07.04.1981
Neðri deild: 73. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3510 í B-deild Alþingistíðinda. (3546)

290. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Það fór nú svo um ræðu hæstv. fjmrh. þegar hann talaði fyrir þessu frv., að hann kom ekki inn á það, hver væri sameiginleg tekjuáætlun fulltrúa Alþýðusambands Íslands og ríkisstj. fyrir þetta ár, þó svo að hæstv. fjmrh. hafi í yfirlýsingu, sem hann gaf 24. febr. s. l., lýst því yfir, að ákveðið hafi verið að verja 100 millj. kr. eða 10 milljörðum gkr. til skattalækkana, sem svarar til 1.5% í kaupmætti lægri launa og meðallauna, hefur ekki tekist að fá hæstv. fjmrh. til að gefa Alþingi upplýsingar um hver sé tekjuviðmiðunin hjá ríkisstj. og Alþýðusambandinu í þessu dæmi fyrir það ár sem nú er að líða. (Fjmrh.: Það er bara viðmiðun við fyrra ár sem skiptir máli.) Ég held að við séum ekki að tala um það núna að auka kaupmáttinn á s. l. ári. Við erum að tala um að auka kaupmáttinn á því ári sem nú er að líða. Eins og raunar hv. 12. þm. Reykv., Guðmundur G. Þórarinsson, hefur lagt áherslu á er þýðingarlaust að vera aftur í tímanum þegar menn eru að tala um kaupmátt líðandi stundar. Hann hefur einmitt viljað leggja áherslu á í sambandi við skattaálögur hvert hlutfall beinir skattar séu á greiðsluári, en ekki álagningarári.

Nú liggur það fyrir, að ég hygg, að ríkisstj. ætlar sér að halda verðbólgunni í 40% á þessu ári. Ég held að það hafi komið fram í ræðu hæstv. forsrh. hér í gær eða fyrradag, — í gær var það víst, — að verðbólgan mundi verða einhvers staðar í kringum 40% á því ári sem nú er að líða. Ef við reynum að átta okkur á því, hvað kaupgjaldið muni hækka á þessu ári þá liggur það fyrir í augnablikinu að kaupmátturinn er 7% minni í marsmánuði heldur en hann hefði verið ef menn hefðu fengið kaup sitt hækkað. (Fjmrh.: Það er mikill misskilningur.) Er það misskilningur? (Fjmrh.: Já.) Ef sjöunda hver króna er tekin úr umslagi hæstv. fjmrh. tapar hann sjöundu hverri krónu í tekjum, þá hlýtur hann að tapa því. Þá þýðir það að hann getur keypt þeim mun minna. (Gripið fram í.) Það er alger verðstöðvun í landinu. Ég held að hv. þm. Stefán Valgeirsson skilji það að ef tekinn væri sjöundi hver dropi af mjólkinni í Auðbrekku mundi mjólkin verða að sama skapi minni þegar upp yrði gert. Og með sama hætti býst ég við að hæstv. fjmrh. skilji það — eða maður gæti búist við því, að þegar sjöunda hver króna er tekin verði kaupið þeim mun minna.

Nú er spurningin, þegar verið er að tala um að ríkisstj. ætli sér að hækka kaupmáttinn sem svarar 1.5% í kaupmætti lægri launa og meðallauna: hvað skyldi það vera mikið á þessu ári? Er hugmyndin að vinna upp þessi 7%? Ef við reiknum með því, að verðbólgan á þessu ári verði í kringum 40% og þar sem ekki er um neinar grunnkaupshækkanir að ræða á þessu ári og launþegar hafa þegar týnt rétt tæpum 10%, þá er erfitt að hugsa sér að launin geti hækkað meira en svona 30–33%, varla hægt að hugsa sér það.

Nú getum við náttúrlega farið ofurlítið hærra með launin, jafnvel upp í 40%. Jafnvel þótt við teygðum okkur svo hátt og segðum að launin mundu ekki hækka á þessu ári meira en verðbólgan verður — því að það er búið að slá því föstu að hún verði 40% — þá gengur það dæmi ekki upp samt sem áður að um neinar skattalækkanir verði að ræða hjá einum einasta manni, ef undan er skilinn tiltekinn hópur af einstæðum foreldrum.

Nú sé ég að hér inn í þingsalinn er kominn formaður Verkamannasambands Íslands, Guðmundur J. Guðmundsson, og þar sem ég er ekki viss um að hæstv. fjmrh. muni svara minni fsp. — ég hef borið hana fram áður og fékk ekki svar við henni — vil ég beina þeirri fsp. til formanns Verkamannasambands Íslands, þar sem hann var einn þeirra manna sem hæstv. fjmrh. skírskotaði til að hefðu fallist á þær úrbætur sem felast í því frv. sem hér liggur fyrir, ásamt með þeim breytingum á sjúkratryggingargjaldinu sem er gert ráð fyrir í grg. að frv. verði lagt fram um, jafngildi 1.5% í auknum kaupmætti miðað við s. l. ár, þá langar mig að spyrja þennan hv. þm., hvað gert hafi verið ráð fyrir í þessum áætlunum að kaupgjaldið mundi hækka mikið á þessu ári borið saman við s. l. ár.

