02.04.1981
Sameinað þing: 69. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3399 í B-deild Alþingistíðinda. (3475)

99. mál, eldsneytisgeymar varnarliðsins

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Út af ummælum hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar, 11. þm. Reykv., áðan vil ég aðeins ítreka að um þetta Helguvíkurmál er alger samstaða í bæjarstjórnum Keflavíkur og Njarðvíkur og bæjarstjórnarmenn þar hafa allir sem einn mælt með því, að af þessari framkvæmd verði. Þá vil ég einnig taka fram, að það er rangt hjá hv. þm. að svæðið, sem er nú undir olíutönkum, sé ekki hæft til bygginga. Þvert á móti er það álit þeirra sem hlut eiga að máli, að þetta sé bæði verðmætt byggingarsvæði og hagkvæmt, sem kæmi þá til nota ef tankarnir yrðu fluttir.

Hv. þm. spurði einnig að því, hver væri ástæða þess, að það væri talið nauðsynlegt af Bandaríkjamönnum og þeim, sem um þau mál fjalla, að tankarýmið yrði nokkuð aukið um leið og flutningur tankanna ætti sér stað. Ég get ekki skilið mál hans öðruvísi en þannig, að Alþb. féllist á að framkvæmdin yrði unnin við tilfærslu á þessum tönkum sem um ræðir, þó svo að hv. þm. vildi ekki skýra okkur frá því, hvert hann vildi að tankarnir yrðu fluttir. Ég gat ekki skilið annað af máli hans en að Alþb. væri búið að fallast á að flutningurinn ætti sér stað svo að það eina, sem deilt sé um, sé hversu stóra tanka ætti að byggja í stað þeirra sem niður yrðu lagðir. Þá er ekki lengur deilt um eðli málsins, heldur aðeins um umfang þess.

Hv. þm. þarf að sjálfsögðu ekki að spyrja um hvers vegna áhugi sé á að auka nokkuð geymslurými hér á Íslandi fyrir flugvélaeldsneyti. Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson les ýmsar bækur og bæklinga og greinar sem skrifaðar hafa verið um utanríkis- og öryggismál. Hv. þm. er það mætavel kunnugt, að sú er niðurstaða NATO-ríkjanna, að mikilvægi herstöðvanna á Norðaustur-Atlantshafi, bæði á Íslandi, í Noregi og víðar á því svæði, hafi stóraukist með breyttri hernaðartækni á hinum síðari árum. Og hv. þm. á að vera mætavel kunnugt eins og öllum öðrum alþm. að vegna þessa hafa NATO-ríkin, ekki bara Bandaríkin, heldur NATO-ríkin öll tekið ákvörðun um stóreflingu varnarstöðva á þessu svæði og m. a. tekið ákvörðun um auknar fjárveitingar í því skyni. Ástæðan er, eins og ég sagði hér áðan, breytt hernaðartækni og aukið mikilvægi flugvéla, bæði til flutninga á mönnum, vopnum og vistum og til eftirlits með kafbátum. Þetta veit ég að öllum hv. þm. er mætavel ljóst og þessi mál á auðvitað að ræða í því samhengi, en ekki eina framkvæmd út af fyrir sig. Niðurstaðan er sú, að á undanförnum árum hefur verið um að ræða miklar framkvæmdir við varnarstöðvar, t. d. í Noregi og annars staðar á norðaustanverðu Atlantshafi. Þetta á að sjálfsögðu jafnt við um Ísland og önnur lönd á þessu svæði. Það er auðvitað niðurstaða NATO-ríkjanna að nauðsyn á þessari umfangsbreytingu á flugstöðinni á Keflavíkurflugvelli sé jafnmikil og í öðrum varnarstöðvum NATO á þessu svæði. Ég veit varla hvort maður á að bera sér útlend orð í munn í ræðustól Alþingis, en ég leyfi mér það nú samt. Þessar framkvæmdir hafa verið kallaðar „Hardening of the Base“ eða í lélegri þýðingu: hersla á varnarstöðinni. Það er það sem við erum núna að vinna að. Þetta er að sjálfsögðu verið að gera þó að í litlum mæli sé og miklu minna mæli en Bandaríkjamenn mundu sjálfsagt óska eftir ef þeir réðu því einir. En þeir ráða þessari framkvæmd einfaldlega ekki einir, heldur er það íslenska ríkisstj. og hæstv. utanrrh. sem hefur síðasta orðið í því máli.

