06.04.1981
Neðri deild: 71. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3464 í B-deild Alþingistíðinda. (3513)

209. mál, tollskrá

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég sakna þess nú mjög að þeir eru ekki í salnum, félagar mínir að vestan úr Alþfl., þ. e. að Sighvatur skuli ekki vera hér inni líka. (Gripið fram í.) Karvel var að koma inn í salinn en hann hefur ekki farið í sæti sitt.

Ég vil byrja á því að geta þess, að ég ætla ekki að blanda mér í deilur um hvort það þurfi að skylda fjmrh. eða hvort heimildir dugi til að hann framkvæmi þann vilja sem kemur fram í því sem hér hefur verið lagt fram. Ég trúi því, að hann muni nota þær heimildir og þess vegna sé ekki sérstök nauðsyn að setja í lög að hann sé skyldugur í því sambandi.

En annað kom fram áðan sem vakti athygli mína. Hv. 6. landsk. þm. gat þess, að það væri skynsamlegt að fækka í ríkiskerfinu um 30%. Og þar sem hann var svo nákvæmur á tölunni, það var eitthvað í kringum 30 % eða meira en 30%, þá hvarflaði að mér hvort í stjórnartíð Alþfl. hefðu verið gerðar áætlanir, e. t. v. verið langt komnar á þessu sviði, og ef svo væri, ef þær lægju frammi í einhverju ráðuneytinu, hvort það væri ekki jákvætt að fá þær fram. E. t. v. hafa nafnalistarnir verið til, bara eftir að senda uppsagnarbréfin. Þessu teldi ég eðlilegt og sanngjarnt að hæstv. fyrrv. fjmrh., 3. þm. Vestf., gerði grein fyrir hér í ræðustól því að ég býst við að þetta mál hafi alls ekki verið hægt að vinna eða framkvæma án þess að hann legði þar hönd á plóginn.

Því stóð ég nú upp, að hv. 6. landsk. þm. er ekki vanur að fara með neitt fleipur, svo að ég er sannfærður um að það er mjög grundað hjá honum þegar hann leggur til að það verði fækkað um 30% í ríkiskerfinu.