Í þessu sambandi vil ég í fyrsta lagi leyfa mér að ganga út frá því að samkomulag Alþýðusambands Íslands og ríkisstj. um lækkun skatta hafi gengið út á atvinnutekjur, ekki vaxtatekjur eða tekjur af hlutabréfum eða eitthvað því um líkt, ekki eignatekjur, heldur eingöngu vinnutekjur. (Gripið fram í.) Ég var að tala um að ég byggist við að formaður Verkamannasambands Íslands hugsaði um atvinnutekjur verkafólks þegar hann væri að tala um skattgjaldstekjur. Og þá liggur það fyrir að atvinnutekjur á s. l. ári hafa hækkað um 53% miðað við næsta ár á undan. Björn Björnsson hjá Kjararannsóknarnefnd, sagði mér síðast áðan í símtali — ég spurði hann um þetta og ég spurði hann hvort ég mætti hafa það eftir hér í þingsalnum — að atvinnutekjur verkamanna og iðnaðarmanna hefur hækkað um 53% frá árinu 1979 til 1980, og hann sagði að ég mætti bera sig fyrir því, en á hinn bóginn hefði þetta mál ekki verið tekið fyrir af Kjararannsóknarnefnd, þannig að opinbert álit af hennar hálfu liggur ekki fyrir, og mér er raunar nær að halda að hvorki Alþýðusamband Íslands né ríkisstj. hafi séð ástæðu til þess að biðja Kjararannsóknarnefnd að fjalla um þetta atriði sérstaklega. Það er sem sagt álit Björns Björnssonar hjá Kjararannsóknarnefnd, að hækkun á kauptöxtum frá árinu 1979 til 1980 hafi verið 51%, en launaskrið, aukið akkorð og annað því um líkt, launahvetjandi kerfi, bæti þarna um 2% þannig að atvinnutekjur verkamanna og iðnaðarmanna hækkuðu frá árinu 1979–1980 um 53%. Þetta liggur nú fyrir og lá fyrir áður en þetta frv. var lagt fram.

Með hliðsjón af þessum upplýsingum og þar sem hæstv. fjmrh. lýsti þeim skilningi sínum fyrr í dag, að ef menn vildu bera saman skattabreytingar milli ára yrði að hækka skattstiga, persónufrádrætti og annað í réttu hlutfalli við launabreytingar milli ára, — ég tók að vísu eftir því, að hæstv. fjmrh. vildi ekki binda sig við atvinnutekjur í þessu sambandi, og geri ég mér raunar ekki grein fyrir hvernig hann ætlar að fá réttari viðmiðun með öðrum hætti, — þá held ég að þær upplýsingar, sem fyrir liggja, sanni fullkomlega að í þessu frv. hefur verið kastað til höndunum að þessu leyti. Það hefur verið slegið fram varðandi kaupbreytingar milli ára ákveðinni hundraðstölu sem ekki stenst. Afleiðingin af því, að þessi hundraðstala er röng, kemur þegar fram í því, að öll viðmiðun verður að sama skapi röng. Þannig liggur það t. d. ljóst fyrir, að í sambandi við lágmarksfrádrátt einhleypings skakkar nokkru að sá frádráttur sé hækkaður eins og vera ber. Hið sama er að segja um barnabætur, lágmarksfrádrátt einstæðs foreldris, eins og það er hugsað í lögunum, og þar fram eftir götum. Ég hygg því að sú nefnd, sem fær þetta frv. til meðhöndlunar, verði að athuga þessa þætti í sambandi við afgreiðslu sína á málinu. Það verður að hækka upp þessar viðmiðunartölur í samræmi við það að launabreytingarnar milli ára hafa orðið meiri en hæstv. ríkisstj. vill kannast við.

Við komum þá að öðrum þætti þessa máls sem er lækkun eða þær breytingar sem gerðar hafa verið á lágmarksfrádrætti vegna einstæðra foreldra. Gert er ráð fyrir því í þessu frv. að þessi lágmarksfrádráttur verði hækkaður verulega. Er í því sambandi athyglisvert í fyrsta lagi að hæstv. ríkisstj. fékkst ekki á síðasta þingi til þess að viðurkenna þær staðreyndir sem þá lágu í augum uppi og ítrekað var bent á hér í deildinni, að skattalagabreytingin, sú breyting að skattleggja einstaklingana hafði í för með sér verulega þyngingu á skattbyrði einhleypinga og hjóna þegar bæði unnu úti og öfluðu sér umtalsverðra tekna. Ef ég man rétt stendur í nál., sem gefið hefur verið út varðandi skattbyrði einstæðra foreldra, að skattbyrði þessa fólks hafi hækkað hlutfallslega meira en ýmissa annarra þegna þjóðfélagsins. Í þessu sambandi er nauðsynlegt að víkja nokkrum orðum að því, hvar við erum stödd varðandi skattbyrðina.

