01.04.1981
Neðri deild: 70. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3310 í B-deild Alþingistíðinda. (3403)

261. mál, jafnrétti kvenna og karla

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Það er ekki komið á jafnrétti þó að svo vilji til að kona sé forseti á Íslandi, það vil ég láta hv. þm. Ólaf Þ. Þórðarson vita. (Gripið fram í: Það er þó í áttina. — ÓÞÞ: Það eru biskupskosningar á þessu ári.) Hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson talar um að karlpeningurinn mundi hrynja ef þeir legðu á sig tvöfalt vinnuálag. (Gripið fram í.) Ef konur vinna heimilisstörfin og tölur sýna að þær hafi lengri lífaldur, eins og Ólafur Þ. Þórðarson benti á, þá vil ég benda hv. þm. Ólafi Þ. Þórðarsyni á að hætta þingmennsku og taka að sér heimilisstörfin ef hann er hræddur við að stutt sé á grafarbakkann.

Það eru tvö atriði úr ræðu hv. þm. Guðrúnar Helgadóttur sem ég vil gera hér að umtalsefni.

Hún leggur til að 4. gr., sem felur í sér að á fjárlögum ár hvert skuli veita Jafnréttisráði framlag sem geri því kleift að standa fyrir könnunum á launakjörum karla og kvenna, verði felld. Ekki fannst mér nú rökstuðningurinn sannfærandi. Hún segir að það sé til nóg af opinberum stofnunum til að gera slíkar kannanir. Ég vil því spyrja hv. þm.: Ef það er til nóg af opinberum stofnunum til að standa fyrir þessum könnunum, af hverju hafa þær þá ekki verið gerðar? Við höfum haft í gildi frá 1973 lög sem segja að þessar kannanir skuli gerðar. Og hvar eru þessar kannanir, hv. þm.? Hvers vegna hafa þessar skipulegu kannanir þá ekki verið gerðar? Ég vil benda hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur á að flokkssystir hennar, fyrrv. hv. þm. Svava Jakobsdóttir, var ekki á sama máli og hún. Ég tel mig verða að endurtaka það sem kom fram í minni framsögu um þetta efni, en flokkssystir hv. þm. sagði, með leyfi forseta, að Jafnlaunaráð ætti að „eiga frumkvæði að því að rannsaka hver brögð kunna að vera á misrétti í kjaramálum.“. Og í fsp. í vetur um hvað liði framkvæmd þáltill., sem samþykkt var á s. l. ári og fól í sér að rannsaka tekjuskiptingu og launakjör, kom fram annar tónn hjá hæstv. félmrh., flokksbróður hv. þm., þegar hann las upp bréf Kjararannsóknarnefndar sem falið var að athuga um framkvæmd tillögunnar, en tillagan fól í sér m. a. að upplýsa hvernig aldur og kynskipting sé eftir launatöxtum, yfirborgunum og starfsgreinum, — kanna hvort brögð séu að því að launamisrétti sé falið í stöðuheitum. Um þetta ákvæði sagði Kjararannsóknarnefnd, með leyfi forseta:

„Þetta verkefni er að sjálfsögðu ekki hjá Kjararannsóknarnefnd, heldur hjá Jafnréttisráði.“

Og um það ákvæði till., sem felur í sér að athuga hvort uppbygging launataxta og annarra launakjara kalli fram mismun á kjörum karla og kvenna, segir í bréfi Kjararannsóknanefndar, með leyfi forseta:

„Mat af þessu tagi sýnist falla með beinum hætti undir Jafnréttisráð sem væntanlega gæti m. a. byggt það á gögnum Kjararannsóknarnefndar.“

Hæstv. ráðh. sagði þá í lok ræðu sinnar að hann mundi fara fram á það við Jafnréttisráð og Þjóðhagsstofnun, að þessir aðilar tækju að sér ýmsa þætti til athugunar í þessari till. Og ef ég gæti sannfært hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur enn betur um það, að það væri ætlan Alþingis að Jafnréttisráð hefði þessar kannanir á hendi, þá vil ég vitna aftur í ræðu mína fyrr í dag ef það hefur farið fram hjá hv. þm.:

