01.04.1981
Neðri deild: 70. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3339 í B-deild Alþingistíðinda. (3420)

275. mál, atvinnuleysistryggingar

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Í yfirlýsingu þeirri, sem ríkisstj. gaf út við gerð kjarasamninga í okt. s. l., er eins og kunnugt er heitið ýmsum félagslegum aðgerðum af hálfu stjórnvalda. Þar er m. a. gert ráð fyrir fæðingarorlofi handa öllum foreldrum, eins og hv. alþm. er kunnugt, breytingum á almannatryggingum, lagfæringu lífeyrismála, dagvistarmála, og síðast en ekki síst er gert ráð fyrir nýjum lögum um atvinnuleysistryggingar, eða eins og segir í 5. lið yfirlýsingar ríkisstj. frá 27. okt. s. l.:

Ríkisstj. mun beita sér fyrir lagasetningu á yfirstandandi þingi um atvinnuleysistryggingar, sem feli m. a. í sér rýmkun bótaréttar, lengingu bótatíma, breytingar á atvinnuleysisskráningu og hækkun bóta.“

Í þessu sambandi ber að hafa í huga að atvinnuleysistryggingalögin hafa verið til endurskoðunar undanfarin ár án þess að sérstakur árangur eða samkomulag næðist um það með viðkomandi aðilum. Fljótlega eftir að núv. ríkisstj. tók við völdum var þó hafin athugun á þessum málum með það fyrir augum að semja úr þeirri vinnu, sem fyrir lá, frv. til nýrra laga um bættar atvinnuleysistryggingar. Snemma hausts í fyrra hófust svo viðræður við aðila vinnumarkaðarins um þessi mál, og var þeim viðræðum og samráði haldið áfram þar til kjarasamningar voru gerðir hinn 27. okt. s. l. Þá var frv. þetta ekki tilbúið, en í meginatriðum orðið ljóst hvert stefndi, og var því yfirlýsing sú, sem vitnað var til áðan, látin nægja í því sambandi.

Í frv. því, sem hér liggur fyrir um atvinnuleysistryggingar er gert ráð fyrir mörgum veigamiklum breytingum. Hér er ekki aðeins um að ræða rýmkun bótaréttar, lengingu bótatíma, breytingar á atvinnuleysisskráningu og hækkun bóta, eins og segir í yfirlýsingu ríkisstj. sem áður var vitnað til, heldur er nú gert ráð fyrir formbreytingu eða kertisbreytingu bóta sem ég mun skýra betur síðar. Frv. felur því í sér allumfangsmiklar breytingar á gildandi rétti, en allt er það gert með vitund og vilja þeirra fulltrúa verkalýðshreyfingarinnar sem tóku þátt í viðræðum við fulltrúa ríkisstj. um þessi mál. Þess ber þó að geta, að ekki þóttu tök á því að ganga til móts við allar kröfur verkalýðshreyfingarinnar í þessu efni. M. a. var frá upphafi viðræðna krafa verkalýðshreyfingarinnar að iðgjald atvinnurekenda í Atvinnuleysistryggingasjóð yrði hækkað úr 1% í 1.5%. Ekki þóttu tök á því að verða við þessari kröfu, enda þótt það verði að viðurkenna, að sú rýmkun bótaréttar og hækkun bóta, sem frv. leiðir af sér, kunni að krefjast endurskoðunar á iðgjaldaprósentu þótt síðar verði.

Ýmsar minni háttar athugasemdir hefur verkalýðshreyfingin gert við þetta frv., en eins og áður segir er það í öllum aðalatriðum flutt í góðu samkomulagi við málsaðila og þar með stjórnarmenn í Atvinnuleysistryggingasjóði.