Það er alveg fráleitt að vera að tala um þessar framkvæmdir á Keflavíkurflugvelli sem eitt afmarkað mál út af fyrir sig. Í dag tölum við um þessa tanka, á morgun tölum við e. t. v. um hvort flugskýli, sem verið er að byggja, eigi að vera 375 rúmmetrar eða 500 rúmmetrar eða nefnum einhverja aðra tölu. Þetta er auðvitað algert aukaatriði. Meginatriðið er að vegna breyttra aðstæðna er verið að breyta nokkuð þeirri framkvæmd sem verið hefur á vörnum landsins. Sumir gætu sagt að verið væri að gera það til að auka varnirnar, aðrir gætu sagt að það væri verið að gera það til að tryggja að varnarstöðin skilaði betur sínu hlutverki. En svo lengi sem við Íslendingar erum í Atlantshafsbandalaginu og teljum að öryggi okkar sé borgið þar hlýtur það að sjálfsögðu að vera áhugamál okkar að því öryggi verði'sem best borgið og að þeim vörnum verði sem best fyrir komið. Um það hljótum við að vera sammála. Enginn Íslendingur vill vera í varnarbandalagi í öðru orðinu og svo krefjast þess í hinu orðinu að sú vörn, sem það bandalag veitir þjóðinni, sé eins lítil og unnt er. Þetta furðulega upphlaup Alþb. manna, að vera að rífast hér um einhverjar rúmmetratölur eða einhverja stærð á olíugeymum, er gersamlega út í hött því þar er verið að forðast kjarna málsins, sem þeir eiga að vita nákvæmlega um eins og aðrir, þ. e. að í gangi er núna á öllu norðaustanverðu Atlantshafi talsverð styrking á þeirri varnarkeðju sem hefur verið byggð upp af NATO og á jafnt við um varnarstöðina hér á Íslandi og stöðvar annars staðar. Fráleitt er fyrir íslenska stjórnmálamenn að vera að ræða þetta mál á öðrum grundvelli en þeim. Slíkt sýnir að annaðhvort þekkja þeir ekki staðreyndir málsins eða vilja forða sér undan að horfast í augu við þær.

Hins vegar er það ekki það merkilegasta sem fram hefur komið í þessum umr. í dag, heldur hitt, að nú hefur það loksins verið staðfest að gert hafi verið skriflegt samkomulag milli þriggja oddvita núverandi stjórnarsamstarfs sem veitir einum aðilanum neitunarvald í þeim málum sem hann telur vera mikilvæg. Og það sem meira er: Það hefur gefið sig fram hér á Alþingi einn þm. sem hefur upplýst að hann hafi fengið margumrætt fréttabréf, sem Morgunblaðið birti frásögn af, að mig minnir í morgun eða í gær, svo að það er orðin staðreynd, það hefur verið viðurkennt hér úr ræðustól, að þetta bréf er til. Hér meðal okkar þm. situr a. m. k. einn maður sem hefur haft það með höndum þó að hann segist vera búinn að týna því nú. M. ö. o.: eftir margítrekaðar fsp. um þetta mál, sem hefur vægast sagt verið svarað með einkennilegum hætti, bæði af hæstv. forsrh, og hæstv. sjútvrh. og formanni Framsfl., er nú upplýst að slíkt samkomulag hefur verið gert.

Menn hafa rætt þetta mál í þeim skilningi að þetta séu aðeins einfaldar starfsreglur sem allar ríkisstjórnir setja sér. Ég hef spurt ráðh. í öllum ríkisstjórnum sem verið hafa á Íslandi frá því að viðreisnarstjórnin tók við völdum hvort gert hafi verið samkomulag um starfsreglur í ríkisstjórnum. Þeir hafa allir svarað neitandi. Allan þennan tíma hefur aldrei neitt samkomulag um starfsreglur í ríkisstjórnum verið í gildi, utan það samkomulag eitt, sem mun hafa verið allar götur frá þingrofi Tryggva Þórhallssonar hér í eina tíð, að ekki væri forsrh. heimilt að beita þingrofsvaldinu nema með samkomulagi allra aðila stjórnarsamstarfsins. Aldrei hafa verið neinar starfsreglur í gildi í ríkisstjórnum, utan það sem segir í reglugerð um Stjórnarráð Íslands og út af fyrir sig kallar ekki á neina samþykkt hjá ríkisstjórnum. Þetta er hins vegar í fyrsta skipti sem samkomulag hefur verið gert sem veitir einum aðilanum að því er virðist neitunarvald varðandi framkvæmdir sem aðrir aðilar í stjórnarsamstarfinu vilja að fram gangi og eru í verksviði ráðh. sem ekki tilheyrir flokknum sem er á móti framkvæmdunum. Þetta er í fyrsta skipti sem slíkt samkomulag hefur verið gert.

