07.04.1981
Neðri deild: 73. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3482 í B-deild Alþingistíðinda. (3543)

290. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Eins og kunnugt er voru gerðar mjög verulegar breytingar á lögum um tekju- og eignarskatt á s. l. ári. Meginbreytingar á skattlagningu, sem þá voru gerðar, fólust eins og kunnugt er í takmarkaðri sérsköttun hjóna og þó enn frekar í aðlögun skattalaga að verðbólguþróun, aðlögun laganna að verðbólguhugtakinu og þeim tekjuauka sem verðbólga getur fært mönnum í hendur. Einnig voru í frv. nýmæli um aðskilnað tekna atvinnurekenda af atvinnurekstri frá almennum launatekjum atvinnurekenda.

Þegar frv. þetta var samþykkt hér í þinginu var að sjálfsögðu uppi nokkur óvissa um tekjur ríkissjóðs af tekju- og eignarskatti að samþykktum þessum breytingum. Meginviðmiðunin, sem menn studdust við gerð fjárlaga á s. l. ári, var sú, að þessi nýju skattalög skiluðu ríkissjóði svipuðum tekjum og verið hefði ef gömlu skattalögin hefðu áfram verið í gildi, að teknu tilliti til verðlags- og launabreytinga milli ára. Þegar skattalögin voru til meðferðar hér í þinginu fyrir einu ári voru uppi háværar fullyrðingar af hálfu hv. stjórnarandstæðinga um að þau skattalög, sem verið var að samþykkja, mundi skila ríkissjóði allmiklu hærri tekjum en áætlað væri í fjárlögum. Eftir að álagning hafði farið fram á s. l. sumri upphófust þessar sömu fullyrðingar á nýjan leik og menn þóttust geta sannað það allt fram á s. l. haust, að tekjur ríkissjóðs af tekju- og eignarsköttum yrðu allmiklu hærri en fjárlög hefðu gert ráð fyrir og voru menn þá ekki í vandræðum með að ráðstafa þessum tekjum.

Nú liggur fyrir hverjar hafa orðið samanlagðar tekjur ríkissjóðs af tekju- og eignarskatti á s. l. ári. Niðurstaðan er sú, að tekjurnar af innheimtum skatti eru um 3.5 milljörðum lægri en fjárlög höfðu gert ráð fyrir. Í fjárlögum var gert ráð fyrir að samanlagður tekju- og eignarskattur næmi 63.8 milljörðum kr., en í reynd urðu þessar tekjur 60.3 milljarðar kr. Við höfum fyrirliggjandi gögn um heildarupphæð þessara skatta sem hægt er að bera saman við fjárlagatöluna eins og ég hef hér gert, en því miður liggur ekki fyrir hjá ríkisbókhaldi enn sem komið er nánari sundurliðun á þessum tekjum, vegna þess að einstakar innheimtustofnanir — og þá fyrst og fremst Gjaldheimtan í Reykjavík — blanda nokkuð saman innheimtum tekjum frá félögum og einstaklingum. Það hefur því enn ekki tekist að sundurgreina þessa tölu þannig að hægt sé að átta sig á í hverju breytingarnar eru helst fólgnar frá því sem áætlað var í fjárlögum.

Þetta vildi ég láta koma hér fram vegna þess að við meðferð skattbreytinga nú er nákvæmlega það sama uppi á teningnum og var fyrir einu ári. Það vantar ekki stóryrðin og fullyrðingarnar hjá stjórnarandstöðunni um það, að nú sé verið að hækka skattstofna langt umfram það sem gefið sé upp og að áformaðar skattalækkanir séu tómar talnablekkingar vegna þess að á sama tíma sé verið að hækka skatta með öðrum hætti.

Ég held að það sé hollt fyrir menn að hafa reynsluna frá liðnu ári í huga og minnast þess, að það vorum við stjórnarsinnar sem höfðum rétt fyrir okkur í þeim efnum. að þessar áætluðu tekjur af tekjuskatti yrðu síst meiri en fjárlög gerðu ráð fyrir. Við vissum að þessar áætlanir væru talsverðri óvissu undirorpnar, og það hefur komið í ljós, að tekjurnar urðu töluvert miklu minni en ráð var fyrir gert.

