01.04.1981
Neðri deild: 70. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3350 í B-deild Alþingistíðinda. (3428)

94. mál, vernd barna og ungmenna

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Vegna þess að mjög er nú liðið á vinnudag hv. þm. skal ég reyna að hafa mál mitt mjög stutt.

Lög um vernd barna og ungmenna eru sennilega einhver viðkvæmustu lög sem Alþingi fæst við, og ævinlega ber að fagna því ef þm. sýna þeim málum áhuga. Það eru örstuttar athugasemdir sem ég vil gera strax við 1. umr. um þetta mál, þó að ég muni eiga kost á að fjalla um það í hv. menntmn.

Það er sérstaklega eitt atriði sem mér stendur dálítil ógn af í þessum brtt. hv. þm. Birgis Ísl. Gunnarssonar, en það er í 2. gr. frv. hans, þar sem hann leggur til að aftan við 16. gr. laganna komi, með leyfi forseta: „Skylt er að styðja fullyrðingar um ölvun og lyfjanotkun“ o. s. frv.

Mér er alveg ljóst hvað vakir fyrir þm., en þetta atriði er ég hrædd um að geti oft valdið verulegum vandræðum þegar skerast þarf í leik á heimili. Og við megum aldrei gleyma því, að barnavernd fjallar fyrst og fremst um vernd barna, en ekki foreldranna. Ef skylt er að sanna óreglu á heimili, þá sýnist mér að felist í því að gefa verði út handtökuskipun og flytja viðkomandi foreldri í blóðprófun. Og það er auðvitað oft gert, en ég held að slík skylda verði til þess, að erfitt reynist að skerast í mál sem kannske er mjög brýnt að fást við, svo sem ef barni stafar beinlínis hætta af foreldri eða öðrum ættingjum sem eru í slíku ástandi að öryggi barnsins er talið ógnað.

Ég held að ég muni leggja til í nefndinni að þetta væri orðað: „æskilegt“. Ég efast um að hægt sé að gera þetta að einhliða skyldu. En mér er ljóst hvað fyrir þm. vakir. Auðvitað er eðlilegt að brýn rök séu fyrir slíkri aðgerð.

Annað held ég að reynist nokkuð erfitt, og það er ákvæði í 3. gr. frv. þar sem þm. gerir ráð fyrir að foreldrar og forráðamenn skuli ætíð hafa óhindraðan aðgang að öllum gögnum er snerta þá eða börn þeirra varða. Þetta hefur verið mikið rætt og lengi í þeim nágrannalöndum þar sem ég þekki nokkuð til. Og í Danmörku hefur reynslan af þessu hreinlega orðið sú, að þar hafa verið færðar tvær skýrslur, önnur sem ættingjar eiga aðgang að, hin skýrslan hefur verið fyrir starfsmenn. Það er óhjákvæmilegt, að hver starfsmaður félagsmálastofnunar og barnaverndarnefndar, sem notar skýrslu sem vinnuplagg, hlýtur ævinlega að skrifa það sem lýsingu á því, hvernig honum koma aðstæður barns fyrir sjónir. Í slíkri skýrslu er auðvitað aldrei hægt að hafa einvörðungu hluti sem hægt er að sanna með óyggjandi gögnum. Ef slík skýrsla er hins vegar aðgengileg aðstandendum barnanna, hlýtur starfsmaðurinn í hverju tilviki að vera mjög meðvitandi um að viðkomandi foreldri geti höfðað mál og beitt starfsmann sönnunarskyldu.

Það er auðvitað hægt að ímynda sér, og þarf ekki mikið hugmyndaflug til, að oft þegar skorist er í þessi mál er um mikil tilfinningamál að ræða. Við þekkjum öll löng og mikil blaðaskrif fólks, sem hefur þótt brotið á sér í þessu tilviki, og ekki skal ég fullyrða um hvort það hefur verið gert. Reynsla mín hins vegar, sem er tiltölulega lítil, ég hef einungis átt sæti sem varamaður í barnaverndarnefnd Reykjavíkur, — reynsla mín þar er hiklaust sú, að reynt sé að gera eins og best þykir hverju sinni. En ég held að það yrði næstum óþolandi kvöð á starfsmönnum, að allt það, sem starfsmaður skrifar í máli, eigi að vera aðgengilegt foreldri eða aðstandanda sem síðan getur bæði hlaupið með það í blöðin og höfðað mál og heimtað sönnun fyrir hverju einasta atriði. Ég veit ekki hvernig ætta að sanna atriði eins og oft finnast í slíkum skýrslum, t. d. hvort heimilið er þrifalegt eða ekki, hvort barnið er hirt. Ég held að það væri ákaflega erfitt að sanna slíkt óyggjandi.

En ég skal ekki tefja fundartímann hér. Það eru í frv. smáatriði sem ég gæti ímyndað mér að orkuðu einnig tvímælis, svo sem í 1. gr. þar sem segir að birta skuli foreldri eða aðstandanda úrskurð innan viku frá því að ráðstöfun fór fram. Það kemur strax upp, að verið getur að foreldri sé í því ástandi — t. d. vegna geðsjúkdóms eða einhvers slíks — að það þjóni ekki neinum tilgangi að tilkynna töku barns af heimili. Ég held að þetta sé ekki hægt að hafa án einhvers fyrirvara. Ég skal hins vegar ekki tefja fundartímann lengur, en mun e. t. v. leyfa mér að koma með brtt. í hv. menntmn.