Um afstöðu Vinnuveitendasambands Íslands og þeirra fulltrúa þess, sem í viðræðum stóðu við samráðsnefnd ríkisstj. út af málinu, er það að segja, að á ýmislegt var fallist, m. a. greiðslur í lífeyrissjóð, niðurfellingu takmörkunar bótaréttar vegna tekna maka, heimild Atvinnuleysistryggingasjóðs til að greiða fyrir starfsþjálfun einstaklinga sem miði að endurmenntun og aukinni hæfni til starfa og námskeiðahald í því sambandi. Vinnuveitendasamband Íslands hefur frá upphafi sett sig á móti þeirri breytingu að afnema daglega skráningu og koma á vikulegri skráningu. Í heild er mér þó óhætt að segja að þetta frv. falli nokkuð vel að hugmyndum aðila vinnumarkaðarins og sé að dómi þeirra, sem til þekkja, veruleg réttarbót og framför.

Eins og áður segir felur þetta frv. ekki einasta í sér rýmkun bótaréttar, lengingu bótatíma, breytingar á atvinnuleysisskráningu og hækkun bóta, heldur var tekin sú ákvörðun að leggja til í þessu frv. vissa kerfisbreytingu bótagreiðslna.

Í d-lið 15. gr. núgildandi laga segir að rétt til bóta samkv. lögunum hafi þeir sem fullnægi því skilyrði að hafa á síðustu 12 mánuðum stundað tryggingarskylda vinnu í a. m. k. 1 032 dagvinnustundir, eða 516 dagvinnustundir ef um reglubundna hálfs dags vinnu er að ræða, hvort tveggja greitt samkv. kjarasamningi eða taxta verkalýðsfélags.

Samkvæmt gildandi lögum eru því bætur tvenns konar. Fullar bætur og jafnháar bætur fá allir þeir sem hafa unnið hálfa til fulla vinnu miðað við dagvinnustundir síðustu 12 mánuði. Þannig njóta hálfs dags og heils dags vinnu menn sömu bótafjárhæða úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Þeir, sem hins vegar vinna minna en hálfa dagvinnu á ári og allt að'/o dagvinnustunda miðað við 12 síðustu mánuði, sitja við sama borð og fá helmingsbætur.

Gallinn við þetta kerfi er augljóslega sá, að jöfnuður næst engan veginn milli atvinnuþátttöku og bótafjárhæðar. Í stað þessara gildandi ákvæða um hálfar eða heilar bætur eftir atvinnuþátttöku er lagt til í frv. þessu sú kerfisbreyting, eins og áður var sagt, að bótafjárhæðir séu í beinu hlutfalli við atvinnuþátttöku á síðustu 12 mánuðum. Lágmarksbætur og bótarétt fær sá umsækjandi sem hefur a. m. k. 425 dagvinnustundir á s. l. 12 mánuðum. Skilyrði bótaréttar er þannig fært niður úr 516 dagvinnustundum, eins og nú er, niður í 425 dagvinnustundir á síðustu 12 mánuðum, sem samsvarar nokkurn veginn 21/2 mánaðar vinnu. Bætur taka síðan hlutfallslegri hækkun miðað við vinnuframlag og ná að lokum hámarki ef umsækjandi hefur unnið a. m. k. 1 700 dagvinnustundir á s. l. 12 mánuðum eða sem næst 10 mánuði í dagvinnu.

Þessi kerfisbreyting leiðir því til þess, að um lækkun getur verið að ræða í vissum tilvikum samkv. þessu frv., eins og sést t. d. á því, að hámarksbætur fást nú við 1 700 stunda starf, en fengust áður við 1 032 stunda starf. Frv. felur hins vegar í sér að mínu mati réttlátari dreifingu atvinnuleysisbóta og fjárhæða í beinu hlutfalli við atvinnuþátttöku umsækjenda, eins og áður segir. Bótaréttur byrjar aðeins fyrr, hann er jafnari og á að vera sanngjarnari samkv. þessu frv. en er samkv. gildandi lögum. Framangreinda kerfisbreytingu, sem ég hef hér gert grein fyrir, er að finna í 16. gr. frv.