„Í grg. um hlutverk Jafnréttisráðs frá 1976 segir að ljóst sé að Jafnréttisráð verði að standa að ýmsum félagslegum könnunum, og í umsögn Kvenréttindafélags Íslands um það frv. er það eitt af þeim atriðum sem Kvenréttindafélagið leggur áherslu á ef frv. eigi að ná tilgangi sínum, að ráðið rannsaki hvort lög um launajöfnuð frá 1961 hafi verið sniðgengin í kjarasamningum eða framkvæmd. Það leikur því ekki vafi á að til þess var ætlast með lögum þótt Jafnréttisráð hafi ekki haft bolmagn til þess enn að standa fyrir slíkum könnunum.“

Hv. þm. verður því að svara því, hvers vegna þessar kannanir hafa ekki verið gerðar nema í mjög litlum mæli hjá öðrum stofnunum, ef það er hennar einlæga meining, að fráleitt sé að hugsa sér að Jafnréttisráð hafi þær á hendi.

Hv. þm. upplýsti okkur líka fagnandi um það, að hæstv. félmrh. ætlaði nú að skipa nefnd sem hefði m. a. það verkefni að gera breytingar á jafnréttislögunum. Það er sama uppi á teningnum og fyrr í vetur, en þá lýsti hv. þm. vandlætingu sinni yfir því, að ég skyldi leyfa mér að leggja fram till. hér á hv. Alþingi um umbætur í málefnum aldraðra, og sagði að sér væri skapi næst að leggja til að till. yrði vísað frá og hún fengi ekki eðlilega meðferð. Jú, hver var ástæðan? Hennar ágæti flokksbróðir, hæstv. félmrh., ætlaði nefnilega að leggja fram frv. um þetta sama efni eftir nokkra daga. Þetta var seinni partinn í okt., en við þm. sáum þetta frv. nú fyrst fyrir nokkrum dögum.

Nú hef ég lagt fram frv. um breytingu á jafnréttislögunum. Vitaskuld ætlast ég til að þetta verði sent til umsagnar öllum þeim aðilum sem málið skiptir: samtökum kvenna, Jafnréttisráði, aðilum vinnumarkaðarins, svo að eitthvað sé nefnt. Þegar þær umsagnir liggja fyrir væri svo hægt að samræma sjónarmið og gera frv. þannig úr garði að allir gætu sætt sig við það.

Nei, þrátt fyrir að frv. sé komið fram á Alþingi ætlar hæstv. ráðh. að skipa nefnd til þess að fjalla um málið áður en Alþingi er treystandi til að fá málið til meðferðar. Ég fer nú að halda, miðað við viðbrögð þeirra félaga í þessum málum mínum, að ég þurfi að leita samþykkis og leyfis þeirra, hvort rétt sé af mér að koma með þau mál inn á Alþingi sem ég hef áhuga á að Alþingi fjalli um og taki afstöðu til. En hv. þm. skal vita það, að við stjórnarandstæðingar hljótum að gera þá kröfu, að mál okkar fái eðlilega meðferð hér á hv. Alþingi. Málið er komið inn á Alþingi, Alþingi er fullfært að fjalla um það, og ég vænti ekki annars en það fái ítarlega umfjöllun í nefnd og fullt samráð verði haft við alla þá aðila sem um þessi mál fjalla. Og mér er raunar spurn: Hvers vegna er hv. þm. Guðrún Helgadóttir að hafa fyrir því að leggja fram brtt. við þetta frv. þegar greinilegt virðist vera að hún og hennar flokksbræður hafi ekki áhuga á að frv. nái fram að ganga, fyrst meiningin er nú að skipa nefnd í málið?