Það hefur alltaf legið ljóst fyrir, að eftir að í fyrsta sinn væri lagður á skattur samkv. þessum nýju skattalögum væri óhjákvæmilegt að gera ýmsar breytingar á skattalöggjöfinni að fenginni reynslu. Fljótlega eftir að skattur hafði verið lagður á tekjur komu fram umkvartanir frá einstæðum foreldrum þess efnis, að í mörgum tilvikum hækkuðu skattar á einstæð foreldri óeðlilega mikið. Nú mátti að sjálfsögðu alltaf gera ráð fyrir því, þegar slík umbylting er gerð á skattalögum, að sumir hækki meira en aðrir og aðrir lækki meira en meðaltalið vegna þess að auðvitað er ekki hægt að gera breytingu á skattalögum nema það hafi margvísleg áhrif á útkomu einstaklinga og annarra skattaðila. Vitað var að einstæð foreldri höfðu notið talsvert mikilla fríðinda í gömlu skattalögunum, og ljóst var, að með sérsköttun misstu einstæð foreldri viss fríðindi sem þeir höfðu haft, en fengu önnur í staðinn. Þau skipti gátu komið misjafnlega út hjá fólki eftir því, hvort um lágar eða háar tekjur var að ræða, og eftir því, hvort börnin voru fá eða mörg. En án þess að orðlengja þetta frekar varð niðurstaðan að sett var fimm manna nefnd sem falið var það verkefni að meta skattalega stöðu einstæðra foreldra. Hún skilaði áliti fyrir nokkrum vikum þar sem á það var fallist sem meginniðurstöðu, að gera þyrfti breytingar til hagsbóta fyrir einstæð foreldri. Það var megintiflaga nefndarinnar, að lágmarkspersónufrádráttur samkv. 30. gr., sem veittur er einhleypingum, yrði 75% hærri hjá einstæðum foreldrum en hjá öðrum einhleypingum. Þessa tillögu hefur ríkisstj. gert að sinni og má þá gera ráð fyrir að skattaleg staða einstæðra foreldra verði öll önnur við næstu skattaálagningu.

Á s. l. hausti var nokkuð yfir því kvartað, að lágtekjufólk, sem byggi í skuldlitlu eigin húsnæði — og á það einkum við elli- og örorkulífeyrisþega, fengi mikla eignarskatta enda þótt ekki væru miklar tekjur fyrir hendi til að standa skil á þeim. En ekki er þetta nú í fyrsta sinn sem yfir þessu er kvartað. Þetta er gömul saga. Og ég held að það sé þá ekki síður fasteignaskatturinn sem fólk kvartar yfir, enda er það brúttóskattur sem tekur ekki neitt tillit til þess, hvort fólk þarf að borga jafnvel vexti og afborganir af viðkomandi eignum. Hann er lagður á brúttóeign.

Eftir að þetta vandamál hafði verið athugað nokkuð varð niðurstaðan að leggja til að hagur þessa lágtekjufólks yrði bættur með því að það mætti nýta ónýttan persónuafslátt til greiðslu eignarskatts. Enginn vafi er á því, að þetta kemur mjög mörgum til góða sem þannig stendur á fyrir, og þá einkum elli- og örorkulífeyrisþegum.

Einnig er lagt til í frv. að lækka megi eignarskatt þeirra sem litlar tekjur hafa vegna aldurs, veikinda eða slysa, en eins og kunnugt er er samsvarandi heimild fyrir hendi þegar um greiðslu tekjuskatts er að ræða. Þessi heimild hefur hins vegar ekki verið fyrir hendi um greiðslu eignarskatts og enginn vafi á því að hún bætir mjög úr skák fyrir þessum hópi fólks.

Eins og kunnugt er var gerð breyting á tekjuskattslögum fyrir rúmum mánuði hér í þinginu á þann veg, að frádráttur einstaklinga vegna greiðslu vaxta af lánum, sem tengjast kaupum eða byggingu íbúðarhúsnæðis, var hækkaður og það verulega. Á þessu álagningarári er vaxtafrádráttur í fyrsta skipti mjög takmarkaður, en mörkin voru verulega rýmkuð frá því sem lögin höfðu áður gert ráð fyrir og hjá hjónum geta vextir allt að 7.2 millj. gkr. orðið frádráttarbærir. Á hitt er vert að minna, að vaxtafrádrátturinn fellur í langflestum tilvikum undir 10% frádráttarreglu. Til samræmis við þessi fríðindi, sem húseigendur njóta, þó í takmörkuðum mæli sé, og til samræmis við það, að liðurinn eigin húsaleiga hefur verið felldur úr skattalögum, er hér gerð till. um að nokkur hagsbót komi til handa leigjendum og þeir fái helming húsaleigu vegna íbúðar til eigin nota frádráttarbæran við álagningu tekjuskatts. Ákvæði þetta gildir um greidda húsaleigu á þessu ári og verður því leigjendum til hagsbóta við álagningu skatts á næsta ári. Þessi lagabreyting gæti að sjálfsögðu ekki haft nein áhrif á viðskipti leigjenda og húseigenda á seinasta ári — og hætt við að þau viðskipti séu öll löngu frágengin — þannig að ekki þykir eðlilegt að þessi regla komi til framkvæmda í viðskiptum manna fyrr en á því ári sem nú er að líða. En þess er að vænta, að húsaleiga verði betur fram talin eftir þessa breytingu á skattalögum og að tekjur ríkissjóðs af sköttum af húsaleigu verði meiri en verið hefur, og kemur það á móti tekjutapi sem ríkissjóður hefur af þessari breytingu.

