02.04.1981
Sameinað þing: 69. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3373 í B-deild Alþingistíðinda. (3456)

69. mál, félagsbú

Frsm. (Egill Jónsson):

Herra forseti. Atvmn. hefur fjallað um till. frá varaþm. Þorbjörgu Arnórsdóttur um aukinn stuðning við rekstur félagsbúa og enn fremur hefur n. farið yfir umsagnir frá Búnaðarfélagi Íslands, Stéttarsambandi bænda og Landnámi ríkisins. Það er niðurstaða n. eftir þessa umfjöllun og ábendingar, að það skorti á að í lögum séu fyrir hendi skýr ákvæði um ákveðin réttindi þeirra sem stunda búskap í félagi hver við annan. Þess gætti mjög í umsögnum frá bændasamtökunum að þetta kæmi fram í ýmsum erfiðleikum í sambandi við stjórn framleiðslumálanna, og m. a. af þeirri ástæðu var kvatt til þess, að till. yrði samþykkt. Þess vegna hefur atvmn. orðið sammála um að mæla með samþykkt þáltill. á þskj. 75 með þeim breytingum sem fram koma á þskj. 558. Þar er reyndar lögð á það áhersla að þessu máli verði búinn sérstakur lagastakkur með því að fella það inn í lög.