01.04.1981
Neðri deild: 70. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3327 í B-deild Alþingistíðinda. (3414)

261. mál, jafnrétti kvenna og karla

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Það eru nokkur atriði sem mig langar til að taka fram við þessa umr.

Í fyrsta lagi er ég sammála þeim viðhorfum sem stundum hafa komið fram hér í þinginu, að sérlög um ákveðna þjóðfélagshópa séu hvimleið. Það hefur hins vegar sýnt sig að þau virðast stundum nauðsynleg, ef á að leggja áherslu á eitthvert verulegt átak í málum þessara hópa. Mönnum hefur orðið tíðrætt hér í kvöld um þau orð mín, sem féllu líklega eins og menn sögðu í nóv. s. l., um að þetta frv. væri væntanlegt innan skamms tíma. Það er hins vegar fyrst að koma fram núna og ekki skal ég taka af mér nokkra sök þar.

Þetta frv. á sér töluvert langa sögu, og það er alveg rétt sem fram kom hjá hv. þm: Magnúsi H. Magnússyni, að hann var búinn að láta nefnd vinna mikið í þessu máli. Síðan þegar núv. heilbrmrh. tók við var þess m. a. farið á leit við mig og fleiri að líta á þessi drög að frv., og mér er ekki launung á að ég hafði töluvert við þau drög að athuga, ekki svo mikið kannske efnislega og því síður varðandi þá hugsun sem að baki þess frv. lá, heldur töldum við að það væri ákaflega erfitt að sameina í einu frv. bæði félagslega þjónustu og heilbrigðisþjónustu fyrir aldraða, einfaldlega vegna þess að það hlýtur alltaf að verða álitamál, hvernig hægt sé að koma fyrir í sömu lögunum málum, sem heyra undir sveitarfélögin, og málum, sem heyra beint undir ríkið. Fór mestur tími nefndarinnar, sem vann að þessu að lokum, einmitt í þetta vandamál. Ég vil því taka undir það, að ég tel að nauðsynlegt sé að setja lög um félagslega þjónustu við aldraða, en ég tel ekki að þau rúmist inni í þessu frv. Ég held að hv. þm. Magnús H. Magnússon viti betur en orð hans báru merki hér áðan um þá togstreitu, sem hann réttilega nefndi svo, sem er milli álits manna um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga.

Hér er ég með í höndunum niðurstöðu nefndar sem búin er að starfa að þessum málum síðan 26. febr. 1976. Í henni voru m. a. þm. Ólafur G. Einarsson og Steinþór Gestsson. Ég skal taka það strax fram, ég er ósammála nær hverju einasta atriði, sem í þessari miklu bók er, einkum vegna þess að hér er rakinn málaflokkur eftir málaflokk sem nefndin er ákveðin í að setja allan kostnað af á sveitarfélögin. Dæmi: stofnkostnað dagvistarstofnana, almenningsbókasöfn, heimilishjálp, eins og hún raunar er, stjórn og eignarráð grunnskólans færast í auknum mæli í hendur sveitarfélaga, og hér segir, með leyfi forseta: „Tónmenntafræðsla skal fara yfir á sveitarfélögin.“ Svona gæti ég haldið lengi áfram. Jafnvel skal endurskoða hugtakið þjóðvegi í þéttbýli sem ríkið hefur hingað til greitt. Ég held að hér sé svo viðkvæmt mál á ferðinni að sé einhver alvara að koma þessu frv. í gegnum þingið hefði verið stórhættulegt að gera nokkra till. um að heimilishjálp greiðist af ríkinu. Þetta held ég að hv. þm. Magnúsi H. Magnússyni sé fullkunnugt. Það þýðir ekki að ég sé endanlega ósammála hans sjónarmiðum, en ég held að það hefði tafið mikið fyrir framgangi þessa frv. hér í þinginu.

Það má margt um þetta segja. Ég vil taka það fram vegna orða hv. þm. Ingólfs Guðnasonar, að ég get huggað hann með því, að landafræðikunnátta hæstv. fyrrv. heilbrmrh. Matthíasar Bjarnasonar hefur verið lagfærð í reynd varðandi heilsugæslulögin. Fyrir hv. trn. Nd. liggur frv. um hollustuhætti og hollustuvernd og þar höfum við fyrir löngu leiðrétt þessi vandamál með Flatey, sem við ætlum aldeilis ekki að láta tilheyra Hólmavík, né Bæjarhrepp Hólmavík, og ég get upplýst hv. þm. um að við ætlum einnig að flytja Þingvallasveitina niður á Suðurlandið úr Mosfellshreppnum. Slíkar landfræðilegar skekkjur held ég að vandalaust sé að laga í meðferð nefndar á málinu. Ég held að engum detti í hug að hafa þessi atriði í hinum nýju svæðum.

