06.04.1981
Neðri deild: 71. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3467 í B-deild Alþingistíðinda. (3518)

209. mál, tollskrá

Frsm. minni hl. (Albert Guðmundsson):

Herra forseti. Ég vona að það komi ekki til þess á hv. Alþingi að ræðum verði settar einhverjar skorður eða hve margar ræður má flytja í hverju máli um sig.

Ég vil taka undir það sem kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni, 3. þm. Austurl., að vel og gaumgæfilega séu mál athuguð. Það getur vel verið að mörgum finnist að þetta mál hafi dregist helst til lengi í afgreiðslu hjá nefndinni, en ég verð að segja alveg eins og er, að formaður hennar hefur starfað vel að þessu máli. Hann er vandvirkur í sínum vinnubrögðum í fjh.- og viðskn. Ég vil því ekki taka þátt í því að deila á hann eða sitja hjá og hlusta á ádeilur á vinnubrögð hans. Ég held að hann hafi unnið vel þó að við séum ekki sammála um niðurstöðuna, sem er allt annað mál.

Ég skil ekki hvernig hægt er að færa að því rök, að till. mín gangi ekki eins langt og till. meiri hl. fjh.- og viðskn. Ég vil ekki takmarka tölu bifreiða, sem úthluta á, við 550, þ. e. við 510 samkv. almennum reglum og 40 til þeirra sem fá meiri eftirgjöf. Ég vil hafa töluna ótakmarkaða og miða eingöngu við þarfir fólksins. Við vitum að það eru fleiri sem þurfa en fá. Ég get ekki ímyndað mér að nokkur nefnd sé í meiri vandræðum, ef hún hefur frjálsar hendur til að úthluta til þeirra sem þurfa, heldur en sú sem þarf að takmarka úthlutun við hluta af þeim sem þurfa. Mér er ekki nokkur leið að skilja það. Ég lít því svo á að mín till. gangi lengra.

Hvað heimildagreinina snertir er ég á móti því að hafa mikið af heimildagreinum, er á móti heimildagreinum yfirleitt. Alþingi á að vanda vinnubrögð sín svo mikið að lög segi nákvæmlega til um hvernig Alþingi ætlast til að ríkisstj. eða framkvæmdavaldið hagi sér, en sé ekki að taka við lögum og síðan byggist framkvæmdin á reglugerðum eða þá heimildarákvæðum og getur farið eftir duttlungum viðkomandi aðila, hvort sem hann er ráðh. eða embættismaður, frá einu máli til annars. Ég vil ekki heldur taka þátt í því á hv. Alþingi, að fólk, sem býr við svo mikla örorku að það þurfi á gervilimum að halda, skuli þurfa annaðhvort að láta flytja sig upp í ráðuneyti eða standa í bréfaskriftum við ráðuneytið eða tollstjóra, eins og það er nú, til að fá niðurfellingu á tolli. Ég vil að það sé skylda við innflutning að fella niður gjöld, þannig að embættismenn, sem taka við innflutningspappírum, viti nákvæmlega, að þeir eiga ekki að innheimta nein gjöld, og láti því viðkomandi hafa sina gervilimi án þess að flækja málið frekar.

Hér er að sjálfsögðu ekki á dagskrá till. frá mér um að fækka opinberum starfsmönnum eða starfsliði stjórnarráðsins. Ég væri þó meira en viljugur til að taka þátt í umr. um það mál sérstaklega. En ég legg mikla áherslu á að menn hugsi um þá till., sem ég hef lagt fram hér, að fjölga bifreiðum til öryrkja með eftirgjöf á aðflutningsgjöldum.

Ég flutti inn á sínum tíma bifreiðar. Ég minnist þess ekki að nokkurn tíma hafi verið tekin álagning af fullu tollgjaldi. Það var aldrei gert, enda var verðeftirlitið það strangt að ekki hefði nokkurt fyrirtæki komist upp með það þá. Ég veit ekki hvort það er gert núna, en það er í mínum huga rangt. Ef það er gert er það rangt og á að leiðrétta það. Ég vona að hæstv. fjmrh. fylgi því vel eftir.

En það væri þá kannske rétt að benda hæstv. fjmrh. á það, að þótt skipafélögin vilji veita þessum eða öðrum afslátt af flutningsgjaldi til landsins, og það er oft sem skipafélög eru beðin um niðurfellingu á eða afslátt af aðflutningsgjöldum, þá er tollurinn, ríkið, undir stjórn hæstv. fjmrh. núna, miskunnarlaus, tekur ekkert tillit til þeirrar upphæðar sem greidd er af viðkomandi aðila í flutningsgjöld og tekur toll af þeim taxta sem á að vera á vörunni, í þessu tilfelli bifreiðum. Þetta mætti þá gjarnan verka í báðar áttir, a. m. k. af öryrkjabifreiðum ef skipafélögin vilja flytja bifreiðarnar frítt. Ef skipafélögin vilja gefa afslátt af flutningsgjöldum, þá ætti að reikna flutningsgjöld eða tolla af þeirri upphæð. Það eru ekki bara hinir vondu innflytjendur sem féfletta kannske öryrkja og þá sem flytja inn bifreiðar, heldur er það ríkið sjálft sem gerir það nákvæmlega á sama hátt og tekur ekkert tillit til þess afsláttar sem skipafélögin gefa.

Mér finnst ekki nógu mikið traust vera borið til þeirra lækna og þeirrar nefndar sem á að úthluta þessum bifreiðum. Þetta eru fagmenn. Af þeim fimm, sem voru í nefndinni, eru a. m. k. fjórir læknar og allir fimm, ef ég man rétt, ég er ekki með lögin hérna, skipaðir af fjmrn.

Þeir eru trúnaðarmenn fjmrn. og fagmenn, læknar. Þeir skera úr um hvort þörf er fyrir hendi. Þar á ekki að vera neitt vantraust á milli. Það á ekki að vera neitt vandamál að sjá til þess, að þeir, sem ekki eiga skilið að fá úthlutað öryrkjabifreiðum, fái þær ekki.

En vandamálið er lítið í mínum augum. Það getur vel verið að það vaxi hv. þm. í augum að hugsa ekki um ákveðna takmarkaða upphæð, heldur hugsa um ótakmarkaða upphæð. Þá verð ég bara að þola að skilningur sé ekki fyrir hendi.