01.04.1981
Neðri deild: 70. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3348 í B-deild Alþingistíðinda. (3427)

94. mál, vernd barna og ungmenna

Flm. (Birgir Ísl. Gunnarsson):

Herra forseti. Ég hef á þskj. 104 flutt frv. til l. um breyt. á lögum nr. 53/1066, um vernd barna og ungmenna. Ég held að meginefni og megintilgangur þessa frv. skýri sig best með því að lesa úr grg. þess, með leyfi forseta, en þar segir:

„Fá mál eru viðkvæmari og vandmeðfarnari en barnavernd og afskipti af heimilum eða einstaklingum af þeim sökum. Það verður að teljast neyðarráðstöfun, þegar samfélagið þarf að grípa inn í fjölskyldumál og leysa úr vandamálum sem stafa af sálrænum, tilfinningalegum eða persónulegum ástæðum, ekki síst þegar börn eða ungmenni eiga í hlut. Barnaverndarnefndir, barnaverndarráð, félagsfræðingar og aðrir, sem afskipti hafa af slíkum málum, bera að þessu leyti mikla og vandasama ábyrgð.

Allajafna fara störf þessara aðila fram í kyrrþey, og ljóst er að hversu margar lagagreinar og reglur sem settar eru um framkvæmd og meðferð barnaverndarmála reynir fyrst og fremst á þroska, skilning og lipurð þeirra, sem til slíkra ábyrgðarstarfa veljast, að dæma um velferð barns og ungmennis. Óhætt er að fullyrða að við allan meginþorra barnaverndarmála gæti slíkra sjónarmiða.

Á hinn bóginn er nauðsynlegt að löggjöf móti meginstefnu sem taki tillit til mannúðlegra viðhorfa og beri hag einstaklinganna, sem í hlut eiga, fyrir brjósti.

Lög um vernd barna og ungmenna, nr. 53/1966, hafa verið í endurskoðun um nokkurt skeið, en lítið virðist miða og hljótt er um þá endurskoðun.

Að gefnu tilefni hefur flm. þessa frv. ákveðið að bera fram nokkrar brtt. við nefnd lög, en þær hníga allar í þá átt að tryggja betur en nú er gert rétt foreldra eða forráðamanna barna með hagsmuni barnsins fyrir augum. Er þá gengið út frá þeirri meginforsendu, að barnið sé hluti fjölskyldu sem umfram allt megi ekki stía í sundur nema til þess liggi óumdeilanleg rök og ástæður. Í íslenskri löggjöf er allsráðandi sú meginregla, að fjölskyldan búi og lifi saman, og aldrei má til þess koma, að barni sé ráðstafað og tekið úr umsjá foreldra vegna rangra upplýsinga eða á röngum forsendum.

Hér er ekki einvörðungu um það að ræða, að sjálfsagður réttur barnsins og fjölskyldunnar sé hafður í huga, heldur höfðað til þeirra grundvallarreglu í réttarríki, að aðilar máls eigi heimtingu á því að vera upplýstir um málsástæður og gögn sem úrskurður kann að byggjast á. Á þetta skortir nokkuð í núgildandi lögum.“

Frv. felur í sér breytingar á fjórum greinum núgildandi laga, breytingar eða viðbætur. Það er gert ráð fyrir að aftan við 15. gr. bætist ný mgr., en sú grein í núgildandi lögum fjallar um það, að ef bráðan bug þurfi að vinda að ráðstöfun, sem ber undir barnaverndarnefnd, geti formaður eða fulltrúi í umboði hans framkvæmt hana, en leggja skuli málið til fullnaðarákvörðunar fyrir barnaverndarnefnd svo fljótt sem kostur er.

Gert er ráð fyrir samkv. frv. að aftan við þessa grein bætist við ný mgr. þess efnis, að taka barns af heimili og kyrrsetning barns sé óheimil, nema foreldrum og forráðamönnum sé birtur úrskurður samkv. 14. gr., en þar er ákvæði um slíka úrskurði, í síðasta lagi innan viku frá því að ráðstöfun fór fram, og gætt sé ákvæða 20. og 32. gr. En þá er gert ráð fyrir að foreldrum eða forráðamönnum sé gefinn kostur á að tjá sig um málið.

Þetta felur sem sagt í sér að ákveðið form eigi að vera á slíkum ráðstöfunum og er það gert í því skyni að tryggja að fyllsta réttaröryggis sé gætt.

2. gr. frv. fjallar um að aftan við 1. mgr. 16. gr. bætist ný mgr., en í 16. gr. eins og hún er nú kemur fram, að við úrlausn barnaverndarmála skuli kosta kapps um að afla sem gleggstra upplýsinga um þau mál sem snerta bæði börnin, ungmennin svo og fjölskylduna. Gert er ráð fyrir að aftan við þessa grein bætist ákvæði þess efnis, að skylt sé að styðja fullyrðingar um ölvun og lyfjanotkun blóðrannsókn eða læknisrannsókn, nema brýn ástæða hamli. Ef slíkar rannsóknir liggja ekki fyrir skuli þess getið í skýrslum, hvers vegna slík rannsókn hafi ekki farið fram. Ástæða þess, að þetta er borið fram, er sú, að það eru dæmi þess, að barn sé tekið af heimili og fullyrt að um ölvun eða lyfjanotkun sé að ræða, án þess að eftir á séu nokkur sönnunargögn til um það nema munnlegar yfirlýsingar sem e. t. v. eru þá gefnar eða dómur felldur við aðstæður sem hafa ekki verið þess efnis, að fyllstu sanngirni sé gætt.

Þá er gert ráð fyrir að aftan við 20. gr. laganna bætist mgr., en í 20. gr. segir nú að áður en meiri háttar barnaverndarmáli sé ráðið til lykta beri að veita foreldrum eða öðrum forráðamönnum barns kost á að tjá sig um málið munnlega eða skriflega, þ. á m. með liðsinni lögmanna. En samkvæmt þessu er gert ráð fyrir því, að foreldrum og forráðamönnum skuli ætíð heimilt að hafa óhindraðan aðgang að öllum gögnum sem þá eða börn þeirra varðar, þeim skuli heimilt að fá staðfest afrit af þeim, og séu gögn undan dregin sé óheimilt að nota þau í barnaverndarmáli.

Síðasta mgr. felur í sér breytingu á 56. gr. laganna eins og þau eru nú, en 56. gr. fjallar um málskot til barnaverndarráðs. Samkv. þeirri grein er heimilt að skjóta úrskurðum eða ákvörðunum barnaverndarnefnda til barnaverndarráðs, en þessi grein fjallar um að sett séu ákveðin tímamörk um það, hvenær barnaverndarráð skuli hafa lokið meðferð mála, þ. e. að ráðinu sé skylt að taka málin til skjótrar meðferðar og úrlausnar og að úrskurður ráðsins skuli liggja fyrir inna 30 daga frá því að ráðinu barst málið til meðferðar, nema báðir málsaðilar samþykki lengri frest.

Þetta eru í stórum dráttum þær breytingar sem hér er um að ræða. Þær fela allar í sér, eins og ég sagði áðan, að reynt sé að tryggja betur en nú er rétt foreldra, forráðamanna svo og barna sem þurfa að hlíta afskiptum barnaverndarnefnda af sínum málum.

Ég vil að svo mæltu, herra forseti, leggja til að þessu frv. verði vísað til menntmn. og 2. umr.