Í núgildandi skattalögum er það ákvæði, að vangreiðsla á hluta af sköttum veldur því, að allur ógreiddur skattur fellur í gjalddaga ásamt þungum dráttarvöxtum á alla upphæðina. Þetta þykir ekki sanngjörn regla, en hún hefur lengi verið í gildi og hefur lýst sér í því, að verði mistök hjá atvinnurekanda eða skattgreiðanda þannig að hann standi ekki skil t. d. l. ágúst á fyrstu greiðslu skatta eftir að álagning hefur farið fram, þá verður hann að borga mjög þunga refsivexti á allar eftirstöðvar skattskuldarinnar. Þetta getur að sjálfsögðu numið mjög verulegum upphæðum. Hér er lagt til að þessi regla verði endurskoðuð með þeim hætti, að aðeins sá hluti skuldarinnar, sem fallinn er í gjalddaga, þ. e. sú mánaðargreiðsla sem fallin er í gjalddaga verði vöxtuð, en annar hluti skattskuldarinnar falli ekki í gjalddaga fyrr en á tilsettum gjalddögum. Þetta mun að sjálfsögðu hafa nokkurt tekjutap í för með sér fyrir ríkissjóð, en liggur ekki nákvæmlega fyrir, enda er mjög erfitt að áætla hver sú upphæð gæti verið.

Þá kem ég að fimmtu meiri háttar efnisbreytingunni sem fólgin er í þessu frv., en hún lýtur að reglu 59. gr. um reiknuð laun. Í þessu frv. eru ákvæði 59, gr. tekjuskattslaga um reiknuð laun atvinnurekenda felld niður, ef frv. verður að lögum. Ástæðan er fyrst og fremst sú, að ekki þykir stætt á því að skattur sé lagður á tekjur sem aldrei hafa orðið til, eins og nú er raunverulega heimilað í 59. gr. Á hitt er rétt að minna, að áfram verða í lögunum fullgild og skýr fyrirmæli til skattstjóra að áætla atvinnurekendum tekjur, ef rökstudd ástæða er til að ætla að tekjur séu vantaldar eða fyrirliggjandi gögn eru talin ófullnægjandi eða tortryggileg.

Í grg. er ítarleg grein gerð fyrir ýmsum þáttum þessa máls, auk þess sem fsp. hafa verið lagðar fram um reiknuð laun á seinasta ári sem þegar hefur verið að nokkru svarað og birt var hér á Alþingi, en að öðru leyti eru þá í prentun, því að svörin hafa verið send frá fjmrn. í seinustu viku. Sé ég ekki ástæðu til að eyða tímanum hér í ítarlegar talnalegar upplýsingar. En rétt er að geta þess hér, að um 13 400 einstaklingar fengu reiknað endurgjald vegna vinnu veið eigin rekstur, og eru þá aðeins taldir þeir sem höfðu viðkomandi rekstur að aðalstarfi. Af þeim, sem fengu reiknað endurgjald, voru 3 873 bændur eða um 39% af heildarfjöldanum. Hins vegar er rétt að minna á það, að reiknað endurgjald hafði ekki áhrif til hækkunar á sköttum hjá mönnum nema reiknaða endurgjaldið hefði í för með sér tap í rekstrinum. Eins og ég sagði voru það um 13 400 einstaklingar, sem fengu reiknað endurgjald, en hjá um 3 100 þeirra varð tap í rekstri og það eru þeir sem fengu hærri skatt af völdum reiknaðs endurgjalds. Þar af voru 2/3 úr bændastétt eða rétt tæplega 2000 manns.

Megintilgangur ákvæðanna um reiknuð laun í 59. gr. var að samræma rekstursuppgjör fyrirtækja, hvort heldur þau eru rekin í félagsformi eða í nafni einstaklings. Eiganda rekstrar er samkv. núgildandi ákvæðum skylt — eins og segir í lagagr.— að telja sér til tekna eigi lægra endurgjald fyrir starf sitt en hefði hann innt það af hendi fyrir óskyldan eða ótengdan aðila.