Hræðsla manna við mat ellimálanefnda, sem svo heita, á því, hverjir hafi þörf fyrir hvers konar þjónustu, held ég að sé ástæðulaus og hv. þm. Pétur Sigurðsson mikli það mjög mikið fyrir sér. Hér í Reykjavík er þjónustunefnd fyrir aldraða á vegum Félagsmálastofnunar með fulltrúum frá heilbrigðishlutanum. Í henni sitja m. a. borgarlæknir, hjúkrunarfræðingur og aðrir slíkir. Við afhendingu á íbúðum fyrir aldraða í Reykjavíkurborg — en eins og hv. þm. eflaust vita hefur verið unnið hér merkt starf í Reykjavíkurborg, bæði af fyrrv. og núv. borgarstjórn í þeim efnum — er talið algerlega sjálfsagt að þjónustunefnd svokölluð, sem líklega mun heita ellimáladeild í framtíðinni verði því ekki breytt, fjalli um þörf umsækjenda fyrir þessa þjónustu. Hér er verið að fara með opinbert fé og það er auðvitað borgaraleg skylda, að þeir njóti hennar sem mest þurfa.

Vegna ótta hv. þm. Péturs Sigurðssonar, sem kom hér fram í ræðu í dag og einkum í sambandi við stofnanir sem honum eru nákomnar, svokallaðar sjálfseignarstofnanir, gildir auðvitað nákvæmlega það sama. Ég held að hv. þm. gleymi því, að í fyrsta lagi hefur opinbert fé verið að verulegu leyti notað til bygginga þessara stofnana þrátt fyrir allt. Vissulega hafa þessar stofnanir fengið fyrirgreiðslu úr Erfðafjársjóði, Byggingarsjóði aldraðra og hvers kyns framlög. (PS: Þm. veit ekkert hvað hann er að tala um.) En burt séð frá því — ekki skal ég lasta það mikla átak sem þarna hefur verið unnið — skal hv. þm. ekki heldur gleyma að Tryggingastofnun ríkisins greiðir að langmestu leyti fyrir þetta fólk. Og ég ætla aðeins að fara út í það mál, vegna þess að þar er töluvert vandamál á ferðinni sem ég hygg að verði að leiðrétta. Ég held að hæstv. heilbr.- og trmrh. verði knúinn til að gera eitthvað í þessum málefnum varðandi daggjöld.

Eins og hv. þm. eflaust vita er tvenns konar greiðsla á svokölluð elliheimili eða dvalarstofnanir fyrir aldraða. Þeir, sem fara inn á venjulega vist, greiða í fyrsta lagi ellilífeyri sinn, síðan eftirlaun sín ef einhver eru, og síðan ber Tryggingastofnun ríkisins að greiða það sem á vantar til að viðkomandi eigi fyrir dvöl sinni. Síðan fá vistmenn ofurlitla vasapeninga sem mega nema allt að 25% grunnlífeyris. Ef menn hins vegar fara inn á sjúkradeild greiðir sjúkratryggingadeild Tryggingastofnunar alla dvölina og þar er um að ræða miklu hærri upphæð. Ég hef nú ekki haft tækifæri til að afla upplýsinga um þessar upphæðir eins og þær eru núna, en á þessu er verulegur munur.

