01.04.1981
Neðri deild: 70. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3305 í B-deild Alþingistíðinda. (3400)

261. mál, jafnrétti kvenna og karla

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Vegna þess að mér er kunnugt um að hér bíða mörg mál, sem varða brýna hagsmuni aldraðra og öryrkja, þá mun ég reyna að stytta mál mitt sem mest og vil einungis taka undir það sem hér hefur komið fram í langri og ítarlegri ræðu. Ég get þó ekki stillt mig um að minnast aðeins á umr. sem hér fór fram í dag í hv. deild um heilbrigðis- og vistunarmál aldraðra.

Þar hélt hv. 1. landsk. þm. langa ræðu og fór nokkrum orðum um hv. 8. landsk. þm. vegna þess að sá hafði átt nokkurn hlut í samningu þess frv. Hv. 1. landsk. þm. viðhafði nokkuð óvenjuleg orð hér í ræðu, þar sem hann kallaði hv. 8. landsk. þm. „Rúnu litlu á Blómsturvöllum, sem nú væri orðin hv. þm.“ Nokkru seinna í ræðu sinni vitnaði þm. í einhver orð, sem hv. 8. landsk. hafði haft í frammi hér í ræðustól, og gat þess, að nokkur þjóstur hefði verið í þm. þá, sem annars væri „lítil og prúð“. Það er kannske ekki alveg út í hött að minnast þessa í þessari umr. vegna þess að ég hef ekki heyrt það áður, að slíkt „kelerí“ milli þm. færi hér fram í ræðustól. Einungis einn hv. þm., sem er 1. þm. Reykn., hefur leyft sér að kalla hv. 8. landsk. slíkum gælunöfnum. Hefur hann á því fullan rétt og enda einungis haft þau orð við í einkasamræðum hér í þinginu, aldrei í ræðustól. Og ég mótmæli því, að forseti skyldi ekki gera aths. við að þessi forréttindi hv. 1. þm. Reykn. væru höfð hér að engu og gengið væri svo freklega á þennan rétt, sem stafar af gömlu ástarsambandi í byrjun stríðsins í Hafnarfirði suður. (Forseti: Þessi sérstöku ummæli, sem hér eru tilgreind, hafa farið fram hjá forseta.) Augljóslega. (Forseti: Eða voru þau kannske mælt þegar varaforseti gegndi störfum?) Nei, hæstv. forseti. (Forseti: Ég hlyti að hafa gert aths. við þetta ef ég hefði setið í forsetastól. Getur ekki verið að 2. varaforseti deildarinnar hafi setið í stól þegar þessi ummæli voru viðhöfð?) Það hygg ég ekki. Ég hygg að hæstv. forseta hafi runnið í brjóst. (Forseti: Þetta verður rannsakað sérstaklega.) Ég þakka fyrir það.

En til þess að tefja hér ekki tímann mun ég snúa mér að þeim brtt. sem ég hef gert hér við frv. hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur. Ég er hjartanlega samþykk þeirri hugsun sem að baki frv. hv. þm. liggur. En ég hef leyft mér að flytja brtt. við það þrátt fyrir það. Ég þarf ekki að skýra það á nokkurn hátt, hvert viðhorf þingflokks Alþb. er til þessara mála. Hv. fyrrv. þm. Svava Jakobsdóttir flutti hér í byrjun síðasta áratugs frv. til laga um Jafnlaunaráð, og ég hygg að það hafi verið kveikjan að því frv. sem síðar var lagt fram og varð að lögum um jafnrétti kvenna og karla. Ég tel mig ekki þurfa að bæta miklum inngangi við það sem kom fram í máli hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur hér áðan, en vil leitast við að skýra lítillega þær brtt. sem ég hef lagt hér fram.

Við 1. gr. frv. hv. þm. hef ég leyft mér að leggja til að sú grein falli niður. Ég fæ ekki séð að nein bót sé að því að þrengja 3. gr. jafnréttislaganna. Ég held að það orðalag, sem er á lögunum eins og þau nú eru, sé jafnvel víðara en sú breyting, sem þm. leggur til, og ég er andvíg því að þrengja þá grein á nokkurn hátt.

