02.04.1981
Sameinað þing: 69. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3365 í B-deild Alþingistíðinda. (3447)

15. mál, landhelgisgæsla

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Ég vil segja örfá orð þó að ég hafi í sjálfu sér sagt nógu margt um þetta málefnislega þegar það var hér til umr. síðast. En mig langar að tæpa á örfáum atriðum.

Í fyrsta lagi sagði hæstv. dómsmrh. hér í ræðustól að ég hefði tekið upp eftir hv. þm. Árna Gunnarssyni að tæki varðskipanna væru strandgóss og annað þess konar. Það var auðvitað alveg þveröfugt. Ég lýsti því hér í ræðustól að ég ætti ákaflega bágt með að trúa því, að slíkt gæti átt sér stað í raun og veru. Hitt er annað mál, að það má satt vera að í einhverjum varðskipanna, kannske flestum þeirra, sé þess ekki nægilega gætt að endurnýja tæki sem taka örum breytingum, t. d. eins og elektrónísk tæki, lórantæki, radartæki og fleira af því tagi, og nefndi það raunar einnig í minni stuttu tölu þegar þetta var síðast til meðferðar.

Aths. hæstv. ráðh. varðandi það, sem ég sagði um flugmál Landhelgisgæslunnar, var að afgreiða það á ákaflega nettan hátt. Hæstv. ráðh. sagði að ég væri svo vel að mér í flugi o. s. frv., o. s. frv. og væri auk þess góður drengur, sem flestum er kunnugt, og því væri þetta nú svona, en efnislega fjallaði hann ekkert um það sem ég sagði um flugið. Flugmálasaga landhelgisgæslunnar á Íslandi er mikil og löng sorgar- og mistakasaga, því miður, og það verður að segja það eins og satt er og er ekki ádeila á það fólk sem vinnur í landhelgisgæslunni. Við höfum verið með flugvélar af ýmsu tagi, sem alls ekki hafa hentað okkur, eru afar dýrar í rekstri o. s. frv. Nefndi ég síðast um það dæmi eins og þegar fengnir voru hingað til landsins flugbátar, Grumman Albatross, sem voru auðvitað gersamlega ónothæfir, ekki aðeins til landhelgisgæslu, heldur til alls, og flugu kannske aldrei — ekki allir a. m. k. (Gripið fram í.) Það var afar lítið hægt að brúka þá, en kannske gerði það ekki svo mikið til peningalega því að þeir voru fengnir hingað með þeim hætti að það kostaði okkur lítið fé. Það var auðvitað röng leið. Við eigum ekki að spara þannig að við getum ekki keypt hentugar vélar til landhelgisgæslu, en við eigum ekki stöðugt að kvarta undan því að fjárveitingavaldið ausi ekki nógu gráðugt fé til opinberra stofnana, t. d. Landhelgisgæslunnar, gegndarlaust. Við eigum að fara vel með opinbera fjármuni, að sjálfsögðu, og við eigum öll að fylgjast með því að það sé gert.

Það er að mínum dómi t. d. ákaflega óskynsamlegt að kaupa tvær 50 manna farþegaflugvélar til landhelgisgæslu. Maður skilur hreinlega ekki slíkt ráðslag. Það var skipuð nefnd sérfróðra manna til að kanna þetta sérstaklega á vegum hins opinbera á sínum tíma. Hún komst að þeirri niðurstöðu að það væri heppilegast að fá til þessara gæslustarfa miklu minni og allt öðruvísi flugvélar en Fokker Friendship farþegaflugvélar, sem eru afar óhentugar í lágflugi og þá sérstaklega í lágflugi yfir sjó þar sem þær þola illa seltu. Það þarf að „smúla“ út á þeim mótorana eftir hvert einasta flug til að þeir tærist ekki upp af salti, svo að dæmi sé tekið. Og auðvitað eru þær bæði stórar, þungar og eyðslufrekar. Það gerir kannske ekkert til þó að við höfum stóra, þunga og eyðslufreka vél. En á meðan við högum okkur þannig getum við auðvitað ekki passað eins stórt landsvæði fyrir eins litla peninga og við gætum gert ef við hefðum miklu léttari flugvélar sem hefðu jafnmikið og jafnvel meira flugþol. Athugið það. Það þarf ekki endilega að vera að minni vélar hafi minna flugþol. Það er misskilningur. Og margar minni vélar geta borið hvers konar búnað, síst ófullkomnari en stærri flugvélar bera. — En ég held að það væri gott, bæði hjá Landhelgisgæslunni og hjá öðrum mjög dýrum ríkisfyrirtækjum, að leita álits þeirra manna sem trúlegt er að hefðu hvað mesta þekkingu á viðkomandi sviði, þegar taka á ákvarðanir um fjárfestingu og rekstur eins og t. d. Landhelgisgæslunnar. Við vitum auðvitað allir hvað þetta kostar. Það stendur í fjárlögunum hve mikið fé fer til þessa. Það er ansi mikið, þó að ég sé ekki að kvarta undan því að það sé of mikið, en það nýtist illa.

