01.04.1981
Neðri deild: 70. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3356 í B-deild Alþingistíðinda. (3437)

271. mál, vörugjald

Flm. (Guðmundur G. Þórarinsson):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka þann stuðning sem báðir þeir hv. þm., sem hér hafa talað, hafa lýst yfir við þetta mál. (AG: Ég lýsti engu yfir.) Nú, var það ekki? En ég þóttist vera viss um að hv. þm. Albert Guðmundsson mundi styðja þetta frv. við afgreiðslu. (Gripið fram í: Sverrir var búinn að því fyrir hans hönd.) Ég held það nú, að Sverrir hafi verið búinn að því fyrir hans hönd. Það kemur mér hins vegar dálítið á óvart, hversu mikinn ótta þeir bera báðir í brjósti um að málið fari ekki í ge~n, og telja það reyndar sýndarmennsku að flytja málið ef ekki sé öruggur stuðningur við það í Ed. Ekki er ég á sama máli um það. Menn geta kallað þetta hvaða nafni sem þeir vilja, en ég held að afstaða mín til þessa gjalds hafi alltaf verið ljós í öllum umr. hér. Hún hefur í sjálfu sér ekki breyst. Þegar þetta gjald fór í gegn á sínum tíma lýsti ég því yfir hér í ræðustól, að ég sæti hjá í trausti þess, að unnið yrði að því að fá hækkun um 2% á jöfnunargjaldi og þá yrði þetta fellt niður.

Nú er mér alveg ljóst að þau fyrirtæki, sem í þessum iðnaði starfa, geta ekki beðið. Hæstv. viðskrh. fer utan til viðræðna við þessi viðskiptabandalög seint í maí. Hvað út úr því kemur skal ég ekki leggja dóm á hér, en það er alveg ljóst að það verður of seint. Þess vegna er þess freistað að fá þessu breytt hér og nú.

Um afstöðuna þegar þetta gjald á sínum tíma var samþykkt verða menn einfaldlega að setja sig í þau spor sem a. m. k. 1. flm. stóð í. Hefði þetta frv. ekki farið í gegn þá hefðu fjárlög ekki verið samþykkt á þessu þingi, vegna þess að þá hefði orðið á þeim greiðsluhalli og þau hefðu ekki farið í gegn nema annar tekjuliður hefði komið til. Það hefði þýtt það, að stjórnarþingmenn hefðu orðið að freista þess að fá samþykktar einhverjar greiðsluheimildir fyrir fjmrh. fram yfir áramót og málið síðan tekið upp með fjárlögum aftur þegar þing hefði komið saman. Í ljósi þess og þeirra miklu aðgerða, sem það hefði kostað, jafnframt því sem 1. flm. gerði sér á þeim tíma miklar vonir um að samstaða næðist meðal stjórnarflokkanna um efnahagsaðgerðir um áramótin, þá taldi ég mér ekki fært annað en að sitja hjá við atkvgr. um málið. Ég tel að efnahagsaðgerðunum um áramót hefði jafnframt verið teflt í tvísýnu ef fjárlög hefðu ekki verið samþykkt á þeim tíma sem það var gert.

Nú kann vel að vera að menn greini á um þetta, og ég á auðvitað enga heimtingu á því, að allir séu mér sammála um það, en við uppgjör á máli sem þessu verður hver náttúrlega endanlega að leita eftir ráðgjöf sinnar samvisku. Ég tel það enga sýndarmennsku að flytja þetta frv. hér og freista þess að fá það samþykkt, þó að ekki hafi verið tryggður fyrir því meiri hluti í Ed. En það segi ég alveg eins og er, að það hefur ekki verið gert. Hins vegar verður það reynt, og það vil ég segja jafnframt, að ég treysti því, að menn muni sjá, í hvert óefni stefnir í þessum iðngreinum, og þar af leiðandi lagfæra þetta gjald í ljósi þeirrar stöðu sem nú er komin upp.

En hafi hv. þm. Sverrir Hermannsson einhvern tíma lagt fram frv. á Alþingi, sem hann hefur ekki verið búinn að tryggja stuðning fyrir fram, þá hlýtur hann að falla á eigin klofbragði á þann hátt, að hann hafi þá verið með sýndarmennsku. Það má vel vera að hv. þm. hafi — ég þekki það ekki, hann hefur verið lengi á þingi — sýnt slíka sýndarmennsku í tillöguflutningi og þá eigi við í þessu tilviki hið gamla máltæki, að margur hyggur mig sig. Ekki skal ég leggja dóm á það. En ég held að það sé alveg ljóst hver mín afstaða hefur verið í þessu máli. Ég held líka að það sé alveg ljóst, að afleiðing þessa gjalds en enn þá verri en jafnvel þá svartsýnustu óraði fyrir. Þess vegna er þetta frv. flutt hér, og þess vegna verður leitað eftir því með öllum ráðum að tryggja því framgang í Ed.