2. gr. frv. er kannske sú grein, sem líklegust er til þess að valda umr., en þar leggur hv. þm. til að þegar um sé að ræða starf, sem frekar hafa valist til karlar en konur, skuli konunni að öðru jöfnu veitt starfið. Ég er ein af þeim, sem ekki eiga gott með að sætta sig við það sjónarmið, og kemur þar ýmislegt til. Ég held að það sé ekki líklegt til að jafna hlut kynjanna við hin ýmsu störf. Ég held t. d. að það gæti stundum staðið í vegi fyrir því að starfsstéttir blönduðust þannig að álíka yrði hlutur karla og kvenna. Ég vil aðeins leyfa mér að taka dæmi.

Dagvistarkerfið er rekið 100% af konum. Nú eru t. d. tveir ungir menn við nám í Fósturskóla Íslands. Við getum séð hvernig færi fyrir þeim ef frv. hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur yrði að lögum. Þeir gætu sótt um starf óendanlega vegna þess að þeir hefðu aldrei möguleika á að fá það starf ef einhliða skylda væri að veita konu starfið. Hið sama hygg ég að yrði á ferðinni þegar um barnakennarastöður er að ræða. Þar er yfirgnæfandi meiri hluti kvenna, og ég held að það sé verulegur vilji fræðsluyfirvalda að fleiri karlmenn komi þar til starfa, þannig að ég held að hreint praktískt yrði þetta óheppilegt. Brtt. mín er hins vegar á þessa leið:

„Þegar um er að ræða starf, sem karlar hafa valist til fremur en konur, skal að öðru jöfnu veita konu starfið. Hið sama gildir, ef konur hafa fremur valist til starfsins en karlar, og skal þá karli að öðru jöfnu veitt starfið.“

Ég held að þetta sé miklu líklegra til að dreifa störfum milli karla og kvenna í hinum ýmsu stéttum. Ég geri hins vegar ekki ráð fyrir því, að þetta ákvæði sé endurskoðað að 5 árum liðnum. Ég sé ekki ástæðu til þess.

Ég verð að segja það hreinskilnislega, að ég lít einnig svo á, að 2. gr. frv. hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur brjóti í bága við hina eiginlegu hugsun að baki lögum um jafnrétti kvenna og karla. 1. gr. laganna hljóðar svo, með leyfiforseta:

„Tilgangur laga þessara er að stuðla að jafnrétti og jafnri stöðu kvenna og karla.“ Síðan segir í 2. gr., með leyfi forseta: „Konum og körlum skulu veittir jafnir möguleikar til atvinnu og menntunar og greidd jöfn laun fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf.“

Ég held að það sé ekki í anda þessara sömu laga, að annað kynið hafi einhliða forréttindi umfram hitt til starfa. Um þetta má sjálfsagt deila, en ég held að brtt. mín brjóti á engan hátt í bága við anda laganna né neitt sem í þeim stendur, og þess vegna hef ég flutt þessa brtt., ekki vegna þess að ég skilji ekki fullkomlega hvað hv. þm. gengur til að flytja þessa till. En ég held að sú till., sem ég hef leyft mér að flytja, sé e. t. v. málamiðlun sem allir ættu að geta sætt sig við.

Við 3. gr. frv. hv. þm. hef ég lagt til að sú grein falli niður. Ég sé ekki að það sé til neinna bóta að gera það að einhverju óræðu atriði, að atvinnurekandi veiti skriflegar upplýsingar um hvað lagt var til grundvallar við ráðningu í starf. Í lögunum kemur afgerandi fram hvað á að gefa upplýsingar um, en það er menntun, starfsreynsla og aðrir þeir sérstakir hæfileikar sem sá hefur til að bera sem ráðinn var í starfið. Ég tel að þetta sé betur orðað í lögunum eins og þau eru.

