15.10.1980
Neðri deild: 3. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 18 í B-deild Alþingistíðinda. (35)

12. mál, Kennaraháskóli Íslands

Menntmrh. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Það frv., sem hér liggur fyrir, var flutt á síðasta þingi og þá talað fyrir því og það kynnt. Það komst til nefndar, en fékk þar ekki fullnaðarafgreiðslu, enda kom málið heldur síðla fram á þinginu.

Um þetta mál er það að segja, að það er ekki viðamikið, ekki stórt í sniðum. Það er alls fjórar greinar. Ég hef leyft mér að flytja þetta frv. í þessum búningi fyrir alveg sérstök tilmæli og ósk rektors og skólastjórnar Kennaraháskólans.

Eins og menn þekkja eru gildandi lög um Kennaraháskólann um það bil níu ára gömul. Þau voru sett vorið 1971. Var gert ráð fyrir því, þegar þessi lög voru sett 1971, að þau yrðu endurskoðuð í heild. Það er ákvæði um það í lögunum, að þau skuli endurskoðuð að tveimur árum liðnum. Sú endurskoðun átti því að fara fram 1973 og þáv. menntmrh. skipaði nefnd til verksins. Endurskoðunin fór fram og endurskoðunarnefndin samdi nokkuð ítarlegt frv. um breytingar á kennaraháskólalögunum. Það frv. hefur tvisvar verið lagt fyrir Alþ., ég held fyrst 1976 og síðan aftur 1977, en síðan ekki söguna meir. Frv. var ekki verulega sinnt hér á Alþ. þegar það kom fram, og menn voru ekki við því búnir, að því er virtist, að fara út í mjög verulegar breytingar á lögunum.

Nú er þetta mál komið hér fram í þeim búningi sem samkomulag hefur orðið um við rektor Kennaraháskólans að það yrði flutt í. Að áliti hans og samstarfsmanna hans eru það mjög nauðsynlegar og eðlilegar breytingar sem þarna er um að ræða. Þær eru ekki stórkostlegar í neinum grundvallaratriðum.

Ég tek sem dæmi 1. gr. frv. sem er um breytingu á 4. gr. laganna. Þar er ekki um að ræða breytingar á greininni í heild. T.d. eru inntökuskilyrðin nákvæmlega hin sömu og verið hafa í lögunum og eru skilgreind með svipuðu orðalagi og tíðkast um inntökuskilyrði í háskóla. Breytingin varðar fyrst og fremst 4. tölulið 4. gr. kennaraháskólalaganna og fjallar um það, að skrásetningargjöld skuli tekin upp og skuli háð samþykki skólaráðs og menntmrh. Þetta er gert til þess að samræma aðstöðu og réttindi nemenda því sem gerist um stúdenta við Háskóla Íslands. Þetta er því eitt dæmið um það, að verið er að koma inn í kennaraháskólalögin ákvæðum til samræmis við ákvæði laga um Háskóla Íslands.

Um 2. gr. er það að segja, að þar er aðeins um breytingu að ræða til þess að samræma ákvæðin lögum um embættisgengi kennara og skólastjóra.

Í 3. gr. frv. segir: „Heimilt er að flytja lektor úr lektorsstöðu í dósentsstöðu samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð.“ Þetta ákvæði, sem er nýtt í kennaraháskólalögunum, er í samræmi við það sem er í háskólalögunum. Þykir eðlilegt að lektor við Kennaraháskólann hafi sama rétt og lektorar við Háskólann, að það sé hægt að flytja þá í dósentsstöðu eftir þeim reglum, sem um það gilda. En menn verða að hafa gegnt lektorsstöðu tiltekinn tíma áður en þeir njóta þeirra réttinda að verða fluttir í dósentsstöðu.

Það er því ekki hægt að segja um þetta frv., að það valdi neinum stórbreytingum á lögunum um Kennaraháskólann. Hins vegar felur það í sér breytingar sem forráðamenn skólans telja æskilegt að gerðar verði á þessum nærri 10 ára gömlu lögum. Má segja að hér sé ekki um miklar breytingar að ræða miðað við það, að fyrir hafa legið tillögur um allmiklu víðtækari breytingar á þessum lögum frá endurskoðunarnefndinni sem ég nefndi fyrr og starfaði á árunum 1973–1976, að ég held.

Herra forseti. Ég held, að þetta mál sé tiltölulega auðskilið, og ég vænti þess, að hv. menntmn. taki þetta mál til eins skjótrar afgreiðslu og frekast er kostur. Ég legg til að þegar þessari umr. er lókið verði málinu vísað til hv. menntmn.