02.04.1981
Sameinað þing: 69. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3375 í B-deild Alþingistíðinda. (3465)

99. mál, eldsneytisgeymar varnarliðsins

Utanrrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Það er nú nokkuð langt um liðið frá því að mælt var fyrir þessari þáltill., en samkvæmt till. flm. verður henni væntanlega vísað til utanrmn. Við skulum vona að svo fari að lokum að þangað komist hún. Þá verður færi á því að koma á framfæri ýmsum skýringum og upplýsingum varðandi þetta mál. Ég skal því ekki hafa ýkjamörg orð um þetta nú, en tel þó rétt á þessu stigi að minnast aðeins á nokkur atriði.

Þá er það fyrst varðandi hvert sé upphaf þess að þetta mál hefur nú komist á dagskrá yfirleitt. Það er skemmst að segja að rætur þess, að þetta mál er upp tekið, má rekja annars vegar til fsp., sem gerð var hér á Alþingi 1978 til utanrrh. um mengunarvarnir af völdum bandaríska hersins, og í annan stað má rekja það til ályktunar, sem samþykkt var á Alþingi 23. maí 1979, en sú till. var svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela utanrmn. Alþingis að láta rannsaka hversu mikil mengun hefur nú þegar hlotist af olíu í jarðvegi umhverfis Keflavíkurflugvöll. Athuga verði sérstaklega hversu mikil hætta stafar af olíumengun gagnvart vatnsbólum byggðarlaga á Suðurnesjum. Nefndin kanni einnig réttarstöðu byggðarlaga á Suðurnesjum gagnvart afleiðingum olíumengunar af einu eða öðru tagi. Lögð verði áhersla á í athugun þessari að hafa náin samráð við stjórnir sveitarfélaga í nágrenni við Keflavíkurflugvöll. Störfum verði hraðað eins og kostur er.“

Þáverandi utanrrh. skipaði samkvæmt þessu tvær nefndir: fyrst nefnd til þess að athuga mengunina og athuga hvaða ráðstafanir væri hugsanlegt að gera til úrbóta í því efni, en í annan stað skipaði hann svo nefnd til að skilgreina þörf fyrir eldsneytisgeyma fyrir alla starfsemi á flugvellinum, athuga löndunaraðstöðu, gera tillögur um staðarval, smíði geyma, áætla byggingarkostnað, skilgreina einstaka verkþætti og meta umhverfisáhrif og náttúruverndarsjónarmið og enn fremur hvaða ráðstafanir þyrfti að gera til að mæta ýtrustu nútímakröfum um mengunarvarnir. Þessi nefnd var skipuð af utanrrh. 4. okt. 1979 og vann hún í samvinnu við nefnd af hálfu varnarliðsins. Þessi nefnd skilaði svo ítarlegri skýrslu í maí s. l. þar sem mælt er með byggingu nýs kerfis eldsneytisgeyma í Helguvík í grennd Keflavíkur.

Ég drep á þetta vegna þess að það er staðreynd að upptökin að þessu máli eru hjá Íslendingum sjálfum. Þeirri staðreynd verður ekki breytt þó að reynt sé að koma af stað og þyrla upp einhverju ryki í sambandi við það.

Annað atriði, sem ég vildi minnast hér á, er að það hefur komið fram ýmiss konar misskilningur varðandi þá aukningu á eldsneytisgeymarými sem hér er um að tefla. Til þess að taka af allan vafa um hver sú aukning er, sem varnarliðið fer fram á í þessu sambandi, vil ég leyfa mér að upplýsa eftirfarandi, og þær tölur, sem ég fer hér með, eru komnar frá réttum aðilum hjá varnarliðinu:

Þegar lítið er á allt eldsneytisgeymarými varnarliðsins, bæði eldsneyti á flugvélar og eldsneyti eða olíu til flotans, er fyrir hendi hér eftirfarandi eldsneytisgeymarými: Það er á fjórum stöðum. Það er á þrem stöðum í Hvalfirði og fjórði staðurinn er Keflavíkurflugvöllur.

Í Keflavík eru það 65 183 kúbikmetrar, í geymum, sem eru í leigu í Hvalfirði, 46 741 kúbikmetrar, og í eldsneytisgeymum í Hvalfirði, sem virðast hér taldir á vegum NATO, eru 50 874 kúbikmetrar, og svo er fyrir flotann eldsneyti í geymum, sem leigðir eru í Hvalfirði, 45 787 kúbikmetrar. Samtals er heildar eldsneytisbirgðarýmið, sem varnarliðið hefur, 208 585 kúbikmetrar.

Þessu má breyta í tonn. Það eru samtals 158 524 tonn sem hér eru kölluð „long tons“, en það er líka breytt í „metric tons“ og eru 16 1061 slík tonn. En það er réttast, til að rugla þessu ekki saman, að miða við kúbikmetra.