Í 4. gr. frv. hefur hv. þm. lagt til að á fjárlögum hvers árs skuli veita Jafnréttisráði framlag sem geri því kleift að standa fyrir könnunum á launakjörum karla og kvenna. Ég hef einnig lagt til að þessi grein yrði lögð niður, vegna þess að ég er hreinlega á móti því að Jafnréttisráð fái fjármagn til að gangast fyrir könnunum sjálft. Við höfum Hagstofu Íslands, við höfum Kjararannsóknarnefnd, við höfum ótal stofnanir sem beinlínis eiga að gera þessar kannanir. Jafnréttisráð á hins vegar — eins og réttilega segir — að standa fyrir þeim, en ég sé ekki ástæðu til að gera fleiri stofnanir að rannsóknaraðilum um slíka hluti. Jafnréttisráð getur gengið frá þeim atriðum, sem það óskar eftir að fá könnuð, og síðan eru þessar stofnanir til þess að verða við því.

Ég hef hins vegar bætt við einni nýrri till., sem er viðbót við 11. gr., sem samkv. þessu yrði 12. gr. ef önnur hvor grein okkar Jóhönnu verður samþykkt, hv. þm. Aftan við 11. gr., þar sem talað er um að Jafnréttisráð geti höfðað mál í umboði þess aðila sem telur hafa verið brotið á sér við starfsveitingu eða á annan hátt, vil ég bæta við setningu sem hljóði svo: Málskostnaður greiðist úr ríkissjóði. Ég held að það hafi sýnt sig, að Jafnréttisráð á ákaflega erfitt með að gangast fyrir málshöfðun eða hvetja til hennar, þar sem ráðið hefur ekki nein peningaráð til þess að greiða fyrir slíka hluti. Og almennt vil ég taka fram, að ég tel að Jafnréttisráð sé svo fjársvelt — og vil beina því til hv. fjvn. — að því sé næstum gert ófært að framkvæma lögin frá 1976, og algert lágmark sé að vilji ráðið gangast fyrir málshöfðun eigi það ekki á hættu að þurfa að taka af því auma rekstrarfé, sem það hefur og — ef ég man rétt — er á fjárlögum nú um 14 millj. — ég verð þá leiðrétt ef það er rangminni, — 14 millj. gkr. og segir sér hver sjálfur að fyrir það verður ekki mikið gert.

Ég vil aðeins minnast á það áður en ég lýk máli mínu, að félmrh. hefur hinn 27. mars s. l. ákveðið að skipa nefnd til að fjalla um jafnréttismál karla og kvenna. Skal nefndin beita sér í fyrsta lagi að könnun á framkvæmd jafnréttismála hér á landi, einkum að því er varðar stöðuláglaunakvenna, laun þeirra og lífskjör, í öðru lagi að tillögugerð um breytingu á jafnréttislögum með tilliti til þeirrar reynslu sem fengist hefur frá því að lógin voru sett, nefndin skal í tillögu sinni taka mið af jafnréttisáætlun Sameinuðu þjóðanna frá 1980 og samstarfi því sem á sér stað á norrænum vettvangi um jafnréttismál, og í þriðja lagi að tillögugerð um verkefnaáætlun í jafnréttismálum til næstu 10 ára. Þessi nefnd verður skipuð nú á næstunni, og að því er félmrh. hefur tjáð mér munu fulltrúar hinna ýmsu verkalýðssamtaka ásamt öðrum eiga sæti í þessari nefnd. Þetta tel ég ákaflega brýnt mál.

