd mun þetta frv. ekki breyta í miklu ríkjandi fyrirkomulagi varðandi rekstur dvalarstofnana fyrir aldraða, og skiptir þá engu hvort um er að ræða venjulegt dvalarheimili, sjúkradeildir eða hjúkrunardeildir. Á þennan hátt verða því ekki lagðar auknar fjárhagskvaðir á opinbera aðila að öðru leyti en því, að eftir því sem stofnunum fjölgar samkv. þessum lögum njóta fleiri vistunar, en slíkt hefur að sjálfsögðu í för með sér aukinn kostnað. Sá kostnaður yrði ekki mældur í dag, og er raunar erfitt að gera sér grein fyrir honum fyrr en gerð hefur verið áætlun um framkvæmdir við byggingu stofnana, eins og gert er ráð fyrir í 7. gr. frv.

Frv. gerir ráð fyrir því, að enginn geti vistast á dvalarstofnun fyrir aldraða án undangengins mats sem fer fram á vegum ellimálanefndar. Í sjálfu sér er ekki ætlast til þess, að nefndin framkvæmi matið sjálf, enda yrði slíkt ógerlegt á sumum stöðum, t. d. í Reykjavík þar sem eingöngu starfaði ein nefnd. Ellimálanefndinni er því heimilt að fela þar til völdum og hæfum aðilum þetta mat, t. d. læknum. Nefndin verður að hafa yfirumsjón og stjórn með slíku. Þetta mat yrði fyrst og fremst heilsufarslegt mat. Frv. gerir einnig ráð fyrir því, að óheimilt sé að flytja vistþega á milli stofnana án slíks mats. Lagt er til að viðkomandi einstaklingar ráði sjálfir á hvaða stofnun þeir vistast, eftir að matið hefur farið fram og eftir því sem við verður komið á hverjum stað og hverjum tíma. Hér er um veigamikið nýmæli að ræða og ætti á þennan hátt að vera komið í veg fyrir að stjórnir einstakra dvalarstofnana ákveði einar hverjir fái inni á stofnunum undir þeirra stjórn og hverjir ekki, eins og á sér stað um þessar mundir.

Ákvæðin um mat ellimálanefndar gilda hins vegar ekki ef um er að ræða íbúðir sérhannaðar fyrir einstaklinga. Eðlilegt er að undanþiggja þær í þessu tilviki. Sé hins vegar um að ræða dvalarheimili fyrir aldraða gilda þessi ákvæði og skiptir ekki máli að hve miklu leyti eða hvernig vistþegi greiðir sinn kostnað á þeim stofnunum.

Gert er ráð fyrir að frv. þetta öðlist gildi, ef að lögum verður, um n. k. áramót, öðru leyti en því, að reiknað er með að gjaldtaka af vínveitingahúsamiðum, sbr. ákvæðin um framkvæmdasjóð, öðlist gildi 1. júní n. k. Enn fremur er gert ráð fyrir því, að þegar í stað verði hafist handa við deildarstofnun í heilbr.- og trmrn. þannig að starfsemi deildarinnar verði að fullu hafin við gildistöku laganna, en vitað er að gildistaka þessara laga þarfnast töluverðs undirbúnings. Reiknað er með að lögin verði endurskoðuð innan fimm ára, eins og ég sagði áðan, sérstaklega með hliðsjón af framtíð framkvæmdasjóðs og með hliðsjón af setningu heildarlöggjafar á þessu sviði, þ. e. varðandi þá þætti sem þetta frv. fjallar um, heilbrigðis- og vistunarþáttinn og jafnframt félagslega þáttinn, verði á annað borð talin ástæða til að setja sérlög á þessu sviði eftir fimm ár, en vitanlega hljótum við að vera sammála um að æskilegast væri að þessum þáttum yrði öllum sinnt í einu heildarsamhengi.

Herra forseti. Ég hef rakið þetta frv. nokkuð ítarlega og mætti margt fleira um það segja. Ég legg til að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.

Ég vil taka það fram, að meðan þetta frv. var í undirbúningi komu upp mörg álitamál sem ég bið hv. þingnefnd að hugleiða vandlega. Eitt álitamálið var nafnið á þeim nefndum sem er talað um í frv. Í upphaflegum drögum frv. voru þessar nefndir kallaðar „öldrunarmálanefndir“. Mér fannst það — það er kannske bara minn persónulegi smekkur — heldur leiðinlegt orð, þannig að ég kaus frekar að nota nafnið ellimálanefnd og geri það alls staðar í frv. eins og það liggur hér fyrir. Þetta er mál sem nefndin verður að meta í samræmi við það sem henni finnst eðlilegt og hv. Alþingi, en mér hefur fundist gæta vissrar ofnotkunar á orðinu „öldrun“ í ýmsum samsetningum í umræðum um þetta mál að undanförnu.

