01.04.1981
Neðri deild: 70. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3353 í B-deild Alþingistíðinda. (3434)

271. mál, vörugjald

Flm. (Guðmundur G. Þórarinsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um breyt. á lögum nr. 77 frá 23. des. 1980, um vörugjald, sem ég flyt ásamt hv. þm. Eggerti Haukdal og Jóhanni Einvarðssyni.

Tilgangur þessa frv. er tvíþættur: annars vegar að aflétta 7% vörugjaldi af sjúkrafæði, en hins vegar að lækka vörugjald á gosdrykkjum og öðrum vörum, sem falla undir B-hluta 1. gr., úr 30% í 15%. Gerð er till. um í fyrsta lagi að í l. gr. laganna, hluta A, hljóði málsliður um tollskrárnúmer 18 06 09 svo:

18 06 09. Aðrar vörur sem teljast til nr. 18. 06., ót. a., þó ekki súkkulaðiís og ís húðaður með súkkulaði og sjúkrafæði, þ. e. tilbúin næringarefnablanda handa sjúklingum sem fá ekki næga næringu á venjulegan hátt.

Í öðru lagi að í 1. gr. laganna, hluta B, komi í 1. málslið 15% í stað 30%.

Sjúkrafæði er tilbúin næringarefnablanda handa sjúklingum, sem ekki fá næga næringu á venjulegan hátt, gefin fljótandi annaðhvort í gegnum slöngu eða sem drykkur og þá bragðbætt á ýmsa vegu.

Á sjúkrafæði, sem innflutt er, falla margvísleg gjöld í ríkissjóð. Á sjúkrafæði með súkkulaðibragði er 3% jöfnunargjald, 24% vörugjald, 40% vörugjald og svo 7% vörugjald vegna laganna frá 23. des. s. l.

Tilgangur þessa frv. er, eins og áður sagði, að létta þessu 7% gjaldi af, en breytingar þarf á öðrum lögum til þess að aflétta hinum gjöldunum. Sjálfsagt væri reyndar að Alþingi breytti þeim lögum einnig, því óeðlilegt er að sjúkrafæði sé tekjustofn ríkissjóðs og vandræði þeirra, sem ekki geta melt venjulegan mat, notuð til tekjuöflunar.

Hér er í rauninni um að ræða réttlætismál og ætti ekki að þurfa langa röksemdafærslu.

Það er ljóst, að álagning 30% vörugjalds á öl og gosdrykki nú um áramótin hefur valdið miklum erfiðleikum í fyrirtækjum sem framleiða þessa vöru. Hjá Vífilfelli hf. var 50–60 manns sagt upp störfum, en uppsagnir voru dregnar til baka tímabundið vegna loforða fjmrh. um lækkun gjaldsins. Ölgerðin Egill Skallagrímsson hf. á einnig við verulega erfiðleika að etja vegna vörugjaldsins. Samdráttur í sölu öls og gosdrykkja er mikill frá áramótum og mikill miðað við sölu undanfarinna ára. Eftir álagningu 30% vörugjaldsins nú um áramótin er hlutur ríkisins, álagning á framleiðsluverð hverrar flösku um 52.74%. Hér er ekki alveg rétt orðað í grg. vegna þess að þetta mun þá nema u. þ. b. þriðjungi af framleiðsluverði.

Það er alveg augljóst, að hér er langt gengið og of langt í skattheimtu. Samdráttur hefur og orðið svo mikill í sölu þessara drykkja, að ríkið mun engan veginn ná áætluðum tekjum af þessum skattstofni. Þvert á móti má leiða sterk rök að því, að lækkun gjaldsins leiði til söluaukningar, þannig að tekjur ríkisins minnki ekki við lækkun. Rennir það stoðum undir kenningar um að of há skattprósenta minnki tekjur ríkisins og lækkun skattprósentu geti aukið tekjur ríkisins, ef hún er orðin of há.

