02.04.1981
Sameinað þing: 69. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3359 í B-deild Alþingistíðinda. (3443)

15. mál, landhelgisgæsla

Dómsmrh. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Þegar umr. urðu um þetta mál fyrir nokkrum dögum sagði ég nokkur orð, en síðar tóku til máls hv. 6. þm. Norðurl. e. og hv. 4 þm. Suðurl. Ég ætla að leyfa mér að gera örfáar aths. við málflutning þeirra.

Svo að ég víki fyrst að ræðu hv. 6. þm. Norðurl. e., þá komu fram í ræðu hans miklar upplýsingar um þessi mál frá ýmsum hliðum. Ég verð nú að segja það, að mér fannst — ég leyfi mér að segja — nokkur fjölmiðlakeimur af málfari hans, enda kannske ekki að undra. Ef hann býr yfir svona miklum fróðleik um þessi mál og lætur þess auk þess getið að hann eigi mikinn urmul upplýsinga og dæma í fórum sínum og sé reiðubúinn að skýra frá því öllu við önnur tækifæri, þá finnst mér nánast að maður, sem býr yfir svona mikilli vitneskju um þessi mál, hefði fyrir löngu átt að ganga á fund dómsmrh. og skýra honum frá þessu.

Um fjárhagsörðugleika Gæslunnar, sem hann ræddi í nokkru máli, ætla ég ekki að gera miklar aths. Það hefur verið lögð áhersla á að gæta sparnaðar og hófs í útgjöldum Landhelgisgæslunnar. Við vitum að þar er um mikið fjármagn að ræða og það veltur á miklu að á því sé sæmilega haldið. Ég held að það sé ekki rétt hjá honum að varðskip hafi ekki fengið olíu til sinna þarfa, þó að það hafi máske komið yfir að verið hafi í smærri skömmtum en endranær.

Hann vék að því, að skipin væru orðin gömul. Nú er því til að svara, að þó að nokkur varðskipanna séu orðin gömul eru það góð og traust skip og þeim hefur, að ég held, verið mjög vel haldið við.

Önnur ummæli hans, eins þau að tækin í Ægi séu strandgóss, lórantækin í Óðni ónýt og annað þess háttar, ætla ég ekki að ræða í löngu máli. En það er auðvitað sjálfsagt að kanna það til fullrar hlítar. Einnig gat hann þess, að í skip og flugvélar Gæslunnar vantaði mörg tæki. Öllum er kunnugt um að okkur Íslendinga skortir mikið á að hafa í hendi öll nýjustu tæki sem boðið er upp á nú á tímum. Þetta gildir ekki einungis um Landhelgisgæsluna, heldur Almannavarnir og margt annað hjá okkur sem of langt yrði upp að telja. Þessi nýju tæki kosta mjög mikið fé og það þarf mikið fé til að fylgja þeirri öru þróun sem er í þessum málum.

Þá gerði hann aths. við það, að annar Fokkerinn hefði verið seldur og það fyrir lágt verð að hann taldi. Þetta var gert að fyrirlagi Alþingis og fjvn. Ég lít svo á, að þegar um flugvélar er að ræða gildi nokkuð öðru máli en um skip. Flugvélar þurfa að sjálfsögðu að vera nýjar og búnar fullkomnustu tækjum eftir því sem unnt er.

Þá gat hv. ræðumaður þess, að Gæslan hefði ekki verið látin sinna þeim verkefnum sem hún á að sinna. Ég hirði ekki um að ræða þetta í löngu máli, en mun að sjálfsögðu taka þetta til athugunar eins og aðrar vinsamlegar ábendingar frá hv. þm. En um þetta mætti sjálfsagt ræða í löngu máli.

Svo að vikið sé örlítið að málflutningi hv. 4. þm. Suðurl. var hann allur með hógværu móti. Hef ég lítið við hann að athuga nema hvað hann tók upp eftir fyrri ræðumanni að í Gæslunni ríkti óstjórn og þar væri mikið um úrelt drasl eða strandgóss. Og það kom fram í máli hans, að hann er vel að sér í flugi. Það er dýrmætt að eiga von á mönnum með mikla þekkingu á þessu sviði í þá nefnd sem ætlunin er að setja til að athuga þessi mál.

Ég ætla ekki að hirða um að svara hv: 4. þm. Suðurl. ítarlega lið fyrir lið. Við, sem höfum kynnst honum, vitum að þar fer drengur góður. Ætla ég ekki að gera hans mál að frekara umræðuefni á þessu stigi málsins.