06.04.1981
Neðri deild: 71. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3462 í B-deild Alþingistíðinda. (3509)

209. mál, tollskrá

Magnús H. Magnússon:

Herra forseti. Fyrirvari minn í nál. meiri hl. hv. fjh.- og viðskn. er til kominn vegna þess, að ég tel að við úthlutun eigi að taka nokkurt mið af tekjum og efnahag umsækjenda, miða t. d. við eitthvert hámark tekna, en þó nokkuð rúmt. Með þeim breytingum, sem hér eru til umr., fjölgar þeim verulega sem fá rétt á lækkun að flutningsgjalda af bifreiðum. Auk þess er gert ráð fyrir að heimilt sé að lækka aðflutningsgjöld á fjögurra ára fresti í stað fimm ára áður og fjölgar þá enn þeim sem árlega eiga þennan rétt. Ég tel að þessi fjölgun sé meiri en svo, að breyting frá 500 í 550 eða frá 400, eins og er í núgildandi lögum, vegi þar upp á móti. Að mínu mati er eðlilegt að þessu sé mætt með því að hafa nokkra viðmiðun við tekjur umsækjenda. En vegna þess hve málið er komið í mikinn eindaga vildi ég ekki tefja það með brtt. á þessu stigi. Auk þess má segja að þær breytingar, sem ég er að tala um, geti verið framkvæmdaratriði úthlutunarnefndar. Ég tel þó rétt að vekja athygli á þessu sjónarmiði við þessa umr.

Hv. þm. Albert Guðmundsson gerir till. um að fella niður hámarksfjölda bifreiða. Ég held að það sé mjög erfitt í framkvæmd vegna þess hve jaðartilfellin verða mörg og erfitt verður þá að skera úr um hver eigi rétt og hver eigi ekki rétt. Það kæmi þó vel til greina að mínu mati að fella niður hámarkið ef jafnframt yrði tekin upp viðmiðun við tekjur umsækjenda.

Aftur á móti styð ég heils hugar þann hluta till. Alberts Guðmundssonar sem fjallar um niðurfellingu á aðflutningsgjöldum af gervilimum, ekki bara gervilimum þessa fólks heldur af gervilimum yfirleitt.