Hv. þm. Pétur Sigurðsson talaði hér um sjúkradeildir í dag. Ef við tökum stofnun eins og Hrafnistu í Reykjavík sem dæmi munu vera viðurkennd sjúkrarými þar fyrir um 80 manns. Þegar ég yfirgaf Tryggingastofnun ríkisins voru 2/3 af 400 vistmönnum á sjúkratryggingagjaldi, þó að þeir væru auðvitað ekki á neinni sjúkradeild vegna þess að hún er ekki til fyrir svo marga. Einhvern veginn hafði læknum heimilisins í samráði við aðra lækna í kerfinu tekist að sannfæra hver annan um að þetta fólk hlyti að þarfnast svo mikillar þjónustu að það bæri að greiða þetta háa gjald. Það skrýtna við þetta fyrirkomulag er, að þegar sjúkratryggingadeild er farin að greiða dvölina að fullu og öllu fær gamla fólkið lífeyri sinn úr lífeyrissjóði óskertan, vegna þess að í lögum um almannatryggingar segir að þegar sjúkratryggingadeild taki við greiðslunni falli bætur almannatrygginga niður, en lífeyrissjóðsgreiðslur eru auðvitað ekki hluti af þeim. Við höfum þess vegna dæmi um fólk, sem er með á þriðju milljón í eftirlaun, en á fullu sjúkratryggingagjaldi, á stofnunum eins og Hrafnistu eða einhverri annarri stofnun — (PS: Líka á ríkisstofnunum.) — að sjálfsögðu — og að mínu mati er þetta ekkert vit. Þetta gamla fólk hefur fulla ástæðu til að krefjast þess að fá að borga sína dvöl. Þetta er í stuttu máli þannig, að á meðan gamla fólkið gæti haft einhverja ánægju af eftirlaununum sínum hverfa þau inn í dvölina, á meðan það hefur fótavist og er á venjulegri vist. Þegar það er orðið ófært um að njóta eins eða neins og er lagst inn á sjúkradeild koma eftirlaunin. Það getur hver sett sig inn í vandræði starfsmanna Tryggingastofnunar að útskýra þessa endaleysu fyrir gömlu fólki.

Ég man eftir dæmi þar sem tvær gamlar prestsekkjur bjuggu í sama herbergi með svipuð eftirlaun. Önnur þeirra var á sjúkratryggingagjaldi og fékk eftirlaunin óskert. Hin var ekki komin í þá „kategoríu“ og fékk þar af leiðandi næstum ekki neitt af þeim og lái hver sem vill starfsmönnum Tryggingastofnunar þótt þeim veitist erfitt að útskýra rökin fyrir slíkri afgreiðslu. Þetta er auðvitað ekki stofnuninni að kenna, heldur lögum sem ég tel að þurfi nauðsynlega að ráða bót á.

Ég er ekki heldur alveg sammála hv. þm. Magnúsi H. Magnússyni varðandi greiðslu fyrir þjónustu í heimahúsum. Við skulum ekki gleyma því, að verulegur hluti fullorðins fólks nýtur nú verulegra eftirlaunagreiðslna. Fyrrv. opinberir starfsmenn t. d. eru tiltölulega mjög vel settir margir hverjir, og ég hef reynslu fyrir því, að margt af þessu gamla fólki vill gjarnan greiða fyrir þá þjónustu sem því stendur til boða. Reykjavíkurborg hefur ósköp einfaldar reglur í sambandi við svokallaða heimilishjálp, sem er orðin umfangsmikill þáttur í félagslegu starfi í Reykjavík — ég má segja að til þeirrar þjónustu fari um einn gamall milljarður á þessu ári. Við skiptum þessu fólki í flokka. Þeir borga sem geta, en þeir sem ekki hafa annað en almannatryggingabætur fá þessa þjónustu ókeypis. Ég sé ekkert athugavert við það fyrirkomulag, enda er mér ekki kunnugt um að nokkur maður hafi kvartað. Við skulum enda ekki gleyma því, að fólk breytist ekki svo mjög þó að það verði gamalt. Það vill gjarnan halda eigin frumkvæði, og ég er alveg sammála því. Það er ekkert verra gert við fullorðið fólk en að taka af því eigið frumkvæði og ráðskast með það. Hins vegar verðum við, meðan við höfum ekki stofnanir, þ. e. stofnanir fyrir fólk sem getur ekki annars staðar verið, ég er sammála þm. um að fólk eigi auðvitað að vera í heimahúsum eins lengi og það óskar og getur, — en á meðan við verðum að velja og hafna og við höfum ekki rými fyrir allt þetta fólk, þá hlýtur að vera réttlátt og eðlilegt að meta hvar þörfin er sárust. Þetta gerum við varðandi íbúðir fyrir aldraða í Reykjavík og mér vitanlega hefur enginn haft neitt nema gott um það að segja. Þar með er komið í veg fyrir að ýtnir ættingjar, fólk sem á eitthvað undir sér og kunningsskapur og hvað eina ráði því, hverjir fái hæli á slíkum stofnunum. Ég held að við hv. þm. Pétur Sigurðsson þekkjum allt of mörg dæmi um það, að fólk, sem raunverulega hefði getað verið í heimahúsum með einhverri aðstoð, tekur upp rými á dvalarstofnunum fyrir aldraða á meðan fólk, sem er í fullkomnu reiðileysi, fær enga þjónustu. Ég trúi ekki að hv. þm. Pétur Sigurðsson beri á móti þessu.