Annað aðalmarkmið þessarar greinar var að koma í veg fyrir að þeir, sem hafa tekjur sínar af rekstri, sleppi með að greiða litla sem enga beina skatta, eins og óneitanlega hafa verið töluverð brögð að. Reiknuðu launin áttu að tryggja lágmarksskattgreiðslur allra atvinnurekenda sem taldir eru hafa stundað fullt starf. Meginágallinn á þessu ákvæði er hins vegar sá, eins og ég hef þegar getið, að samkv. ákvæðinu ber að leggja skatt á tekjur jafnvel þótt þær hafi aldrei orðið til. Þótt skattstjóri og skattþegn séu sammála um að tekjur í rekstrinum hafi alls ekki verið meiri en framtalið er, eða útgjöldin nákvæmlega þau sem greinir í framtali skattþegns, og tapið því bersýnilegt og óumdeilt, þá bar skattstjóra og ber samkv. núgildandi lögum að leggja á viðkomandi skattþegn reiknuð laun í samræmi við reglur ríkisskattstjóra. Breytti þar engu þótt það ylli enn frekara tapi í rekstri en reikningar sýndu. Að vísu gildir þessi regla þegar hlutafélög eða aðrir lögaðilar eiga í hlut. Lögaðilum ber að greiða eigendum sínum laun í samræmi við það sem gerist á hinum almenna vinnumarkaði, og þar gildir þessi regla og hefur gilt í fjöldamörg ár. En reynslan sýnir að nokkuð öðru máli gegnir um fyrirtæki sem rekin eru í nafni einstaklinga, vegna þess að þar er um minni rekstrareiningar að ræða. Þar eru menn með neyslu sína og rekstur oft á tíðum mjög samtvinnað, og þótt félag eigi kost á því að flytja tap milli ára, sem myndast vegna reiknaðra launa, kann það að vera illmögulegt, jafnvel ógerlegt fyrir einstakling með lítinn rekstur. Ég tel því að reynslan sýni að það hljóti að gilda um þetta aðrar reglur, þegar um tiltölulega lítinn rekstur er að ræða, heldur en þegar um stóran rekstur er að ræða.

Eins og kunnugt er, þá eru félög og lögaðilar ekki skattlögð með sama hætti og einstaklingar sem reka atvinnurekstur. Skatthlutfallið er töluvert hærra þegar félög og lögaðilar eiga í hlut, eða 65%, meðan aftur á móti hæsta skatthlutfall hjá atvinnurekendum með rekstur í eigin nafni er 50%, og prósentan er sú sama, 65% á allar tekjur lögaðila. En þeir, sem reka atvinnurekstur í eigin nafni, byrja með 25% álagningarhlutfall og síðan 35% og það er ekki fyrr en kemur í efsta jaðarskattinn að prósentan verður 50%. Á móti þessu kemur hitt, að félag eða lögaðill má leggja 25% af hreinum hagnaði í varasjóð. Ef þetta tvennt er lagt saman er nokkuð ljóst að þegar um smáfyrirtæki er að ræða er hagkvæmara að það sé rekið á nafni einstaklings. Síðan komum við upp að ákveðnum mörkum þar sem það kemur nokkuð í sama stað niður, hvort um félag er að ræða eða fyrirtæki á nafni einstaklings, og svo þegar kemur yfir ákveðin mörk er heldur hagkvæmara að reka fyrirtæki í félagsformi. Af þessu leiðir að það er á margan hátt eðlilegt að ekki gildi nákvæmlega sömu reglur um reiknuð laun þegar stórfyrirtæki í félagsformi á í hlut og smáfyrirtæki sem rekið er á nafni einstaklings.

Ljóst er að ýmsir annmarkar komu í ljós þegar reikna átti mönnum laun í samræmi við viðmiðunarreglur ríkisskattstjóra. Viðmiðunarlaunin þóttu nokkuð lág hjá ýmsum hátekjumönnum, enda aðeins miðuð við dagvinnutekjur. T. d. voru viðmiðunarlaunin 8.1 millj. gkr. hjá öllum sérmenntuðum mönnum, læknum, tannlæknum, verkfræðingum, endurskoðendum og öðrum hliðstæðum starfsstéttum, og fullyrt var að viðmiðunarlaunin hvettu atvinnurekendur með hærri tekjur til að halda sig við uppgefna upphæð í trausti þess, að ekki yrði litið frekar á reksturinn ef reiknuð laun væru áætluð yfir viðmiðunarlaunum. Hins vegar þóttu viðmiðunarlaunin nokkuð há hjá kvæntum bændum. En í lögunum var beinlínis miðað við launaþátt í verðlagsgrundvelli landbúnaðarvara. Einhleypur bóndi á vísitölubúi, sem kvæntist, fékk 5.6 millj. kr. í reiknuð laun á reksturinn fyrir bæði hjónin í stað þess að fá 3.3 millj. áður en eiginkonan kom til sögunnar, jafnvel þótt reksturinn væri nákvæmlega sá sami í báðum tilvikum. Þótti ýmsum þetta nokkuð dýrkeypt kvonfang, að slíkar yrðu afleiðingarnar í skattlagningu.