Ef framkvæmd væri sú eldsneytisgeymabygging, sem óskað er eftir, yrði eftirfarandi eldsneytisgeymarými fyrir hendi: Það er líka á fjórum stöðum, þ. e. á flugvellinum í Keflavík 32 þús. kúbikmetrar, í stöð í Helguvík 154 þús. kúbikmetrar, í þessari NATO-geymslustöð í Hvalfirði óbreytt 50 874 kúbikmetrar og í leigðum geymum í Hvalfirði 45 787 kúbikmetrar, eða samtals 282 661 kúbikmetrar á móti þeirri tölu sem ég nefndi áðan, 208 585 kúbikmetrar.

Það, sem niður væri lagt, eða mundi verða tekið úr notkun ef óskir varnarliðsins um byggingu eldsneytisgeyma væru teknar til greina, er stöð eldsneytisgeyma í Keflavík, sem ég nefndi líka áðan, 65 183 kúbikmetrar og leigugeymar í Hvalfirði 46 741 kúbikmetri. Þetta er varðandi allar eldsneytageymabirgðir. Sé aftur á móti litið eingöngu og út af fyrir sig á eldsneytisgeymabirgðir fyrir stöðina í Keflavík, þ. e. flugvélaeldsneyti, yrði breytingin þessi: Í staðinn fyrir þá geyma, sem nú eru þar, 65 183 kúbikmetra geymslurými, og þetta geymslurými sem er leigt í Hvalfirði, 46 741 kúbikmetri, eða samtals 111 924 kúbikmetra, kæmi geymabygging í Helguvík, 154 þús. kúbikmetrar, og á Keflavíkurflugvelli sjálfum, 32 þús. kúbikmetrar, eða samtals 186 þús. kúbikmetrar á móti því sem talið er vera nú fyrir hendi, 111 924 kúbikmetrar.

Þetta eru margar tölur og það er erfitt að leggja þær allar á minnið, en ég ætla að nefna tvær tölur, sem er í rauninni auðvelt að leggja á minnið: Ef miðað er við allar birgðirnar og birgðarýmið í heild er um að ræða 36% aukningu. Ef aftur á móti er miðað við aukninguna á flugvélaeldsneytinu einu út af fyrir sig, sem vel má telja réttara í þessu falli, er aukningin 66% .

Ég hef talið rétt að taka þetta alveg skýrt fram, þannig að menn þurfi ekki að vaða í villu um hver sé sú stærð eldsneytisgeymarýmis sem farið er fram á. En það er af þessum tölum ljóst að ekki er um að ræða fjórföldun á geymslurými, það er ekki um að ræða þreföldun á geymslurými, það er ekki einu sinni um að ræða tvöföldun á geymslurými, en allar þessar tölur hafa heyrst í umræðum um þessi mál. Það er eingöngu um að ræða 66% aukningu, ef miðað er við flugvélaeldsneytið eitt út af fyrir sig, og minna ef miðað er við allar birgðirnar.

Mér finnst sjálfsagt að menn hafi þessar tölur, þegar þeir ræða um þessi mál, og geri sér grein fyrir þeim, en séu ekki með meira og minna ímyndaðar tölur í þessu sambandi. En þetta er það sem að varnarliðið fer fram á. Þetta eru óskir þess. Vissulega er það svo, að þó að það séu ekki nema 66% má segja að um verulega aukningu sé að tefla. Þó er það langt frá því að nálgast þær tölur sem menn hafa verið að fleygja á milli sín í blöðum og opinberri umræðu um þessi mál. Ég vænti að hér eftir geti menn notað réttar tölur í þessu sambandi og rætt um málið út frá réttum forsendum að því leyti.

Ég hef að sjálfsögðu aldrei gefið neina yfirlýsingu um að fallist yrði á þá aukningu, sem þarna er í raun og veru um að ræða, þ. e. 66%, enda hefur engin ákvörðun enn verið tekin í þessu máli. Er líklegt að það verði ekki gert á næstunni. Það hefur verið ráðgerð sú áætlun í þessu efni, að fram færi á þessu ári jarðvegskönnun og frekari rannsókn á svæði, á næsta ári, 1982, færi og fram könnun, en til framkvæmda gæti ekki komið fyrr en 1983. Nú fer þessi þáltill. að vísu fram á að hraðað verði framkvæmdum að þessu leyti, og ef hún verður samþykkt verður auðvitað unnið samkvæmt því, en það liggur ekkert fyrir um það, þó að hún yrði samþykkt, að hægt yrði að breyta þeirri framkvæmdaáætlun sem varnarliðið og NATO hafa hugsað sér í þessu efni. Síðan tækju svo framkvæmdirnar sjö ár. Ég hygg að það sé gerð nánari grein fyrir þessum áætlunum í skýrslu þeirri sem nefndin gaf út á sínum tíma um framkvæmdahraða. En ég vil endurtaka það, að engin ákvörðun hefur verið tekin um þetta efni og ég hef enga yfirlýsingu gefið um að ég mundi samþykkja þessa eða aðra stækkun á eldsneytisgeymarýminu. Hins vegar hef ég sagt að ég teldi nauðsynlegt að endurnýja þessa tanka og að ég teldi nauðsynlegt að flyt~a þá úr stað og byggja þá upp annars staðar.

