06.04.1981
Neðri deild: 71. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3465 í B-deild Alþingistíðinda. (3514)

209. mál, tollskrá

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Hv. þm. Guðrún Helgadóttir vakti máls á því áðan að breyta þyrfti tollmeðferð og álagningu á þær bifreiðar sem hér eru til umr. Ég vil upplýsa það hér, að það var vakin athygli mín á því fyrir 3–4 vikum að á undanförnum árum hefði sá háttur verið á hafður, að þegar bifreið er flutt inn, sem á að verða eign einhvers þess sem þessi lagagrein fjallar um, öryrkja eða þess sem haldinn er þeim sjúkdómum sem hér greinir, þá fengi bifreiðin venjulega tollmeðferð, á andvirði hennar væru lögð öll venjuleg gjöld samkv. lögum og síðan álagning reiknuð út frá fullu verði bílsins þegar öll gjöld hefðu verið lögð á, en þar á eftir væri svo tollurinn dreginn frá þannig að bílaumboðin fengju raunverulega miklu hærri álagningu í sinn hlut af þessum bifreiðum en eðlilegt gæti talist því að þau fengju sem sagt álagningu á toll sem aldrei væri greiddur. Ég varð mjög undrandi, þegar ég heyrði að slík ósvinna skyldi hafa viðgengist um margra ára skeið, og óskaði þegar eftir því, að ráðstafanir yrðu gerðar til að koma í veg fyrir þetta. Nú er það svo, að álagningarmál heyra ekki undir fjmrn., heldur undir verðlagsskrifstofu og viðskrn. Það þarf að athuga að hve miklu leyti atbeini þessara aðila þarf til að koma. En þurfi fjmrn. að gera einhverjar breytingar á reglugerðum, sem e. t. v. koma í veg fyrir að á málinu sé haldið með þessum hætti verður það að sjálfsögðu gert.

Í sambandi við þetta mál vil ég aðeins segja það að öðru leyti, að ég tel eftir atvikum óhjákvæmilegt að takmarka fjölda þessara bifreiða við einhverja tölu. Ef hér væri um að ræða tiltekinn hóp manna sem við gætum vitað með vissu hversu stór væri, þá væri sjálfsagt að ákveða að nákvæmlega þessi hópur ætti að njóta ívilnunarinnar. En í lögunum erum við ekki að afmarka þennan hóp nákvæmlega, heldur er talað almennt um bæklað fólk eða lamað svo og fólk með lungnasjúkdóma, hjartasjúkdóma og aðra hliðstæða sjúkdóma, allt á svo háu stigi að það á erfitt með að fara ferða sinna án farartækis. Sem sagt: Hér hlýtur alltaf að verða mikið matsatriði hverjir tilheyra þessum hópi, og þegar þannig stendur á held ég að ekki geti komið til greina að hafa þetta allt alveg opið og laust og láta það ekki vera neinum takmörkunum háð hversu margir njóta þessara fríðinda.

Að lokum vil ég nefna seinustu mgr. 1. gr., en þar segir að ráðuneytinu sé heimilt að lækka eða fella niður fyrir framangreint fólk gjöld af gervilimum, sem ekki verða gerðir hér á landi, svo og af áhöldum og hjálpartækjum sem sérstaklega eru gerð með tilliti til þarfa þess eða henta ekki öðru fólki. — Hér á fundinum hafa staðið deilur um hvort heimila ætti fjmrh. að fella niður þessi gjöld eða hvort ætti að gera það að skyldu. Ég vil upplýsa það hér, að ekki hefur neitt staðið á því, að fjmrn. nýtti þessa heimild hvað varðar tolla og önnur aðflutningsgjöld. Hitt er allt annað mál, að fram að þessu hefur heimildin ekki verið notuð vegna þeirrar tegundar gjalda sem ekki teljast til aðflutningsgjalda eða tolla. Söluskattur hefur ekki verið felldur niður þó að orðalagið bendi nú til þess, að átt sé við öll gjöld til ríkisins. Um þetta hafa staðið deilur um mjög langt skeið, hvort skilja ætti þetta orð í þessu sérstaka samhengi þannig, að það næði einungis til aðflutningsgjalda, eða hvort ætti að skilja það þannig, að það næði bæði til aðflutningsgjalda og söluskatts. Ég vil sem sagt láta þess getið hér, að alveg nýlega var endanlega gefinn út úrskurður um það af hálfu ráðuneytisins að heimildin skyldi ná til hvors tveggja.