05.11.1980
Neðri deild: 12. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 483 í B-deild Alþingistíðinda. (346)

47. mál, niðurfelling á opinberum gjöldum barna 1980

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Ég verð nú að biðjast afsökunar á svolítilli hæsi sem háir mér og hv. þm. heyra. Það kemur til í fyrsta lagi af strangri baráttu í innanflokksmálum í Alþfl., í öðru lagi vegna þess að flokksþing eru erfið og í þriðja lagi vegna þess að ég hef kosið mér þann stíl að vera gleðimaður bæði í sigrum og í ósigrum.

Ræða sú, sem hv. þm. Halldór Blöndal flutti um þetta mál, er náttúrlega slíkt endemisrugl að satt að segja fer ég að trúa ýmsu sem ég sagði sjálfur hér á árum áður, meðan ég skrifaði sem mest í blöðin, um virðingu Alþingis. Það er alveg ótrúlega lágkúrulegur málflutningur að höfða til barna og unglinga með þeim hætti sem hér á sér stað. Málið um skattlagningu á börn, — og unglinga á hann væntanlega við þó að það sé kallað börn, — sem hér er um að ræða, er einfaldlega það, að á þessum peningum þarf ríkissjóður að halda. Spurningin er sú, hvort þessir peningar séu lagðir við tekjur foreldra og þar með sé sú summa skattlögð eða hvort skilið er á milli og skattlagt í tvennu lagi. Niðurstaðan er nákvæmlega sú sama. En það er rétt, sem fram kom hjá hæstv. fjmrh. áðan, að inntakið í þessu máli er einfaldlega það, að þegar hugmyndir urðu uppi um staðgreiðslu skatta var ekki talið hægt að framkvæma staðgreiðslu skatta með öðrum hætti en þeim að skattleggja sérhvern einstakling sérstaklega, jafnvel þótt hann sé 14 ára gamall. Reyndustu menn í skattamálum, ég nefni ríkisskattstjóra Sigurbjörn Þorkelsson, hafa marglýst þessu yfir. — Tilfinningavaðallinn, sem Halldór Blöndal flutti hér, minnir mig á skrípamynd, sem ég einu sinni sá, af manni sem hélt ræðu á torgi í Róm og milljónir hlustuðu á. Hreyfingarnar, ræðustíllinn og inntakið allt var þvílíkt.

Og það verður að höfða til barna! (RH: Var það Cicero?) Þetta er vel spurt og drengilega reynt að bjarga sínum manni fyrir horn. Ég viðurkenni að þetta var gott tilsvar. En ekki var Cicero uppi 1935. Ég er sagnfræðikennari, hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir, og ég veit að árið 1935 var ekki Cicero uppi, heldur Mussolini.

Það hvarflar að mér að mönnum, sem flytja framsöguræður af þessu lagi, detti nákvæmlega ekkert í hug og það sé ástæðan. Það hefur háð Sjálfstfl. áþreifanlega á þessu þingi, að það er skortur á hugmyndum. Þeir fluttu að vísu till. á þskj. 14. — er það ekki, Sighvatur? — um stóriðjumál. Vitið þið hvaða þskj. þetta er? Þetta er þskj. 14, en við fluttum till. um sama mál á þskj. 4. Flokkur, sem svona er komið fyrir, getur auðvitað ekki gert annað en verið eins og grínkarlinn á árinu 1935.

En verst af öllu finnst mér þegar verið er að höfða til barnanna með þessum hætti. Verst af öllu finnst mér að fara að blanda í þetta umr. um skattsvik, eins og hv. þm. gerði áðan. Auðvitað eru skattsvik á Íslandi. Við jafnaðarmenn erum búnir að berjast fyrir afnámi þeirra og benda á með ýmsum hætti. Ég nefni frv. okkar hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur um skattadómstól og frv. sem ég sjálfur flutti sem dómsmrh. um þessi efni og enn hefur því miður ekki hlotið náð. Auðvitað höfum við lýst neðanjarðarhagkerfi, nákvæmlega þeirri staðreynd að það er hrópandi misræmi á milli upp gefinna tekna annars vegar og lífsstíls hins vegar. Og auðvitað vitum við að svokallaðir atvinnurekendur nota atvinnurekstur sinn til að skrá einkaneyslu sína, bílana sem eru keyptir, jafnvel húsin sem byggð eru, jafnvel matinn sem étinn er. Auðvitað skrifa þeir allt þetta sem hluta af rekstrarkostnaði. Þetta er búið að vera baráttumál okkar í Alþfl. síðan löngu fyrir kosningar 1978. Allt í einu fer íhaldið að uppgötva þetta mál. Þá er farið að flaðra upp um börnin í landinu. Því miður, Halldór Blöndal, mun það vera svo hér — (Forseti: Hv. þm. verður að æfa sig í hvernig ávarpa ber þm.) Ég ætlaði að bæta því við. Ég biðst afsökunar, herra forseti. — Því miður, hv. þm. Halldór Blöndal, verð ég að segja þér þau vondu tíðindi, að ræður hér eru vélritaðar svo að ræða þín, sem flutt var áðan, verður víst ekki tekin til baka. Hún er þegar orðin þingskjal.

Ég minni á að í Morgunblaðinu var viðtal við stúlku um þessi efni sem hafði fengið 4 millj. kr. í laun. Það eru nú nokkuð góð laun. Það er barátta fyrir því að þessi stúlka borgi ekki skatta. Auðvitað eiga unglingarnir að læra að það kostar að lifa í þjóðfélaginu — og hvaða væmni er þetta og „vemmilegheit“ sem hér er verið að fjalla um?

Ég vil aðeins segja það, að hæstv. fjmrh. var svo sanngjarn þegar hann var að ræða um þessi mál í Ed., og ég hlustaði á hann af mikilli athygli, að hann sagði að hann gæti ekki kennt hv. þm., sem ekki hefðu verið komnir á þing, um þessi skattalög sem samþ. voru fyrir 1978. Þessi dómur hæstv. ráðh., sem ég viðurkenni að er sanngjarn, á þá við mig líka. Ég kom inn 1978. En ég skal fúslega taka á mig ábyrgð á þessum lögum, í fyrsta lagi vegna þess að þau eru náskyld lögunum um staðgreiðslukerfi skatta, sem eru mesta réttlætismál sem hægt er að hugsa sér í íslenskum skattamálum.

Ég vil að stjórnarandstæðingar séu sanngjarnir. Það er ýmislegt við hæstv. ráðh. Ragnar Arnalds að athuga. Hann er kommi af heldur vondri tegund. En það er allt í lagi með það. Óvinur barnanna er hann ekki. Það að ætla að gera hann að einhverjum sérstökum óvini barnanna í landinu er alveg yfirgengilegur málflutningur. Hið eina, sem mér líkaði ekki í ræðu hæstv. ráðh. áðan, var það, sem hann gerir of oft, að ætla að fara að kenna um þessum 4 mánuðum þegar við jafnaðarmenn sátum í ríkisstj. sem allir vissu að var valdalaus í þeim skilningi að hún hafði ekki meiri hl. á þingi. Við getum haft skiptar skoðanir um hvort það hafi verið góð eða vond stjórn, og ég skal leyfa honum það, það kemur þessu máli ekki beinlínis við, en að öðru leyti hefur hæstv. ráðh. minn stuðning í þessu máli og ég bið þess, að trúðurinn frá Róm flytji aldrei svona ræðu aftur.