Staðreynd er að ákvæði 59. gr. hafa ekki verið framkvæmd eins í öllum skattumdæmum, eftir þeim upplýsingum sem við hófum fengið frá ríkisskattstjóra, og olli þetta talsverðri mismunum gagnvart bændastéttinni einkum og sér í lagi. Mér er líka til efs að ákvæði 59. gr. hafi verið framkvæmd af skattstjórum eins og lög mæla fyrir. Ég tel líkur benda til að í æðimörgum tilvikum hafi ekki verið tekið það tillit til aðstöðu viðkomandi aðila: aldurs, heilsu og starfstíma, umfangs starfsins og annarra atriða er máli skipta, eins og kveðið er skýrt á um í 59. gr. laganna. Vissulega má benda á að þá hefðu menn getað kært skattlagninguna til ríkisskattanefndar eða ríkisskattstjóra, eftir því sem við á, þ. e. eftir því hvort kærufrestur var útrunninn eða ekki. En mér virðist ljóst að óánægðir skattgreiðendur hafi ekki valið þennan kost nema í tiltölulega fáum tilvikum, sennilegast vegna þess að þeim hefur fundist það of flókin eða vonlítil leið. Rétt er að upplýsa hér að áður en kærufresti lauk höfðu skattstjórum borist 713 kærur vegna reiknaðra launa og í helmingi þessara tilvika tók skattstjóri að einhverju leyti til greina kröfur gjaldenda um lækkun launanna. Menn beri þetta saman við þá tölu sem ég nefndi áðan, að reiknuð laun mynduðu tap í rekstri í rúmlega 3000 tilvikum.

Ég vil svo að lokum varðandi reiknuðu launin aðeins ítreka það sem ég sagði í upphafi, að það er alger misskilningur, sem komið hefur fram, að með afnámi þessarar greinar sé numið úr lögum heimildarákvæði til þess að áætla mönnum tekjur ef rökstudd ástæða er til að ætla að tekjurnar séu vantaldar eða framtalið að öðru leyti tortryggilegt. Sú heimild er áframhaldandi fyrir hendi í 96. gr. laganna og verður að sjálfsögðu notuð af skattstjórum, enda hafa þeir skýr fyrirmæli um það í skattalögunum þegar það þykir við eiga.

Hins vegar vil ég endurtaka það sem ég sagði áðan, að einn aðaltilgangur 59. gr. var að tryggja að sem flestir greiddu nokkurn skatt til samfélagslegra þarfa, enda þótt rekstur fyrirtækja þeirra gengi ekki vel, a. m. k. ekki á pappírnum. Í ljósi þessa verður að skoða það, að gerð er till. um breytingar á fyrningarreglum jafnhliða því að 59. gr. skattalaga er niður felld. Lagt er til að útgjöld vegna fyrningar í atvinnurekstri séu lækkuð um allt að 10% ef hreinar tekjur í rekstri eru undir 5% af brúttótekjum. Eins og kunnugt er á það við um mjög mörg fyrirtæki og hefur átt við á undanförnum árum, að þau greiða lítinn sem engan tekjuskatt. Markmiðið með þessu ákvæði er því augljóslega það, að bókfærður hagnaður sé tekinn til endurskoðunar og fyrningargjöld séu lækkuð ef hagnaður reynist undir ákveðnu lágmarki.

Ég hef hér getið þeirra breytinga sem gerð er till. um að fenginni reynslu af skattlagningu á s. l. sumri. Ég gæti nefnt hér fjöldamörg önnur atriði sem fólgin eru í þessu frv. sem er í 33 greinum eins og sjá má af frv., en ég sé ekki ástæðu til að tína fram fleiri atriði, enda verða þau atriði, sem ég hef hér nefnt, að teljast aðalatriði. Hins vegar á ég ónefnt stærsta atriði þessa frv. Það eru þær almennu skattalækkanir sem frv. gerir ráð fyrir.