Það hefur líka komið fram á Alþingi að fyrst þegar um var spurt hvort það gæti verið að slíkt samkomulag væri í gildi fannst mönnum það svo fráleitt mörgum hér, t. d. mörgum hv. þm. Framsfl., að þeir máttu vart hlátri verjast yfir því að svo heimskulega skyldi spurt. Þegar spurningarnar voru síðan ítrekaðar þótti nokkrum þm. Framsfl., og þar man ég nú í skyndi eftir tveimur, hæstv. forseta Sþ. og hv. þm. Framsfl. Stefáni Guðmundssyni, 3. þm. Norðurl. v., sérstök ástæða til að koma hér í ræðustólinn og skýra þingheimi frá því, að þeim væri ekki kunnugt um að undirritað samkomulag um starfsreglur í ríkisstj. hefði verið gert né heldur hefðu þeir nokkurn tíma séð slíkt plagg. Mér dettur ekki í hug að t. d. þessir tveir hv. þm., hæstv. forseti Sþ. og hv. þm. Stefán Guðmundsson, hafi komið hér í ræðustól á Alþingi til að segja vísvitandi ósatt. Ég er sannfærður um að þegar þeir komu hingað upp í ræðustól til að svara spurningum og gáfu þessar yfirlýsingar töluðu þeir eftir bestu vitund. Þegar þeir stóðu hér fyrir nokkrum dögum var þessum stjórnarþm. ókunnugt um, að samkomulag eins og hér um ræðir hefði verið gert, og höfðu aldrei séð slíkt plagg.

Hins vegar gerist það nú, að það upplýsist m. a. í fréttabréfi, sem skrifað hefur verið af formanni Alþb., að slíkt samkomulag hafi verið gert. Hæstv. ráðh. Steingrímur Hermannsson, formaður Framsfl., hefur og viðurkennt að vera einn af þremur sem undirrituðu þetta samkomulag. Ég bið menn að veita því sérstaka athygli, að þannig er að þessum málum staðið að um samkomulag eins og hér um ræðir, sem að áliti Alþb.-manna skiptir öllum sköpum um þetta stjórnarsamstarf, réð úrslitum um að þeir gengu til samstarfsins, — um þetta samkomulag er þm. Framsfl. ókunnugt þangað til e. t. v. nú í dag og í gær og hafa aldrei það augum lítið. Óbreyttir flokksmenn í Alþb. vita meira um þetta mál en þm. Framsfl. og formaður Framsfl., sem hefur undirritað samkomulag með eigin hendi, lætur þá koma hér upp í ræðustól hvern á fætur öðrum og hlustar þegjandi á þá lýsa yfir að þeim sé ókunnugt um að slíkt samkomulag hafi verið gert og þeir hafi aldrei slíkt samkomulag augum litið. Formaður Framsfl., hæstv. sjútvrh., treysti sem sé á að honum mundi takast að koma í veg fyrir að það yrði nokkurn tíma upplýst undir hvað hann hefði ritað nafn sitt.

Það tel ég vera stóralvarlegt mál, að samkomulag um svo afdrifaríkt mál skuli vera hægt að gera á milli oddvita stjórnarsamstarfs án þess að jafnvel stuðningsmenn ríkisstj. hér á Alþingi, sem veita henni þingmeirihl., hafi hugmynd um það eða sé veittur sá trúnaður að þeim sé skýrt frá efni slíks plaggs. Og af hverju tel ég það vera hörmulegt og því sé miður farið? Vegna þess að í framhaldi af þessu gerðist það, að formaður þingflokks Alþb. og formaður Alþb., hæstv. ráðh. Svavar Gestsson og hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, töldu sig hafa fulla og frambærilega ástæðu til þess að krefjast fundar með formanni Framsfl. og formanni þingflokks Framsfl. til þess næstum því að sækja utanrrh. Framsfl. til saka hjá þessum tveimur forustumönnum Framsfl. fyrir að hafa brotið eitthvert samkomulag sem hæstv. utanrrh. vissi ekki um að til væri. Það sýnir málatilbúnaðinn allan, að formaður Framsfl. og formaður þingflokks Framsfl. skyldu láta það yfir sig ganga að veita slíkum sendiboðum viðtöku án þess að gefa utanrrh. eigin flokks tækifæri til að bera þar hönd fyrir höfuð sér.