Helstu breytingar, sem þetta frv. felur í sér, verða nú raktar:

10. gr. fjallar um ákvörðun iðgjalds atvinnurekenda. Sú breyting er hér gerð, að í stað þess að miða við lægsta taxta Dagsbrúnar, þegar iðgjald skal lagt á, er miðað við 8. taxta Verkamannasambands Íslands, efsta starfsaldursþrep. Þetta þrep samkv. núgildandi kjarasamningi samsvarar 3. taxta samkv. eldri kjarasamningi, en á það skal bent, að bótafjárhæðir samkv. þessu frv. munu einnig miðast við þennan taxta.

Í gildandi lögum fer um ákvörðun á vinnuvikufjölda samkv. ákvæðum almannatrygginga um iðgjald atvinnurekenda til slysatrygginga. Þetta ákvæði er úrelt, þar sem á þeirri viðmiðun hafa orðið breytingar eins og kunnugt er, og er því í frv. þessu tekið upp beint ákvæði um ákvörðun tryggingarvikna, en tilvísun til almannatryggingalaga fellur niður, enda eru hin tilvitnuðu ákvæði nú numin úr lögum.

14. gr. frv. fjallar um framlag sveitarfélaga til Atvinnuleysistryggingasjóðs. Hún samsvarar í öllum aðalatriðum ákvæðum núgildandi laga um þetta efni, en þó eru felld niður gildandi ákvæði um viðmiðun framlagsins við sérreikninga verkalýðsfélaga, eins og segir í 11. gr. núgildandi laga. Þá er það nýmæli varðandi framlag sveitarfélaga, að gert er ráð fyrir að áætlað framlag þeirra greiðist ársfjórðungslega eftir á, en fullnaðarskil skuli hins vegar gerð þegar iðgjöld hafa endanlega verið ákveðin. Með þessu eru gjalddagar á framlögum sveitarfélaga samræmdir gjalddögum ríkisstjórnarframlaga, sbr. 15. gr. frv. og 12. gr. gildandi laga.

Þá segir í 14. gr. frv. að um dráttarvexti skuli gilda reglur laga um tekjuskatt og eignarskatt og er það nýmæli í þessu sambandi. Sams konar nýmæli er tekið upp í 15. gr. frv., sem fjallar um framlag ríkisins til Atvinnuleysistryggingasjóðs. Sömuleiðis er þar fellt niður ákvæði um færslu á sérreikninga verkalýðsfélaga.

17. gr. frv. fjallar um geymdan bótarétt. Ákvæði um það efni eru nú í 5. og 6. mgr. d-liðar 15. gr. laga. Auk þess sem þar er lögfest að bótaréttur geymist allt að 24 mánuðum, ef hinn tryggði tekur starfi sem ekki er tryggingarskylt, er nú fest hér í frv. nýmæli þess efnis, að sama gildi um þá sem taka að stunda nám eða heimilisstörf allt að sama tíma.

17. gr. frv. gerir því ráð fyrir að allir, sem fullnægja skilyrðum bótaréttar samkv. 16. gr., en taka starfi sem ekki er tryggingarskylt, þar með talið nám eða heimilisstörf í allt að 24 mánuði, haldi að loknu því starfi bótarétti þeim sem áunninn var áður en starfið var tekið. Samkvæmt gildandi lögum er sama tímamark fyrir þá sem verða fyrir þá sem verða frá störfum vegna veikinda, en í frv. þessu er lagt til að tímamörk verði felld niður þegar um veikindi er að ræða þannig að sá, sem hefur áunnið sér rétt til bóta, en verður að hverfa frá vegna veikinda, heldur þeim bótarétti þegar hann verður vinnufær á ný og getur sannað með læknisvottorði að um veikindi hafi verið að ræða, svo og að hann sé vinnufær á ný ef sótt er um atvinnuleysisbætur að loknum veikindum.

