02.04.1981
Sameinað þing: 69. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3391 í B-deild Alþingistíðinda. (3472)

99. mál, eldsneytisgeymar varnarliðsins

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Heils hugar get ég tekið undir þau orð Karls Steinars Guðnasonar að við verðum að sjá farborða þessu sérstaka máli, sem lýtur að verndun vatnsbóla þeirra Njarðvíkinga og Keflvíkinga, og hefði það betur fyrr verið gert því að það er orðið býsna langt síðan okkur varð ljóst að olíubirgðastöð hersins á Miðnesheiði var yfir vatnsbólum þeirra í Njarðvík. Það er ekki ný uppgötvun. Einnig var okkur það ljóst, að þessir olíutankar voru síður en svo reistir úr neinu eilífðarefni. Þetta er nauðsynjamál. Það má umfram alla muni ekki tefja framkvæmd þess með því að tengja þetta mál við birgðastöð og olíuhöfn á einhverjum tilteknum stað, því að það ætla ég að sé býsna mikið mál og tími muni gefast til að ræða um sérstaklega. Við verðum að koma því til leiðar, að olíutankarnir verði lagðir niður, þar sem þeir nú eru, og lagt í nauðsynlegar framkvæmdir til að hreinsa jarðveg, ef rétt reynist, sem mér hefur heyrst á hv. þm. Karli Steinari Guðnasyni, að nokkuð muni vera komið af olíu í jörðina nú þegar. Yrði þá e. t. v. nokkuð dýrt að hreinsa burt jarðveg og grjót til að nema burt þá olíu sem kann að vera á leiðinni ofan í vatnsbólin, en þetta verður að gera umfram alla muni.

Þegar þessi mál eru rædd, þessi nauðsyn þeirra Suðurnesjamanna að vera losaðir við mengunarhættu á vatnsbólum, eitrun á drykkjarvatni, tel ég ekki heppilegt að hefja málið eins og hv. þm. Magnús H. Magnússon á þeirri forsendu að við séum í NATO, þess vegna þurfi að gera þetta. Hv. þm.fyrrv. félmrh. — taldi þau rökin fyrst í sambandi við þessa þáltill. og nauðsyn þess að samþykkja hana að það væri þörf NATO fyrir olíubirgðastöð á heiðinni. Annað mál væri ef hv. þm. hefði verið hitt efst í huga, hvílík nauðsyn það er að stugga mengunarhættunni frá vatnsbólunum, og ég vil bæta við: hættunni sem stafar af nálægð olíutanka við byggð. Óljósan grun hef ég um að þessi olía kunni að vera eldhætt. Nei, það var ekki það. Það var þörf NATO og sú staðreynd, að meiri hluti íslensku þjóðarinnar sé vegna núverandi ástands í heimsmálum fylgjandi varnarstöðinni á Keflavíkurflugvelli. Það er nákvæmlega þetta sem gerir það að verkum að við Alþb.-menn teljum að þáltill., sem hér um ræðir, sé samin og flutt að öðrum þræði í annarlegum tilgangi og af skrýtnum hvötum.

1. flm. till. rökstuddi hana með þessari upphrópun: Annaðhvort erum við í NATO eða ekki! — Við Alþb.- menn lítum svo til, að það sé alveg bráðnauðsynlegt að fjarlægja tankana þaðan sem þeir nú eru, gera nauðsynlegar ráðstafanir til að verja neysluvatnsból þeirra Njarðvíkinga og Keflvíkinga, koma þessum tönkum þar fyrir vel og traustlega smíðuðum í eldfjallalandi þar sem allra minnst hætta er á því í fyrsta lagi að þeir mengi vatnsból og í öðru lagi að þeir verði íbúum nærsveitanna að fjörtjóni. Trúið þið mér til, hin bráða hætta, hin óttalega hætta stafar ekki fyrst og fremst af olíutönkunum, hún stafar af herstöðinni. Allt ómengað drykkjarvatn í heimi mundi ekki aðstoða íbúa Suðurnesja ef til hins óttalega kæmi, að til styrjaldar drægi og þessi herstöð yrði fyrir kjarnorkusprengju. Nei, við verðum að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að vernda vatnsbólin þeirra Suðurnesjamanna, en í herrans nafni: Þeir, sem vilja flýta ráðstöfunum þarna, skulu ekki tengja framkvæmdir þarna við umfangsmikil verkefni til stækkunar herstöðvarinnar. Það er allt annað mál.

Þetta sama sjónarmið kom náttúrlega fram hjá hv. þm. Geir Hallgrímssyni þar sem hann ræddi um þessi olíubirgðamál í tengslum við herstöðina. Ég hlakka til þess fundar, þeirra umr., sem formaður utanrmn. raunverulega boðaði hér áðan, þar sem skýrt yrði ítarlega frá því sem bar fyrir hans góðlegu og alvarlegu bláu augu í þessu ferðalagi og þar sem aðrir nm. munu þá, vænti ég, efla þá skýrslu formannsins. Það verður fróðlegur dagur.