Annað atriði vil ég nefna sem er vafalaust einnig álitamál, þ. e. að hve miklu leyti ráðh. á að hafa vald til að úthluta því fjármagni sem gert er ráð fyrir í frv. þessu. Í frv. er gert ráð fyrir því, að gerð verði áætlun til fimm ára í senn um framkvæmdir á þessu sviði. Áætlunin verði unnin í samráði við fjvn. Alþingis og þannig verði mótaðar línur um úthlutun þessa fjármagns. Ég held að þetta sé út af fyrir sig gott fyrirkomulag, en ég hef búið mig undir það að fram gætu komið athugasemdir við þetta. A. m. k. hef ég orðið var við það, eftir að frv. var lagt fram, að einstakir þm. hafa viljað gera við þetta athugasemdir. Nefndin verður að sjálfsögðu að meta það, en það er mál sem þarfnast góðrar skoðunar, og aðalatriðið í mínum huga er auðvitað það, að fjármunirnir nýtist sem best og að unnið verði samkv. skipulegum áætlunum, en að ekki verði rokið til milli ára og fleygt peningum í þessa framkvæmd í ár og hina næsta ár án þess að um sé að ræða efnislegt samhengi á milli ákvarðana. Þess vegna fannst mér heppilegra að miða þetta við áætlanagerð til nokkurs tíma og að fjvn. hefði þar aðild að og þar með hv. Alþingi, eins og við úthlutun á öðru fjármagni sem fer í gegnum ríkiskerfið.

Ég vil nefna eitt atriði enn, sem hefur komið upp í huga manna frá því að frv. var lagt fram, en það eru nú einir 10 dagar síðan. Ýmsir telja að eðlilegra hefði jafnvel verið að skipa þessum málum innan laganna um heilbrigðisþjónustu, þ. e. með því að breyta einungis lögunum frá 1978 og fella þjónustu við aldraða þar sérstaklega inn. Þetta er sjónarmið út af fyrir sig. En með tilliti til þess, að hér er þörf á sérátaki fyrir aldraða, taldi ég rétt að það yrðu a. m. k. nokkurn tíma í gildi sérlög um þeirra mál, sem væru þá aðallega í framkvæmd á 10 ára bili eða svo. Það er alveg augljóst, að við verðum nú að fá sérstakt átak vegna húsnæðis fyrir aldraða á næstu 5–10 árum. Við sjáum þann vanda sem við okkur blasir í þeim efnum. En ég vil aðeins minna á það í þessu sambandi, að þó að þessi vandi sé allstór, þá á hann eftir að stækka mjög verulega. Þeir árgangar fólks í landinu, sem teljast til aldraðra eftir 30 ár eða svo, eru miklu stærri en þeir árgangar sem verða aldraðir um þessar mundir, og þess vegna er greinilegt að ekki má láta staðar numið, jafnvel þó að verulegir fjármunir yrðu veittir til þessara mála, eins og gert er ráð fyrir í þessu frv. Hér er í raun og veru verið að taka á hjúkrunarvandamálum aldraðra fyrst og fremst og vistunarmálum þeirra, og þess vegna held ég að mat ellimálanefndanna, sem hér er gert ráð fyrir, verði fyrst og fremst að vera heilsufarslegt. Ég held að staðan sé ekki þannig núna að auðvelt sé að taka hið félagslega mat inn í, og þess vegna nefni ég þetta, að það er eitt af þeim atriðum sem ýmsir hafa nefnt á síðustu dögum, eftir að þetta frv. var lagt fram.

Hv. nefnd tekur þetta mál að sjálfsögðu til athugunar og ég vænti þess, miðað við þann mikla áhuga sem er á því að leysa úr þessum málaflokki, að hv. Alþingi gangi rösklega til verks og afgreiði þetta mál sem allra fyrst þannig að það geti orðið að lögum á yfirstandandi þingi. Hér er um að ræða mál, sem í sjálfu sér er ekki ýkjaflókið, og ég veit að hv. heilbr.- og trn. er þannig mönnum skipuð að þar er fólk sem þekkir ákaflega vel til þessara mála. Þar á því að vera hægt að taka rösklega í árarnar og afgreiða málið hið allra fyrsta.