06.04.1981
Efri deild: 71. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3432 í B-deild Alþingistíðinda. (3493)

264. mál, Norðurlandasamningur um félagslegt öryggi

Frsm. (Davíð Aðalsteinsson):

Herra forseti. Heilbr.- og trn. hefur haft til umfjöllunar frv. til laga um heimild fyrir ríkisstj. til að fullgilda fyrir Íslands hönd Norðurlandasamning um félagslegt öryggi. Nefndin hefur fjallað um þetta frv. á einum fundi og leggur til að það verði samþykkt óbreytt.

Eins og kunnugt er kveður 1. gr. frv. á um heimild fyrir ríkisstj. til að fullgilda fyrir Íslands hönd samning milli Íslands, Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar um félagslegt öryggi, sem undirritaður var í Kaupmannahöfn 5. mars s. l. Er þessi samningur prentaður sem fskj. með frv.

Samkv. 2. gr. er gert ráð fyrir að ákvæði samningsins hafi lagagildi hér á landi.

Ég tel rétt, til þess að hv. þdm. glöggvi sig á því hvað hér er um að ræða, að ég stikli á stóru í athugasemdum með þessu lagafrv., með leyfi forseta.

Með frv. þessu er leitað heimildar til fullgildingar samnings Norðurlanda um félagslegt öryggi sem undirritaður var, eins og áður var sagt, 5. mars 1981 og kemur í stað samnings um sama efni frá 15. sept. 1955.

Með lögum nr. 53 9. apríl 1956 var ríkisstjórn Íslands veitt heimild til að staðfesta ofangreindan samning frá 15. sept. 1955 og jafnframt var kveðið svo á í lögunum að ákvæði samningsins skyldu hafa lagagildi hér á landi. Síðan hafa margsinnis verið gerðar á honum breytingar sem nauðsynlegar hafa reynst vegna breytinga á löggjöf aðildarríkjanna. Með lögum nr. 21 9. apríl 1962 var veitt heimild til að staðfesta breytingu frá 13. sept. 1961. Aðrar breytingar hafa hins vegar verið gerðar innan ramma almannatrygginga að því er Ísland hefur varðað, og með hliðsjón af ákvæði 78. gr. almannatryggingalaga um heimild til samninga við erlend ríki hefur ekki verið leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á breytingum þessum. Auk samningsins um félagslegt öryggi eru nú í gildi tveir aðrir samningar milli Norðurlanda á því sviði, sem um er fjallað í honum, samningur frá 6. febr. 1975 um bætur vegna veikinda, meðgöngu og barnsburðar og samningur frá 28. júní 1976 um reglur varðandi viðurkenningu á rétthæfingarskeiði vegna réttar til dagpeninga fyrir þá sem tryggðir eru gegn atvinnuleysi.

Sú heildarendurskoðun samningsins frá 1955, sem hér er um að ræða, hefur farið fram að frumkvæði félagsmálanefndar Norðurlandaráðs. Hafa fulltrúar frá hlutaðeigandi ráðuneytum unnið að gerð hins nýja samnings, og af Íslands hálfu hefur fulltrúi frá heilbr.- og trmrn. tekið þátt í því starfi.

Það er nýmæli í hinum nýja samningi, að tekin eru af öll tvímæli um að hann skuli taka til tryggingagjalda ekkí síður en tryggingabóta. Óvissa í þessu efni hefur á liðnum árum valdið því, að í sumum tilvikum hefur ýmist átt sér stað tvígreiðsla gjalda eða gjaldfrelsi. Enn fremur eru í samningnum ákvæði um greiðslu ferðakostnaðar manna, sem veikjast eða slasast á ferðalögum á Norðurlöndum utan heimalands síns, en lausn þess máls hefur um langt skeið verið meðal áhugamála Norðurlandaráðs. Loks má nefna ákvæði um að biðtími annars staðar á Norðurlöndum nýtist þegar úrskurða skal um rétt til viðbótarlífeyris úr lífeyrissjóði.

Gert er ráð fyrir að íslenska lífeyrissjóðakerfið falli undir hinn nýja samning og tengist þannig allsherjarkerfi lífeyrissjóða hinna samningslandanna. Af því leiðir að varðveist getur réttur sem ella mundi glatast þegar um er að ræða starf um skamman tíma utan heimalands, og enn fremur dregur mjög úr þeirri áhættu sem að jafnaði fylgir því að hverfa úr einu tryggingakerfi yfir í annað. Með þessu er sú kvöð lögð á lífeyrissjóði, að við ákvörðun um lífeyrisrétt skal lítið á réttindatíma á Norðurlöndum í heild eftir því sem þörf krefur. Um flutning réttinda milli landa er hins vegar ekki að ræða. Ákvæði frv. um lagagildi samningsins skipta ekki síst máli í þessu sambandi, þar sem í lögum og reglugerðum lífeyrissjóða eru yfirleitt gerðar kröfur um lágmarksiðgjaldagreiðslutíma til þess að um lífeyrisrétt geti orðið að ræða.

Herra forseti. Ég taldi rétt að fara yfir athugasemdirnar. Það er jafnan svo, að í athugasemdum er gerð glögg grein fyrir helstu atriðum þess sem fram er lagt.

Ég vil að lokum stikla á stærstu atriðum að því er varðar þennan samning. Þessi samningur tekur til allra þeirra laga í norrænum löndum sem á hverjum tíma gilda um eftirtaldar greinar hins félagslega réttindakerfis:

a) bætur vegna veikinda, barnsfæðinga eða ættleiðinga,

b) bætur vegna örorku, elli eða dauða,

c) bætur vegna vinnuslysa og atvinnusjúkdóma,

d) bætur vegna atvinnuleysis,

e) almennar bætur í peningum til barna,

f) félagslega aðstoð.

Herra forseti. Ég tel ekki ástæðu til að tefja tíma deildarinnar lengur á þessum lestri, en vit að lokum segja það, að hér er aðeins um að ræða einn hluta af fjölþættu starfi sem við tökum þátt í á vegum Norðurlanda.