Verði vörugjald þetta ekki lækkað má saka ríkissjóð um það, að margt fólk, sem að framleiðslu öls og gosdrykk,ja vinnur, missi vinnu. Vert er einnig að geta þess, að lækkun vörugjaldsins veldur lækkun framfærsluvísitölu líklega um 0.1%, og því nokkurri lækkun á launagreiðslum ríkisins. Framleiðendur öls og gosdrykkja eru bjartsýnir á að verulega söluaukningu megi fá fram í kjölfar lækkunar vörugjaldsins, sbr. fskj. II með þessu frv., bréf frá Félagi ísl. iðnrekenda.

Flm. taka jafnframt fram í grg. að þeir telja að ef samkomulag náist við EFTA og EBE um 2% hækkun jöfnunargjaldsins væri eðlilegt að fella vörugjaldið frá 23. des. á sælgæti, öli og gosdrykkjum niður.

Vert er að menn hafi það í huga, að við framleiðslu öls og gosdrykkja vinna líklega um 400 manns og vinna þessa fólks er þegar í verulegri hættu. Fram kemur í grg. hversu þessi mál standa nú hjá fyrirtækinu Vífilfelli hf. Hjá Ölgerðinni Egill Skallagrímsson vinnur margt fullorðið fólk, margt fólk sem hefur starfsaldur þar frá 2030, jafnvel upp í 40 ár, fólk sem í mörgum tilvikum ætti erfitt um vik á atvinnumarkaði ef það missti vinnu þarna. Eftirvinna er engin og launatekjur, laun í útborgunarumslagi eru nú hjá mörgum á bilinu 500–850 kr. eftir vikuna, þegar búið er að draga frá skatta og lífeyrisgreiðslur.

Menn velta því dálítið fyrir sér, hvort sá mikli samdráttur, sem nú er orðinn í sölu gosdrykkja, eigi eingöngu orsakir sínar í hækkun vörugjaldsins, þessa 30% gjalds. Um það má sjálfsagt nokkuð deila. Sumir telja að breyttar neysluvenjur eigi hér nokkurn þátt í , þ. e. að menn neyti nú meira ýmissa ávaxtadrykkja og mjólkurdrykkja. Enn aðrir telja að hin kalda veðrátta eigi nokkra sök, enn aðrir að myntbreytingin hafi hér einhver áhrif o. s. frv., o. s. frv. Hversu sem því öllu er varið er ljóst að sá mikli samdráttur, sem hér er um að ræða, kemur fyrst og fremst fram á áramótunum, um leið og þetta vörugjald er hækkað. Er raunar fjarri lagi að álíta að neysluvenjur manna hafi breyst einmitt á áramótum. Það virðist því vera alveg augljóst, að vörugjaldið á hér gífurlega mikinn þátt í. Svo hátt vörugjald sem hér er um að ræða er óeðlileg skattlagning á eina iðngrein. Hvernig sem á er horft eru breytingar á verðhlutföllum, svo stórkostlegar sem hér er um að ræða, á einni vöru mjög óeðlilegar og hljóta að setja fyrirtæki, sem slíkt framleiða, í mikinn vanda.

Vert að geta þess, að ýmsir talsmenn þessa vörugjalds töldu raunar í upphafi að samdráttur yrði mestur framan af, en þetta mundi jafna sig þegar fram á sækti. Hagfræðingar gáfu jafnvel upp að verðteygni gosdrykkja væri um 0.3, þ. e. 22–25% hækkun á vöruverði mundi þýða um 7–8% samdrátt. Hins vegar hefur komið í ljós að samdráttur í sölu gosdrykkja og öls er enn að aukast og það svo, að marsmánuður virðist vera versti sölumánuðurinn, og ef tekið væri mið af honum virðist verðteygnin vera orðin 1.

Það er mat flm., að það hafi sýnt sig að vörugjald þetta tefli mjög í tvísýnu atvinnu fjölda fólks hér í höfuðborginni, því verði ekki hjá því komist að lækka þetta vörugjald. Er það von flm., að þm. bregðist vel við þeirri málaleitan.

Herra forseti. Ég vil leggja til að þessu frv. verði vísað til hv. fjh.- og viðskn. að loknum umr.