01.04.1981
Neðri deild: 70. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3358 í B-deild Alþingistíðinda. (3440)

271. mál, vörugjald

Flm. (Guðmundur G. Þórarinsson):

Herra forseti. Mér þykir lakara að hv. þm. Sverrir Hermannsson hefur yfirgefið salinn. Mér finnst það undarlegur málflutningur hjá þeim hv. þm. að tala hér langt mál um að þetta sé gott mál, en bregðast síðan hinn versti við þeim tillöguflutningi sem hér er um að ræða. Og ég verð að láta mig hafa það að segja það, að ég held að einmitt slíkar ræður eins og hv. þm. Sverrir Hermannsson hélt hér séu til þess fallnar að setja Alþingi niður í augum almennings: að horfa gersamlega fram hjá kjarna málsins, sem auðvitað eru þeir erfiðleikar sem fyrirtækin, sem um er að ræða, eru stödd í, reyna hins vegar að beita hér útúrsnúningum og vaða reyk, bara til þess að koma höggi á flm. og reyna að dreifa athyglinni frá kjarna málsins.

Hv. þm. Sverrir Hermannsson talar um sýndarmennsku. Sjálfur segist hann aldrei hafa flutt mál er varði fjármál á þennan hátt. Þó vill hann ekki fullyrða nema hann hafi lánað nafnið sitt á einhverjar till. sem ekki hafi skipt miklu máli, sagði hann. Skyldi það nú ekki vera sýndarmennska að gera það, að lána nafnið sitt á einhverjar till. sem menn telja þó að skipti ekki miklu máli?

Hv. þm. sagðist fullyrða, að ekki væri meiri hluti fyrir þessu máli í Ed., og tók stórt upp í sig í því sambandi. Svolítið seinna sagðist hann þó ekkert ætla að fara að gera mönnum í hv. Ed. upp afstöðu. Þannig fór þm. hring eftir hring í sínum málflutningi hér, þó að ekki væri langt mál talað.

Ég hef sagt það hér, að þessu máli hefur ekki verið tryggður meiri hluti í Ed., en auðvitað verður þess freistað. Og ég vil trúa því, að þetta mál fari í gegnum Ed. Ég vil t. a. m. minna á viðtal við hæstv. viðskrh. í Vísi núna um daginn, þar sem hann lýsti yfir að þetta vörugjald væri of hátt, og hann hefði ekki gert það enn upp við sig, hvort hann mundi styðja frv. Þetta liggur því ekki enn á borðinu. Og vel má vera að fleiri hugsi svipað og einmitt hæstv, viðskrh. Það vil ég vona. Í trausti þess er þetta frv. flutt.

Mér fannst aftur málflutningur hv. 3. þm. Reykv. miklu yfirvegaðri og ég kann honum þakkir fyrir hans orð. Hann skilur greinilega hvað um er að ræða, og honum tókst í sínum málflutningi að skilja kjarnann frá hisminu, sem auðvitað er aðalatriðið.