Skattbyrði einstaklinga á árunum 1964–1981 hefur verið áætluð með margvíslegum hætti, og það er raunar nokkuð sama hvernig reiknað er. Augljóst er að þegar vinstri stjórnin var mynduð í septembermánuði 1978 og æ síðan hefur skattlagningin aukist mjög verulega. Ef það er rifjað upp kemur í ljós að álagðir skattar í hlutfalli við tekjur fyrra árs hækkuðu frá árinu 1977 úr 16.3% upp í 22.2%. Þetta er mjög veruleg hækkun eða um 30% og á að sjálfsögðu rætur sínar að rekja til þess, að þær ríkisstjórnir, sem síðan hafa setið, hafa haft það að miklu markmiði í sinni efnahagsstjórn að stórauka ríkisútgjöldin á kostnað atvinnuveganna.

Hugmyndin á bak við þá nefnd, sem skipuð var varðandi einstæða foreldra, var að sjálfsögðu að reyna að koma skattbyrði þeirra niður í það sem hún var áður. Eðlilegt hefði verið, þegar þessi skattbyrði var borin saman og gamla kerfið var tekið til samanburðar, að miða ekki við eitt ár, síðasta árið eða árið 1979. Miklu eðlilegra hefði verið að sú nefnd, sem þarna átti hlut að máli, hefði tekið nokkur ár, við skulum segja 3–4 s. l. ár, og gert úttekt á því, hvernig einstæðir foreldrar komu út skattalega séð, við getum sagt árið 1976, 1977, 1978 og 1979. En hæstv. ríkisstj. þótti þetta óaðgengilegur kostur, þar sem markmiðið á bak við þessa nefndarskipun var ekki að færa skattbyrði einstæðra foreldra niður í það sem hún var áður, niður í það sem áformað var raunar þegar núgildandi skattalög voru samþykkt, eins og fram kom hvað eftir annað þá í yfirlýsingum varðandi þessi lög, að hugmyndin með þeim væri ekki að þyngja skattana.

Ég skal að þessu sinni ekki flytja mjög langt mál um tekjuskattsfrv. sem hér liggur fyrir. Ég geri ráð fyrir að strax við 1. umr. málsins muni formaður Verkamannasambands Íslands gera grein fyrir því, á hvaða grundvelli verkalýðshreyfingin hefur samþykkt þetta frv. og lítur svo á sem það fullnægi fyrirheitum ríkisstj. um það, að vegna þessara laga muni kaupmátturinn á yfirstandandi ári aukast um 1.5%. Þetta er allt önnur niðurstaða en ég kemst að. Og ég vil benda á það, að hjá mjög stórum hópum verkamanna verður síður en svo um skattalækkun að ræða, hvernig sem á málið er litið, jafnvel þó við gengjum út frá því, að launin hækkuðu á þessu yfirstandandi ári álíka mikið og á s. l. ári eða um 53%. Ég geri ráð fyrir að formanni Verkamannasambandsins — eins og hæstv. fjmrh. — sé það fullljóst, að hér er beinlínis gert ráð fyrir því að hækka verulega skatta á a. m. k. einum verkamanni miðað við s. l. ár af hverjum 10 jafnvel þó sjúkratryggingargjaldið sé tekið inn. Ef við á hinn bóginn reiknuðum með því, að áætlun ríkisstj. um 40% verðbólgu á þessu ári stæðist, þá mundi koma út úr dæminu að ekki yrði um skattalækkanir að ræða á einum einasta verkamanni sem hægt yrði að mæla í kaupmætti borið saman við s. l. ár. Þetta er staðreyndin varðandi þetta atriði.

Á hinn bóginn liggur það fyrir, að bæði eignarskattur og einnig fasteignagjöld hafa hækkað mjög verulega á s. l. árum þannig að skattþyngingin af þeim sökum er miklu meiri en menn hafa gert sér grein fyrir, sérstaklega hér í Reykjavik. Skal ég ekki fara með tölur um það að þessu sinni.

Ég held að nauðsynlegt sé að það komi líka fram í þessu sambandi, að við sjálfstæðismenn höfum á umliðnum árum bæði í orði og verki sýnt það, að við teljum að eins og ástatt er í þjóðfélaginu nú og ef raunverulegur vilji væri fyrir hendi til þess að ráðast gegn verðbólgunni þurfi að stíga verulegt skref í þá átt að lækka skattana, umtalsvert skref. Um það er ekki að ræða í þessu frv. Allir frádráttarliðir vegna barna og persónufrádráttur miðast við skattgjaldsvísitöluna 145 og ég þarf náttúrlega ekki að ræða um það, að þegar komið er upp að hærra skattaþrepi er þyngt mjög verulega, og það bitnar auðvitað á fjölmörgum meðlimum Verkamannasambands íslands og fjölmörgum iðnaðarmönnum. En ég hygg að vel megi vera að verslunarmenn hafi að einhverju leyti lægri laun og komist síður þarna upp. En Kjararannsóknarnefnd hefur ekki á takteinum upplýsingar um hvernig launakjörum verslunarmanna er háttað.