Ástæðurnar fyrir því, að slíkt er talið nauðsynlegt, eru margvíslegar. Ég hygg að þær hafi að einhverju leyti, óbeint a. m. k., komið fram í sambandi við þær umr. sem fram fóru á sínum tíma bæði í sambandi við þá fsp., sem hér var á gerð 1978, og eins í sambandi við þá þál., sem samþykkt var hér vorið 1979. Í fyrsta lagi er ástæðan sú, að þeir geymar, sem þarna standa og öllum, sem um veginn fara, er auðvelt að sjá velflesta, því þeir eru nú flestir, langsamlega flestir, ofar moldu og ekki grafnir í jörð, — þessir geymar eru orðnir gamlir og það er alveg óhjákvæmilegt og verður alveg óhjákvæmilegt að endurnýja þá á næstu árum. Annað atriðið, sem þarna kemur til greina, er slæm staðsetning þessara geyma þar sem þeir eru svo að segja alveg inni í byggð nú orðið. Í þriðja lagi er það sem rætt hefur verið allmikið um, en sem betur fer, að ég vona, hefur ekki orðið í reynd. Það er hættan á mengun af þessum geymum þar sem þeir eru nú. Í fjórða lagi hefur verið bent á að þarna sé um að ræða ófullnægjandi löndunaraðstöðu og sú leiðsla, sem liggur til geymanna, sé nokkuð óvarin og ofan jarðar, a. m. k. sums staðar.

Þetta eru þær ástæður sem Íslendingar hafa borið fram af sinni hálfu og báru fram fyrir nauðsyn þess að breyta um stað fyrir tankana og byggja á öðrum stöðum eða öðrum stað, en af hálfu varnarliðsins hafa náttúrlega verið bornar fram þær ástæður fyrir óskum þess varðandi þetta mál, að það eldsneytisgeymarými, sem er fyrir hendi fyrir flugvélar, væri orðið ófullnægjandi og enn fremur að þessir geymar, eins og þeir eru nú, væru með litlum undantekningum algerlega óvarðir, þ. e. þeir eru ofan jarðar, eins og ég sagði, að undanteknum tveim eða þremur nýjustu geymunum, og það er varla hægt að telja það forsvaranlega geymslu á svo viðkvæmu efni. Ég hef því sagt að ég telji óhjákvæmilegt að endurnýja þessa geyma, sem eru þarna á Keflavíkursvæðinu, og líka óhjákvæmilegt að byggja þá á öðrum stað. Ég verð að segja það sem mína skoðun, að ég tel ekki annað forsvaranlegt og það getur varla annað komið til greina en að þá þurfi að endurnýja á 5–6 næstu árum, í mesta lagi 10 árum.

Það hefur náttúrlega mjög komið inn í umræðurnar um geymana þarna suður frá, að þeir eru taldir — og gera það í raun og veru — standa í vegi fyrir útfærslu byggðar og eru þannig í andstöðu við skipulag. Enn fremur er svo þetta atriði sem ég minnti á, að mengunarhætta er talin fyrir hendi.

Hitt er svo annað mál, hvernig líta skal á óskina um að leggja niður þetta leyfða flugvélaeldsneytisgeymarými í Hvalfirði, en það eldsneyti hefur verið flutt á skipum suður eftir. Það geta sjálfsagt verið eðlilegar ástæður fyrir því, að varnarliðsmenn vilji hafa það nær sér, og ég skal ekkert frekar um það segja. En ég á satt að segja bágt með að trúa öðru en að flestir verði sammála um, hverja afstöðu svo sem þeir annars hafa til varnarliðs þarna eða ekki, að það sé nauðsynlegt að endurnýja þessa geyma og byggja þá upp á öðrum stað.

Auðvitað geta orðið skiptar skoðanir um staðarvalið. En fyrir liggur í þessu máli, samkv. þeirri skýrslu sem gerð hefur verið af nefndinni sem kannaði þetta, að Helguvík varð einróma fyrir valinu. Ég hygg að ráðið hafi ekki hvað síst að það var eindregið bent á þennan stað af hálfu bæjarfélaganna sem þarna eru næst. Það er út af fyrir sig eðlilegt að menn geti haft skiptar skoðanir á því, hvar hentugast sé að hafa slíka geyma, en ég verð að segja það, að miðað við þá vitneskju, sem ég hef fengið þarna sunnan að, virðist það vera mjög samdóma álit að þarna séu þeir best komnir. Ég neita því ekki, að frá mínu leikmannssjónarmiði er þetta helst til nærri byggð þar sem þeim er ætlað að vera.