Ég held að lög eins og lög um jafnrétti kvenna og karla, sem voru mikil nýlunda fyrir fimm árum, þurfi nú að fá ítarlega endurskoðun, og ég fagna því að sú nefndarskipun hefur verið tilkynnt. Það er auðvitað hægt að halda mjög langa ræðu um þessi mál og margt um þau að segja. En ég get ekki fallist á að það sé til eflingar sjálfsvitund kvenna að hafa það á tilfinningunni hvenær sem konu er veitt starf, hvenær sem kona er kjörin til Alþingis eða sveitastjórnarstarfa, að hún eigi það aldrei víst að hún hafi verið sett í þessi embætti vegna eigin verðleika, heldur ævinlega vegna þess að hún var kona. Engin okkar hefur beðið um þessi forréttindi, og ég segi fyrir mig, að ég vil ekki þiggja þau. Það má vel vera að árangurinn verði þess vegna lítill, og hann er það vissulega. Enn þá erum við hér þrjár á Alþingi Íslendinga þrátt fyrir lög um jafnrétti kvenna og karla, enn þá eru í hverri stofnun deildarstjórarnir karlmenn, en skrifstofufólkið konur. Verður það lengi í minnum haft, þegar kvennadagurinn mikli var haldinn, að í þeirri stofnun, sem ég vann þá hjá, Tryggingastofnun ríkisins, voru tveir viðskiptavinir afgreiddir þann dag af hinum 11 deildarstjórum, meðan hinar 85 konur tóku sér frí. Báðir voru afgreiddir rangt og þurfti að taka málin upp daginn eftir.

Það sýndi sig þá, að þjóðfélagið gengur ekki án okkar starfskrafta, og það er jafnljóst, að það er engum, allra síst körlum, greiði gerður með að þetta ástand haldist. Hins vegar skal ég viðurkenna að ég er ekki bjartsýn á að nein veruleg bylting verði í þessum málum, m. a. vegna þess að ég held að þau séu ekki alltaf rekin á réttum grundvelli.

Ég held að þessi mál séu töluvert flóknari en þau eru oft lögð upp. Byltingin í jafnréttismálum kvenna og karla byrjar ekki úti á hinum opinbera vettvangi, sú barátta byrjar heima á heimilunum. Ég held að þessi barátta sé oft háð af einsýni. Ég held að konur eigi að velja um hvort þær vilja vera með sínum börnum heima á meðan þau eru ung. Það er ekki feimnismál. Ég held að við eigum að hafa þetta val. Nýlega hafa verið samþykkt lög á Alþingi um fæðingarorlof og ber að fagna því, að þar er um val að ræða hvort foreldra annast börnin. Þó er vitanlega gert ráð fyrir að konan sé með börnunum fyrstu vikurnar. Fyrir því liggja svo augljósar ástæður að um það þarf ekki að deila.

Ég vil líka leggja á það áherslu og hef gert frá fyrstu byrjun umræðna um jafnréttismál, að við megum aldrei heyja þessa baráttu á þann veg að við á nokkurn hátt vanrækjum börnin okkar. Konum væri lítill sómi að slíku, og ég held að við eigum ekki að fara svo hratt í þessi mál sem hér er lagt til, að við sælumst eftir forréttindum til starfa. Ég held að við verðum að reyna að heyja þessa baráttu þannig að bæði kynin séu samstiga.

Kannske er þetta orðin of hlutlæg umræða og ekki tími nú til þess að halda hér langa ræðu, en ég mun að sjálfsögðu að öðru leyti styðja þann anda sem kemur fram í langri og ítarlegri ræðu hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur. Við þekkjum allar ólíka stöðu karla og kvenna, jafnvel þó að við séum komnar hér á hið háa Alþingi, eins og umr. í dag best lýstu. Og þó að þetta sé ekki í stóru atriðunum, þá kemur það fram í hinum smáu. Ég held að það hafi sýnt sig á þingheimi, sem ég sá ekki stökkva bros né sýna minnstu geðbrigði undir þessari umr., hvað langt er í land að jafnvel þeir, sem sitja á Alþingi Íslendinga, geri sér eitt augnablik ljósa þessa mismunun. Ég er næstum því viss um að engum þm. hér í deild fannst hið minnsta athugavert við þetta, vegna þess að endanlega erum við konur skemmtileg skrautblóm í þingsölum. Ég vildi sjá framan í hv. þm. hins háa Alþingis ef ég stæði hér og færi að tala um hvernig þeir eru í laginu. Ég býst við að það vekti verulega athygli. En það sýnir hvað langt er í land að byrja þessa umr., hvað þá að ljúka henni.