Í 18. gr. frv. segir að sá, sem gengur undir starfsþjálfun eða sækir námskeið til þess að öðlast hæfni til að stunda starf sitt eða ný störf, njóti á meðan atvinnuleysisbóta í allt að sex vikur, ef atvinnuleysi hefði skapað honum rétt til slíkra bóta þegar starfsþjálfunin eða dvölin á námskeiðinu hófst, enda njóti hann þá ekki launa. Ákvæði þetta er í 7. mgr. d-liðar 15. gr. gildandi laga svo og 24. gr. þeirra. Samkv. frv. þessu er það hins vegar ekki gert að skilyrði fyrir greiðslu bóta til einstaklings, að hann njóti atvinnuleysisbóta eða sé kominn á atvinnuleysisbætur þegar námskeið eða starfsþjálfun hefst. Umsækjandi þarf aðeins að fullnægja almennum skilyrðum þannig að atvinnuleysi hefði skapað honum bótarétt. Nýmæli þetta í frv. er til þess ætlað að gefa þeim, sem þess þarf einhverra hluta vegna, t. d. vegna tæknibreytinga, vélakosts eða nýjunga í starfsgreininni, kost á starfsþjálfun eða endurmenntun og atvinnuleysisbótum á meðan, enda þótt hann haldi starfi sínu og hefji störf að nýju að námskeiði eða starfsþjálfun lokinni. Í 2. mgr. 18. gr. frv. er kveðið ótvírætt á um það, að heimilt sé að veita styrki til rekstrar starfsþjálfunarnámskeiða, og þarf þá ekki að vera um greiðslur til einstakra þátttakenda að ræða eins og gert er ráð fyrir í 24. gr. núgildandi laga.

Í 20. gr. frv. er nú gert ráð fyrir því, að til þess að öðlast bótarétt verði umsækjandi að láta skrá sig vikulega hjá vinnumiðlun, að viðlögðum missi bótaréttar. Geti umsækjandi ekki látið skrá sig vegna veikinda skal hann láta skrá sig næsta dag sem honum er unnt, að viðlögðum missi bóta. Þetta ákvæði frv. er hliðstætt ákvæðum í 15. gr. gildandi laga. Frv. felur þó í sér það nýmæli, að skráning skal nú vera vikuleg í stað daglegrar skráningar samkv. gildandi lögum. Þó er gert ráð fyrir því í 2. mgr. 20. gr., að stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs geti ákveðið að á afmörkuðum svæðum og í tiltekinn tíma skuli skráning fara fram oftar en vikulega, enda verði slíkt talið eðlilegt með hliðsjón af atvinnuástandi. Þetta ákvæði er einnig nýmæli, og eru þá höfð í huga þau tilvik þegar skyndilegar breytingar verða á atvinnuástandi og rök standa til þess tímabundið að herða skráningu atvinnulausra og leggja aukna áherslu á vinnumiðlun í því sambandi.

Í g-lið 16. gr. gildandi laga — en 16. gr. laganna fjallar almennt um þau tilvik þegar bætur greiðast ekki — segir að fella skuli niður bótagreiðslur til umsækjanda sem á maka sem á síðustu 12 mánuðum hefur haft og hefur hærri tekjur en sem svarar tvöföldum dagvinnutaxta Verkamannafélagsins Dagsbrúnar í Reykjavík. Þessi regla um hjón gildir einnig jafnt um karl og konu sem búa saman og eru bæði ógift, ef þau hafa átt saman barn eða konan er þunguð af hans völdum, eins og það er orðað í lögunum, eða sambúðin hefur varað samfleytt í tvö ár.