En ég hlýt að víkja aðeins að þessu bréfi sem hv. þm., formaður Sjálfstfl., hafði komist yfir með einhverjum hætti, — þessu bréfi frá stjórn Alþb. til Alþb.-manna. Hann vildi ekki segja frá því úr ræðustól, svara einfaldri spurningu, hvernig hann hefði komist yfir þetta bréf. Síðar í ræðu sinni gerði hann spurningu þessa enn þá brýnni og ýtti mjög undir mig um að krefjast afdráttarlauss svars þar sem hann vitnaði í Watergate-málið. Nú ítreka ég þessa beiðni mína, þessa kröfu mína á formann Sjálfstfl., að hann segi frá því, hvernig hann komst yfir þetta bréf, vegna þess að þetta bréf er horfið úr skúffu minni hérna við borðið í Sþ. Ég ætla ekki að væna þann sómakæra þm. Geir Hallgrímsson um að hann hafi fjarlægt bréfið úr skúffu minni. Þó vil ég fá afdráttarlausa yfirlýsingu frá honum um með hvaða hætti hann komst yfir þetta bréf. Ég væni hann ekki heldur um að hafa sett til annan mann að fjarlægja þetta bréf úr skúffu minni, en ég vil fá afdráttarlausa yfirlýsingu um það frá hv. þm., hvort honum hafi verið sent þetta bréf sem hverjum öðrum stuðningsmanni Alþb. eða hvort einhver af stuðningsmönnum hans hafi fært honum þetta bréf. Þá bið ég hann um að gjöra svo vel að inna þann hinn sama eftir því, hvort hann hafi fjarlægt það með ólöglegum hætti úr skúffu minni.

Eitt andartak hvarflaði það að mér áðan, hvort þeir hefðu nú gert heiðursmannasamkomulag, svo ég noti orð Sighvats Björgvinssonar, formanns þingflokks Alþfl., eins og þau sem hann viðhafði þegar hann var að tala um samskipti sin við Gunnar Thoroddsen í vetur, — hvort þeir hafi með sér gert heiðursmannasamkomulag sín í milli hv. þm. Sighvatur Björgvinsson, formaður þingflokks Alþfl. og hv. þm. Geir Hallgrímsson, formaður Sjálfstfl. Ég minnist þess, að fyrir skemmstu gat Sighvatur Björgvinsson þess formlega í ræðu að hann hefði lesið bréf yfir öxl á meðþingmönnum sínum og ráðherrum hérna og vitnaði síðan til þess eða gat sér til um efni þess eða kvaðst hafa lesið það. Stíllinn væri nokkuð líkur.

Komi í ljós að ég hafi enn, að fengnum svörum hv. þm. Geirs Hallgrímssonar, ástæðu til þess að efast um öryggi plagga sem ég hef í góðri trú og eðlilegri á þau göfugmenni, sem sitja Alþingi Íslendinga, látið vera í ólæstri skúffu minni með lykli í kynni ég að þurfa að sækja sérstaklega til skrifstofustjóra um lásaskipti og traustari botn í skúffuna.

Sannleikurinn er sá, að þessi umræða, þetta málæði um leynisamning innan ríkisstj. er svo fyrir neðan allar hellur að mig undrar stórlega að jafngreindur maður og sómakær, sem ég veit að hv. þm. Geir Hallgrímsson er, bæði af eigin raun og umsögn Þeirra sem best þekkja hann, skuli leyfa sér þetta. Honum var það vel ljóst, þegar hann var að biðla til okkar Alþb.-manna að koma í ríkisstj. með sér, þó hann yrði of svifaseinn vegna þessa efa sem verður honum æ dragbítur í sálinni þannig að Gunnar varð á undan honum, að við færum ekki í ríkisstj. upp á önnur býti en þau, að tryggt væri að ekki væru aukin hernaðarumsvif á Keflavíkurflugvelli. Honum var það vel ljóst. Ólafi Jóhannessyni var það vel ljóst, hæstv. utanrrh. Öllum þeim greindu og gegnu mönnum, sem vinna með Alþb. í pólitík, er þetta vei ljóst. Hér er um augljóst drengskaparatriði að ræða. Ég efast um að sá kjáni finnist í hópi þm. — ég er viss um að hann finnst ekki einu sinni í Alþfl. — að hann geri sér ekki grein fyrir þessu grundvallaratriði sem það byggist á að vinna með Alþb. Nei, það þarf blárri augu með dýpri íhygli og svalari alvöru en augu hv. þm. Geirs Hallgrímssonar til að hafa ekki gert sér grein fyrir þeirri augljósu staðreynd, að samstarf við Alþb. í íslenskri pólitík hlýtur að merkja í fyrsta lagi það, að ekki verði lagt út í eflingu herstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli sem lífi Suðurnesjamanna er hætta búin af og allra Íslendinga. Og þó yrði fyrst og fremst gott að vinna með okkur ef það yrði kveðið á um það í einlægni og tryggt með þingstyrk að við losnuðum við þennan her og þyrftum þá ekki olíutanka heldur. (Forseti: Það skal upplýst að hv. 1. þm. Reykv. Geir Hallgrímsson hefur fjarvistarleyfi.) Það hefði betur verið tekið fram áður. Það hvarflaði ekki einu sinni að mér að formaður Sjálfstfl. mundi ganga út úr húsinu að lokinni þeirri ræðu sem hann flutti áðan. Það er of seint í rassinn gripið, herra forseti. (Forseti: Mér var ekki kunnugt um þetta fyrr en ég kom í forsetastól.) Ég bið forseta afsökunar.