Svo einkennilega vill til, að þegar Fokker-flugvél Gæslunnar þarf að fara í 15 daga skoðun er það fullyrt hér að engar aðrar flugvélar hafi getað komið í staðinn. Ég vil hins vegar fullyrða að margar aðrar flugvélar hefðu getað komið í staðinn. Það eru margar Fokkerflugvélar til hér í fullum rekstri. Því ekki að leigja þær? Það er síst dýrara að leigja flugvélar hjá Flugleiðum en halda úti þessari vél hjá Gæslunni og auðvitað sjálfsagt að nota sér það, þegar flugvél Gæslunnar þarf að fara í skoðun, að leita til þessa ágæta og myndarlega fyrirtækis, Flugleiða, og fá þar lánaða flugvél til þessa brúks. Þær eru yfirleitt í mjög góðu standi, enda viðhaldið betra á þeim bæ en þekkist yfirleitt hjá flugfélögum, og er þá ekkert flugfélag undan skilið, hvorki hér á landi né annars staðar. Það hefði kannske mátt koma fram í þeim umræðum öllum, þegar var verið að fjalla um málefni Flugleiða á sínum tíma, að nefna einnig það sem var ljósara á litinn en svart.

Herra forseti. Þyrlumálin eru einnig nokkuð stór þáttur. Ég ætla ekki að eyða tíma í að ræða þau. Manni er auðvitað sagt ýmislegt um hvernig ástandið er í þeim efnum hjá Gæslunni. Ég veit ekki hvað satt er í því. Ég hef grun um að þessi ákaflega dýra þyrla, sem keypt var núna til landsins, Sikorsky, hafi verið svo dýr að hún sé tvisvar til þrisvar sinnum dýrari en margviðurkenndar björgunarþyrlur sem mikið eru notaðar t. d. í Vestur-Þýskalandi til ýmiss brúks. Það eru þyrlutegundir sem hafa reynst ákaflega vel, eru miklu ódýrari í rekstri og margfalt ódýrari í innkaupi. Það kann að vera að þær hafi ekki þótt heppilegar til þessara nota hér heima, en ég hef grun um að Sikorsky-vélin sé ekki heldur heppileg. Ég hef grun um að hún hafi ekki mikið pláss t. d. aftan á varðskipunum. Hafa varðskipin farið með hana út á sjó nema hérna út á Flóa? Það hugsa ég að sé ákaflega lítið um. Ég er ekki viss um að það sé gott að athafna sig með þeirri vél á varðskipunum. Ég þori ekki að fullyrða það, en mig grunar það.

Herra forseti. Það, sem vakti athygli mína þegar hv. þm. Árni Gunnarsson tók til máls áðan í umr., var kannske ekki síst það þegar hann þurfti, að því er virtist, að taka það sérstaklega fram, að mál hans hefði alls ekki verið neitt tengt eða mengað fjölmiðlabakteríum. Svo einkennilega vildi til, að þegar þetta litla mál var rætt ásamt fjöldamörgum öðrum á fundi Sþ. var þess sérstaklega getið fyrir fréttir að það væri von á merkilegum ummælum frá Árna Gunnarssyni. Síðan komu þau í aðalfréttum útvarpsins með viðtali þar sem hann var látinn túlka mál sitt í útvarpinu einn allra manna sem um þetta fjölluðu, — gerði það auðvitað listilega nákvæmlega eins og hans er vandi og kannske óþarfi þess vegna að leita til annarra um þau efni. Eftir fréttir var þess getið, fyrir þá væntanlega sem kannske höfðu ekki átt þess kost að hlusta á hv. þm. Árna Gunnarsson í forfréttum og aðalfréttum, það kom sem fréttalegur eftirréttur, að hann hefði látið í sér heyra um þessi mál, til þess að tryggja allt réttlæti.