Það er náttúrlega auðvelt fyrir ríkisstjórnir, sem hafa allt embættismannakerfið á bak við sig, að leggja fram sundurliðaðar tillögur um hvað eina og láta reikna hvað eina úr fyrir sig. Það hefði þess vegna verið hægurinn fyrir hæstv. ríkisstj. að fela Þjóðhagsstofnun eða sambærilegum aðila að reikna út það sem kallast mætti sambærileg skattbyrði á þessu ári borið saman við s. l. ár. Ekkert slíkt hefur verið gert. Hvorki Þjóðhagsstofnun, Reiknistofnun háskólans né neinn annar aðili utan við Stjórnarráð Íslands hefur, svo mér sé kunnugt um, reiknað út það sem kalla mætti sambærilega skattbyrði á yfirstandandi ári borið saman við s. l. ár. Og þetta er náttúrlega mjög bagalegt þegar forsendan fyrir þeim breytingum, sem hér er verið að tala um, er sú að hækka eigi kaupmátt launatekna um 1.5% borið saman við s. l. ár.

Ég hef áður í sambandi við kjaramál hér á Alþingi rifjað upp ýmis orð sem féllu á árinu 1978 varðandi þær aðgerðir sem kallaðar hafa verið febrúarlögin. Ég veit að hæstv. fjmrh., hv. 7. þm. Reykv., Guðmundur J. Guðmundsson, og hv. 8. landsk. þm., Guðrún Helgadóttir, muna eftir því öll þrjú, að það var grundvallaratriði, eitt stærsta atriðið í málflutningi Alþb. í febrúarmánuði 1978 og þeim mánuði sem þá fór í hönd, að ekki væri eðlilegt að miða kaupmátt ársins 1978 við kaupmátt ársins 1977 vegna þess að sólstöðusamningarnir hefðu ekki orðið fyrr en í júnímánuði það ár. Það var lögð áhersla á það af Alþb. þá, að í þeim samningum hefði verið stefnt að því að knýja fram verulegar kjarabætur, eins og raunar hefðu orðið á árinu 1977, og þegar þessi tvö ár væru borin saman væri það grundvallaratriði að reikna allar þessar kjarabætur inn þegar í ársbyrjun þannig að niðurstaðan af árinu 1978 sýndi að sama skapi betri lífskjör sem lengra var á árið liðið sem sólstöðusamningarnir voru gerðir. Nú muna fulltrúar Alþb. hér á þingi vel að einir 10 mánuðir voru liðnir af s. l. ári þegar nýir kjarasamningar voru loksins gerðir. Sá er líka munur á þessu ári og árinu 1978, að um engar grunnkaupshækkanir hefur verið samið á árinu 1981, gagnstætt því sem var á árinu 1978. Launþegar geta því ekki búist við því á þessu ári að fá það kauprán, sem lögfest var fyrir skömmu, uppi borið með neinum hætti af grunnkaupshækkunum síðar á þessu ári. Af þessum sökum er óhjákvæmilegt að leggja meiri áherslu en ella á að ríkisstj. leggi fram skýr gögn um það, hvernig hún hugsar sér að ná fram 1.5% kaupmáttaraukningu á þessu ári borið saman við það sem var í fyrra.

Ég vil — með leyfi hæstv. forseta — lesa hér yfirlýsingu fjmrh. um fyrirhugaðar skattalækkanir frá 24. febr. 1981 orðrétt svo að ekki fari milli mála. Þetta plagg ber yfirskriftina: „Yfirlýsing fjármálaráðherra um fyrirhugaðar skattalækkanir“ og fangamark hæstv. fjmrh. er aftan á því og það hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Fjmrh. lýsti því yfir í efri deild Alþingis í dag við umr. um brbl. ríkisstj. frá því á gamlársdag, að ákveðið hefði verið að verja 100 millj. kr. eða 10 milljörðum gkr. til skattalækkana sem svara til 1.5% í kaupmætti lægri launa og meðallauna.

Þetta verður þannig framkvæmt, að sá hluti tekjuskatta ríkisins, sem fólginn er í 1.5% sjúkratryggingargjaldi á tekjur upp að 6.5 millj. gkr., verði felldur niður. Sjúkratryggingargjaldið er brúttóskattur sem rennur alfarið í ríkissjóð og verður hann með öllu afnuminn á tekjur upp að 6.75 millj. gkr. en verður áfram 2% á tekjur þar fyrir ofan. Svo að dæmi sé nefnt leiðir þessi breyting á tekjusköttum til 1.5–1.8% skattalækkunar á tekjubilinu 4–10 millj. kr.

