01.04.1981
Neðri deild: 70. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3333 í B-deild Alþingistíðinda. (3417)

261. mál, jafnrétti kvenna og karla

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka þann mikla áhuga sem fram hefur komið á þessum málum í umr. í dag. Ég vil einnig þakka þær ábendingar sem fram hafa komið. Vafalaust er eitthvað í þessu frv., eins og verða vill, sem betur mætti fara.

Ég vil segja t. d. í sambandi við skipan ellimálanefndanna, hvernig þær eru saman settar, að mér finnst alveg ástæðulaust af mönnum að tala um það með einhverjum þjósti, að hér sé um að ræða einhverja stefnu ríkisstj. sem eigi nú rétt einu sinni að fara að troða upp á Alþingi. Auðvitað er hægt að skipa svona málum með ýmsum hætti, og ég bið hv. nefnd að líta á það með tilliti til þeirra aths. sem hafa komið fram.

Ég vil einnig segja það út af þeim umr., sem hér hafa farið fram um heilbrigðisþjónustulögin, að auðvitað hefur engum manni dottið í hug að framkvæma þetta þannig, að Flateyjarhreppur á Breiðafirði tilheyrði Hólmavíkurheilsugæslustöðinni. Það dettur engum í hug. Og jafnvel þótt það stæði í lögum mundi enginn hlýða því, eins og ég sagði áðan. Og reyndar er það svo, að í bráðabirgðaákvæði í heilbrigðisþjónustulögunum er beinlínis gert ráð fyrir því, að þrátt fyrir ákvæði 14. gr. heilbrigðisþjónustulaga frá 1978 að öðru leyti eigi Flatey á Breiðafirði að njóta þjónustu frá heilsugæslustöðinni í Stykkishólmi.

Ég vil einnig í þessu sambandi láta þess getið, að við erum með í undirbúningi frv. um breytingu á heilbrigðisþjónustulögunum, m. a. svæðaskiptingunni. Það er hins vegar erfitt mál, það er erfitt að fá þm. til að ná samstöðu um það mál. Ég flutti hér í fyrra frv. um breytingu á lögum að því er varðar svæðaskiptinguna á Norðurlandi eystra í sambandi við Þórshöfn og Raufarhöfn. Ég hygg að allir kannist við að það getur verið erfitt að fá menn til að ná samkomulagi um þessi atriði. En þetta út af fyrir sig á ekki að þurfa að verða fótakefli við framgang þess frv. sem hér er á dagskrá.

Hér hefur að sjálfsögðu komið fram ágreiningur um grundvallaratriði, og það hefði verið hægt að koma þeim ágreiningi frá í ekki mjög mörgum orðum og með miklu rólegri hætti en mér fannst hv. 1. landsk. þm. gera hér áðan, Pétur Sigurðsson. Ágreiningurinn er einfaldlega um það, að hann er andvígur því, að mat verði látið ráða úrslitum um vistun, eins og gert er ráð fyrir í 20. gr. frv. Ég tel að þetta mat sé nauðsynlegt. Ég færði fyrir því rök í framsöguræðu minni og hv. 8. landsk. þm., Guðrún Helgadóttir, rakti það einnig núna, sömuleiðis hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir. Ég held því að rök séu komin fram í því máli og við bætum okkur ekkert á því að eyða nóttinni frekar í umr. um það mál að sinni. Við þekkjum hvert annars sjónarmið í þeim efnum.

Þetta frv. gerir ekki ráð fyrir því, að sett verði upp einhver allsherjar miðstýring þannig að heilbrmrh. eigi að meta hvern einasta aldraðan mann í landinu, hvar hann á að vistast og hvernig og í hvaða rúmi og hver eigi að breiða ofan á hann ef þörf krefur. (Gripið fram í.) Hæstv. forseti, framkvæmdastjóri framkvæmdastofnunarinnar, skaut hér inn aths. — Það er ekkert slíkt á dagskrá. Það, sem hér er verið að tala um, er að reyna að finna samfellt heildarfyrirkomulag um landið allt sem tryggi sem best þá fjármuni, sem lagðir eru í þessi mál, og líka frumkvæðið, en ég er sannfærður um að ein ástæðan til þess, að frumkvæði hefur ekki orðið til meira meðal þjóðarinnar en raun ber vitni á þessum sviðum, er fólgin í því, að það hefur skort farveg, það hefur skort samræmdan félagslegan farveg fyrir þessi mál. Og það hefur líka skort fjármuni. Ríkisvaldið leggur á þessu ári samkvæmt fjárlögum 8.4 millj. nýkr. til stofnana af því tagi sem hér er í raun og veru verið að tala um 8.4 millj. nýkr., Það eru nú öll ósköpin. Þetta frv., eins og það lítur hér út, gerir ráð fyrir að teknar séu 12 millj. nýkr. með þessum tiltekna aðgöngumiðaskatti. Ég geri ráð fyrir því í frv., að þetta ákvæði taki gildi á miðju þessu ári. Þess vegna sagði ég í minni framsöguræðu að á næsta ári þyrfti að vera til ráðstöfunar í þessar stofnanir um það bil þrefalt á við það sem er á þessu ári frá ríkinu. Það teldi ég myndarlegt skref og átak. Þessir fjármunir, sem hugsanlega yrðu þannig til fyrir atbeina Alþingis, ef hv. Alþingi samþykkir þetta frv., yrðu til að hvetja aðra til átaks. Hér er ekki verið að leggjast á frumkvæði eins eða neins. Ég kann ekki við þann tón sem hér kom fram stundum hjá hv. þm. Pétri Sigurðssyni áðan. En það skiptir ekki máli. Aðalatriðið hjá honum var auðvitað það, að ágreiningur er af hans hálfu um þetta mat við vistun á öldruðum á þessum tilteknu stofnunum. Hann gerði grein fyrir þeim ágreiningi og ég er ósammála honum. Þannig stendur málið. Og ég held, eins og ég sagði, að við bætum okkur ekkert á því að vera að rífast um það með einhverjum „óratorískum“ æfingum hér fram eftir nóttu núna. Aðalatriðið er að málið fái góða meðferð og það hið allra fyrsta, og mér fannst að undirtektir allra ræðumanna undir það væru mjög góðar hér í kvöld og í dag.