05.11.1980
Neðri deild: 12. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 490 í B-deild Alþingistíðinda. (352)

Umræður utan dagskrár

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa kynningu, því að satt að segja er ég þess ekki megnugur að svara hv. þm. eins og hann á rétt á. En ég hef óskað upplýsinga og vil lesa það hér sem mér hefur borist frá menntmrn. Þar segir, með leyfi forseta:

Menntmrn. er ókunnugt um þetta mál, en samkv. upplýsingum forstöðumanns Listasafns Íslands var umræddri gjöf hafnað með bréfi safnsins, dags. 7. des. 1979. Bréfið er svo hljóðandi:

„Herra hæstaréttarlögmaður

Sveinn Snorrason,

Laufásvegi 12, Reykjavík.

Eins og fram kemur í bréfi yðar, dags. 28. 10. 1977, var forstöðumanni Listasafns Íslands skýrt frá því, að í arfleiðsluskrá hjónanna Sigurliða Kristjánssonar og Helgu Jónsdóttur væri ákvæði um að „málverk þeirra nokkur“ skulu við lát þeirra ganga til Listasafns Íslands. Munnlega hefur safnráðsmönnum verið kynnt málið nánar. Safnráðsmenn ásamt einum safnverði hafa farið yfir skrá þá yfir gjöfina, sem þér sendið með bréfi yðar, og hafa einnig skoðað meginhluta verkanna. Safnráðsmenn eru sammála um að meðal áðurnefndra málverka séu myndir, sem þeir vildu með þökkum þiggja fyrir hönd Listasafns Íslands, en aðallega er þar um að ræða verk, sem safninu að þeirra dómi bæri ekki að varðveita samkv. lögum um tilgang þess. Nú hefur komið fram í einkaviðræðum, að annaðhvort verði Listasafn Íslands að þiggja öll þessi verk eða ekkert. Af þeim sökum telur safnið sér ekki fært að taka við fyrrnefndum verkum.

Virðingarfyllst,

„f. h. safnráðs Listasafns Íslands,

Selma Jónsdóttir, formaður.

Hörður Ágústsson, ritari.““

Mér hefur jafnframt verið tjáð að safnráðið hafi síðar viljað breyta afstöðu sinni og ákveðið að þiggja gjöfina, en þá hafi erfingjar ekki talið sér fært að verða við því og láta myndirnar af hendi við safnið.

Svo langt er það sem ég hef fengið frá menntmrn. Mér er fyllilega ljóst að þetta er ekki fullnægjandi svar, en þó hygg ég að þarna sé fullkomlega upplýst að það er safnráð Listasafns Íslands sem tekur þessa ákvörðun. Það er einnig upplýst að Listasafnið tók ekki við hluta af málverkunum og var ekki um það að ræða, annaðhvort varð að taka við öllum eða engu. Hins vegar, eins og alþjóð veit, hefur Listasafnið tekið við 25% verðmætis fasteigna og annars arfs sem um er að ræða.

Ég hef spurst fyrir um það, hvort málverkin væru nú til sölu, og mér er tjáð að svo muni vera. Með þetta hefur menntmrn. að sjálfsögðu ekkert að gera, myndirnar eru í höndum erfingja umræddra hjóna.

Eins og kom fram hjá hv. þm. hafði hann ekki kynnt mér síðustu spurninguna fyrr en rétt áðan. Ég hef því ekki skrá yfir þessi listaverk, en ég mun afla þeirrar skrár. Eins og kemur fram í bréfinu hafði safnráð þessa skrá undir höndum og ég hygg að auðvelt eigi að vera að nálgast hana.

Ég vil að lokum taka það fram um þetta mál að þarna er, eins og fram hefur komið; um ákaflega höfðinglega gjöf að ræða og gjöf sem sannarlega ber að þakka og veldur straumhvörfum í mikilvægum framkvæmdum á sviði lista og menningar. Sýnist mér að það verði seint fullþakkað. Ég vil líka lýsa þeirri persónulegu skoðun minni, að ég tel að þarna hafi ekki verið gáð eins og skyldi að því að þiggja þessa listaverkagjöf. Ég tel ákaflega vafasamt að ekki skyldi rætt við menntmrn. og menntmrh. þegar um svo stórkostlega gjöf er að ræða. Hins vegar mun samkv. lögum vera í verkahring safnráðs að taka ákvörðun um slíkt, en að sjálfsögðu er svo um fjölmargar ríkisstofnanir, að þær líta á það sem skyldu sína, þegar um viðamikil mál er að ræða, að hafa um það náið samráð við viðkomandi rn. og ráðh.

Ég er að sjálfsögðu alls ekki dómbær á listagildi þeirra verka sem hér um ræðir, en endurtek að um það hefði þurft að fjalla ítarlegar en mér sýnist hér gert. Er ekki vansalaust að þessum málverkum skuli hafa verið hafnað þótt safnráðið hafi jafnvel endurskoðað niðurstöður sínar síðar, eins og kom fram í svari því sem menntmrn. hefur aflað.