06.04.1981
Neðri deild: 71. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3458 í B-deild Alþingistíðinda. (3507)

209. mál, tollskrá

Frsm. meiri. hl. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. hefur fjallað um frv. til l. um breyt. á lögum um tollskrá o. fl. Mál þetta hefur verið til umfjöllunar hjá nefndinni um nokkurn tíma.

Það er mjög mikilvægt að þetta mál nái fram að ganga hið fyrsta. Vil ég mega vænta þess, að hægt verði að vísa máli þessu til umfjöllunar Ed. í dag vegna þess að hér er um nokkrar breytingar á úthlutunarreglum að ræða sem hafa það í för með sér að nauðsynlegt verður að auglýsa að nýju eftir umsóknum um niðurfellingu á aðflutningsgjöldum bifreiða. Er það mjög óþægilegt fyrir þá sem þessa eiga að njóta ef málið dregst frekar en orðið er.

Ástæðan fyrir því, að málið þurfti nokkra umfjöllun í n., var sú, að í frv. kemur fram skilgreining á því, hverjir skuli njóta þessarar niðurfellingar, en þar stendur í 1. gr.:

„Að lækka eða fella niður gjöld af allt að 500 fólksbifreiðum árlega fyrir bæklað fólk eða lamað svo og fólk með lungnasjúkdóma, hjartasjúkdóma og aðra hliðstæða sjúkdóma, allt á svo háu stigi að það á erfitt með að fara ferða sinna án farartækis.“

Meiri hl. n. leggur til að þessi grein orðist þannig: Að lækka eða fella niður gjöld af allt að 550 fólksbifreiðum fyrir fólk sem er fatlað á svo háu stigi að það á erfitt með að fara ferða sinna án farartækis.

Nefndin telur að þetta sé aðalatriði málsins, að um sé að ræða fólk sem er fatlað á svo háu stigi að það á erfitt að fara ferða sinna án farartækis, án tillits til þess hvers konar fötlun það er.

Búast má við að þetta verði til þess að nokkur fjölgun verði á þeim sem njóta þessa ákvæðis. Þess vegna gerir n. tillögu um að bifreiðunum verði fjölgað úr 500 í allt að 550.

Nefndinni barst bréf frá Landssamtökunum Þroskahjálp, sem lögðu til að túlkun 1. gr. frv. væri rýmkuð. Það má finna mörg dæmi þess, að fólk, sem er innan vébanda þessara samtaka, þurfi ekki síður á slíku að halda en aðrir. Við gerum það að okkar tillögu, að áðurnefnd skilgreining verði rýmkuð, m. a. með tilliti til þessa hóps.

Í framhaldi af því er talið nauðsynlegt að fjölgað verði í þeirri nefnd sem fjallar um þessa niðurfellingu, að í stað fimm manna nefndar verði sex og fimm læknar, tilnefndir af Öryrkjabandalagi Íslands, í stað fjögurra. Landssamtökin Þroskahjálp lögðu á það áherslu, að þau fengju að tilnefna mann í þessa nefnd. Eftir nokkra umfjöllun taldi fjh.- og viðskn. ekki rétt að það yrði leyft, m. a. vegna þess að gera má ráð fyrir að fleiri aðilar, eins og Geðverndarfélag Íslands og jafnvel fleiri, mundu vilja fá svipaðan rétt og þess vegna væri eðlilegt að Öryrkjabandalag Íslands væri samnefnari fyrir þessa aðila. Hitt er svo annað mál, að að sjálfsögðu er eðlilegt og nauðsynlegt að Öryrkjabandalag Íslands hafi náið samráð við Landssamtökin Þroskahjálp í þessu sambandi og biðji um ábendingar frá þeim, hvaða aðila þau treysti best til að fara með málefni þessa hóps og hvaða aðili þekkir best til þeirra vandamála sem um er að ræða? — Ég ætla ekki að fjalla frekar um það, en vænti þess, að Öryrkjabandalagið hafi náið samráð við Landssamtökin Þroskahjálp í þessu sambandi.

Þriðja brtt. fjallar um að fjölga þeim aðilum, sem fá niðurfellingu allt að 48 þús., úr 25 í 40. Það eru þeir aðilar sem búa við mesta örorku. Það er vegna þess að gert er ráð fyrir því í frv., að slíkir aðilar geti selt bifreiðarnar að þremur árum liðnum. Þess vegna verður óhjákvæmilega um nokkra fjölgun þar að ræða. Það er mjög brýnt að það fólk, sem hugsanlega á þennan rétt, fái þessa niðurfellingu og að sá fjöldi bifreiða, sem þarna um ræðir, sé nægilegur. Þess vegna leggur n. til að þeim verði fjölgað svo mikið að nægilegt verði.

Á þskj. 437 eru brtt. frá hv. þm. Albert Guðmundssyni sem skilar sérstöku nál., en hann leggur þar til að ekki verði miðað við neina hámarkstölu bifreiða í þessu sambandi. Eftir umfjöllun í n. gátu aðrir nm. ekki fallist á þá skoðun, m. a. eftir viðræður við þá aðila sem fjalla um þessa úthlutun. Þeir töldu nauðsynlegt að eitthvert hámark yrði sett á þessa úthlutun og jafnvel þótt hér væri um frjálsræði að ræða mundi fjmrh. væntanlega setja nefndinni eitthvert hámark í þessu sambandi.

Þessum málum er komið fyrir í heimildagrein í tollskrá. Þess vegna er hér um að ræða heimild til handa fjmrh. til að fella niður þessi gjöld. Það er ekki skylda. Að sjálfsögðu er þessi heimild notuð. Um það má deila hvort þessum málum skuli komið fyrir í tollskrá. Á margan hátt væri mun eðlilegra að úr væri skorið með sérstakri löggjöf og málið félli undir Tryggingastofnun ríkisins, en þessu hefur nú einu sinni verið komið fyrir með þessu móti. Hér er um að ræða 27. tölul. í þessari heimildagrein.

Í þessu sambandi vil ég einnig minnast á aðra brtt. hv. þm. Alberts Guðmundssonar, en hann leggur til að breyting verði á síðustu málsgrein greinarinnar. Þar stendur, að enn fremur sé rn. heimilt að lækka eða fella niður fyrir framangreint fólk gjöld af gervilimum, en hann leggur til að greinin verði: Enn fremur skal fella niður fyrir framangreint fólk gjöld af gervilimum. Þessi grein er orðuð með tilliti til þess, að hér er um heimildagrein að ræða í mjög mörgum liðum og þessi liður er númer 27. Þess vegna er ekki eðlilegt að fara að setja inn orðalagið „skal“ í þessa grein. Hitt er svo annað mál, að að sjálfsögðu er slík heimild notuð. Þessi breyting hefur því í sjálfu sér ekki þýðingu að mínu mati, en mér finnst með öllu óeðlilegt að fara að setja annað orðalag inn í heimildagrein. Það verður að líta á málin í ljósi þess, hvernig þeim er fyrir komið.

Ég sé ekki ástæðu til að fjalla frekar um þetta mál, herra forseti, en vildi aðeins ítreka þá ósk okkar í n., að mál þetta fái skjóta afgreiðslu héðan frá deildinni. Ég vænti þess og að hv. Ed. geti afgreitt málið með skjótum hætti.