Því hefur verið haldið fram, að bygging nýrra geyma í Helguvík og þá sjálfsagt ekki hvað síst með auknu rými mundi hafa í för með sér meiri hættu en þeir geymar sem nú eru fyrir hendi. Ég verð að segja að það liggur í augum uppi að eldsneytisgeymum fylgir alltaf hætta, jafnvel þótt allra hugsanlegra öryggisráðstafana sé gætt, og ekki er að efa að í ófriði eru eldsneytisbirgðir alltaf eftirsótt skotmörk. Þetta eru staðreyndir sem þýðir ekkert að vera að fela, hvorki fyrir sjálfum sér né öðrum. En frá mínu sjónarmiði — og ég skal þá segja aftur: leikmannssjónarmiði því að ég hef ekki annað við að styðjast en brjóstvitið í þessum efnum — er hæpið að halda því fram, að nýir geymar, sem sprengdir væru niður í berg og jarðlag yfir, hefðu í för með sér meiri hættu en þeir geymar sem nú eru óvarðir og í rauninni, eins og ég sagði áðan, að kalla má alveg inni í byggð. Hvort geymarnir þarna eru 12, eins og gert er ráð fyrir í þessari Helguvíkuráætlun, eða 19, eins og þeir eru nú, ætla ég að skipti í sjálfu sér ekki máli út af fyrir sig varðandi hættuna. En um þetta geta menn haft sínar skoðanir og verður hvorki sannað né afsannað í sjálfu sér neitt í því efni.

Það, sem kemur til greina í sambandi við þessar framkvæmdir, — og þetta eru vissulega miklar framkvæmdir sem þarna er um að tefla, ekki síst ef sú aukning kæmi til greina sem farið er fram á, þó að hún sé ekki fjórföldun og ekki þreföldun og ekki tvöföldun, heldur aðeins 66% , — og það, sem ég vil hafa að leiðarljósi varðandi framkvæmdir, er að náttúrlega er von flestra manna að einhvern tíma komi þeir tímar að það verði ekki þörf fyrir varnarlið hér og því eigi ekki að leyfa framkvæmdir sem gætu torveldað það á sínum tíma. Auðvitað verða menn að meta það í sambandi við svona framkvæmdir, hvort því sé svo háttað eða ekki, en jafnframt því sem þetta sjónarmið verður að mínu mati mjög að hafa í huga er hitt alveg óhjákvæmilegt að hafa einnig í huga, að á meðan við höfum hér varnarlið og það er talið nauðsynlegt verður búnaði þess að vera þannig háttað að það hafi möguleika á og geti gegnt því hlutverki sem því er ætlað.

Þessi sjónarmið geta kannske stangast nokkuð á. En það verður að vega þau og meta, og sá, sem ákvörðun tekur, verður að gera þessi sjónarmið upp og vega þau og meta. Það mat getur vissulega verið vandasamt. Ef þessi till. verður samþykkt tel ég felast í henni ákvörðun um þessar framkvæmdir, að þær skuli leyfðar og að utanrrh., hver svo sem hann er, beri að framfylgja þeirri ákvörðun. Þó vil ég ekki fullyrða það þó þessi till. væri samþykkt, að það eigi að túlka það svo, að í henni fellst fortakslaus ákvörðun um stærð eldsneytisrýmisins. Það má segja að það væri nokkurri ábyrgð létt af utanrrh. með því að Alþingi tæki þetta mál þannig í sínar hendur og tæki ákvörðun í því.

Annars vil ég segja það almennt, að ég tel það óheppilegt ef Alþingi ætti að fara að taka í sínar hendur ákvörðunarvald um einstakar varnarliðsframkvæmdir. En e. t. v. má segja að það geti verið réttlætanlegt í falli sem þessu, þar sem um miklar framkvæmdir er að tefla og þeim er ætlað að standa yfir langt árabil. Auðvitað er þá gert ráð fyrir að þær verði á hverju ári innan þess ramma sem reynt hefur verið að fylgja varðandi varnarliðsframkvæmdir á hverju ári.

Herra forseti. Ég skal ekki fara lengra út í þetta mál. Það er búið að segja margt um þetta. Ég ætla ekkert að fara að elta ölar við það hér, en ég hef viljað upplýsa þessi atriði af því að ég tel að þau séu eðlileg og nauðsynleg forsenda fyrir því að menn geti með fullum rökum tekið afstöðu í þessu máli.