01.04.1981
Neðri deild: 70. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3331 í B-deild Alþingistíðinda. (3416)

261. mál, jafnrétti kvenna og karla

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Hv. 8. landsk. þm. gat hér um þjónustunefnd Reykjavíkur, taldi hana til fyrirmyndar og þar af leiðandi hlyti þetta frv. að vera mikið til bóta hvað þjónustu við aldraða snertir ef slík þjónustunefnd kæmist á. Ég vil aðeins að það komi hér fram, að það er eitt það atriði í þessu frv. til l. á þskj. 544, um heilbrigðis- og vistunarþjónustu aldraðra, sem hræðir mig hvað mest. Það gekk illa að koma þessari þjónustunefnd saman í Reykjavíkurborg vegna þess að sú mikla vinna, sem hefur verið unnin í byggingu bæði íbúða og stofnana fyrir aldraða í Reykjavíkurborg, var upphaflega ráðgerð til að leysa félagslegt vandamál í Reykjavíkurborg. En baráttan hófst fljótt við lækna og aðra aðila, sem standa að sjúkrahúsunum, um yfirráð á þessum byggingum og stofnunum, sem endaði með því, að félagsmálahliðin hafði meiri hluta í þeirri þjónustunefnd, en læknar eru þar að sjálfsögðu með. En samkv. 4. gr. frv. er þessu snúið við, og hugmyndin, sem kemur þar fram, segir mér — án þess að ég viti það að sjálfsögðu eða hafi það staðfest — að hér hafi sömu aðilar komið með hugmyndir og byggt upp þetta frv. og gerðu okkur starfið hvað erfiðast í uppbyggingu og skipulagningu á rekstri þeirra stofnana, sem nú þegar eru starfandi í Reykjavík.

Ég lít svo á að þetta sé mjög slæmt. Frv. styður það sjónarmið, eins og segir í 4. gr., að lækna- eða sjúkrahúsa-sektorinn, ef ég má nota það orð, er allsráðandi um vistun, en ekki hin félagslega hlið vandamálanna. Eins og þeir, sem þekkja til, geta vitnað um skapa læknarnir oft meiri félagslegan vanda hjá öldruðum en þeir leysa með því að senda aldrað fólk annaðhvort of fljótt og á margan hátt sjúkt af sjúkrastofnun eða þá hreinlega að neita að taka fólk mn á stofnanir vegna aldurs. Ég hef sagt það í borgarstjórn um þetta mál og segi það hér — ég held að ég hafi áður sagt það úr þessum ræðustól á hv. Alþingi — að það eru engin aldurstakmörk fyrir fólk á sjúkrahús. Það er þörfin sem á að ráða hvort læknar eða aðrir taka fólk til meðhöndlunar á sjúkrastofnunum. En við höfum fyrst og fremst verið að leysa félagslegt vandamál aldraðra með þeim byggingum sem byggðar hafa verið í Reykjavík.

Í 4. gr. segir að heilsugæslulæknir og heilsugæsluhjúkrunarfræðingur, sem báðir koma úr sjúkra-sektornum og sá þriðji starfsmaður félagsþjónustu, skuli tilnefndir í þessa nefnd. Borgarlæknir er formaður nefndarinnar í Reykjavík, en auk hans eiga sæti í nefndinni heilsugæsluhjúkrunarfræðingur og starfsmaður félagsþjónustu tilnefndur af borgarstjórn. Sem sagt, það er búið að snúa hlutunum við. Því vil ég mótmæla.

Í þessu frv. er líka of mikil miðstýring á þeirri starfsemi sem frv. fjallar um. Það er andstætt minni lífsskoðun og það er andstætt því sem ég tel að sé hagkvæmt í rekstri og stjórn á slíkum stofnunum. Þeim verður aldrei stjórnað úr neinu rn., það er ekki hægt. Það er bara verið að kalla á breytingu á þessum málum innan skamms tíma. Ég vil því ráðleggja þeim, sem standa að þessu frv., að varast með vinnu sinni að brjóta niður þær stofnanir, sem fyrir eru, með ofstýringu eða miðstýringu, heldur styðja þær og það skipulag sem þær byggjast á — það hefur reynst vel — styðja bæði stofnanirnar og einstaklingana sem þar starfa, því að þeir starfa af hugsjón. Þegar menn starfa af hugsjón brennur eldur í æðum. Þetta fólk vill gera vel og gerir vel. Ég hef þá reynslu af núv. hæstv. félmrh., að hann er einn þeirra sem hafa áhuga á þessum málum, og hann hefur starfað að þeim af þeirri hugsjón og með þeim hugsjónaeldi sem ég hef minnst á. Ég hef þá persónulegu reynslu og því vil ég biðja hann um að beita sér fyrir breytingu á þessu frv. í þá átt sem ég hef hér getið um.

Hér er talað um fjármögnun á því átaki sem frv. gerir ráð fyrir. Ég get ekki samþykkt sumt af því sem þar kemur fram í 6. gr. Ef hv. þm. eru nú loksins komnir á þá skoðun, að vandamál aldraðra sé mikið, eins mikið og fram hefur komið hér í ræðum, þá eigum við að viðurkenna þetta vandamál sem forgangsverkefni. Meðalaldur á þeim stofnunum, sem Reykjavíkurborg hefur opnað, er yfir 80 ár. Þetta fólk hefur á langri ævi skilað því, sem því var ætlað af forsjóninni að skila til þjóðfélagsins, og þarf nú á þjóðfélaginu að halda í staðinn. Ef við viljum gera þetta að forgangsverkefni hér, eins og Reykjavíkurborg hefur gert, þá ráðlegg ég hv. Alþingi að standa eins að og Reykjavíkurborg hefur gert, þ. e. að úrskurða því ákveðna prósentutölu af fjárfögum. Það er gert t. d. til Framkvæmdastofnunar eða Byggðasjóðs — af því að ég er minntur á hann hér í ræðustólnum með komu hv. þm. Sverris Hermannssonar í salinn. Eins mætti standa að fjármögnun þeirra verkefna, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, og ætla af fjárlögum ákveðna prósentu til þessa átaks.

Ég vil taka undir það sem hér hefur komið fram, að þessu frv. verði hraðað með breytingum í gegnum hv. Alþingi, og þá náttúrlega nefndir, þannig að það komi sem fyrst til baka til endanlegrar afgreiðslu. Hvort sem menn skilja það nú eða eiga eftir að skilja það seinna, þá er nauðsynlegt að tala minna og framkvæma meira og það fyrr en síðar.

Það eru ýmis atriði í þessu frv. — sem ég ætla ekki að telja upp, en vil bara vekja athygli á þegar það verður skoðað í nefnd — sem ég tel að alls ekki eigi þar heima eða alls ekki sé rétt að verði að lögum óbreytt, — atriði sem ég tel fyrst og fremst verkefni sveitarfélaganna sjálfra. Ég vona að ég fái tækifæri til að ræða sérstaklega um þau atriði við þá nefnd sem fær þetta frv. til athugunar.