Í efnahagsáætlun ríkisstj., sem birt var um áramótin, var því heitið, að skattur á almennar launatekjur skyldi lækkaður þannig að sú lækkun samsvari um 1.5% kaupmáttarauka hjá þeim sem hafa meðaltekjur eða minna, þ. e. hjá lágtekjufólki og fólki með meðallaun. Það má hiklaust segja, að megintilgangur þessa frv. sé að efna þetta fyrirheit. Í fjárlögum fyrir árið 1981 var gert ráð fyrir að skattvísitalan yrði 145. Ætla má að álagning tekjuskatts einstaklinga svo og sjúkratryggingargjalds, en að frádregnum barnabótum og nýttum persónuafslætti, hefði samkv. þeirri skattvísitölu numið alls um 860 millj. kr. Eru það um 65 millj. kr. umfram þá álagningartölu er lá til grundvallar tekjuáætlun fjárlaga, eða í gkr. talið 6.5 milljarðar. Þegar fjárlög voru afgreidd nefndi ég oft að fjárlagatalan væri 4 milljörðum lægri en skattalögin mundu skila. Hér er hins vegar nefnd heldur hærri tala eða 6.5 milljarðar. Munurinn á þessum tveimur tölum er fyrst og fremst fólginn í því, að ég taldi ekki með það atriði sem síðar kom í ljós, að í lögunum var ekki gert ráð fyrir að persónufrádráttur einhleypinga breyttist eftir skattvísitölu, sem mun hafa verið mistök við samþykkt frv. á s. l. ári. Að óbreyttum lögum mundi því skattfrádráttur einhleypinga vera nákvæmlega sá sami í ár og hann var á seinasta ári, hann mundi ekki breytast við skattvísitölu, og það eitt hefur í för með sér skattahækkun upp á 2 milljarða. Þetta atriði taldi ég satt að segja aldrei með, vegna þess að auðvitað hefur aldrei komið neitt annað til greina en að þessi liður yrði hreyfður í réttu hlutfalli við skattvísitölu, og því stendur það áfram sem ég sagði hér um áramótin, að fjárlagatalan var í raun 4 milljörðum lægri en óbreytt skattalög hefðu skilað, að vísu að teknu tilliti til þessa sérstaka atriðis sem verður að flokkast undir tæknileg mistök á seinasta ári. Hins vegar verður að viðurkennast að í þessum efnum er alltaf veruleg óvissa á ferðinni sem gæti vafalaust numið a. m. k. einum milljarði til eða frá.

Áætlað er að tekjubreyting milli áranna 1979 og 1980 hafi numið um 51% á hvern framteljanda að meðaltali. Ég hef stundum heyrt því fleygt, að skattvísitala ætti að hækka í 153 vegna þess að tekjubreytingin sé 53% milli ára. Í þessu máli verða menn að gera mun á því, hvort heildartekjurnar hækka um 53%, sem þær gera, eða hvort hækkunin á hvern framteljanda er að meðaltali 51%, sem hvort tveggja er rétt. Auðvitað miðum við í þessum efnum við tekjur á framteljanda, en ekki við heildartekjurnar. Og þegar menn eru að hafa í munni sér þessa prósenttölu, 53%, þá eru þeir sem sagt með hækkun heildarteknanna sem ekki á við í þessu sambandi. Hækkunin á framteljanda er 51% og til þess að halda skattbyrði óbreyttri frá álagningu 1980 hefði skattvísitalan fyrir árið 1981 þurft að vera 151, að því tilskildu að ekki væri breytt neinum öðrum þáttum skattlagningarinnar. En vegna þess að vitað var að breyta þyrfti mörgum þáttum skattlagningarinnar, m. a. ákvæðinu um vaxtafrádrátt, ákvæðinu um einstæð foreldri, ákvæðum um eignarskatt aldraðra og mörgum fleiri ákvæðum, þá þótti vissara að hafa borð fyrir báru við afgreiðslu fjárlaga og skattvísitalan var ekki ákveðin nema 145 að svo stöddu, en gert ráð fyrir að á þessu yrði gerð lagfæring við afgreiðslu skattalaga.

