06.04.1981
Efri deild: 72. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3455 í B-deild Alþingistíðinda. (3499)

217. mál, lánsfjárlög 1981

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Hv. 3. þm. Norðurl. e. hefur í ítarlegri og yfirgripsmikilli ræðu gert grein fyrir afstöðu okkar sjálfstæðismanna til frv. þess sem hér er á dagskrá. Ég sé þess vegna enga ástæðu til að ræða almennt um frv. og mun takmarka mál mitt við tvær brtt. sem við sjálfstæðismenn flytjum við það, þ. e. brtt. á þskj. 442 og brtt. á þskj. 609.

Brtt. á þskj. 442 er um að heimila fjmrh. fyrir hönd ríkissjóðs að taka lán á árinu 1981 að fjárhæð allt að 30 millj. kr. og veita Bjargráðasjóði það fjármagn til ráðstöfunar samkvæmt 8. gr. laga nr. 51/1972, um Bjargráðasjóð.

Ástæðan fyrir þessari till. er að nauðsynlegt er að gera Bjargráðasjóð færan um að bæta tjón það sem menn urðu fyrir í ofviðrinu mikla 16.-17. febr. s. l.

Ég ætla ekki hér að fara að ræða um þetta ofviðri eða það tjón sem af hlaust. Það er allt í fersku minni og hefur verið rætt hér áður, bæði í þessari hv. deild og í Sþ. En þá kom strax fram að það voru tveir sjóðir eða tvær stofnanir sem menn létu sér einkum koma til hugar að gætu sinnt því verkefni sem hér er um að ræða, þ. e. að bæta tjón af völdum þessa ofviðris. Annars vegar var það Bjargráðasjóður, sem til orða kom, og hins vegar Viðlagatrygging Íslands. Það liggur ljóst fyrir að samkvæmt lögum um Bjargráðasjóð hefur Bjargráðasjóður heimild til þess að bæta það tjón sem hér er um að ræða, en Bjargráðasjóður er févana og getur ekki sinnt þessu verkefni. Hins vegar er ljóst að Viðlagatrygging Íslands, sem hefur yfir einhverju fé að ráða, hefur ekki heimild til að verja því í þessu skyni. Ef svo ætti að vera þyrfti að breyta lögum um Viðlagatryggingu Íslands.

Nú er það svo, að það er mikið atriði að ekki verði dráttur á aðgerðum í þessu efni. Vitað er að það tekur tíma að breyta lögum um Viðlagatryggingu Íslands og hefur enn ekki verið gert. Þess vegna er brýn nauðsyn að efla Bjargráðasjóðinn með þeim hætti sem brtt. gerir ráð fyrir.

Ég sagði að það hefðu áður verið umr. í Alþingi um tjón það sem ofviðrið í febrúar olli. Þess er að minnast, að tveim dögum eftir þetta ofviðri eða 19. febr. voru umr. í hv. Ed. um þetta mál. Ég skal ekki fara að rifja hér upp þær umr., en ég minni á að hæstv. forsrh. lét þess getið í þessum umr., sem voru utan dagskrár, að það mundi verða tekið til athugunar við afgreiðslu frv. til lánsfjárlaga hvað hægt væri að gera í þessu efni, hvaða fjármagn væri hægt að leggja fram til að bæta skaðann sem ofviðrið olli.

Ég minni líka á að sama dag voru umræður utan dagskrár í Sþ. um þetta sama mál. Þar kom fram hjá hæstv. félmrh. að hann útilokaði ekki þann möguleika að Bjargráðasjóður yrði gerður fær um að sinna því verkefni að bæta þetta tjón. Hann gerði þá allítarlega grein fyrir fyrirætlunum sem hann hefur uppi um að endurskoða lögin um Viðlagatryggingu Íslands, en um leið endurskoða löggjöf um vátryggingarfélög og aðrar tryggingar í landinu. Þar kom fram að þetta mundi taka alllangan tíma. Hæstv. félmrh. lét þess getið í þessum umr., að ríkisstj. mundi athuga við afgreiðslu frv. til lánsfjárlaga hvaða fjármagn yrði lagt fram í þessu skyni.

