01.04.1981
Neðri deild: 70. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3352 í B-deild Alþingistíðinda. (3431)

94. mál, vernd barna og ungmenna

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég mun ekki tefja tímann með frekari rökfærslu þar sem ég fæ tækifæri til að fjalla um þetta mál í nefnd, enda kom fram í máli mínu, að ég er ekki að hafa á móti því, að þessar breytingar séu gerðar, þó að ég dragi í efa ákveðin atriði. Ég hlýt hins vegar — þó að ég sé einungis varamaður í barnaverndarnefnd Reykjavíkur og hafi ekki komið nálægt því máli sem hv. þm. Albert Guðmundsson minntist á hér áðan, en mér er fullkunnugt um aðstæður í því máli — ég hlýt að leyfa mér að mótmæla því harðlega fyrir hönd barnaverndarnefndar Reykjavíkur, að þar hafi verið framin misbeiting valds. Ég vildi að þessi orð hefðu ekki fallið hér á Alþingi Íslendinga.