Í frv. þessu er umrætt ákvæði g-liðar 16. gr. gildandi laga fellt niður og því engin ákvæði í frv. um skerðingu bóta vegna viðmiðunar við tekjur maka umsækjanda eða tekjur umsækjandans sjálfs. Eins og kunnugt er hefur þessi skerðing vegna tekna maka sætt mikilli gagnrýni á undanförnum árum. Hún hefur einkum mætt á konum sem misst hafa atvinnu sína, og gefur auga leið að slíkt ákvæði er ekki í anda þeirra jafnréttishugmynda sem góðu heilli hafa átt vaxandi fylgi að fagna á undanförnum árum. Breyting þessi er því sjálfsögð og í samræmi við sjónarmið sem margoft hafa komið fram, einnig hér á hv. Alþingi.

Samkv. 22. gr. frv. er bótadögum fjölgað úr 130 í 180 á 12 mánaða tímabili.

Í 23. gr. frv. er að finna ákvæði um ákvörðun dagpeninga. Samkv. greininni er nú lagt til að dagpeningar verði á bilinu 1/4 hluti til fullra launa samkv. efsta starfsaldursþrepi 8. launaflokks Verkamannasambands Íslands. Að auki eru svo barnadagpeningar 4% nefndra launa fyrir hvert barn umsækjanda. Hér er því horfið frá þeirri viðmiðun að miða við lægsta taxta Dagsbrúnar, og það er einnig horfið frá því að skerða þann taxta eins og gert er í gildandi lögum, þ. e. að hæstu bætur verði 80% af viðmiðunartaxta þegar í hlut á aðalfyrirvinna heimilis, 70% þegar í hlut á einstaklingur og 65% með hverju barni, þó ekki fleiri en þremur. Áður er rakin sú kerfisbreyting sem frv, felur í sér hvað bótafjárhæð snertir. Komin er á bein viðmiðun og hlutfall milli atvinnuþátttöku á s. l. ári og bóta hins vegar. Að lokum er gert ráð fyrir því, að af bótum skuli greiða iðgjald til lífeyrissjóðs, greiði bótaþegi 4% af bótum sínum í lífeyrissjóð, en Atvinnuleysistryggingasjóður 6%. Greiðsla í lífeyrissjóð er nýmæli, og þótti mörgum tími til kominn að lögfesta ákvæði sem tryggði að atvinnulausir yrðu ekki fyrir verulegri skerðingu lífeyrisréttar, eins og væri að óbreyttu.

Um fjárhæð bóta fjallar 24. gr. frv. Þar er, eins og áður segir, gert ráð fyrir hámarksbótum og lágmarksbótum miðað við annars vegar 1700 dagvinnustundir og hins vegar 425 dagvinnustundir. Í niðurlagi greinarinnar kemur fram að Atvinnuleysistryggingasjóður skal leggja úthlutunarnefndum til skrá um ákvörðun dagpeninga. Skal skráin tilgreina 76 þrep, frá 25% til 100% bóta, þannig að bætur hækki um 1% hámarksbóta við hvert þrep eftir starfstíma.

Í 22. gr. frv. er ákvæði þess efnis, að maður, sem öðlast bótarétt samkv. lögunum, eigi rétt á bótum fyrir þá heilu daga sem hann er atvinnulaus, frá og með fyrsta skráningardegi. Í 4. mgr. 24. gr. er hins vegar undantekning frá þessu ákvæði 22. gr. Þar segir að ef brýna nauðsyn beri til að skerða dagvinnutíma starfsmanna vegna samdráttar í starfsemi fyrirtækis skuli greiða starfsmönnum þann hluta þeirra atvinnuleysisbóta, sem þeir eiga rétt á, sem svarar til skerðingar dagvinnutímans, enda taki ráðstafanir þessar almennt til starfsmanna fyrirtækisins eða starfsmanna í einstökum greinum starfsemi þess, ef um fleiri en eina grein er að ræða. Ákvæði þetta er nýmæli.

Í 5. mgr. 24. gr. frv. er að finna ákvæði um rétt skólafólks. Í 2. mgr, d-liðar 15. gr. gildandi laga segir að skólafólk, sem stundar vinnu að námi loknu, teljist hafa fullnægt vinnutímaákvæðum laganna hafi það á síðustu 12 mánuðum stundað vinnu a. m. k. í þrjá mánuði og skólanám í sex mánuði.

