01.04.1981
Neðri deild: 70. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3358 í B-deild Alþingistíðinda. (3439)

271. mál, vörugjald

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ekki vil ég með neinum orðum særa hv. flm. Ég skil vel þann vanda sem hv. 1. flm. var í um áramótin við afgreiðslu fjárlaga, og ég tel það virðingarvert að flm. skuli nú ljóst að þessi skattur, sem þeir þó samþykktu á sínum tíma, er of þungur fyrir framleiðslufyrirtækin og stefnir atvinnu fólksins í fyrirtækjunum í voða. Þetta er þungur dómur sem kemur frá þremur stuðningsmönnum ríkisstj. sem nú hafa snúist gegn fylgi við þessa stefnu stjórnarinnar í skattamálum og í fjármálum. Því vil ég aðeins segja að það verður fróðlegt að fylgjast með framvindu þessa máls — og kannske mála — á hv. Alþingi á næstunni. Ég held, að þetta hljóti að hafa í sér falinn boðskap, og ég býst þá við stórtíðindum á næstunni.