06.04.1981
Efri deild: 71. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3429 í B-deild Alþingistíðinda. (3484)

283. mál, lagning sjálfvirks síma

Helgi Seljan:

Herra forseti. Ég fagna því, að þetta frv. er fram komið nú, í raun og veru öðru sinni hér á Alþingi með svipuðu formi og það sem lagt var fram haustið 1978. Ég vildi aðeins nota þetta tækifæri til að bera fram fsp. til hæstv. ráðh. út af einu atriði, það er annars vegar varðandi 1. gr. og hins vegar varðandi 4. gr., sem er töluvert mál hvernig á verður haldið á þessu ári.

Í niðurlagi 1. gr. segir að í áætluninni um lagningu sjálfvirks síma skuli að því stefnt, að símnotendur eigi kost á sjálfvirkum síma innan fimm ára frá 1. jan. 1982, en í 4, gr.: Lög þessi öðlast þegar gildi. Þarna er sem sagt um tvennt að ræða ef við samþykkjum þetta frv., sem ég veit að Alþingi gerir áreiðanlega á þessu þingi. Þá hafa þessi lög þegar tekið gildi. Í 2. gr. stendur að tæki og búnaður til lagningar og uppsetningar sjálfvirks símasambands o. s. frv. skuli undanþegin aðflutningsgjöldum og söluskatti við innflutning. Ættu þessi lög sem sagt að hafa tekið gildi hvað þetta snertir. Ég vil því spyrja hæstv. samgrh. að því, hvort nokkur von væri til þess að ákvæðið, sem er í 2. gr., mundi að einhverju leyti koma til framkvæmda varðandi það sem brýnast er og beinast liggur fyrir að framkvæma núna hjá Pósti og síma. Ég spyr hvort nokkur von væri til þess, að þetta ákvæði 2. gr. kæmi að einhverju leyti til framkvæmda á þessu ári.