Þar sem þessi skattalækkun kemst hins vegar illa til skila til þeirra sem lifa eingöngu á tekjutryggingu og heimilisuppbót Tryggingastofnunar ríkisins hefur verið ákveðið að hækka þessar bætur 1. mars n. k. um 8% umfram þá hækkun sem verður þá á almennum launum vegna hækkunar verðbóta um 5.9%. Kaupmáttur tekjutryggingar eykst því verulega á þessu ári þar sem hækkanir 1. júní, 1. sept. og 1. des. miðast við óskerta framfærsluvísitölu og verða því meiri en orðið hefði án þessara efnahagsaðgerða.

Sú skattalækkun, sem ákveðin hefur verið, mun minnka tekjur ríkissjóðs af tekjuskatti sem svarar 9 milljörðum gkr. miðað við fjárlagatölur, en aukning tryggingabóta mun kosta 1 milljarð gkr. miðað við fjárlög ársins. Þessi ákvörðun um skattalækkun var tekin að höfðu samráði við fjóra fulltrúa Alþýðusambands Íslands sem lýstu því yfir á fundi í fjmrn. í dag, að þeir teldu að með þessari ákvörðun hefði ríkisstj. fyllilega staðið við það loforð sitt að lækka skatta sem svarar 1.5% í kaupmætti launa.“

Svo mörg voru þau orð. Og þar sem einn þessara fjórmenninga er hér mættur, þá er náttúrlega nauðsynlegt að fá upplýsingar um það vegna þessa launafólks, hvernig það geti farið saman að kaupmáttur aukist um 1.5% þótt skattar lækki um 1.5%. Það er afskaplega einfalt mál ef um staðgreiðslukerfi skatta er að ræða og verðlag er stöðugt. Ef ríkissjóður undir þvílíkum kringumstæðum lækkaði beina skatta um 1.5% af tekjum og hækkaði ekki aðra skatta í staðinn mundi það að sjálfsögðu þýða að kaupmáttur launa mundi aukast um 1.5% . En í þessu tilviki, sem við erum nú að tala um, er engu slíku til að dreifa. Þvert á móti er hér um eftirágreidda skatta að ræða. Og ef við tökum sjúkratryggingargjaldið út úr og berum einungis saman tekjuskattinn eins og hann ætti að verða samkv. skattgjaldsvísitölu 153, sem hæstv. fjmrh. telur eðlilega viðmiðun ef marka má orð hans hér fyrir í dag — (Fjmrh.: Nei.) Hæstv. fjmrh. neitar þessu. Þó væri nú skemmtilegt, ef afrit væri til af ræðu hans síðan í dag, að rifja aðeins upp alveg orðrétt það sem hann sagði. Við skulum sjá. Hæstv. fjmrh..sagði hér í dag að tekjubreytingin milli 1979 og 1980 væri að meðaltali 51%. Tekjur á framteljanda væru í heildinni 51% hærri á árinu 1980 en 1979. Óbreytt álagning fælist því í skattgjaldsvísitölu 151.

Nú hefur hæstv. fjmrh. rangar upplýsingar um það, hvað atvinnutekjur hækkuðu frá árinu 1979 til 1980. Ég treysti mér a. m. k. ekki til að rengja það sem Kjararannsóknarnefnd hefur um þetta mál að segja, og mér er raunar sagt að Þjóðhagsstofnun hafi einnig gefið upp þessa sömu tölu, 153. (Fjmrh.: Það eru heildartekjurnar.) Ég er að tala um atvinnutekjur. Ég gerði grein fyrir því hér áðan að ég var að tala um atvinnutekjur, en ekki heildartekjur. Atvinnutekjur frá árinu 1979 til 1980 hækka samkv. upplýsingum Björns Björnssonar hjá Kjararannsóknarnefnd um 53%. (Fjmrh.: Það er mannfjölgunin sem gerir mismuninn.) Mannfjölgun skiptir ekki máli varðandi atvinnutekjur á mann, ég vona að hæstv. fjmrh. skilji það. Það má náttúrlega barna alla hluti.

