02.04.1981
Sameinað þing: 69. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3360 í B-deild Alþingistíðinda. (3444)

15. mál, landhelgisgæsla

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að vísa þeirri staðhæfingu hæstv. dómsmrh. alfarið á bug að ræða mín eða þær upplýsingar, sem ég flutti hér um Landhelgisgæsluna, hafi verið mengaðar af einhverri fjölmiðlabakteríu. Það, sem ég hér sagði, er árangur margra funda með starfsmönnum Landhelgisgæslunnar, stjórn Starfsmannafélags Landhelgisgæslunnar, en í stjórn félagsins eru m. a. yfirmenn á varðskipum og flugvélum Gæslunnar. Þessi menn vita nákvæmlega hvernig ástandið er hjá Landhelgisgæslunni. Ég vil benda hæstv. dómsmrh. á að það væri kannske rétt fyrir hann og embætti hans að leita upplýsinga um ástandið hjá Landhelgisgæslunni eftir öðrum leiðum en hann hefur kannske tamið sér. Nú er ég ekki að gagnrýna hæstv. dómsmrh. og í ræðu minni fólst engin gagnrýni á hans embætti. Ég var fyrst og fremst að gagnrýna fjárveitingavaldið sem ég tel að hafi haldið Landhelgisgæslunni í því fjársvelti á undanförnum árum að það sé mjög til baga fyrir þá Landhelgisgæslu sem við eigum að stunda hér við land.

Ég vil segja það við hæstv. dómsmrh., að stjórn Starfsmannafélags Landhelgisgæslunnar er tilbúin að staðfesta hvert einasta orð sem ég sagði í ræðu minni s. l. þriðjudag. Stjórn Starfsmannafélagsins er einnig tilbúin að láta hæstv. dómsmrh. í té allar þær upplýsingar sem ég hef undir höndum um það sem stjórn Starfsmannafélagsins telur miður fara í rekstri Landhelgisgæslunnar.

Dómsmrh. taldi að ég hefði fyrir löngu átt að vera búinn að ganga á hans fund til að skýra honum frá þeim upplýsingum sem ég hef undir höndum. Mér er kunnugt um að starfsmenn Landhelgisgæslunnar hafa gert ítrekaðar tilraunir til að koma á framfæri upplýsingum um þau atriði sem ég gerði að efni minnar ræðu hér á þriðjudag.

Dómsmrh. segir ekki rétt að það hafi tafið ferðir varðskipa að þau hafi ekki getað fengið olíu eftir þörfum. Það er hægt að fá staðfest hjá skipherrum varðskipa að þau hafa ekki í stöku tilvikum komist á sjó vegna skorts á olíu og hafa fengið takmarkaða olíu og ekki það sem þau hafa þurft til að fara það sem kallað er fullkomna eftirlitsferð.

Skipin eru gömul, eins og ég gat um. Ég rakti aldur þeirra. Meðalaldurinn er tæp 18 ár. Ég sagði í því sambandi að þessu fylgdi aukinn viðhaldskostnaður, sem ævinlega gerir hjá gömlum skipum, og aukinn rekstrarkostnaður almennt, sem m. a. kemur fram í því, að í fullkomnustu varðskipunum er vélarúm fullmannað. Í flestum nýrri skipum þarf sárafáa menn í vélarúm, ef það þarf nokkurn, vegna þess að vélum er fjarstýrt úr brú.

Ég sagði ekki að tiltekin lórantæki væru ónýt. Ég sagði að þau væru úrelt. Þau eru smíðuð á árunum 1972–1973 og eru orðin algerlega úrelt. Þá stendur það eins og stafur á bók að Það vantar tæki í bæði flugvél Gæslunnar og varðskipin. Ég gat þess m. a., að vegna þess að Landhelgisgæslan hefur nú aðeins yfir að ráða einni flugvél kom það t. d. fyrir eftir áramótin, þegar vélin fór í 15 daga skoðun, að það var ekkert eftirlitsflug farið né ísflug. Auðvitað er þetta alvarlegt fyrir okkur sem höfum landhelgi sem er sjö sinnum stærri en landið sjálft.

Ég sagði ekki að Gæslan væri ekki látin sinna verkefnum sem hún ætti að sinna. Ég sagði að hún væri ekki látin sinna verkefnum sem hún gæti sinnt. Ég nefndi í því tilviki vitaþjónustu og gat þess, að ég væri þeirrar skoðunar, að Landhelgisgæslan ætti að taka að sér vitaþjónustuna hér við landið. Hún hefur gegnt því starfi að allverulegu leyti á undanförnum árum og notað til þess Árvakur. Ég er þeirrar skoðunar, að sú þjónusta ætti alfarið að vera undir hatti Landhelgisgæslunnar, en auk þess gæti hún sinnt t. d. hitamælingum í sjó, hún gæti sinnt því að gera dýptarmælingar á ýmsum fiskimiðum hér við land, sem vantar stórlega og Sjómælingar ríkisins hafa ekki komist yfir að gera. Ég nefndi einnig eftirlit með mengun sjávar og fleiri atriði af því tagi.

Ég tel ekki ástæðu til þess að orðlengja þetta mál, en ég vil leggja ríka áherslu á að það þarf og verður að endurskoða og bæta að mun allan tækjakostnað Landhelgisgæslunnar vegna þess að það er alvarlegt mál fyrir frjálsa og fullvalda þjóð ef hún getur ekki sómasamlega sinnt gæslustörfum á því gífurlega hafsvæði sem þjóðin hefur nú yfirráð yfir. Ég benti á það jafnframt, að fram undan væru ýmis verkefni sem Gæslan hefur ekki þurft að sinna að undanförnu, m. a. vegna samninga Dana við Efnahagsbandalag Evrópu um veiðar Vestur-Þjóðverja á loðnu við Grænland. Ég minnti á flota Sovétmanna, sem nú veiðir kolmunna við miðlínu á milli Grænlands og Íslands, og fleira af því tagi. Ég held að kjarni þessa máls, sem ég var að ræða um, sé sá, að skip Landhelgisgæslunnar og flugvél hennar eru oft og tíðum lakar búin tækjum en þau skip sem þessum flugvélum og skipum er ætlað að fylgjast með við eða hugsanlega innan landhelgi Íslands. Þetta var rauði þráðurinn í því sem ég var að segja.

Enn á ný endurtek ég það, að af minni ræðu hér s. l. þriðjudag var ekkert fjölmiðlabragð, eins og hæstv. dómsmrh. orðaði það. Hafi honum fundist það vera er það hans mál. En ég vil nú mælast til þess, vegna þess að hér er stórmál á ferðinni, að hæstv. dómsmrh. boðaði á sinn fund stjórn Starfsmannafélags Landhelgisgæslunnar og fengi frá stjórnarmönnum þær upplýsingar sem ég hef undir höndum, en leitaði ekki upplýsinganna eftir einni leið.