Mér er jafnljóst að á hans merku stofnun, sem hún virkilega er, eru vissar kvaðir. Þetta er Dvalarheimili aldraðra sjómanna. Ég get ekki ímyndað mér annað en hægt sé að komast að einhverju samkomulagi um að aldraðir sjómenn verði ekki sviptir þessum rétti sínum. En hitt er annað mál, að ég er jafnsannfærð um að það sé réttlátt og eðlilegt að meta hvar þörfin er sárust.

Að lokum vil ég minnast aðeins á Framkvæmdasjóð. Þar er í raun og veru sama sagan uppi. Það er auðvelt að segja: Kemur nú enn einn markaður tekjustofn. Í „prinsipinu“ get ég haft ýmislegt vafasamt um þá að segja, en í mörgum tilfellum, þegar svona mál er á ferðinni, eru þeir algerlega nauðsynlegir. Það hefur Framkvæmdasjóður öryrkja sýnt, og ég held að eina ráðið til að geta gert eitthvert átak í þessum málum sé slíkur sjóður. Mér er það skaðlaust þó skattur sé lagður á vínveitingahús. Ég veit ekki betur en hér hafi verið talað um vinveitingar og áfengismál í löngum ræðum og þjóðin hvött til að draga úr drykkjuskap. Það er þá einn liður í því að skattleggja þá sem títt sækja veitingahús. Ég hef ekki miklar áhyggjur af því.

Varðandi stjórn sjóðsins held ég að þm. hafi ofurlítið misskilið hvernig úthlutanir eru hugsaðar. Eins og ráðh. tók fram í ræðu sinni er gert ráð fyrir ellimáladeild í heilbr.- og trmrn. Ég held, að ellimálanefndir landsins hljóti að geta komið sínum erindum til þeirrar deildar og deildin síðan útbúið mál í hendur síns ráðh. Til hvers í ósköpunum að fara að búa til rétt eina nefndina? Ég held að við mættum stundum halda þar svolítið að okkur höndum í okkar litla landi. Menn tala hér stundum eins og við séum 200 millj., en ekki 200 þús. Það er líka sparnaður í því að auka ekki þetta nefndafargan, sem sumt vinnur vissulega gott verk, en sumt nánast ekki nokkurn skapaðan hlut og mætti betur vera án þess. Þessir aðilar hljóta að vera fullfærir um að vinna úthlutun í hendur þess ráðh. sem með málaflokkinn fer.

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þetta miklu meira. Það er þó eitt atriði sem ég vildi líka minnast á. Menn kvarta um að hér sé alger aðskilnaður heilsugæslukerfisins og félagsmálakerfisins á ferðinni. Ég held að 4. gr. tryggi það, svo að um verði varla villst, að starfsmaður félagsþjónustu tilnefndur af borgarstjórn eða sveitarfélagi sitji í ellimálanefnd. Ég held að nú efist enginn um að slíkur fulltrúi sé félagslega menntaður þar sem hann er að fá. Ég hygg að það vefðist ekki fyrir neinum í félagsmálaráði Reykjavíkurborgar að velja félagsráðgjafa í slíka nefnd. Ég er hins vegar ekki viss um að félagsráðgjafi finnist á öllum svæðum landsins, og þá verður auðvitað að nýtast við annan starfskraft. En ég held að ástæðulaust sé að hafa áhyggjur af þessu. Með þessum orðum er ég ekki að segja að þetta sé fullkomið frv. frekar en önnur mannanna verk. Og það á auðvitað eftir að fara í nefnd og verður væntanlega fjallað um það þar. En ég vona sannarlega að samkomulag náist á hinu háa Alþingi um að þetta frv. nái fram að ganga á þessu þingi. Ég held að það sé ákaflega brýnt mál.