Ég þykist á hinn bóginn gera mér grein fyrir því, að formaður Verkamannasambands Íslands, — ég geng út frá því að hann muni ekki standa á móti þessum upplýsingum, neita að viðurkenna þær, því að þær eru einmitt frá þeim aðila sem Alþýðusambandið hefur sett á fót eða launþegasamtökin og Vinnuveitendasambandið, þ. e. aðilar vinnumarkaðarins. Og þó að hæstv. fjmrh. rengi þær upplýsingar sem fást frá þessum stað — þótt þarna sé að vísu um persónulegar upplýsingar forstöðumanns þessarar stofnunar að ræða — hef ég ekki heyrt að launþegahreyfingin vefengi útreikninga Kjararannsóknarnefndar á launatekjum og samanburði milli ára. Ég get ekki tekið alvarlega þegar það er gert, síður en svo. En það liggur sem sagt fyrir, — ef maður vill taka trúanlegt það, sem Björn Björnsson hjá Kjararannsóknarnefnd segir, og ber það saman við þau ummæli sem hæstv. fjmrh. viðhafði hér fyrr í dag,— að í forsendum þessa frv. skortir verulega á að réttur grundvöllur sé fenginn. Og ef borið er saman það, sem ríkisstj. kallar óbreytt skattkerfi — og nú er sjúkratryggingargjaldið inni í því, og það, sem eðlileg viðmiðun hlýtur að teljast samkv. upplýsingum Björns Björnssonar hjá Kjararannsóknarnefnd, þá gefur þetta frv. eða þessi frumvörp ríkisstj. ekki nema um 40 millj. nýkr. í skattalækkun í staðinn fyrir 90 millj. kr. eins og hæstv. fjmrh. hefur gumað af. Það vantar því meira en helming upp á í krónum talið að við það fyrirheit sé staðið sem ríkisstj. vildi þó reyna að rausnast til að standa við á sinn hátt.

Ég get að sjálfsögðu ekki rengt það, að það sé rétt hjá hæstv. fjmrh. að þeir fjórir nafngreindu einstaklingar, sem hann taldi upp, hefðu fallist á að í þessu frv. fælist 1.5% kaupmáttaraukning. Þessir einstaklingar hafa haft svigrúm til þess að leiðrétta ef rangt hefði verið farið með. En það er óneitanlega furðulegt að sá maður, sem nú er forseti Alþýðusambands Íslands, skuli gína við þessari skattalækkunarflugu, ef borið er saman það sem hann á sínum tíma reiknaði út, talaði um og lagði nafn sitt við þegar hann var hagfræðingur Alþýðusambands Íslands á árinu 1978. Ég hef áður gert grein fyrir því hér í þessum stól, hversu lágkúrulegur málflutningur hans í rauninni er í ljósi þess hvernig Alþýðusambandið hagar sér í dag. Og ég hef líka orðið var við það á meðal fólks, að launþegahreyfinguna sem slíka hefur sett niður vegna þess að fólk finnur að ýmsir af hæst launuðu trúnaðarmönnum launþega leggja meira upp úr því að beita afli verkalýðshreyfingarinnar fyrir flokkspólitískan vagn sinn til þess að tryggja sjálfan sig í sessi innan launþegahreyfingarinnar heldur en berjast fyrir hinum raunverulegu hagsmunum launþega. Það hlýtur raunar að hvarfla að mörgum launþeganum, ef þessir hv. forustumenn launþegahreyfingarinnar vilja skrifa upp á það að í þessu plaggi felist 1.5% kaupmáttaraukning, að rétt sé að verkalýðshreyfingin skili til baka því eina prósenti sem hún hefur tekið af launum á þessu ári, láti þetta prósent í friði hjá launþegum það sem eftir er ársins, til þess þó að reyna með þeim hætti að standa við það að launþegar fái eitthvað til baka af kjaraskerðingunni frá því í byrjun mars. Ef rétt er á þessi plögg lítið, skattalækkunarfrv. núna og sjúkratryggingargjaldið, er hámark að hugsa sér að þetta hvort tveggja gefi 0.4%.

Í fjárfestingar- og lánsfjáráætlun fyrir árið 1981, sem lögð hefur verið fram, stendur þessi setning, með leyfi hæstv. forseta:

„Spá um einkaneyslu er aðallega reist á áætlun um breytingar ráðstöfunartekna á árinu 1981. Kaupmáttur kauptaxta gæti orðið um 2% minni á þessu ári en á árinu 1980, en hækkun brúttótekna verður að líkindum nokkru meiri en hækkun kauptaxta, m. a. vegna hækkunar lífeyristekna umfram kauptaxtabreytingu. Ráðstöfunartekjur munu hækka nokkru meira en tekjur fyrir skatt þar sem skattbyrði beinna skatta verður heldur minni en í fyrra. Að öllu samanlögðu er nú áætlað að kaupmáttur ráðstöfunartekna í heild verði um 1% meiri á þessu ári en í fyrra eða að kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann verði svipaður bæði árin. Á grundvelli þessa er hér gert ráð fyrir 1% aukningu einkaneyslu.“