Það er sem sagt ljóst, að ef ekki væri gerð nein breyting á skattalögum nú, þá yrði um nokkra skattþyngingu að ræða. Þess vegna var það fyrsta verkefnið við ákvörðun einstakra stærða í þessu skattafrv. að búa til ákveðið viðmiðunarkerfi sem byggðist á því, að meðalskattbyrði væri hliðstæð því sem var á árinu 1981. Þetta viðmiðunarkerfi var þannig hugsað, að persónufrádráttur var hækkaður heldur meira en verið hefði að óbreyttri skattvísitölu og skattstigum breytt. Þessi breyting, sem gerð er skýr grein fyrir í grg. með frv., kemur þar fram á bls. 7, leiðir til lækkunar heildarálagningar frá álagningartölum fjárlaga sem nemur um 2 milljörðum gkr. eða 20 millj. nýkr. Það er síðan frá þessu viðmiðunarkerfi sem skattlækkunin, sem fyrr var getið um, um áramótin var reiknuð. Því er óhætt að vísa til föðurhúsanna í eitt skipti fyrir öll endurteknum upphrópunum stjórnarandstæðinga um það, að fyrst hafi skattar verið hækkaðir með því að hækka ekki skattvísitölu nægilega mikið og síðan hafi skattar verið lækkaðir út frá þeirri tölu. Sú skekkja, sem of lág skattvísitala veldur, hefur sem sagt fyrst verið leiðrétt með þessum breytingum og síðan er skattalækkunin reiknuð út frá þessum nýju forsendum. (HBl: Þetta er ekki fullnægjandi leiðrétting.) Þessi leiðrétting er fullnægjandi fyrir allt lágtekjufólk og fólk með meðaltekjur, en það skal hins vegar fúslega viðurkennt, að með þessari breytingu verður lítils háttar breyting hjá launþegum eða skattgreiðendum með hæstu tekjur. Breytingin er hins vegar svo lítil að hún nemur um 0.2 eða 0.3% og er áreiðanlega varla merkjanleg í pyngju þessara aðila.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að gera að öðru leyti nánari grein fyrir þeirri skattalækkun sem hér um ræðir og er meginefni þessa frv. vegna þess að ég hef áður gert grein fyrir henni hér á Alþingi. Skattalækkunin er eins og kunnugt er fyrst og fremst fólgin í því, að 1.5% sjúkratryggingargjald er fellt niður, en það hefði átt að vera 1.5% á tekjur upp að 6.5 millj. gkr. Það fellur algerlega niður. Og raunar fellur einnig 2% sjúkratryggingargjaldið niður á bilinu milli 6.5 og 6.750 millj., þannig að sjúkratryggingargjald upp á 2% fer ekki að telja fyrr en kemur upp í tekjurnar 6.750 millj. gkr. Þessi breyting ásamt enn frekari hækkun á persónuafslætti og breytingum á skattstigum veldur því, að það launafólk, sem hefur lágar tekjur og meðaltekjur, allt upp í 10 millj. kr. á liðnu ári í vergar tekjur, fær skattalækkun upp á 1.5–1.8%. Ég vil í þessu sambandi fyrst og fremst vísa til þeirra tölfræðilegu gagna, sem fylgja þessu frv., og þá sérstaklega til seinustu síðunnar í frv., bls. 18, þar sem nánari grein er gerð fyrir þessari skattalækkun. Þar kemur fram í seinasta dálki að lækkun skattbyrðarinnar á bilinu frá 4 upp í 10 millj. er 1.5–1.8%, en síðan er skattalækkunin þaðan af minni eftir því sem tekjurnar verða meiri. Það stóð aldrei til að þessi skattalækkun yrði til hagsbóta fyrir hátekjufólk, og þar af leiðandi er eðlilegt að hún deyi út á hærri tekjum. Um lágtekjufólkið, sem ekki nær 4 millj. kr. markinu, er það að segja, að þar er auðvitað fyrst og fremst um að ræða tryggingaþega, og þeir fengu við afgreiðslu efnahagsmálanna nú eftir áramótin sérstaka búbót þar sem var hækkun á tekjutryggingu um 14.6%, hækkun á tekjutryggingu og heimilisuppbót, sem var talsvert meiri hækkun en varð á almennum verkamannalaunum sem tekjutryggingin er miðuð við.

Ég vil svo að lokum minna á það, að áður en ákvarðanir voru teknar í þessum efnum áttu sér stað ítarlegar viðræður milli fulltrúa ríkisstj. og Alþýðusambands Íslands. Þær viðræður snerust bæði um það viðmiðunarkerfi, sem skattalækkunin er reiknuð út frá, og um skattalækkunina sjálfa. Ég vil upplýsa í þessu sambandi að fulltrúar Alþýðusambands Íslands, sem þátt tóku í þessum viðræðum og voru samþykkir þeirri niðurstöðu, sem fékkst þar, voru þeir Ásmundur Stefánsson, forseti Alþýðusambands Íslands, Björn Þórhallsson, varaforseti Alþýðusambands Íslands, Guðmundur J. Guðmundsson, formaður Verkamannasambands Íslands, og Jón Helgason, formaður verkalýðsfélagsins Einingar á Akureyri. Fimmti fulltrúi Alþýðusambandsins, sem þátt tók í þessum viðræðum, fylgdist með samningaviðræðunum og sat marga viðræðufundi. Karl Steinar Guðnason, vék af fundi áður en gengið var frá niðurstöðu þessara viðræðna.