Ég vil svo vekja athygli á því, að þetta þýðingarmikla mál var til umræðu á síðasta Búnaðarþingi, sem haldið var í vetur. Búnaðarþing gerði ályktun um þetta mál sem er á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Búnaðarþing beinir þeirri eindregnu áskorun til ríkisstj. og Alþingis að útvega Bjargráðasjóði Íslands fjármagn til þess að sjóðurinn geti veitt lán og framlög vegna hins gífurlega og almenna tjóns er varð í ofviðrinu hinn 16.–17. febr. 1981.“

Ég held að ég þurfi ekki að fjölyrða frekar um þetta mál. Ég hef vakið athygli á því, að það verður að líta svo á að það sé almennur vilji fyrir því að efla Bjargráðasjóð. Ég geri ráð fyrir því þar til ég reyni annað, að hæstv. ríkisstj. sé jákvæð í þessu efni. Vitna ég þá til þeirra ummæla sem ég hef áður vitnað til hér, — ummæla hæstv. forsrh. og hæstv. félmrh. Og ég vil ekki trúa öðru en tekið verði mark á þeirri ályktun sem Búnaðarþing hefur samþykkt um þetta mál og ég hef greint frá. Ég vona því að þessi sjálfsagða tillaga okkar sjálfstæðismanna um eflingu Bjargráðasjóðs nái fram að ganga.

Ég kem þá að hinu málinu sem ég vildi ræða hér og varðar till. okkar sjálfstæðismanna, brtt. á þskj. 609. Þessi till. varðar ferjubryggjur við Ísafjarðardjúp. Það þarf ekki að vekja athygli á því á þessum vettvangi, að það háttar svo til við Ísafjarðardjúp að þar eru ferjubryggjur allnokkrar og þær eru nauðsynlegar svo að haldið verði uppi eðlilegum samgöngum í þessu byggðarlagi. Ísafjarðardjúp hefur að þessu leyti sérstöðu. Það er ekkert byggðarlag sem treystir eins mikið á ferjubryggjurnar og þetta byggðarlag. Það er þess vegna þörf á því að bæta þessar samgöngur, bæta ferjubryggjurnar. Það hefur smám saman verið unnið að því og um langan aldur, en það hefur alltaf verið gert of lítið.

till., sem hér liggur frammi, er ekki til þess að bæta úr þessu. Hún miðar ekki að því að núna sé gert átak til að koma þessum málum við Ísafjarðardjúp í bærilegt horf. Það er ekki stefnt svo hátt. Þessi till. er til þess að mæta því vandræðaástandi sem skapaðist vegna fárviðrisins í vetur. Afleiðingar þessa fárviðris urðu þær, að bryggjurnar urðu fyrir miklum skemmdum, og það er talið nauðsynlegt að verja núna fjármagni til þess að koma bryggjunum í nothæft ástand og tryggja að ekki verði á þeim frekari skemmdir. Þetta er aðeins till. um að gera það sem bráðast er í þessu efni.

Ég hef hér fyrir framan mig bréf frá vita- og hafnamálastjóra. Þar eru áætlanir um hvað þarf að gera til að forða frá bráðum voða í þessu efni. Samkvæmt því yfirliti kosta þessar framkvæmdir um 700 þús. kr. Nú var gert ráð fyrir á fjárlögum ársins 1981 að það yrðu veittar 330 þús. kr. til ferjubryggja við Ísafjarðardjúp. Þess vegna þarf 370 þús. til viðbótar svo að þessi upphæð nemi samtals 700 þús. kr., sem er talið nauðsynlegt til þess að gera brýnustu framkvæmdir til að koma bryggjunum í nothæft ástand og koma í veg fyrir að það verði frekari skemmdir en orðið er af því óveðri sem yfir hefur gengið.

Þessi till. okkar sjálfstæðismanna er því nokkuð svipuðs eðlis og hin fyrri um eflingu Bjargráðasjóðs. Hún er svipaðs eðlis að því leyti, að manni sýnist að naumast komi annað til greina og maður getur naumast trúað öðru en þessi till. nái fram að ganga.