Svo mörg voru þau orð. Þau ummæli, sem hér standa, kalla enn á það í fyrsta lagi, að við því fáist svar frá formanni Verkamannasambands Íslands hvort hann hafi í höndum upplýsingar sem fullvissi hann um það, að sú spá, sem þarna er lögð fram, geti staðist. Í því sambandi vil ég enn kalla eftir svari hans um það, hvað fulltrúar Alþýðusambandsins reiknuðu með í umfjöllun sinni um þessi mál að atvinnutekjur verkamanna og iðnaðarmanna mundu hækka mikið frá árinu 1980 til 1981, því að það er að sjálfsögðu algerlega útilokað að ætla að mæla kaupmátt frá einu ári til annars nema menn reyni fyrst að gera sér grein fyrir því, hverjar tekjurnar verði. Það liggur fyrir hver verðbólgan verður. Það er talað um að hún verði um 40%. Nú hefur kaupgjaldið verið skert um tæp 10% á þessu ári. Þó maður þrátt fyrir það leyfi sér að reikna með því, að kaupgjaldið muni hækka eitthvað svipað eða um 40%, liggur fyrir að í öllum þessum tillögum ríkisstj., bæði tekjuskattsfrv. og sjúkratryggingargjaldinu, verður ekki um neina kaupmáttaraukningu að ræða, nema síður sé. Þetta er náttúrlega mjög þýðingarmikið og athylgisvert og óhjákvæmilegt að það fái nákvæma skoðun og meðhöndlun í deildinni. Það væri líka afskaplega æskilegt, ef hæstv. fjmrh. tæki til máls, að hann upplýsti á hvaða grunni Þjóðhagsstofnun reisti þá spá sem hér um ræðir, hvort hún geri þar ráð fyrir, eins og sums staðar í þessari spá, að verðbólgan verði um 40% á næsta ári. Ég held að nauðsynlegt sé að það komi fram.

Það getur verið að ýmsum hv. þm. sé fullnægjandi að hlutur einstæðra foreldra sé nokkuð réttur miðað við s. l. ár. Fram hjá þeirri höfuðstaðreynd verður þó ekki litið, að sú athugun, sem fram hefur farið á skattbyrði einstæðra foreldra þessi tvö ár, 1979 og 1980, leiðir í ljós að hjá einstaklingum hefur skattbyrðin vaxið mjög verulega. Auðvitað er það meginskýringin á því, hversu skattbyrðin hefur aukist frá árinu 1979 til 1980, að beinir skattar af atvinnutekjum eru hærri en áður. Á hinn bóginn eru þeir, sem verst fara út úr skattalagaframkvæmd þessarar hæstv. ríkisstj., fyrst og fremst ungt fólk sem vinnur sér inn miklar tekjur, en þeir, sem best fara út úr þessu, eru eldra fólkið, ég tala ekki um þegar eiginkonan vinnur sér ekki inn tekjur eða tekjur eiginkonu eru óverulegar. Þarna lendir skattbyrðin. Og ef ofan í það mál væri farið blandast engum hugur um að skattbyrðin hjá þessum einstaklingum er miklu þyngri en menn vilja játa, borið saman við það sem áður var, og er að sjálfsögðu óbærileg.

Ein afleiðingin af þessum kröppu skattstigum er sú, að með töluverðri vissu má segja að æ meira fé fari nú fram hjá tekjuskattinum en áður. Við þurfum ekki annað en bera saman þau heildarlaun, sem að mati Kjararannsóknarnefndar og samkv. skattframtölum falla til verkamanna, og þau yfirlýstu laun, sem iðnaðarmenn hafa að meðaltali. Ég held að allir, sem sjá þær tölur, geri sér grein fyrir því, að veruleg brögð eru að því að tekjur skili sér ekki til skatts. Rannsókn sem gerð hefur verið á þessu erlendis, þykir leiða í ljós að hinn venjulegi launþegi — það eru þeir launþegar fyrst og fremst sem vinna að framleiðsluatvinnuvegunum, hinn óbreytti verkamaður og sjómaður, hið óbreytta verslunarfólk raunar einnig — hefur ekki tækifæri til að skjóta tekjum undan skatti. Á hinn bóginn vitum við að ýmsar stéttir hafa mjög góð tök á því að drýgja tekjur sínar með eftirvinnu. Og algengt er það, að upp sé sett eða mönnum sé gefinn kostur á því annars vegar að greiða fyrir slík viðvik án þess að reikningur sé lagður fram og hins vegar svo og svo miklu meira ef beðið er um reikning. Það eru þessar miklu tekjur sem með þessum hætti fara bæði fram hjá tekjuskatti og söluskatti, sem valda því, að a: fleiri menn eru farnir að gera sér grein fyrir að tekjuskatturinn er fyrst og fremst launþegaskattur. Hann bitnar þyngst á þeim hóp launþega sem verður að telja allar tekjur sínar fram, sem hefur ekki nein fríðindi í síma- eða bílastyrk og á þess ekki kost að fá dagpeninga greidda eða neitt því um líkt. Það er þessi hópur sem beinu skattarnir koma þyngst við. Og vegna þess að Alþýðusamband Íslands gerði sér þetta ljóst varð niðurstaða þess á árinu 1973 eða þar um bil að mikið hagsmunamál væri fyrir alla launþega að fá beinu skattana lækkaða. Það er athyglisvert í því sambandi, ef við tökum árið 1974, að í hlutfalli við tekjur greiðsluárs voru beinu skattarnir 10.6% á árinu 1974 en hafa hækkað upp í 14.5% á s. Í. ári. Og eftir því frv., sem hér liggur fyrir, stendur ekki til að þar verði nein breyting á varðandi næsta ár.

