02.04.1981
Sameinað þing: 69. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3374 í B-deild Alþingistíðinda. (3458)

117. mál, undirbúningur almennra stjórnsýslulaga til að auka réttaröryggi

Frsm. (Birgir Ísl. Gunnarsson):

Herra forseti. Allshn. Sþ. hefur fjallað um till. sem flutt var fyrr á þessu þingi af Ragnhildi Helgadóttur, sem þá sat hér sem varamaður, en till. fjallar um undirbúning almennra stjórnsýslulaga til að auka réttaröryggi. Það er gert ráð fyrir að hæstv. ríkisstj. láti hið fyrsta kanna hvort tímabært sé að sett séu hér á landi almenn stjórnsýslulög og í því sambandi verði skipuð nefnd til að fjalla um mál þetta og semja frv. ef ástæða þykir til.

Þessi till. hefur það markmið að reyna að tryggja réttaröryggi einstaklinga gagnvart ákvörðunum stjórnvalda og jafnframt að gera athafnir framkvæmdavaldsins skýrari og traustari. Flm. — og á það hefur nefndin fallist hefur talið nauðsynlegt að kannað sé hvort ekki sé rétt að setja reglur um málsmeðferð í stjórnsýslunni sem m. a. tryggi rétt aðila til að tjá sig áður en stjórnvaldsákvarðanir, sem að þeim beinast, eru teknar.

Umsvif stjórnvalda, þ. e. handhafa framkvæmdavaldsins, aukast stöðugt í þjóðfélagi okkar og þau hafa með höndum æ fleiri mál sem snerta einstaklinga og samtök þeirra og taka oft mjög veigamiklar ákvarðanir, sem geta skipt miklu máli fyrir hag og velsæld borgaranna. Það eru ákaflega fá og dreifð lagaákvæði til um það, hvernig slíkar ákvarðanir séu teknar, hvert eigi að vera form þeirra, hver eigi að vera réttur einstaklinga til að fá að skoða þau gögn sem þá varða og ákvarðanir um þá eru byggðar á, hvort og þá hvernig þeir geti fengið að tjá sig fyrir stjórnvaldi áður en ákvarðanir eru teknar um þá — og þannig mætti reyndar lengi telja. Í nágrannalöndum okkar hafa slík lög verið sett, reyndar tiltölulega nýlega bæði í Noregi og Svíþjóð, og mætti vafalaust hafa hliðsjón af þeim lögum við undirbúning að slíkri lagasmíði hér hjá okkur.

Allshn. leitaði umsagna nokkurra aðila, þ. e. Dómarafélags Íslands, lagadeildar Háskóla Íslands, réttarfarsnefndar og Lögmannafélags Íslands, og allir þessir aðilar mæltu með samþykkt þessarar þáltill. Hið sama gerir allshn.