Ég vil einnig minna á það hér, að fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna hafa fylgst allnáið með þeirri umfjöllun skattamála, sem átt hafði sér stað á vegum ríkisstj. áður en þetta frv. varð til, og komu á allnokkra fundi í fjmrn. þar sem þeir áttu þess kost að leita upplýsinga um einstök atriði skattamálanna, leggja fram fyrirspurnir og koma með ábendingar. Ég vil upplýsa það hér, að fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna fengu nákvæmar upplýsingar um efni þessa frv. s. l. þriðjudag, þ. e. fyrir einni viku, en þá var hálfur mánuður til páskaleyfis. Þeir fengu frv. í hendur s. l. þriðjudag ásamt öllum þeim gögnum sem þá lágu fyrir, m. a. grg. frv.

Framtalsfrestur vegna framtals atvinnurekenda var lengdur nýlega til aprílloka, og verður auðvitað að játa að mjög óþægilegt er að hann verði enn lengdur að miklum mun vegna þess að afgreiðsla málsins dragist hér á Alþingi. Ég tel að þetta mál sé ekki stærra en svo, að þm. ættu að geta tekið það til meðferðar og afgreiðslu hér á Alþingi á hálfum mánuði. Þá á ég við frá því að þm. er gerð grein fyrir efni frv. og þar til þingstörfum lýkur. Því miður hefur ekki verið ráðrúm til að mæla fyrir frv. fyrr en í dag. Nú er ein vika til páska og ég teldi eðlilegast að afgreiðslu þessa máls yrði lokið fyrir páska. En því miður verð ég að játa það, að stjórnarandstaðan hefur snúist mjög öndverð gegn því, að frv. nái fram að ganga fyrir páska, og verð ég að segja að mér þykir það nokkur óbilgirni þar sem áreiðanlega eru fjöldamörg dæmi þess, að mál af sambærilegu tagi hafi verið afgreitt hér í þinginu á einni viku, að ég nú ekki tali um þegar menn hafa haft aðra viku þar á undan til að kynna sér efnið og undirbúa afgreiðsluna. En það verður að sjálfsögðu að ráðast hvernig fer um afgreiðslu þessa máls. Mínar óskir standa enn til þess, að frv. verði afgreitt fyrir páska, enda er brýn nauðsyn fyrir framteljendur í atvinnurekstri að fá það alveg á hreint, hver er vilji Alþingis í þessum efnum, og það kemur sér ákaflega illa fyrir marga að mikill dráttur verði á afgreiðslu þingsins. Ég ítreka það, að Alþingi hefur oft verið ætlaður minni tími en þetta til að afgreiða stórmál, og þm. hafa í raun fengið hálfan mánuð, þegar páskafríið hefst, til þess að skoða þetta mál og taka það til afgreiðslu. (FrS: Hvað hefur hæstv. fjmrh. verið lengi að skoða þetta?) Það skal vissulega játað, að fjmrh. og fjmrn. hafa haft málið lengi til athugunar. En ástæðan er sú, að sá þáttur málsins, sem varðar reiknuð laun, lá ekki fyrir fyrr en nú alveg nýlega. Tölvuúrvinnsla, sem beðið var lengst eftir, var rétt að koma fram fyrir þrem vikum, og það var ekki fyrr en í seinustu viku sem hægt var endanlega að senda gögn um þessa tölvuvinnslu hingað til þingsins til dreifingar, þannig að það eru fullkomnar skýringar á því, hversu lengi hefur dregist að leggja þetta frv. fram.

Það var beðið eftir fullnægjandi gögnum varðandi reiknuðu launin. Menn töldu ekki fært að taka ákvarðanir í því efni fyrr en fullnægjandi upplýsingar lægju fyrir. Þegar þær lágu fyrir var ákveðið að afnema þessa reglu, og ég held að ekki verði hægt að sakast um það við ríkisstj., að langan tíma hefur tekið að vinna þetta verk sem er óhemjumikið. En niðurstaða er fengin og ég held að miðað við þær upplýsingar, sem stjórnandstaðan hefur fengið um þetta mál á undanförnum vikum, þar sem hún hefur jafnóðum fengið öll gögn í hendur sem fyrir hafa legið, sé ekki til of mikils mælst að málið nái fram að ganga fyrir páska. En það verður að sjálfsögðu að ráðast og vilji þingsins er auðvitað æðstur í þeim efnum.

Herra forseti. Ég vil leggja til að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til hv. fjh.- og viðskn.