Það frv., sem hér liggur fyrir, snertir ýmsa þætti skattalaga sem ástæða væri til að fjalla mjög ítarlega um. Ég hef hér fyrst og fremst vakið athygli á því, að skattbyrði beinna skatta hefur aukist mjög verulega á s. Í. 2–3 árum. Tekjuskatturinn og sjúkratryggingargjaldið segja þar síður en svo alla sögu. Ef litið væri einnig til útsvarsins, fasteignagjaldanna og eignarskattsins mundi þessi mynd verða enn svartari en ef eingöngu er litið á tekjuskattinn. Auk þess hafa óbeinir skattar hækkað mjög verulega síðan þessi ríkisstj. komst til valda. Og hún ætlar ekki að gera það endasleppt því að ég held að það liggi fyrir ein tvö eða þrjú frv. núna um það, hvernig eigi að fara í rassvasann á mönnum og reyna að ná þar þeim tekjum sem hæstv. ríkisstj. þykist ætla að gefa mönnum með því frv. sem nú er til umr.

Ég vil svo aðeins að lokum beina því til þeirrar nefndar, sem fær þetta frv. til meðferðar, að í sambandi við eignarskattinn er ekki gert ráð fyrir að námsmenn erlendis, sem eiga lögheimili þar, megi eiga neinar eignir. Það er gert ráð fyrir að nettóeign þeirra sé skattlögð til eignarskatts. Ég held að þetta sé mjög óeðlilegt ákvæði og verði að gera ráð fyrir því í sambandi við þá, eins og raunar í sambandi við aðra, að þeir megi eiga eðlilega eign án þess að eignarskattur falli á hana. Ég held, að þetta séu raunar mistök, og geri ráð fyrir því, að nefndin vilji taka til athugunar hvort ekki sé rétt að endurskoða eignarskattstigann þannig að menn njóti þar svipaðra réttinda.

Í öðru lagi vil ég svo aðeins minnast á það í sambandi við fyrningarnar, að ég hef ekki haft aðstöðu til þess að kynna mér hin nýju fyrningarákvæði þannig að ég treysti mér til þess að fjalla um þau að svo stöddu. Ég geri mér þó grein fyrir því, að undir vissum kringumstæðum geta þessi nýju fyrningarákvæði þýtt mjög hækkaða tekjuskatta hjá atvinnurekstrinum og er það raunar í samræmi við skoðun hæstv. fjmrh. á skattamálum atvinnuveganna fyrr og síðar. Þegar vinstri stjórnin var mynduð 1978 var lagður sérstakur skattur á fyrningar, sem ég hygg að sé algerlega einsdæmi og stangast gersamlega á við allar grundvallarreglur skattalaganna. Þær breytingar á fyrningarreglum, sem hér eru lagðar til, munu að sjálfsögðu koma misjafnlega við og undir vissum kringumstæðum valda stórkostlega auknum útgjöldum fyrir viss atvinnufyrirtæki.

Ég held að það sé mjög þýðingarmikið, eins og þróun peningamála hefur verið, að leitast sé við að örva menn til að leggja eigið fé fram í fyrirtæki. Og ég held að eitthvert mesta meinið í uppbyggingu íslenskra atvinnuvega sé það, að eigið fé í fyrirtækjum sé ekki nógu mikið. Það er af þessum sökum sem reynslan hefur orðið sú, að hið opinbera hefur orðið að teygja sig inn í æ fleiri greinar atvinnurekstrarins. Og raunar er það ekkert einsdæmi að hið opinbera hefur lagt fram fé til atvinnurekstrar til þess að halda honum gangandi. Frægt dæmi af því tagi er Siglósíld á Siglufirði, en eftir því sem ég veit best fékk það fyrirtæki á s. l. ári óeðlilega fyrirgreiðslu frá fjmrn. til þess að reksturinn gæti haldist gangandi. Mér hefur raunar verið sagt um fleiri fyrirtæki að um þvílíka fyrirgreiðslu sé að ræða, og skal ég ekki fara nánar inn á það hér. En ég vil mjög beina því til þeirrar nefndar, sem fær frv. til athugunar, að kanna breytingarnar á fyrningarákvæðunum mjög gaumgæfilega. Ég óttast sem sagt að þarna sé verið að fara bakdyramegin að fyrirtækjunum, enn eigi að vega í þann sama knérunn, og hefði maður þó haldið, eins ótryggt og atvinnuástandið er orðið, jafnvíða og til atvinnuleysis hefur komið og í jafnstórum stíl, að ríkisstj. mundi hika við að leggja enn til atlögu við hinn frjálsa atvinnurekstur og með þeim hætti stuðla að því að úr atvinnu dragi í landinu.