Í frv. þessu er nú lagt til, eins og áður segir, í 5. mgr. 24. gr., að sama regla gildi um bótarétt skólafólks og annarra. Hins vegar er lagt til að skólafólki, sem hefur áunnið sér bótarétt og stundar skólanám á síðustu 12 mánuðum í ekki skemmri tíma en sex mánuði og hefur lokið námi, skuli reiknaðar 520 dagvinnustundir vegna námsins sérstaklega, til viðbótar vinnustundum þess að loknu námi.

Ég hef nú nefnt flestar breytingar sem frv. þetta gerir ráð fyrir að verði á bótum og bótarétti úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Ýmsar fleiri breytingar eru þó í þessu frv. sem ekki er ástæða til að taka upp hér, og vísast í því sambandi til frv. og grg. með hverri grein þar. Hins vegar verður að hafa það í huga, að hlutverk Atvinnuleysistryggingasjóðs er ekki aðeins atvinnuleysisbætur til þeirra sem missa vinnu sína, heldur er einnig gert ráð fyrir því, að sjóðurinn sinni fyrirbyggjandi starfi og stuðli að uppbyggingu atvinnulífs þar sem þess er þörf. Í 33. gr. frv. er nú gert ráð fyrir að stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs sé heimilt að veita lán með lágum vöxtum eða vaxtalaus til eflingar atvinnulífs á þeim stöðum þar sem atvinnuleysi er alvarlegt. Áður en slík lán eru veitt skal liggja fyrir rannsókn á atvinnuháttum og atvinnumöguleikum á þeim stöðum þar sem lána skal. Einnig skal sjóðsstjórnin leita umsagnar Framkvæmdastofnunar ríkisins og vinnumálaskrifstofu félmrn. áður en lán samkv. þessari grein er veitt. Grein þessi er í verulegum atriðum sambærileg 1.–3. mgr. 22. gr. gildandi laga. Þó er felld niður heimild til að hafa lán þessi afborgunarlaus um tiltekið tímabil svo og að veita þau gegn ábyrgð sveitarfélags einni saman.

Í 34. gr. er gert ráð fyrir því, að stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs sé heimilt að veita stéttarfélögum, samtökum þeirra, félögum atvinnurekenda og samtökum þeirra lán með lægri vöxtum en almennum útlánsvöxtum til að koma upp húsnæði fyrir félagsstarfsemi þeirra svo og veita slík lán til orlofsheimila launþegasamtakanna. Grein þessi er efnislega eins og 4. mgr. 22. gr. gildandi laga um lán til stéttarfélaga og samtaka atvinnurekenda.

Hér að framan var minnst á heimild sjóðsstjórnar til að veita lán til eflingar atvinnulífs. Í 35. gr. frv. er hins vegar að finna heimild til að veita styrki úr sjóðnum til einstakra sveitarfélaga með ákveðnum forsendum:

1. Ef um verulegt atvinnuleysi er að ræða í hlutaðeigandi sveitarfélagi eða útlit fyrir verulegt atvinnuleysi sem hætta er á að verði langvarandi.

2. Að sveitarfélagið láti hefja vinnu við tilgreindar framkvæmdir og ráði í því skyni til vinnu ákveðinn fjölda atvinnulausra manna í héraðinu til ákveðins tíma.

3. Að sveitarfélagið greiði laun fyrir þessa vinnu samkv. gildandi kjarasamningi eða taxta verkalýðsfélags.

4. Að hlutaðeigandi verkalýðsfélög og samtök atvinnurekenda samþykki styrkveitinguna.

5. Að réttur atvinnulausra manna til bóta að framkvæmdum loknum verði a. m. k. hinn sami og hann var þegar þeir hófu umrædda vinnu, ef þeir verða þá áfram atvinnulausir.