Útvarpið hefur sem betur fer reynt eftir fremsta megni að gæta þess að málflutningur hv. þm. Alþfl. rynni ekki út í sandinn öðruvísi en fólk í landinu gæti fylgst þar vandlega með. Ég man ekki eftir þeim fréttatíma þar sem ekki hefur verið talað við a. m. k. einn hv. þm. Alþfl. Ég vona að útvarpið haldi uppteknum hætti. Það var t. d. í gærdag og í gærkvöld. Það gleður mitt gamla hjarta að heyra í þessum ágætu mönnum. En þar fyrir er ég alls ekki að halda því fram að hv. þm. hafi verið að flytja þetta mál í fjölmiðlaskyni. Hann talaði á ýmsan hátt skynsamlega í þessum efnum. (Gripið fram í.) Mjög skynsamlegt, já margt af því, þó að hann væri dálítið fullyrðingasamur. Menn verða að vera dálítið fullyrðingasamir ef á að taka eitthvað eftir þeim. Það verður að vera einhver sveifla. Það kemur auðvitað oft niður á staðreyndunum, en það er ekki aðalatriði málsins.

Sú staðhæfing er endurtekin hérna, að tækjabúnaði varðskipanna sé svo hörmulega komið að tæki þeirra séu meira að segja lakari en í þeim skipum sem þau eiga að passa. Ef varðskip eða eftirlitsskip yfirleitt hefðu ekki lakari tæki en gerast í nýtískufiskiskipum á Íslandi, þá held ég að það þyrfti ekki mikið um að kvarta því að í þeim skipum er mjög góður tækjabúnaður, í nýjustu skipunum okkar, eins og tiltekið var sérstaklega úr ræðustól. Þar er sem betur fer oft um ágætan tækjabúnað að ræða. En ég legg á það áherslu, að skip Gæslunnar eiga auðvitað að vera vel búin tækjum. Þar á ekki að spara peninga. Það er ekki til mikils að senda varðskipin vestur á Dohrnbanka að líta eftir því að skip séu hérna megin eða hinum megin við einhverja miðlínu, ef um það væri að ræða, ef þau hafa ekki tæki til að sanna nákvæmlega hvar þau eru stödd. (StJ: Miðlínan á Dohrnbanka er mjög breið, guði sé lof fyrir okkar skip.) Já, hv. þm. Stefán Jónsson þekkir Dohrnbankann vafalaust vel, ég efa það ekki. En það er nú svona, að þó að menn hafi farið frjálslega um þá línu nokkuð sumir hverjir af ýmsum þjóðernum er það svo, að ef við eigum einhverra hagsmuna þar að gæta verðum við að hafa tæki til þess að fá nákvæmar staðsetningar. Um það er ekkert að efa og til þess eigum við ekki að spara fé.

Herra forseti. Ég lagði áherslu á það, þegar þetta var síðast til umr., að við mættum ekki skera við nögl fjármagn til Gæslunnar. En það á að hagnýta þetta fé vel, það á að beita þar fullkominni hagsýni, velja hentug skip, aðgæta hvort ekki sé unnt að spara t. d. í mannskap eða spara í olíu með því að nota svartolíu o. s. frv., o. s. frv.

Ég lagði einnig áherslu á í upphafi máls míns, síðast þegar þetta var til meðferðar, að fá að vita af hverju það stafaði að þetta mál hefði farið til utanrmn., síðan kæmi í umr. hlutaðeigandi ráðh., sem ekki væri utanrrh., heldur dómsmrh. Það er eitthvert hliðarskref í þessu sem ekki passar. Ég tel að þetta málefni hefði átt að senda til allshn. Ég tel að það eigi ekki fremur heima í utanrmn. en t. d. girðingalögin í sjútvn. Þetta kemur utanríkismálum nákvæmlega ekkert við.

Að lokum lagði ég áherslu á það, og ég vil endurtaka það þó ég hafi ekki fengið nein svör við því, af hverju málið var sent í vitlausa nefnd, að ég er ekki samþykkur síðustu setningu í grg. með frv. og þar með ekki sammála hæstv. dómsmrh. varðandi það efni. Sú setning fjallar um að það eigi að vera leynd yfir meðferð þessara mála í þeirri nefnd sem stendur til að skipa. Það er mín skoðun að þetta eigi allt að vera opið, það eigi ekki að vera nein leynd yfir meðferð þessara mála. Í skjóli slíkrar leyndar þrífst sjálfsagt margt hið neikvæða sem hv. þm. Árni Gunnarsson hefur nefnt hér og ýjað að, því að ýmislegt neikvætt er vissulega til í þessum málum, það vitum við margir hér í hv. Alþingi. Til þess að það komi einnig upp á yfirborðið og allir geti skoðað hlutina, bæði jákvæða og neikvæða, á ekki að hvíla leynd yfir störfum þessarar nefndar.