Ég spurðist sérstaklega fyrir um það hjá þm. Framsfl. við þetta tækifæri, hvort það gæti verið að þeir Alþb. menn hefðu eitthvað það samkomulag undir höndum sem gerði það að verkum að þeir gætu krafist þess að formaður Framsfl. og formaður þingflokks Framsfl. beittu áhrifum sínum til að fá hæstv. utanrrh. til að falla frá ákvörðun sem hann vildi taka út á samkomulag sem hann hefði ekki vitneskju um. Og þm. Framsfl., sem ég lagði þessa spurningu fyrir, hristu höfuðin, sögðu að það kæmi ekki til mála. Nú hefur það aftur á móti verið upplýst — a. m. k. ef marka má skoðun Alþb.-manna — að þessu er svona farið. Ég held að ef einhverjir ættu að hafa manndóm í sér til þess að krefjast þess að þetta margumrædda samkomulag verði birt opinberlega, þá ættu það að vera þm. Framsfl., mennirnir sem þurft hafa að lifa þá reynslu að standa hér í ræðustól á Alþingi aðspurðir hvort slíkt samkomulag sé til, neita því að þeir hafi um það hugmynd, upplýsa Alþingi að þeir hafi aldrei séð slíkt plagg, og hafa svo þurft að horfast í augu við það nú, að plaggið er bæði til og hefur verið undirritað af þeirra eigin formanni. Það er von að hv. þm. Páll Pétursson glotti í kampinn og þyki þetta vera góðir samstarfsmenn sem þannig leika hann og hans flokk. En ég er ansi hræddur um að hann sé einn um það, hv. þm. standi einn um þá afstöðu í Framsfl. eins og fleira. Þetta tel ég, herra forseti, vera alvarlegasta málið sem upp hefur komið í þessum umr. og miklu alvarlegra en hvort og hvenær olíutankar í Helguvík verði byggðir. En um það vil ég segja að lokum þetta:

Hæstv. utanrrh. tók það sérstaklega fram í ræðu sinni áðan, að ef Alþingi samþykkti þá þáltill., sem hér um ræðir, teldi hann að þar með væri ákvörðun um framkvæmdina tekin. Hæstv. utanrrh. tók líka fram, að ekki væri vanalegt að Alþingi tæki ákvarðanir um einstakar framkvæmdir með þessum hætti, en þó væri málið e. t. v. sérstaks eðlis. Gott og vel. Það hefur verið upplýst að hér sé um að ræða flutning á tilteknum mannvirkjum á stað sem þegar er búið að mæla eindregið með af hlutaðeigandi bæjaryfirvöldum og jafnframt um nokkra stækkun á þessum mannvirkjum. Er þá ekki nærtækast, fyrst þessar yfirlýsingar hafa komið fram hjá hæstv. utanrrh., að þá sé gengið úr skugga um það, þar sem hér er um mjög sérstæða og fjárfreka framkvæmd að ræða, hver vilji Alþingis sé? Það nær að sjálfsögðu ekki nokkurri átt að 11 kommúnistar hér á Alþingi komi í veg fyrir að 49 aðrir þm. fái vilja sínum framgengt.

Hitt er svo annað mál, sem menn þurfa engar áhyggjur af að hafa: Þó að 49 alþm. á Alþingi Íslendinga, kannske 48, að hv. þm. Páli Péturssyni frátöldum, fái vilja sínum framgengt í þessu efni er engin hætta á að Alþb. hlaupi úr ríkisstj., enda ekki refarnir til þess skornir. — Hæstv. utanrrh. hefur raunar tekið fram að hann sé mér sammála um þetta og ætti hann allra manna best að þekkja sitt heimafólk.