Grein þessi er efnislega eins og 23. gr. gildandi laga að því er varðar greiðslu styrkveitinga. Hins vegar er felld niður heimild til að veita öðrum aðilum vaxtalaus lán við sömu kringumstæður, enda virðist þess ákvæðis ekki þörf með tilliti til 33. gr. frv. eins og það lítur hér út.

Í 36. gr. frv. er nú gert ráð fyrir að stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs hafi heimild til að veita lán með lægri vöxtum en venjulegum útlánsvöxtum til að koma á fót vinnu- og þjálfunaraðstöðu fyrir öryrkja. Ekki mega slík lán þó nema meiru en 40% stofnkostnaðar. Þá er stjórninni heimilt að greiða allt að þriðjung rekstrarhalla slíkra stöðva, enda mæli endurhæfingarráð með því að slíkur styrkur verði veittur. Þá er gert ráð fyrir því, að stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs hafi heimild til að veita styrki til endurþjálfunar starfsmannahópa sem misst hafa atvinnu sína vegna breyttra starfshátta.

Öll framangreind ákvæði 36. gr. frv. eru sambærileg 25. gr. gildandi laga, með þeim breytingum þó, að lánstími til greindra lána var ákveðinn 20 ár og ársvextir 5%, en í frv. er lánstími ekki ákveðinn og um vexti segir það eitt, að þeir megi ekki vera lægri en venjulegir útlánsvextir.

Í niðurlagi 36. gr. er hins vegar að finna ákvæði sem heimila stjórn sjóðsins með styrkjum að greiða fyrir tilfærslu starfsmanna milli starfsgreina og vegna búferlaflutninga í atvinnuskyni. Ákvæði þetta er nýmæli.

Að lokum skal getið 38. gr. frv. Hún er ný og felur í sér ábyrgð ríkissjóðs á greiðslum úr Atvinnuleysistryggingasjóði, ef hann þrýtur fé, annaðhvort í formi greiðslu eða láns. Í gildandi lögum er ekki ákvæði um slíka ábyrgð.

Enda þótt þau ákvæði frv., sem ég hef nú talið upp og snerta sérstaklega heimild til sjóðsstjórnar til lána og styrkveitinga í atvinnuskyni, hafi ekki tekið miklum breytingum frá gildandi lögum tel ég ástæðu til að vekja athygli á þeim sérstaklega hér.

Í 37. gr. frv. segir að til lánveitinga og styrkja þessara megi verja allt að 40% af árlegum vaxtatekjum sjóðsins. Eru þau ákvæði efnislega samhljóða 27. gr. gildandi laga. Þetta undirstrikar hins vegar hið tvíþætta hlutverk sjóðsins, eins og ég minntist á áðan. Ástæða er til þess að hafa í huga við framlagningu þessa frv. að Atvinnuleysistryggingasjóður getur orðið og verður að geta veitt fjármagni sínu og atbeina til uppbyggingar atvinnulífs á þeim stöðum þar sem þörf er á. Efling atvinnulífs og fyrirbyggjandi aðgerðir í því efni hljóta auðvitað að vera meginviðhorfið í vinnumarkaðsmálum. Atvinnuleysi er og verður böl og atvinnuleysisbætur eru neyðarúrræði sem má aldrei vera öðruvísi en til bráðabirgða, sem alger undantekning.

Þetta frv., herra forseti, er samið í samráði við málsaðila og hefur fengið þar eftir atvikum allgóðar undirtektir. Ég vænti þess, að hv. Alþingi nái einnig góðri samstöðu um frv. þetta, og legg ákvað áherslu, að frv. nái afgreiðslu á yfirstandandi þingi. Ég fer þess á leit við hv. heilbr.- og trn. Nd., að hún hafi samráð við heilbr.- og trn. í Ed. við meðferð þessa máls.

Ég legg svo til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og heilbr.- og trn.